Ert þú útlendingur góurinn?
3.4.2007 | 11:23
Mikið hefur verið í umræðunni hvort hleypa ætti fólki af erlendu bergi brotið inn í landið og ekki hefur síst verið rætt um viðhorf Frjálslynda flokksins á þessum málum og hefur auglýsing í Fréttablaðinu sem birt var um síðustu helgi vakið hörð viðbrögð. Segja sumir að með því hafi kaffið líklega frosið í bollum flestra gesta í kaffiboði Kaffibandalagsins svokallaða.
Hávær hefur verið umræðan um óhindrað flæði vinnuafls erlendis frá sem ekki hafi nokkurn áhuga á samfélagi okkar og enn síður að læra íslensku, sem ég tel nú heldur betur of djúpt í árina tekið og hlutirnir oft teknir úr samhengi. Við getum ekki gleymt því að það er fullt af fólki kemur hingað, af því að það ákveður sjálft að koma hingað, búa hér og vinna. Mikilvægt er að við Íslendingar áttum okkur á því að við erum hluti alþjóðasamfélaginu. Okkur þykir sjálfum sjálfsagt að fara að vinna í útlöndum og flytja hvert sem okkur sýnist og lítum á það að afla atvinnuleyfis ef þarf, meira svona sem formsatriði. En að hleypa útendingum inn í landið okkar til að bú eða vinna, ó nei, ekki aldeilis!
Er ekki eitthvað skakkt við þessa mynd?
Að mínu mati þá borgar sig ekki að setja sig á háan hest í þessum málum og loka augunum. Við snúum ekki þróuninni við, landamæri eru ekki eins skýr og áður fyrr og aðeins tekur okkur fáeina klukkutíma að ferðast til annarra heimsálfa. Það má vel vera að ég sé ofurbjartsýn og einhverjir segðu að um sé að ræða afneitun á þau neikvæðu áhrif sem innflytjendur hafa á íslenskt samfélag. Ég neita því og bendi á að ég sé bara mun fleiri jákvæða þætti og hvað fólk sem ákveður að flytja til Íslands getur auðgað okkar samfélag og hef ég bæði séð það og reynt.
En margt hefur samt breyst í rétta átt í viðhorfum okkar á liðnum áratugum. Fólk er hætt að gera ráð fyrir því að fólk sem hefur annan hörundslit en við Víkingarnir, tali ekki íslensku. Ég man eftir skondnu atviki sem ég varð vitni að, sem átti sér stað fyrir um það bil 20 árum síðan.
Þeldökkur maður kom inn í sjoppu og beið eftir afgreiðslu eins og gengur og gerist. Þegar kom að manninum þá sagði afgreiðslustúlkan og brosti ..... "What can I do for you?" ...... og þá svaraði maðurinn á þessari líka fínu íslensku....... "Ég ætla að fá pylsu með öllu og kók"...
Ég efaðist um að svona atvik ættu sér stað í dag, en fékk þá aðra nýlega sögu frá Ásdísi bloggvinkonu minni, sem ég varð að láta fylgja með.
Ein yndisleg vinkona mín, fór með kórnum sínum að syngja á jólaskemmtun hér í sýslunni. Meðal gesta á samkomunni var maður klæddur í vesti eins og hún hafði séð í Tyrklandi um sumrið svo henni datt í hug að hann væri útlendingur og svo var hann líka með tagl. Þegar hún tók svo eftir að hann tók ekki undir í Heims um ból, var hún alveg viss. Á eftir var boðið upp á veitingar og æxlaðist það þannig að hún lenti upp að hlið mannsins og spurði þá elskulega "and where are you from" hann svaraði hikandi "ég er nú bara héðan úr sveitinni " og það var hlegið dátt.
Að mínu mati eigum við að bera virðingu fyrir fólki, sama af hvaða kynstofni og kyni það er og gæti verið gagnlegt fyrir suma að byrja á að líta í eigin barm. Ég hef því miður ekki upplifað það að vera eina hvíta manneskjan á svæðinu í Afríku eða Asíu, en þeir sem það hafa reynt segja að það sé sérstök upplifun og hollt hverjum manni. Að vera allt í einu orðinn öðruvísi en allir hinir, allir glápa og vilja snerta og taka mynd, að vera útlendingur.
Það er að mínu mati til fyrirmyndar hvernig mörg fyrirtæki og stofnanir hafa staðið að fræðslu fyrir sína starfsmenn í vinnutíma og var frábært á árshátíð sem ég var á hjá einu af hjúkrunarheimilum höfuðborgarsvæðisins þegar ein af þessum aðkomnu starfsmönnum söng gullfallega, á íslensku .... já það sýnir okkur að brandarinn um vistmanninn sem bað þess eins að komast aftur heim til Íslands, er aðeins að þynnast út..
Ég held einmitt að við ættum öll að taka ábyrgð og virkja þessa nýju Íslendinga til þátttöku í samfélaginu og auðvelda þeim það að aðlagast. Við verðum að gera ráð fyrir að geta veitt þeim upplýsingar á þjónustustofnunum ríkis og sveitarfélaga og styðja vel fyrstu skrefin. Mikilvægt er að efla einnig stuðning í skólum enn frekar og bjóða upp á íslenskukennslu, sem er að mínu mati lykillinn að okkar samfélagi og því að vera enn virkari þátttakandi í íslensku samfélagi.
Gleymum því ekki að við erum að tala um fólk, nýja Íslendinga, fólk sem hefur valið að flytja til Íslands og ala hér upp sín börn sem líka eru líka Íslendingar, rétt eins og við hin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
1
Svo sammála þér, það á að taka vel á móti , taka ábyrgð og virkja þessa nýju Íslendinga til þátttöku í samfélaginu og auðvelda þeim að aðlagast. Það hefur Frjálslyndi flokkurinn verið að benda á með umræðu sinni.
Hanna Birna Jóhannsdóttir, 3.4.2007 kl. 11:22
2Já það verður vissulega að ræða þessi mál opinskátt, en það er ekki sama hvernig málin eru sett fram.
Við berum öll ríka ábyrgð.
Herdís Sigurjónsdóttir, 3.4.2007 kl. 11:28
Herdís Sigurjónsdóttir, 3.4.2007 kl. 11:47
Gaman að þú skildir taka söguna mína með, hún er svo yndisleg og alveg dagsönn, við erum enn þessi smáþjóð í hjarta okkar, en þetta er mikið að breytast, við getum ekki sett upp frasa eins og "elskum all, virðum alla" og haft svo nema gula, skáeygða, fótstóra, nefljóta... þú veist hvað ég er að fara
Ásdís Sigurðardóttir, 3.4.2007 kl. 17:44
Sæl Herdís og takk fyrir innlitið
Varðandi útlendingana hef ég mjög ákveðna skoðun. Í öllum atriðum er ég sammála þér enda beinist mín gagnrýni ekki gegn fólkinu sem slíku. Það er hjartanlega velkomið í mínum augum. Ég skil samt málflutning Frjálslyndra og þeirra punkt. Sá punktur er ekki rasismi.
Þannig vill til að ég þekki til manns á Austfjörðum sem nýlega - í allri þessari atvinnuuppbyggingu sem þar á sér stað - var sagt upp starfi sínu. Ekki bara var honum sagt upp heldur og öllum hans félögum. Afhverju? Vegna þess að í staðinn voru ráðnir menn frá útlöndum í gegnum leigu. Þessi íslenski harðduglegi maður sem vel vildi vinna sína vinnu og stóð síg ágætlega er í dag atvinnulaus og fær ekki vinnu fyrir austan á sínu sviði. Flestir félaga hans eru líka enn atvinnulausir.
Afhverju gerði fyrirtækið þetta? Vegna þess að það var hagkvæmara að ráða fólk frá útlöndum í gegnum leigu. Það er auðvitað ekki útlendingunum að kenna en ef að þessi háttur fær að þrífast - að ráða ódýrt útlent vinnuafl og íslenskt vinnuafl fer á atvinnuleysisbætur með öllu sem því fylgir þá á þetta ástand aðeins eftir að egna upp frodóma og ala á þeim. Hvers erum við bættari þá? Þú sem stjórnmálamaður ættir að kynna þér þetta.
Ég held að Íslendingar séu ekki í eðli sínu fordómafullir gagnvart útlendingum og taki þeim fagnandi en þegar fólk kemur inn í landið í gegnum leigur og er Íslendingum er bókstaflega sagt upp af því að hitt vinnuaflið er hagkvæmara, þá er það ávísun á vandræði og ekkert annað. Þarna þurfa stjórnvöld að skerast í leikinn og beita sér fyrir því að verkalýðsfélögin fái aðstoð við að halda uppi lögum og reglum og að kjarasamningar séu virtir.
Trúðu mér - þetta er hitamálið hvað útlendinga varðar. Þeir sjálfir eru velkomnir hvenær sem er!
Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 19:54
já Hjördís ég er hjartanlega sammála þér með að tryggja verður að ekki sé verið að brjóta lög og ekki síst á þeim sem hingað koma til að vinna, sem er gert með það við að borga minna fyrir vinnu þeirra sem koma en þeim sem fyrir eru. Við munum fjölmörg mál þar sem stéttarfélög hafa gengið í málið og er það jákvætt.
Árum saman hefur hingað til lands verið fengi vinnuafl erlendis frá til að sinna umönnunarstörfum og líka fólk til að vinna í fiskvinnslu og hafa atvinnurekendur sótt um atvinnuleyfi fyrir þá aðila. Nýjasta dæmið sem ég man eftir voru hjúkrunarfræðingar frá Norðurlöndum, en þá voru háværar raddir um að verið væri verið að mismuna í hina áttina, þ.e. að þeir erlendu væru á hærri launum og fríðindum sem ekki væri boðið þeim hjúkrunarfræðingum fyrir störfuðu.
Þannig að í innflytjendamálunum sem flestum öðrum þá er ekki bara ein hlið á málinu. En eins og ég sagði þá verðum við að muna að um er að ræða fólk og þar erum við líka sammála, en ég tel að fordómar séu aftur að aukast.
Herdís Sigurjónsdóttir, 4.4.2007 kl. 08:27
Ég var fyrir löngu búin að átta mig á því Hjördís . Það sem ég vildi helst benda á var að varasamt er að taka eitt málefni svona út fyrir sviga og hæpa.
sjáumst í sundinu
Herdís Sigurjónsdóttir, 4.4.2007 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.