Vinstri stjórn og Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra?

32

Nú eru aðeins rétt rúmur sólarhringur uns kjörstaðir verða opnaðir og spennan í hámarki. Það er raunhæfur möguleiki á því að eftir helgina verði komin á vinstri stjórn í landinu miðað við niðurstöður skoðanakannana undanfarinna daga og yfirlýsingar flokkanna. Steingrímur J. hjá Vinstri grænum er meira að segja búin að gefa eftir forsætisráðherraembættið yfir til Ingibjargar Sólrúnar, sem hann var nú ekki alveg á í Kryddsíldinni á gamlársdag. Við gætum því séð hér stjórn með aðild Samfylkingar og Vinstri grænna og svo annað hvort Frjálslynda flokknum eða Framsókn.

Þá verða burðarásarnir í nýrri vinstristjórn flokkar sem hafa sett sig upp á móti öllum stærstu framfaramálum í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár. Ef þessir flokkar hefðu verið við stjórn þá hefðu ekki orðið breytingar í ríkisrekstri, skattalækkanir, árangur í efnahagsstjórnun, hagvöxtur og kaupmáttur, uppbygging í menntakerfinu, EES- samningurinn og opnun markaða fyrir okkur og ýmis önnur framfaramál í landinu gengið eftir. Ég leyfi mér að efast um að nokkur breyting yrði á hugarfari þrátt fyrir að þau kæmust í ríkisstjórn núna. Ég nefndi í bloggi mínu í fyrradag atvinnuleysið og það vonleysi sem ríkti hér í tíð síðustu vinstri stjórnar og get ég bara ekki hugsað mér það ástand aftur.

Fram hefur komið í könnunum að mikill meirihluti þjóðarinnar vill fá ríkisstjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins og undir forystu Geirs H. Haarde. Þar endurspeglast það traust sem flokkurinn og verk hans undanfarin ár nýtur og til þess að svo geti orðið áfram, þarf flokkurinn að hljóta góða kosningu á laugardaginn.

Nú gildir ekkert að breyta til að breyta og kjósa því ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það þýðir ekkert að treysta því að allir hinir sjái um að kjósa X-D. Fólk getur ekki treyst því að aðeins sé verið að veita mótvægi með því að kjósa aðra flokka.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að möguleiki á vinstri stjórn á Íslandi er ekki aðeins hugrenningar bloggara úr Mosfellsbænum, heldur raunverulegur möguleiki eftir kosningar.

Látum það ekki gerast, kjósum áframhaldandi stöðugleika, kjósum Sjálfstæðisflokkinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Glæsilegt!  Nú hellum við uppá könnuna! Kaffibandalagið!

Auðun Gíslason, 10.5.2007 kl. 21:33

2 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Sæl aftur. Ég er að velta þessari upptalningu þinni á hvað vinstri stjórn hefði ekki náð að gera á síðustu árum, hefðu þeir verið við stjórnvölin. þú nefnir þar....

Skattalækkanir: Nú hafa næstum allir sérfræðingar Íslands í skattamálum komið fram í fjölmiðlum eða annars staðar til að hrekja þær fullyrðingar ykkar að skattar á einstaklinga hafa lækkað. Ef þú ert aðeins að tala um skatta á fyrirtæki er það alveg hárrétt að þeir skattar hafa lækkað, og ef þú ert að tala um skatta hjá þeim ríkustu í íslensku þjóðfélagi, þá er það einnig satt. En skattbyrði hefur aukist gríðarlega á þá sem minnstar hafa tekjurnar í íslensku samfélagi.

Árangur í efnahagsstjórnun: Ríkisstjórn íslenska lýðveldisins hefur fengið svo gott sem átján gul spjöld á yfirstandandi kjörtímabili. Stýrivextir hér eru með þeim hæstu sem um getur í Evrópu, 14.25 punktar. Verðbólga hér hefur verið agalega stöðug á kjörtímabilinu eða ávallt langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem mætti túlka sem lögbrot ef í það er farið. 

Hagvöxtur og kaupmáttur: Þetta eru einmitt þau orð sem þið sláið fram, og það er alveg hárrétt hjá ykkur að hagvöxtur og kaupmáttaraukning hefur átt sér stað í íslensku samfélagi, líkt og næstum öllum vestrænum ríkjum heims síðastliðin áratug. En það sem stjórnarandstaðan hefur margsinnis bent á, er sú staðreynd, að kaupmáttaraukningin hér á landi er svo gífurlega misskipt. Það er það vandamál sem við verðum að tækla í næstu ríkisstjórn. Ísland er eina vestræna ríkið í heiminum þar sem skattar eru ekki að þjóna megin tilgangi sínum, sem er jöfnunartæki. 

Uppbygging í menntakerfinu: Hér á ég voðalega fátt um svör. Ekki vegna þess að þetta sé svona afskaplega satt og rétt hjá þér, heldur af þeirri einföldu ástæðu að Samfylkingin hefur barist ötullega fyrir menntun frá stofnun hennar. Hafa lagt fram aragrúa frumvarpa til að auka fjármagn til menntastofnana og nýsköpunar í menntamálum þjóðarinnar, fyrir daufum eyrum ríkisstjórnar. Ég er ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert vel, ekki taka því þannig. En við getum gert mun betur. Háskólinn á Akureyri hefur búið við fjársvelti í mörg ár, og það er ekki fyrr en stutt er í kosningar sem eitthvað er viðhafst í þeim málum. 

EES - samningurinn: Nú rekur mig í rogastans. Mér finnst hálf kjánalegt að eigna Sjálfstæðisflokknum þennan gifturíka samning fyrir land og lýð. Ég þarf eiginlega ekki að fjölyrða um það mál. Ef skoðaður er aðdragandi að EES samningnum þá kemstu að sömu niðurstöðu og ég. 

Svo eru misfarir ríkisstjórnarinnar orðnar nokkuð margar.

Stuðningurinn við Íraksstríðið, Falun Gong hneykslið, Samgöngumál í ólestri, fátæk börn, biðlistar, raforkugjafir, stýrivextir og verðbólga og margt margt fleira sem er til vansa fyrir okkur Íslendinga

kv.

Sveinn Arnarsson, 10.5.2007 kl. 21:54

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Er kominn einhver ótti og örvænting í ykkar herbúðir? Þú mátt ekki gleyma að ég er búin að lofa rós og rauðvíni ef munur á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki verður einungis um 5%. Það er ekkert að óttast nema ....

                               Með kærri kveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.5.2007 kl. 02:27

4 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Auðun

Þú gæti alveg hellt upp á könnuna, en ég vona svo sannarlega að ekkert verði af kaffiboðinu eftir kosningar. og annað að verði af kaffiboðinu eru litlar líkur á að það muni standa heild kjörtímabil, það segir sagan okkur.

Sæll Sveinn

Ef þú hefur ekki sjálfur tekið eftir auknum kaupmætti, lækkun tekjuskatts og hækkun persónuafsláttar, afnámi eignarskatts og lækkun virðisaukaskatts á matvæli þá verð ég að bjóða þig velkominn heim aftur eftir veru þína í útlöndum síðastliðinn áratug eða svo. Það er svo vissulega rétt að skattalækkanir á fyrirtæki hafa gefið aukið svigrún til launahækkana starfsmanna, eða er það líka bara af því bara. 

Varðandi menntamálin þá er ég nú svo oft búin að skrifa um það að ég ætla ekki að skrifa heila grein, en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn heldur betur staðið sig vel og þarf ekki annað en að opna augun og skoða umhverfið til að sjá það og tölur sýna að aldrei hefur meira verið lagt í þann málaflokk. Háskólar hafa verið stofnaðir á tímabilinu og rannsóknir aldrei verið öflugri. 

Þú skalt ekki heldur láta þér detta í hug að allir Sjálfstæðismenn hafi verið með Íraksyfirlýsingunni og öllum gjörðum stjórnarflokkanna á liðnum kjörtímabilum. Ég hvet þig líka til að skoða spár um verðbólgu og stýrivexti sem sýna að við erum á niðurleið í þeim efnum en er ljóst að ef hér kemst á vinstri stjórn gæti sú spá hæglega breyst til verri vegar, því miður fyrir þjóðina. Þá sjáum við líka hækkun skatta, óráðsíu í ríkisrekstri svo mikið er víst.

En þú talar um samgöngumál í ólestri...hefur þú ekki séð áætlanir um tvöföldun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og framkvæmdir við Reykjanesbraut sem eru hættulegustu vegir okkar lands ef litið er til slysaskrár. Einbreiðum brúm hefur fækkað til muna og ýmsar samgöngubætur hafa verið gerðar á liðnum árum, eins og allir sem ferðast hafa um vegi landsins vita...sem sé ég er algjörlega á því að þú hafir búið í útlöndum á liðnum árum og vil bara bjóða þig aftur hjartanlega velkominn heim.

Heill og sæll Gunnlaugur, já Gunnlaugur nettur hrollur við tilhugsunina um vinstri stjórn. En varðandi hitt þá legg ég til að við höfum það 18%, hvítt og kannski Blue nun ... ég er með ofnæmi fyrir rauðvíni

Herdís Sigurjónsdóttir, 11.5.2007 kl. 09:03

5 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Hér eru staðreyndir um skattamál, en skattalækkanir hafa verið með þeim allra mestu sem um getur. Nú síðast er það Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem fer fram með slíkar yfirlýsingar á vefsíðu sinni.

