Lífshættulegur bílaleikur
24.4.2007 | 10:45
Ég bloggaði í gær um ræs á alþjóðlegri umferðaröryggisviku sem haldin er á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ég fékk athugasemd frá Birgi Þór Bragasyni, sem verið hefur ötull talsmaður bílbelta og umferðaröryggis áratugum saman, þar sem hann spyr hvað sé til ráða við slysunum. Ég ákvað því að halda áfram með málið og í dag ætla ég að fara aðeins yfir stöðu mála í dag og seinna í vikunni áætlun stjórnvalda til framtíðar.
Banaslysin í umferðinni árið 2006 voru 31 og fjölgaði þeim um 12 milli ára. Þetta er mesta hörmungaár í umferðinni frá 2000 og slösuðust einnig fleiri alvarlega í umferðinni eða 153 í fyrra en 129 árið 2005. Ég sá í skýrslu Umferðarstofu um slysin í fyrra og komust sérfræðingar í slysarannsóknum að eftirfarandi:
- Níu þeirra sem létust voru ekki með bílbeltin spennt.
- Í átta tilvikum áttu ölvaðir ökumenn hlut að máli í slysunum og í tveimur tilvikum til viðbótar létust óvarðir vegfarendur sem voru undir áhrifum áfengis.
- Ellefu létust í slysum þar sem ofsaakstur kemur við sögu.
- Átta látast þegar bílar fara útaf vegi.
Þó að ómögulegt sé fyrir okkur að slá einhverju föstu þá veltir maður því samt óneitanlega fyrir sér hvort beltin hefðu bjargað, hvort áfengisneyslan hafi ráðið úrslitum. Hefði þetta fólk lifað ef hraðinn hefði verið minni og hvað með umhverfisþættina og öryggi ökumanna á og við vegi landsins. Við vitum öll hvað vegrið hafa bjargað mörgum, hvað endurskinsstangirnar eru mikið öryggisatriði. Eins hvað miklu skiptir fyrir öryggið hvað búið er að fækka einbreiðum brúm og hvað mun muna mikið um tvöföldun á fjölförnum vegum eins og komin er áætlun um á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi.
Sett var á stofn Rannsóknanefnd umferðarslysa sem greinir orsakir umferðarslysa eftir því sem unnt m.a. til að hægt sé að draga af því lærdóm og bæta aðstæður. Viðurlög við umferðarlagabrotum hafa verið hert undanfarið og punktakerfi sett upp. Eftirlit lögreglu hefur verið aukið á vegum landsins og í þéttbýli og fagna ég átaki lögreglunnar um allt land. Það er ljóst að það er ekki lengur bara við Blönduós sem fólk býst við lögreglunni við hraðamælingar, eins og eitt sinn var. Það er hins vegar vel við hæfi að það embætti er farið að sjá um sektarmálin fyrir landið allt.
Ég hef trú á því að það átak sem hófst í gær eigi eftir að leiða til aukinnar vitundar okkar ökumanna um það sem við getum bætt og þurfum að forðast. Við vitum þetta flest allt í raun og öll viljum við fækka slysum. En stóra spurningin er "af hverju högum við okkur ekki betur í umferðinni?" Er það af því að við vitum ekki eða af því að við viljum ekki?
Eins og ég nefni hér að framan þá hefur ýmislegt verið gert í umferðaröryggismálum, en það þarf að gera enn betur og er ánægjulegt hvað tryggingafélög hafa lagst á árarnar með stjórnvöldum í þessum málum og eins fólk eins og Birgir Þór. Ég hef sjálf alltaf verið með bíladellu og horfi á Formúlu 1, en ég læt mér það nægja að fara í GOCART annað slagið og fæ fína útrás við það, en það er ekki svo með alla sem stunda lílfshættulega bílaleiki á götunum sem stundum enda illa. Persónulega tel ég að umferðarleikni ungmenna og "beint í æð" fræðsla verði að koma til í auknu mæli ef við ætlum að ná árangri hvað varðar yngsta aldurshópinn.
En hvað heldur þú?
Umferðaröryggi á heimsvísu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Herdís. Það sem þú telur upp hér er það sem gert hefur verið af hálfu ríkis. Ég er nú eiginleg að leita eftir því hvað bæjarstjórnir ætla sér að gera. Hvernig er ástandið í þínu bæjarfélagi og hvað ætlið þið að gera? Það er til dæmi um bæjarfélag í Svíþjóð sem tók þetta föstum tökum með frábærum árangri. Ég veit til þess að bæjarstjórnamenn í Reykjanesbæ fóru þangað í skoðunarferð og voru hrifnir. Það var inni í stefnu Sjálfstæðisflokksins á milli síðustu landsfunda að umferðaröryggi væri ekki engöngu á herðum ríkis heldur á öllum stjórnsýslustigum. Ef okkur á að takast að laga það ófremdarástand sem nú er verður að hefja leikinn inni á hverju heimili fyrir sig, svo er það hver gata fyrir sig, hvert hverfi, hvert bæjarfélag, hver sýsla og svo framvegis. Hvað á að gera í Mosfellsbæ í þessari viku? Og þeirri næstu og næstu mánuði ...... :)
p.s í að minstakosti fimm tilfellum ofsaakstursbanaslysa í fyrra var ölvun sennilega grunnur ofsaakstursins.
Birgir Þór Bragason, 24.4.2007 kl. 12:23
Heill og sæl Birgir Þór
Ég veit ekki til þess að sveitarfélög hafi verið með sérstakt átak tengt þessari viku, en þó má það vera án þess að ég viti af því. Ég er sammála þér með að eðliega ættu sveitarfélög líka að taka virkan þátt í þessi átaki, en áróður fer mest fram í sveitarfélögum á haustin þegar skólarnir eru að hefjast.
Í Mosfellsbænum er ágæt samvinna við lögreglu og er lögsagan stór og hér á Vesturlandsveginum verða oft alvarleg slys. Hér innanbæjar er gildi öryggisstefna sem unnið er eftir þar, sem búið er að kortleggja bæinn og hámarkshraða á götum og er unnið skv. henni að fyrirbyggjandi aðgerðum s.s. uppsetningu hraðahindrana, merkinga og þrenginga í götum, við höfum oft bætt við hraðahindranir að beiðni íbúa í götum og hefur þessum litlu svörtu og gulu fjölgað að undaförnu. Við höfum eins og flest bæjarfélög verið með sérstakan viðbúnað við skóla hvað öryggi barnanna varðar, en ekki verið að horfa mikið á málið út frá ökumönnunum sjálfum og fræðslu eða áróðri í grunnskólum.
Við sveitarstjórnarmenn fengum boð á kynningarfund Umferðarstofu næsta fimmtudag og ætla ég að mæta og vona ég svo sannarlega að átakið verði til þjappa öllum betur saman og vekja upp þarfa umræðu, hugmyndir og framkvæmd í framhaldi af því. Ég veit að þetta vakti mig.
Ég tek heilshugar undir með þér að þetta hefst heima hjá okkur og verðum við foreldrar og forráðamenn ekki síst að að vera góðar fyrirmyndir ... "ungur nemur, gamall temur".
Herdís Sigurjónsdóttir, 25.4.2007 kl. 00:41
Heil og sæl.
Mig grunaði þetta. Alþjóðleg umferðaröryggisvika nær ekki niður í stjórnsýslunni. Samgönguráðherra veit af henni og stofnanir undir því ráðuneyti. Fallegar ræður ráðherra um allan heim og smá athygli á umferðarráð í löndum heims í eina viku.
Mér finnst merkilegt að sveitarstjórnir skulu boðaðar á fund umferðarráðs í lok þessarar viku. Ég hefði nú kosið að umferðarráð hefði leitað eftir stuðningi ykkar áður en vikan hófst og framlagi sveitarstjórna um land allt í umferðaröryggisvikunni.
Fyrsta skref sveitarstjórna ætti að vera að skipa umferðarráð í sveitarfélaginu. Í því ráði ættu að vera áhugamenn um umferðaröryggi. Ég er þess fullviss að finna má þrjá klára og viljuga íbúa í hverju sveitarfélagi til þess að taka að sér það verkefni. Það er ákveðinn galli að flestir virðast telja það einu leiðina, að umferðaröryggi komi frá einum stað, frá toppnum í stjórnkerfinu.
Umferðaröryggi á ekki að vera það eitt að draga úr hraða, setja upp hraðahindranir. Það verður að vinna að því að fólk komist hratt en örugglega ferða sinna. Aðskilnaður gangandi og hjólandi frá bifreiðaumferð er mikilvæg og ætti að vera stefna hvers sveitarfélags. Áróður um að íbúar í sveitarfélaginu aki ekki eftir einn gæti skilað árangri. Það eru fjölmargt sem þetta stjórnsýslustig getur gert, nýtt sér nálægð við persónurnar. Það eina sem þarf er trú ykkar á að það sé hægt að laga ástandið.
Birgir Þór Bragason, 25.4.2007 kl. 06:11
Ekki vil ég draga úr mikilvægi þessa átaks og ekki veit ég hvernig það var skipulagt, en það vakti mig a.m.k. og eflaust miklu fleiri og því get ég ekki tekið undir að það snúist bara um fallegar ræður.
Það hefur heilmikið verið gert í þessum efnum á undanförnum árum til batnaðar og ýmislegt enn ógert. Það er samt svo að lögregla og þjóðvegir eru á hendi ríkisins, en náin samvinna milli ríkis sveitarfélaga er lykillinn eins og þú nefnir það er ljóst að þar má gera enn betur í þessum efnum og breyta áherslum. Enn vantar nokkuð á að ná til unga fólksins okkar eins og ég talaði um í upphafi og kannski er það einmitt hér í nærsamfélaginu í sveitarfélögunum sem þarf að vinna betur. En ítreka að mögulega eru einhver sveitarfélög að vinna í átakinu, án þess að ég viti af því.
Skipulagsmál sveitarfélaga eru eru mikilvæg í þessu sambandi og er það skipulags- og byggginarnefnd sem fer með umferðaröryggismálin. Eins eigum við fulltrúa í samráðnefnd lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er víðtækur vilji til að auka öryggi íbúanna og ætti þessi áhersla ekki að vera minni á ábyrgð einstaklingsins þar inni. Mín skoðun er sú að það eigi að byrja í heimilinu eins og þú talar um og því sé ég að hægt væri að vera með nærátak í hverju sveitarfélagi um ábyrgð einstaklingsins og foreldra, bara eins og með útivistartímarátakið sem við erum með árlega.
Ég fagna opinni umræðu og þeim áföngum sem náðst hafa í baráttunni við slysin, en enn er langt í land eins og slysatölur síðasta árs sýna. Ég er sjálfsagt að gleyma einhverju af því sem gert hefur verið hér í Mosfellsbænum, en það verður örugglega meira unnið í þessum málum í framtíðinni, það er ljóst.
Herdís Sigurjónsdóttir, 25.4.2007 kl. 09:08
Eitt allra besta öryggistækið í bifreiðum er öryggisbelti. Það að ala börnin okkar upp í því að nota beltin, kenna þeim að það er skilda og fá þau til að spenna þau, er á okkar ábyrgð. Því velti ég því fyrir mér hvað gera sveitarfélögin í því? Eru belti í skólarútum? Eru belti í skólarútum og öðrum rútum sem flytja börnin á milli staða í Mosfellsbæ. Er börnunum gert að spenna þau?
Birgir Þór Bragason, 26.4.2007 kl. 06:21
Ekki veit ég hvort þú Herdís hefur lesið síðasta innlegg mitt. Nafnið á þessari bloggfærslu er -Lífshættulegur bílaleikur- og myndin sem henni fylgir er af barni að leik. Ég get ekki hætt að hugsa um hvort það er óvart tilvísun í einmitt það sem kemur fram í síðustu athugasemd minni. Getur verið að það er lífshættulegur bílaleikur í gangi þegar kemur að fluttningi barna til og frá skólum? Mig grunar að þannig sé raunveruleikinn í mjög mörgum sveitarfélögum. Hverjir bera ábyrgðina þar?
Birgir Þór Bragason, 7.5.2007 kl. 12:49
Heill og sæll Birgir Þór, Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki svarað um daginn, en ég ætlaði mér (og ætla enn) að skrifa bloggfærslu um fundinn góða sem ég nefndi um daginn. Þar kom margt áhugavert fram og voru nýju lögin kynnt og eimnitt mikil áhersla lögð á mikilvægi bílbelta.
Það er vissulega rétt hjá þér með skólaaksturinn að flest sveitarfélög og þar á meðal Mosfellsbær nota skólabíla sem uppfylla strætókröfur, þ.e. ekki er gerð krafa um bílbelti fyrir hvert barn í bílunum. Hér í Mosfellsbæ hafa ýmsar leiðir verið farnar í skólaakstri á liðnum árum. Börnin hafa farið með strætó, sendibílum, einkabílum og svo rútum eins og nú er viðhaft í þau fáu skipti sem börnin þurfa að fara milli hverfa. Ég veit ekki hvort þú býrð í Mosfellsbænum og þekkir þar að leiðandi til, en ef ekki þá var mjög mikill skólaakstur milli hverfa á meðan ekki var íþróttahús og sundlaug við Lágafellsskóla sem er á vestursvæðinu. Það að sleppa við skólaaksturinn var ein af þeim ástæðum sem varð til þess að farið var út í framkvæmdina og hefur það sýnt sig svo um munar að sú ákvörðun var hárrétt og mjög mikill léttir hjá börnunum að sleppa við aksturinn í íþróttir oft í viku. Ég er algjörlega sammála þér með að öryggisbeltið er eitt allra besta öryggistækið í bifreiðum og er það mikilvægt að ala börnin okkar upp í því að nota þau sem og bílstóla og púða. Ég fór einmitt í sveitaferð með yngstu dóttur minni og leikskólanum og fylgdist ég með því hvort börnin settu á sig beltið sem flestir gerðu og svo restin í upphafi ferðar þegar allir voru minntir á það sérstaklega. En alltaf þegar farið er í ferðalög með börnin í leik- og grunnskólum eru leigðar rútur með bílbeltum. En þér til upplýsingar þá var lagt til í fræðslunefnd sl. haust að endurnýja samning við verktakann sem sinnir skólaakstrinum út þetta skólaár, en jafnframt að endurskoða hann einmitt vegna þessa öryggisþátta í bílunum og vorum við síðast að ræða þetta mál í síðasta fundi. Ég vona svo sannarlega að haldir áfram að veita mér og öllum hinum gott aðhald í þessum málum Birgir Þór, ekki veitir af svo mikið er víst.
Herdís Sigurjónsdóttir, 7.5.2007 kl. 22:50
Sæl Herdís. Ég er ekki íbúi í Mosfellsbæ en þekki til fólks sem þar býr. Sjálfur bý ég erlendis. Sveitarfélögin ættu að taka þetta mál föstum tökum. Það er hluti af uppeldi að kenna börnunum að spenna beltin og það er í raun stórskrítið að almenningur skuli ekki setja pressu á sveitarsjórnarfólk um belti í öll farartæki sem flytja börnin. Þar eru skólarútur númer eitt en númer tvö til tíu er strætó. Hvaða vit er í því að börn sem taka strætó skuli ekki fá tækifæri til að spenna beltið? Barnið veit að það er skylda, og skilur ekki hvers vegna ekki í strætó. Stóri strætóinn (flugvélin) er með belti og ef þú neitar að spenna það þá færðu ekki að fara með. Þó er það þannig að því minni sem hraðinn er því meira gagn gerir beltið. Allur hraði yfir 6 km/kls er hættulegur og allur hraði yfir 35 km/kls er lífshættulegur. Ég skora á þig að beit þér í því að koma beltum í öll þau farartæki sem flytja börn, líka strætó.
ps. ég vildi að þaða þyrfti ekki að vera með aðhald í þessu máli, það er þrautleiðinlegt að vera alltaf nöldrandi. :)
Birgir Þór Bragason, 8.5.2007 kl. 06:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.