Tóm hamingja

525_stefania%20um%20rikisstjorn

Ég hlustaði á þau Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, kynna stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar í dag.

Ég verð að segja að ég er mjög sátt við það sem ég heyrði þar og fékk staðfestingu á því sem ég nefndi á bloggi mínu í gær með velferðarstjórnina. Ég er ekki hissa á því vegna áherslna beggja flokka fyrir kosningar og því enginn ágreiningur þar. Ég var líka mjög ánægð með að halda á áfram að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki og jafnframt taka á stimpilgjöldunum og afnema þau á kjörtímabilinu, taka á tekjutengingum og óbeinum sköttum og aukin aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur sem hafa lágar tekjur. Guðlaugur Þór fær verðug verkefni ný rekstrarform, og kostnaðargreiningu á heilbrigðisþjónunni og þónokkrar jákvæðar breytingar þar sýnist mér. Evrópumálin voru afgreidd snyrtilega og verður haldið áfram að leggja áherslu á EES og því að fylgjast með þróun mála í álfunni. Ekkert að því í sjálfu sér. Ég er líka ánægð með innflytjendamálin sem og þá miklu áherslu sem lögð er á umhverfismál, rannsóknir og menntamál og þótti mér afar vænt um þegar talað var um áframhaldandi, en ekki eins og ónefndir flokkar töluðu í kosningabaráttunni eins og verið væri að hefja þessa stórsókn núna, enda höfum við verið að vinna að öllum þessum málaflokkum af krafti á liðnum árum.

Þegar á heildina er litið er ég mjög ánægð með þessa stefnuyfirlýsingu og lít bjartsýn fram á veginn og sé ekki annað en framundan séu bjartir tímar fyrir okkur Íslendinga.

,,Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar - Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar endurspeglar sögulegt samstarf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Þessir flokkar hafa einsett sér að mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins. Ríkisstjórnin mun áfram kappkosta að virkja kraftinn í menningarlífi landsmanna því að menning er í senn vaxandi atvinnugrein, aflvaki nýsköpunar og mikilvægur hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að jafnrétti í reynd verði leiðarljós í allri stefnumótun hennar og stefnir að því að skapa jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð kyni, búsetu, uppruna og félagslegri stöðu. Árangur og hagsæld undanfarinna ára hefur skapað tækifæri til enn frekari framfara og Ísland á að vera áfram í fararbroddi þeirra þjóða sem búa við best lífskjör. Málefni yngstu og elstu kynslóðanna eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hún mun leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti. Hún mun vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála, um náttúruvernd og auðlindanýtingu og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.

Traust og ábyrg efnahagsstjórn

Kraftmikið efnahagslíf er forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í menntamálum, samgöngumálum og í heilbrigðis- og félagsmálum. Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs. Stórframkvæmdir, skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verða tímasettar í ljósi þessara markmiða. Tryggja verður að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á. Mikilvægt er að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja tryggi vöxt þeirra og laði að starfsemi erlendis frá. Settur verði á laggirnar samráðsvettvangur milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála.

Kraftmikið atvinnulíf

Íslenskt atvinnulíf mun einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. Samstarf atvinnulífsins og íslensku háskólanna er lykill að bættum árangri og nýsköpun í atvinnurekstri. Ríkisstjórnin mun styðja menningu og listir sem mikilvægan hluta af aðdráttarafli landsins og vaxandi uppsprettu útflutningstekna. Íslensk fyrirtæki eru í harðnandi samkeppni við erlend fyrirtæki, bæði heima og heiman, og á næstu árum mun hugvit og tækni- og verkþekking ráða úrslitum um velgengni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin vill skapa kjörskilyrði fyrir áframhaldandi vöxt, útflutning og útrás íslenskra fyrirtækja, m.a. með aðgerðum til að efla hátækniiðnað og starfsumhverfi sprotafyrirtækja, svo sem með eflingu Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja. Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Efla skal samkeppniseftirlit í því skyni. Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi öflugs landbúnaðar og hágæðaframleiðslu á matvælum í landinu. Unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda. Tryggja skal stöðugleika í sjávarútvegi. Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. 

Hvetjandi skattaumhverfi

Stefnt skal að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar. Ríkisstjórnin mun vinna að endurskoðun á skattkerfi og almannatryggingum til að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks. Fyrirtæki skulu búa við stöðugt og örvandi skattaumhverfi. Á kjörtímabilinu verður leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki. Þá skal stefnt að því að umhverfisþættir fái aukið vægi í skattastefnunni. Kerfi óbeinna skatta, s.s. vörugjalda og virðisaukaskatts, verði endurskoðað. Stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa.

Markviss ríkisrekstur

Unnið verði að einföldun og nútímavæðingu stjórnsýslunnar, aukinni notkun á upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu, auka skilvirkni og einfalda samskipti milli almennings og stjórnvalda. Verkaskipting ráðuneyta verði endurskipulögð og ráðherrum, alþingismönnum og stjórnsýslu ríkisins settar siðareglur. Eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ýtrasta aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera þannig að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir sem best. Ráðdeild og varfærni í fjármálum hins opinbera er höfuðnauðsyn og áríðandi að hlutur opinberrar starfsemi af þjóðarframleiðslunni vaxi ekki umfram það sem nú er. Gera skal rammafjárlög til fjögurra ára í senn. Þar verði sett fram meginstefna í hagstjórn, viðmið um tekjuöflun og útgjöld ríkissjóðs. Jafnframt verði þjónustuverkefnum og framkvæmdum ríkisins forgangsraðað. Tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.

Barnvænt samfélag

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Barnabætur verði hækkaðar til þeirra sem hafa lágar tekjur og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum. Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu. Jafnframt verði aukinn stuðningur við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði. Hugað verði að foreldraráðgjöf og -fræðslu. Forvarnastarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og stuðningur við fjölskyldur ungmenna, sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu, aukinn. Fæðingarorlofið verði lengt í áföngum.

Bættur hagur aldraðra og öryrkja

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Unnið verði að einföldun almannatryggingarkerfisins. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Hraðað verði uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og einbýlum fjölgað. Sólarhringsþjónusta verði efld og einstaklingsmiðuð þjónusta aukin. Dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67-70 ára. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin sem og skerðing tryggingarbóta vegna tekna maka. Skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Jafnframt skal stefnt að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði. Almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%. Fylgt verði eftir tillögum örorkumatsnefndar um stóraukna starfsendurhæfingu og nýtt matskerfi varðandi örorku og starfsgetu. Jafnframt verði komið til móts við þann hóp sem er með varanlega skerta starfsgetu. Stefnt verði að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Jafnrétti í reynd

Gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Ríkisstjórnin vill koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að leita leiða til að eyða þessum launamun á almennum vinnumarkaði. Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Stefnt skal að því að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins. Tryggður verði réttur launafólks til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra.

Menntakerfi í fremstu röð

Ríkisstjórnin setur sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum. Framfarir og hagvöxtur komandi ára verða knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og menntakerfi þjóðarinnar. Áhersla verður lögð á gæði, sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði þannig að allir geti fundið nám við sitt hæfi. Fjölgað verður námsleiðum og áhersla aukin á valfrelsi nemenda og einstaklingsmiðað nám, meðal annars til að draga úr brottfalli nemenda á framhaldsskólaaldri. Efla skal list- og verkmenntun á öllum skólastigum og auka náms- og starfsráðgjöf. Lögð verður áhersla á að skapa ný tækifæri til náms fyrir þá sem hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi og efla fullorðinsfræðslu innan skólakerfis og á vinnumarkaði. Stefnt skal að auknu faglegu og rekstrarlegu sjálfstæði skóla og minni miðstýringu. Unnið verði að lengingu og aukinni fjölbreytni í kennaranámi. Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð með það að markmiði að bæta kjör námsmanna enn frekar.

