Blóðgjöf er lífgjöf

Ég fékk tölvupóst áðan sem sagði frá því að blóðbankinn hefði tæmst af Rhesus mínus blóðflögum. Bréfið var ósk um að fólk færi að gefa blóð því lítill 2ja ára drengur væri mikið veikur af krabbameini og þyrfti slíkar blóðflögur á hverjum degi.

Mig langaði að nota tækifærið og hvetja alla til þess að gefa blóð, hvort sem þeir eru í + eða - blóðflokki, því það er fullt af fólki sem þarf á blóðgjöf að halda, bæði þessi litli drengur og fullt af öðru fólki því slysin gera heldur ekki boð á undan sér.

Hér eru upplýsingar um blóðgjöf af heimasíðu Blóðbankans:

Til að mæta þörfum samfélagsins, þarf Blóðbankinn um 16.000 blóðgjafa á ári eða 70 blóðgjafa á dag. Haft er samband við 8-10.000 virka blóðgjafa á ári hverju og gefa þeir u. þ. b. 15.000 blóðgjafir.


Traust og örugg blóðgjöf byggir á heilbrigðum blóðgjöfum. Gott heilsufar er því forsenda blóðgjafar og mikilvægt að kynna sér reglur sem gilda varðandi blóðgjafir . Ef þú ert á aldrinum 18 - 60 ára, yfir 50 kg., heilsuhraust/ur og lyfjalaus getur þú gerst blóðgjafi. Virkir blóðgjafar geta gefið blóð til 65 ára aldurs.


Í hvert skipti sem þú kemur til að gefa blóð þarftu að framvísa persónuskilríkjum með mynd. Þú þarft að fylla út heilsufarsskýrslu sem þú undirskrifar og samþykkir þar með að allar upplýsingarnar sem þú gefur upp séu réttar. Jafnframt samþykkir þú að gefa blóð.



Hjúkrunarfræðingur fer yfir heilsufarsskýrsluna með þér og mælir blóðþrýsting og púls. Heilsufarsskýrslan er mikilvægur liður í öryggisneti Blóðbankans og á að tryggja öryggi bæði blóðgjafa og blóðþega. Starfsfólk Blóðbankans er bundið þagnarskyldu svo farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þér er velkomið að spyrja starfsfólk Blóðbankans spurninga hvenær sem er í blóðgjafarferlinu.

Þú gefur ekki blóð við fyrstu komu í Blóðbankann, þá er einungis tekið blóðsýni.

Karlmenn mega gefa blóð á 3 mánaða fresti, konur á 4 mánaða fresti.


Blóðsöfnunardeildin fer reglulega í blóðsöfnunarferðir til að auðvelda blóðgjöfum að gefa blóð. Til að fá Blóðbankabílinn á þinn vinnustað eða í þitt sveitfélag sendið tölvupóst á blood@lsh.is og tiltakið nafn vinnustaðarins og fjölda starfsmanna.



 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vildi óska að ég hefði getað gefið blóð en ég ein af þyggjendum. Börnin mín hafa bætt mér það upp en eru ekki á landinu núna. VOna að vel gangi. kveðja frá Akureyri

Ásdís Sigurðardóttir, 12.6.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband