Sátt
22.5.2007 | 23:24
Þá er biðin á enda og ljóst hverjir sitja í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Ég verð að segja að ég er mjög sátt við þetta val á ráðherrum og hrókeringu verkefna milli ráðuneyta. Ég átti aldrei von á því að það yrðu fleiri konur í ríkisstjórninni en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún verður áfram menntamálaráðherra eins og ég var að vona og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, sem kom mér skemmtilega á óvart, en hann vann flottan kosningasigur í Suðurkjördæminu. Nýr í ráðherraembætti er Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra og er ánægjulegt að Sjálfstæðismenn hafa nú fengið það ráðuneyti í sinn hlut eftir allt of langan tíma og er ég viss um að hann á eftir að standa sig vel sem heilbrigðisráðherra. Björn Bjarnason verður áfram dómsmálaráðherra og veit ég að það verða ekki fáir sem gleðjast með mér yfir því. Einar K. Guðfinnsson verður ráðherra nýs ráðuneytis landbúnaðar og sjávarútvegs sem verða sameinuð enda löngu tímabær breyting og var mikið rætt um slíka breytingu í kosningabaráttunni. Sturla Böðvarsson verður forseti Alþingis og Arnbjörg Sveinsdóttir mun áfram gegna embætti þingflokksformanns.
En þá að ráðherrum Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar verður utanríkisráðherra og ekkert sem kom á óvart þar, en Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður mun stýra innra starfi flokksins eins og Ingibjörg orðaði það í viðtali í kvöld. Kristján Lúðvík Möller, Siglfirðingur verður samgönguráðherra og var verið að grínast með það í kvöld að nú yrðu Héðinsfjarðargöngin tvöfölduð, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson verður viðskiptaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir kvenskörungur og kona sem ég ber mikla virðingu fyrir verður félagsmálaráðherra og má því svo sannarlega segja að hennar tími sé nú loksins kominn.
Nú er bara að bíða eftir stjórnarsáttmálanum. Hann verður án efa velferðarmiðaður, enda þau mál á oddinum í kosningabaráttu beggja flokka og hæpið að um verði að ræða neina árekstra þar. En spennandi verður að vita hvernig tekið verður á Evrópumálum, sem og virkjunum og fleiri málum sem ljóst er að flokkarnir verða að semja um. En þetta kemur allt í ljós á morgun og lítið annað að gera en að bíða.
Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2007 kl. 09:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.