112 - ert þú í neyð?

112

 

 

Mér datt í hug áðan þegar ég fékk prufuboðin mín frá 112, hvað tilkoma 112 hefur breytt miklu fyrir okkur Íslendinga.

Ég fékk prufuboðin ásamt hundruðum annarra viðbragðsaðila vegna neyðaráætlunar sem ég tengist og þakkar maður fyrir hvert skipti sem maður fær prufuboðin í stað neyðarútkalls. Fjölmargir viðbragðsaðilar eru aðilar að þessum gagnagrunni 112 og nýta hann til að boða sitt fólk til starfa á neyðartímun eins og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, björgunarsveitir og Rauði krossinn. Þetta kerfi breytir miklu í viðbragðsflýti og er hægt að boða heilu hópana í stað þess að þurfa að hringja handvirkt í hvern og einn.

En þetta kerfi hefur einnig breytt miklu fyrir hinn almenna borgara. Nú þarf aðeins að muna eitt númer 112 hvort sem um er að ræða bruna, lögreglumál eða veikindi og er 112 það númer sem við brýnum fyrir börnum okkar að muna. Nýlega var númerið einnig virkjað í þágu barnaverndar og geta þeir sem vilja tilkynna brot á börnum hvort sem það eru börnin sjálf eða aðrir hringt í 112 og fengið samband við barnaverndaryfirvöld á hverjum stað. Ég skrifaði einmitt blogg um barnavernd um daginn, en hefur málum fjölgað og er þessi tenging við 112 örugglega einn liður í því.

Árlega er haldinn 112 dagurinn til að minna á neyðarnúmerið og starfsemi þeirra aðila sem tengjast númerinu. Þetta eru Barnaverndarstofa með allar barnaverndarnefndirnar eins og áður sagði, Flugstoðir með flugvellina, Landhelgisgæslan, Landlæknisembættið og sjúkrahúsin, slökkviliðin, Ríkislögreglustjórinn með allt lögregluliðið í landinu og almannavarnir, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Rauði kross Íslands með allar sínar útkallssveitir.

Þessi dagur er haldinn í mörgum löndum Evrópu, en enn er 112 þó ekki notað í öllum löndum. Ég fann á heimasíðu 112 hlekk inn á síðu sem sýnir hvaða neyðarnúmer eru í hverju landi og gæti verið gott fyrir fólk að kanna það hér áður en lagt er af stað í ferðalag.

Við munum örugglega öll eftir einhverju tilviki þar leitað hefur verið eftir aðstoð í gegn um 112 og man ég eftir nýlegu dæmi. Skyndihjálparmaður Rauða kross Íslands 2006 var tilnefndur og heitir hann Egill Vagn. Hann er 8. ára drengur sem bjargaði lífi móður sinnar með snarræði þegar hún var í meðvitundarlaus ofnæmislosti. Hann sprautaði hana með adrenalínspenna sem hún var búin að sýna honum hvar væri og svo hringdi hann í 112 og óskaði eftir sjúkrabíl.

Stundum er gott að staldra við og sjá hvað okkur hefur áunnist í ýmsum málum og má með sanni segja að tilkoma 112 hafi aukið öryggi okkar Íslendinga hvað neyðarþjónustu og jafnframt aukið viðbragðsflýti viðbragðsaðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Forvarnarstarf verður seint ofmetið. Því meira sem þú kennir börnunum þínum af öryggi og að meta rétt þá stöðu sem þau geta komist í, því meiri líkur eru á að þau bregðist rétt við á ögurstund. Verð að segja þér einn brandara. Þegar ég var einstæð móðir, þá fór ég aldrei frá börnunum lengi í einu, og skildi síðan eftir símanúmer og uppl. um hvar ég var á hverjum tíma, enginn GSM þá. Nú einu sinni kíkti ég á Fjörukránna og eitthv. rúml. 12 er lesið upp í micraphoninn, "mamma Óskars er beðin að gefa sig fram við þjóna" svo ég dríf mig og þá hafði sonur minn 10 ára orðið eitthvað draugahræddur, mundi ekki eftir miðanum góða og hringdi bara á lögguna í Reykjavík, sem betur fer var ég á bíl og var fljót heim, þetta gerðist ekki aftur.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.4.2007 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband