Hvað þénaði Jóna á móti í fyrra?
27.3.2007 | 22:05
Fjölmargir hafa skilað skattskýrslunni sinni og flestir rafrænt. Það er af sem áður var þegar mikill tími fór í það að safna saman greiðsluseðlum og nótum og reikna út vaxtagjöld og heildargreiðslur. Eins var stórmál ef gögnin fundust ekki þegar gera átti skattskýrsluna. Nú í dag er hægt að sækja rafræn yfirlit í heimabankann, eldri skattskýrslur á sínum stað á netinu. Ekki sakna ég heldur hlaupanna með skýrsluna til skattstjóra, og yfirleitt á síðasta degi. Nú er skýrslan fyllt út á netinu, bara eitt klikk og skýrslan er farin. Niðurstaðan mín er í stuttu máli sú að þetta sé algjör sæla, allt á sínum stað og ekkert vesen.
En árlega leggja líka skattstjórar álagningar- og skattskrár fram til birtingar lögum samkvæmt. Skattkóngar eru krýndir og man ég eftir því þegar ég var krakki á Siglufirði að oft var spenningur á þessum tíma, hver yrði nú hæstur í ár. Einu sinni á þessum tíma var hengd upp auglýsing um söfnun. Íbúar voru hvattir til að skjóta saman fé til styrktar ákveðnum mönnum í bænum, svona til að þeir ættu fyrir mjólk og salti í grautinn. Þetta var náttúrulega sett fram í kaldhæðni, af fólki sem fannst þessir menn vera fullneðarlega á skattskrárlistanum. Ég efast um að svona lagað gerist enn þann dag í dag. Ég held að fólk treysti því að skattayfirvöld sjái til þess að fólk telji fram, auk þess sem nú er meiri sjálfvirkni í kerfinu.
Eins og áður sagði ber skattstjórum að birta álagningar- og skattskrár. Þeim ber jafnframt að auglýsa vel hvar og hvenær skrárnar muni liggja frammi. Ég hef stundum velt því fyrir með að mæta á svæðið, bara til að sjá hvaða fólk það er sem hefur fyrir því að koma í þeim eina tilgangi að skoða hvað Jóna á móti eða Gulli rafvirki hafi þénað á síðasta ári. Alveg er mér sama hvað Jóna á móti þénar. Maður trúir því varla að fólk geri þetta, en mér skilst að raunin sé önnur. Að mínu mati er þetta tímaskekkja og kominn tími til að afleggja eins og lagt hefur verið til af Sigurði Kára, Birgi Ármanns, Guðlaugi Þór og fleirum á alþingi. Ég spái því að þess verði ekki langt að bíða að lögum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt. Þegar það gerist þá á ég ekki eftir að sakna þess að sjá í blöðunum fréttir um skattkónga. Ekki man ég hverjir fengu þá nafnbót í fyrra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég bara sé ekki ljósið varðandi skattskrána og að fólk geti farið og skoðað hana, sé ekki tilganginn.
Væri þá ekki allt eins hægt að hafa þetta bara á netinu, líkt og símaskrána, en þá aftur, til hvers?
Herdís Sigurjónsdóttir, 27.3.2007 kl. 22:40
Má vera að það sé kyndugt að hafa aðgang að skattskránni, en á upplýsinga öld þá mætti hún alveg vera aðgegileg á netinu í jafnlangan tím, því ekki komast allir á skattstofuna til að skoða málið en gætu séð sömu upplýsingar á netinu. Ekki megum við gleyma því heldur að nú á sama tíma er verið að koma á lögum sem bannar launaleynd og allir vilja jöfnuð, sömu laun fyrir sömu störf. Ekki síst konur, því hvet ég ykkur til að íhuga hvað þetta hefur í för með sér.
Jón Svavarsson, 28.3.2007 kl. 11:07
Heill og sæll Jón
Ég vil byrja á því að taka fram að á þessari síðu birti ég mínar persónilegu skoðanir á málunum, var nefnilega ekki viss um hvort þú varst að meina við Hjördís eða við Sjálfstæðisflokkurinn .
Ég ítreka það að ég sé ekki af hverju ætti að birta upplýsingar um heildartekjur einstaklinga, hvorki á netinu né hjá skattstjórum. Hverju heldur þú að það breyti?
Með launaleynd hjá fyrirtækjum lít ég ekki alveg eins á og tel ég að með leyndinni sé hætta á að það skapist misræmi milli launa og má vera að fólk haldi að það verði bara allir í landinu á sömu ríkislaunum, en ég tek ekki svo verða. Ég held að þetta muni breyta stöðunni innan einstaka fyrirtækja. Með þessu verði atvinnurekendur að standa alveg klárir á því fyrir hvað þeir eru að umbuna í starfi. Ekki er verið að tala um að upplýsingar um laun allra launþega eigi að liggja á netinu, heldur að þeirri leynd sem ríkir í dag verði aflétt. Í dag er það þannig að fyrirtæki velja launaleynd eða ekki og er þá tilgeint í ráðningarsamningi hvort laun séu um trúnarðarmál eður ey og er því alls ekki alltaf um launaleynd að ræða hjá fyrirtækjum.
Jón áttir þú einhverja verðlaunaljósmynd í keppninni þetta árið?
Herdís Sigurjónsdóttir, 28.3.2007 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.