Það er komið vor í Mosfellsbænum

IMG_8414

Ég verð að viðurkenna að mér varð ekki um sel í morgun þegar ég var í göngutúr og það fór að snjóa. En þegar ég kom heima þá hafði ég það af að fara út í garð og sá ég greinileg merki þess að það væri komið vor. Ég sá að allur gróður er kominn af stað. Rósirnar mínar sem ég keypti síðasta sumar eru allar að koma til og öll tré líka, nú er bara að bíða eftir að laukarnir farið að láta sjá sig.

Ég veit hreinlega ekki skemmtilegri tíma en vorið, þegar allt lifnar við og ég get farið að moldvarpast í garðinum mínum. Ég hef verið að fylla garðinn af blómum og trjám og hefur stefnan verið sett á það að klára garðinn í sumar. Við tókum þá ákvörðun að láta ekki hanna garðinn, heldur gera þetta sjálf svona af fingrum fram. Nú eigum nánast ekkert eftir nema að setja upp körfuboltakörfu fyrir aftan hús og helluleggja, en ég á ekki eftir að sakna þess að hafa grúsina á planinu.

IMG_8409

Ég er af miklum moldvörpuættum, þ.e. mamma og pabbi hafa fengið verðlaun fyrir stóra fallega garðinn sinn á Siglufirði og hef ég fengið marga afleggjara og blóm úr honum. Ég held mest upp á Kóngaljósið og verður spennandi að sjá hvort það lætur sjá sig í sumar. Mamma hefur svo sannarlega græna fingur. Hún var formaður garðyrkjufélagsins þegar ég var krakki og heftur gaman að blómarækt. Þau rækta líka tré og hafa gróðursett eitt lerkitré fyrir hvert barnabarn á neðstu lóðinni og á hverju sumri þá förum við og myndum þau við sitt tré. Þau hafa líka alltaf haft moltukassa og sett í það sem fellur og búið til dýrindis mold. Ég hef sjálf prófað ýmsar útgáfur af moltukössum, en ætla að setja saman trékassa eins og mamma í sumar því hitt hefur ekki verið að virka.

En það er ekki bara gróðurinn sem lifnar við. Krakkarnir eru líka að taka við sér og sér maður þau meira úti að leika með hverjum deginum sem líður. Það mun sjálfsagt verða jafn mikið fjör í götunni hjá okkur í sumar og undafarin ár þegar krakkarnir taka sig saman og leika sér í snú snú,  hlaup' í skarðið og öllum hinum leikjunum, alveg eins og á Sigló þegar ég var krakki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er alveg gríðarlegt VOR barn enda fædd að vori. Molvörpugenin eru ekki lengur í notkun sökum heilsuleysis en ég elska að horfa á tré,runna, blóm og tún klæðast skrúða sínum.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.4.2007 kl. 18:36

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já það voru líka kaflar hjá mér þar sem ég varð að sitja og horfa, en nú orðið get ég moldvarpast og gleymi mér oft á nóttunni þegar allir eru sofnaðir...ég held að ég verði A+B týpa á sumrin...ekkert fallegra en kvöldsólin  og ég tala nú ekki um í Fljótunum .....

Herdís Sigurjónsdóttir, 17.4.2007 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband