Rituhöfðinn rokkar
18.8.2007 | 12:27
Hið árlega Rituhöfðagrill var haldið í gær og sáum við tónleikana í beinni inni í tjaldinu. Stóra hvíta tjaldið var sett upp á planinu hjá Ástu og Gilla eins og undanfarin ár og þau fyllt af borðum og stólum. Búið var að koma fyrir græjunum, skjávarpa og tjaldi og allt virkaði þetta og því ekki eftir neinu að bíða. Fljótlega fóru að streyma að grillarar með fínu grillsamstæðurnar sínar og höfðu einhver ný bæst við frá síðasta götugrilli.
Skemmtinefndin óskaði eftir því að allir mættu með frumleg höfuðföt og sokka og síðast en ekki síst góða skapið. Við á númer fjögur gleymdum okkur eitthvað og því voru góð ráð dýr, því ekki ætluðum við að félagsskítar. Ég ætlaði að vera rosalega frumleg og setti upp sjálfstæðishúfuna fínu. Ég áttaði mig nú samt fljótt á því að þetta var ekki alveg að gera sig og því náði ég mér í hárkollu og skellti pottloki yfir. Elli fann doppóttan regnhatt frá Ásdísi og Sædís Erla setti á sig bleiku Íslandshúfuna. Sturla varð náttúrulega að vera flottur og fór hann með hatt og setti á sig Gay pride blómakrans. Ég fann líka röndótta tásusokka til að fara í og Elli einhverja gamla skrautlega sokka af Ásdísi, sem by the way var að æfa í leikhúsinu og kom seinna um kvöldið.
Veðrið lék við okkur eins og fyrri ár og nutum við þess í botn að borða góðan mat með skemmtilegum nágrönnum. Veitt voru verðlaun fyrir frumlegasta höfuðfatið og sokka. Niðurstaða fékkst með lýðræðislegri kosningu. Kosið var í einni kjördeild, sem þær Dagga og Ásta stýrðu og gerðu þær okkur alveg ljóst að þær tækju glaðar á móti mútum.
Raggi vann höfuðfataverðlaunin 2007 og hlaut að launum vinning, út að borða fyrir tvo á Bæjarins bestu. Eins og sést á myndunum fengu flestir stóru strákarnir að prófa vinningshattinn seinna um kvöldið. Ég hlaut glæsileg aukaverðlaun penna sem á stóð "Rituhöfðinn rokkar 2007" fyrir höfuðfatið frumlega, en ég mútaði líka dómurunum. Við Raggi nýttum svo tækifærið við verðlaunaafhendinguna og sýndum viðstöddum að við vorum í eins tásusokkum.
Frumlegustu sokkarnir voru á fótum þeirra Siggu, en Pétur granni var með öfluga kosningabaráttu fyrir Siggu sína, Örnu og Döggu, en Dagga var nú frumlegust þar sem hún málaði á sig sokkana góðu.
Mikið var sungið í Sing Star, sem upphaflega átti að vera fyrir börnin, en var kannski meira fyrir stóru börnin. Mest var sungið 80´s, dúettar og keppni og allir skemmtu sér vel. Nýja kaffivélin hennar Ástu var tilkeyrð og er allt í lagið að mæla með kaffinu og líka þessu 80 eitthvað sem var með því. Mikið var hoppað og skoppað og var þriggja trampólínmetið frá því í fyrra toppað og einu bætt við. Lagt var á ráðin með skreytingar næstu viku og komu upp hugmyndir um að fá gula kostunaraðila eins og Bónus til að skreyta GULT, því eðlilega ætlar Rituhöfðinn að vinna skreytingarverðlaunin 2007.
Börnin í Rituhöfða 4, Ásdís Magnea, Sædís Erla og Sturla Sær
Veðrið var yndislegt og ágúst kvöldið fagurt. Við rituhöfðafjölskyldan á fjögur gengum heim sæl og ánægð með vel heppnað götugrill og hlökkum til þess næsta að ári.
Hér eru nokkrar myndir frá kvöldinu.
Aldrei fleiri á Laugardalsvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hefur aldeilis verið vellukkað kvöld hjá ykkur í Rituhöfðanum. Til lukku með það, alltaf gaman þegar fjölskylduveislur eru fyrir alla fjölskylduna, veðrið er alveg að toppa sig þessa dagana. Vona að öll helgin líðu áfram í gleði og sæld. Er nafna mín búin að jafna sig eftir þjófnaðinn.?? kær kveðja til Sædísar minnar.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.8.2007 kl. 13:36
Æi hún er nú öll að koma til og farin að sjá björtu hliðarnar. Í morgun sagði hún að síminn hefði nú verið svolítið gamall . Hún sá meira eftir smápeningum sem hún var að skiptast á við erlenda skáta og hurfu með öllu hinu.
Bestu kveðjur til ykkar á Selfoss.
Herdís Sigurjónsdóttir, 18.8.2007 kl. 14:29
RITUHÖFÐINN ROKKAR
Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld eins og alltaf þegar Rituhöfðabúar hittast.
Arna (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 09:49
Já Arna þetta var alveg frábært. Svo er næsta verkefni að toppa alla "í túninu heima"... GULIR og glaðir Rituhöfðarokkarar ..
Herdís Sigurjónsdóttir, 19.8.2007 kl. 10:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.