Örugg heilbrigðisþjónusta og vímuefnavarnir

Stefna ríkisstjórnarinnar er að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Leggja á stóraukna áherslu á forvarnir á öllum sviðum og stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Leita á leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera. Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag. Nauðsynlegt er að bregðast hart við aukinni vímuefnavá með öflugri fræðslu og forvörnum, stuðningi við fjölskyldur í vanda, fjölbreyttum meðferðarúrræðum og hertri löggæslu. Ríkisstjórnin leggur sérstaklega áherslu á að meðferðarúrræði séu nægjanleg fyrir þá sem ánetjast vímuefnum og tryggt sé að þjónusta á þessu sviði sé samþætt og markviss og gagnist öllum hópum sem á þurfa að halda. Fylgja þarf eftir áætlunum um uppbyggingu fangelsa.

Landið verði eitt búsetu- og atvinnusvæði

Stefna skal að því að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu óháð búsetu og fái notið sambærilegra lífskjara. Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í rammafjárlögum fyrir næstu fjögur ár verði lögð mikil áhersla á eflingu innviða samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta. Úrbætur í samgöngum eru lykilatriði til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og lækka flutningskostnað. Styttri vegalengdir milli byggðakjarna og öruggari vegir skapa möguleika á stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæðum. Ráðist verði í stórátak í samgöngumálum og aukin áhersla lögð á umferðaröryggi og almenningssamgöngur. Ríkisstjórnin mun beita sér sérstaklega fyrir úrbótum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Tryggja ber að landsmenn hafi allir færi til að nýta sér þá byltingu sem orðin er í gagnaflutningum. Ríkisstjórnin vill tryggja öryggi í gagnaflutningum til og frá landinu með nýjum sæstreng og sömuleiðis að flutningshraði gagna aukist í takt við þá þróun sem á sér stað. Góð gagnasamskipti auka mjög aðgengi að menntun og þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu, og fela auk þess í sér tækifæri til nýsköpunar.

Í sátt við umhverfið

Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar. Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir. Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.

Umbætur í innflytjendamálum

Mikilvægt er að stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt taki saman höndum við að berjast gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum, hvort sem þeir fordómar byggjast á uppruna eða öðrum þáttum. Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. Tryggt verði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilega réttinda og íslenskt launafólk og að allar ráðningar erlends verkafólks séu í samræmi við gildandi kjarasamninga. Komið verði í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Átak verði gert í íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Frumkvæði í alþjóðamálum

Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Íslendingar eiga að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Að öðru leyti byggist stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum á þeim gildum sem legið hafa til grundvallar samvinnu vestrænna lýðræðisríkja, norrænu samstarfi og viðleitni þjóða heims til að auka frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Ríkisstjórnin mun fylgja markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og koma á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Opinská umræða um Evrópumál

Ríki Evrópusambandsins eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.

Endurskoðun stjórnarskrár

Haldið verður áfram endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Áhersla verður lögð á að leiða til lykta ágreining um þjóðareign á náttúruauðlindum í ljósi niðurstöðu sérnefndar um stjórnarskrármál um það atriði á síðasta þingi."  

 


mbl.is „Vonast til að ný stjórn leiði erfið deilumál til lykta"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Stórgóður sáttmáli, en það er þó eitt í honum sem ég á erfitt með að skilja og það er þessi klausa um landbúnaðarmál.

Ekki getur þessi ríkisstjórn sem nú er að taka við völdum breytt miklu í landbúnaðarkerfinu nema brjóta þá samninga sem nú eru í gildi við bændur og trúi ég þessari verðandi ríkisstjórn ekki til þess, hún hlýtur að virða þá.

Ágúst Dalkvist, 24.5.2007 kl. 11:44

2 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ég var ekki að segja að í þessum orðum í stjórnarsáttmálanum fælist eitthvað slæmt fyrir bændur og neytendur heldur einungis að benda á að samningar við bændur ná fram yfir þetta kjörtímabil þannig að lítið svigrúm gefst til breytinga og þar af leiðandi skrýtið að taka þetta fram í þessum sáttmála

Ágúst Dalkvist, 24.5.2007 kl. 12:56

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Þau Geir og Ingibjörg voru alveg óóógeðslega sammála  , það var allt að því grunsamlegt!!!  (Fyrir þá sem aðhyllast samsæriskenningar).  Sáttasjórnin á Þingvöllum! Það er málið og ég er mjög sátt.

Vilborg Traustadóttir, 24.5.2007 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband