Frábær helgi, bæjarhátíð, frumsýning og ferming
28.8.2007 | 09:18
Helgin var heldur betur viðburðarrík hjá Rituhöfðafjölskyldunni.
Við héldum áfram að skreyta og skemmta okkur í túninu heima. Á föstudagskvöldinu var Salóme þorkelsdóttir gerð að heiðursborgara Mosfellsbæjar og er hún vel að því komin. Eftir hátíðlega athöfn í íþróttasalnum fórum við í brekkusöng í rigningunni. Myndir frá föstudeginum.
Á laugardeginum fór ég fyrst til Rikku og heimsótti svo Kristínu systur á spítalann. Við vorum ekki mjög vinsælar á stofunni, því við þurftum svo mikið að spjalla og sprella. Við áttuðum okkur á hávaðanum þegar sú við hliðina á Stóru svipti frá tjaldinu og horfði kvössum augunum á mig. Þá ákváðum við að kominn væri tími á nammi í sjoppunni. Við fórum svo og skoðuðum sýningar í íþróttahúsinu og var stærðfræðisýningin frábær. Við fórum í vöfflur hjá Rauða kross deildinni og kakó hjá skátunum og svo var haldið heim og partítjaldið reist í Rituhöfðanum. Um kvöldið fóru svo allir á ball með Gildrunni í Hlégarði eftir gott partí í Rituhöfðatjaldinu. Myndir frá laugardeginum.
Ásdís Magnea að lokinni frumsýningu.
Á sunnudeginum var frumsýning hjá frumburðinum. Ofviðrið eftir Shakespeare var verkið og leikurinn stórkostlegur. Það var magnað að sjá þessa krakka sem svo flókinn texta að þau þurfti þýðingar í byrjun. Þau romsuðu þessu út úr sér líkt og ekkert væri með viðeigandi tilburðum og tjáningu. Ásdís Magnea var frábær í sínu hlutverki og var gaman þegar hún las handritið í byrjun. Hún vildi þetta hlutverk og ekkert annað, en var að fara á Jamboree til Englands og fór þangað með krosslagða fingur og tær. Það dugði því hún fékk hlutverkið og þurfti því að taka skorpu þegar hún kom heim, því hin voru búin að æfa á meðan hún og hinir skátarnir sem tóku þátt voru á skátamótinu.
Guðrún og Magnús með strákana. Óla, Rínar og Sindra Mar
Eftir frumsýninguna fórum við síðan í fermingarveislu til frænda okkar. Það var Sindri Mar sonur Guðrúnar og Magnúsar sem ég leigði með eitt sinn sem var fermdur. Við náðum að hitta alla ættingjana sem ég hafði ekki séð um nokkurn tíma. Við misstum af ræðunni hjá Sindra sem ákvað að heiðra minningu afa sinna sem báðir eru látnir og fékk alla veislugesti til að setja upp litla borða í barminn, ótrúlega þroskaður og flottur strákur þar á ferð. Ég hitti Margréti sem sagði mér að hún væri að flytja í Mosfellsbæinn og sá ég í fyrsta sinn litla frænda minn hann Stefán Arnar son Höllu og er hann algjört gull og hún Halla alveg að njóta sín í botn með litla kútinn. Guðrún og Magnús voru að fara í veiði eftir veisluna og síðan pakk, pakk, pakk og aftur heim til Englands.
Sem sé dásamleg helgi með góðum vinum og fjölskyldu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:36 | Facebook
Athugasemdir
Þið hafið aldeilis átt góða daga, það er ekkert eins gefandi og góð fjölskylda og vinir. Ég var reyndar farin að sakna bloggs frá þér og svo einkennilega vildi til að ég sá ekki myndina af þér í bloggröðinni minni fyrr en núna áðan þegar þú varst búin að blogga. Kær kveðja í Mosó úr sólinni hér á Selfossi.
Ásdís Sigurðardóttir, 28.8.2007 kl. 10:21
Gaman að helgin var svona skemmtileg hjá ykkur. Kærleikskveðjur úr "borginni".
Vilborg Traustadóttir, 28.8.2007 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.