Það er gott að hafa eftirfarandi staðreyndir í huga:

- Tekjuskattur einstaklinga hefur verið lækkaður úr 33,15% árið 1995 í 22,75% í ár, sem er lækkun um 10,4 prósentustig.

- Eignarskattur einstaklinga, sem nam 1,45% af hreinni eign 1995, hefur nú verið felldur niður. Þetta kemur sér ekki hvað síst vel fyrir ellilífeyrisþega.

- Sérstakur tekjuskattur, oft ranglega nefndur hátekjuskattur en var í reynd skattur á millitekjur, hefur verið felldur niður, en hann var 5% árið 1995.

- Persónuafsláttur hjóna hefur nú verið gerður að fullu millifæranlegur í stað þess að vera 80% millifæranlegur 1995.

- Veruleg hækkun skattleysismarka, úr rúmum 58 þúsund krónum árið 1995 í 90 þúsund krónur í ár.

- Skattfrjálst lífeyrisiðgjald hefur farið úr 1,5% 1995 í 8% í dag.

- Barnabætur hafa einnig verið hækkaðar verulega á undanförnum árum. Ótekjutengdar barnabætur námu rétt rúmum 30 þúsund krónum árið 1995 en eru 56 þúsund krónur í ár. Skerðingarmörk barnabóta hafa hækkað um 96% frá árinu 1995 og skerðingarhlutfall hefur verið lækkað. Einnig verða í ár teknar upp greiðslur barnabóta til foreldra 16 og 17 ára barna.

- Lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 14% í 7%.

- Niðurfelling vörugjalda af matvælum.

- 40% lækkun tolla af innfluttum kjötvörum.

- Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu lækkaður úr 24,5% í 7%.

- Tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%

Herdís Sigurjónsdóttir, 11.5.2007 kl. 22:14

6 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Herdís mín

Vinstri stjórn er raunhæfur möguleiki. Ég mun leggja mitt af mörkum til að svo verði á morgun.  Við Vestfirðingar getum ekki beðið lengur ! 

Baráttukveðjur,

Bryndís Friðgeirsdóttir

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 11.5.2007 kl. 22:30

7 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Látum það ekki gerast, kjósum áframhaldandi stöðugleika, kjósum Sjálfstæðisflokkinn.  X-D annað er óráðshjal. 

Vilborg Traustadóttir, 11.5.2007 kl. 23:08

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Stjórn Kaffibandalagsins 2010 ef hún kemst til valda verður hún svona.

Ingibjörg Sólrún, félagsmálaráðherra, hefur lýst yfir þungum áhyggjum yfir gríðarlegri aukningu gjaldþrota íslenskra heimila, sem var óhjákvæmilegur fylgifiskur hins mikla atvinnuleysis í kjölfar brotthvarfs stóru íslensku fyrirtækjanna.  Fyrir 3 árum síðan var rétt um 2% atvinnuleysi, en tölur fyrir desembermánuð sýna að nú er atvinnuleysi orðið 9.2%, fyrst og fremst vegna brotthvarfs stóru fyrirtækjanna, og gríðarlega erfiðs rekstrarumhverfis þeirra fyrirtækja sem eftir voru.  Eftir að skattar voru hækkaðir á fyrirtækin hefur hagnaður þeirra þurrkast út, og löggjöf sem sett var 2009 um jafna skiptingu í störf eftir kynjum hefur leitt til mikilla rekstrarörðugleika í kjölfar stjórnvaldssekta sem lagðar hafa verið á fyrirtæki.   Ingibjörg sagði að ef við gengjum í ESB myndi allt þetta lagast, en forsætisráðherrann hefur lagst gegn því, enda Steingrímur J. á móti slíkum þreifingum.Ríkisbankinn sem VG stofnaði virðist ekki standa sig sem skildi, niðurgreiðsla á vöxtum er að sliga hann, og fólk fer með sparifé sitt erlendis því vaxtastigið á sparnað er ekki í takt við neitt, afskriftir lána eru svakalegar, og við hin fáum reikninginn í gegnum skattprósentuna. Reyndar hafa launin lækkað mikið, sérstaklega hjá ríkinu, en líka í einkageiranum, en fólk segir svo sem ekki mikið því þeir sem hafa vinnu eru þakklátir fyrir það eitt.  Skoðanakannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn er með um 60% fylgi og Framsókn með 25%, en hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur samt sagt að það taki líklegast um 10-15 ár að koma okkur á sama stað efnahagslega og við vorum árið 2007, sem þýðir að við höfum upplifað mjög dýra 20 ára tilraun í kommúnisma.Svona verður framtíðin með VG og Samfylkinguna við stjórn, forðumst glapræðið og setjum Xið eða  X-D OG X-BKv, Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 12.5.2007 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband