Hvað ætlar þú að verða, þegar þú verður stór?

IMG_0889

Þetta hefur verið heilmikið í umræðunni og kom í ljós í könnun gerð var meðal 15 ára unglinga að flestir ætluðu sér að verða læknar og arkitektar. Ég átti mér svo sannarlega drauma um hin ýmsu framtíðarstörf á mínum yngri árum og dreymdi um að verða rithöfundur eða fara í hjálparstarf og bjarga heiminum.

Ég ætlaði lengi vel að verða dýralæknir, enda mikil dýrakerling og eignaðist flest dýr sem hægt var að komast yfir. Við áttum Trýnu, skoskíslenska hundinn okkar sem ég ólst upp með og fór svo í fóstur í Vík til Steindórs. Þar átti ég líka Stjörnu, kindina mína og tók ég bílpróf fyrir lambapeninginn minn. Ég átti líka hest, skjaldbökur, mús, dúfu frá Gústa Guðsmanni, sem fór líka í Vík og var með hænunum. Hún hélt á endanum að hún væri hæna og tók að verpa og fundust stundum dauðar hænur í bakkanum fyrir neðan Vík og var talið að hænurnar hafi jafnvel haldið að þær gætu flogið eins og dúfan góða. Nú ég átti líka fiska, alls konar forláta skrautfiska og gúbbí. En þeir gáfu nú upp öndina þegar eldri systkini mín héldu partý heima og hélt einn gestanna að kominn væri tími til að "hella upp á" fiskana og drapst allt nema blessaðir gúbbífiskarnir, sem þola allt.

Næst ætlaði ég að verða ljósmóðir og hugsa ég stundum ennþá til þess hvað það hefði nú verið gefandi starf. Þessi draumur lifði alveg fram yfir stúdentspróf, en þá fór ég til Ameríku og vann á togara einn vetur. Í Ameríku frétti ég að það vantaði svo óskaplega meinatækna á Íslandi og sótti ég um í Tækniskólanum, án þess að velta því meira fyrir mér. Ég fór í Tækniskólann og kláraði námið, en ætlaði mér aldrei að vinna á sjúkrahúsi. Ég fór sem fyrr í fiskana og vann á Keldum við fisksjúkdómarannsóknir í 10 ár en fékk þá formalínofnæmi og í kjölfarið ofnæmi fyrir næstum öllu og var ég óskaplega fegin að hafa ekki orðið dýralæknir þar sem ég fékk ofnæmi fyrir dýrahárum.

Fljótlega kom í ljós pólitískur áhugi og fór ég samt ekki á fullt í starfið fyrr en ég flutti í Mosfellsbæinn og hef ég nú setið í bæjarstjórn í 9 á. Ég hef mikinn áhuga á öllu er tengist sveitarstjórnarmálunum s.s. umhverfismálum, skipulagsmálum, ferðamálum, forvarnamálum, fjölskyldumálum, fræðslumálum, öldrunarmálum og öllu hinu og er þetta allt jafn skemmtilegt og ég er rétt að hitna.

Hvað um það ég fór að vinna hjá Rauða krossinum eftir að ég varð að hætta í rannsóknunum og má því segja að það hafi verið fyrsta skrefið inn í hjálparstarfsdrauminn og hef ég verið að vinna við ýmis verkefni og undanfarin ár að uppbyggingu neyðarvarna og neyðaraðstoðar hér innanlands. Ég segi það líka að við Elli minn eigum eftir að fara saman í hjálparstarf til Afríku, hann í tæknifræðinni og ég í einhverju öðru hjáparstarfi, hvað sem verður efst á baugi þegar þar að kemur. Nú er ég líka byrjuð í meistaranámi í Háskólanum í umhverfis- og auðlindafræðum, sem vissulega er framtíðin og hver veit nema ég eigi einmitt eftir að leggja hönd á plóginn við það að bjarga heiminum.

Það er gaman að ræða þessi mál við krakkana sína og hafa draumarnir verið margir og breyst í tímanna rás en ég er sannfærð um að þessi litla 3ja ára, sem er algjörlega bremsulaus og hefur svo sannarlega hefur erft bíladelluna frá mömmu sinni verður ökumaður í Formúlu 1, þá verður það sko mamma sem verður í liðinu. Rúmast það annars ekki innan hjálparstarfs ? Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Rithöfundurinn í þér fær líka útrás hér á blogginu. Alltaf eitthvað nýtt og spennandi hjá þér.  Það verður líka gaman að fá fréttir af Landsfundinum .

Vilborg Traustadóttir, 12.4.2007 kl. 20:39

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hæ skvísa. Ég ætlaði að verða flugfreyja þegar ég var lítil, en eftir að ég fóra að vinna í fiski á sumrin 14 og 15 ára , þá ákvað ég að ég ætlaði í skóla og læra, fiskurinn heillaði mig ekki, svo ég fór í Versló og hafði svo alltaf mjög skemmtilegar vinnur eftir það. Menntun borgar sig, það er ljóst. Góða skemmtun á fundinum, sakna allra ýkt mikið

Ásdís Sigurðardóttir, 12.4.2007 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband