Virkjunarframkvæmdir í sveitinni hennar ömmu Herdísar
22.11.2007 | 11:11
Ég er að skrifa ritgerð í siðfræði náttúrunnar, um mannhverf viðhorf til náttúrunnar. Ég er að bera saman sterk og veik mannhverf viðhorf og ætla að vinna út frá framkvæmdunum vegna Skeiðsfossvirkjunar.
Þetta er stórmerkilegt mál og hef ég lengi ætlað að skoða þetta betur. Ég hafði oft heyrt minnst á hvað virkjunin breytti miklu fyrir Siglfirðinga m.t.t. rafmagnsins sem hún gaf af sér. En ég tel það samt nokkuð öruggt að ekki hafi allir verið sælir með framkvæmdin. Amma tregaði fossinn sem hvarf og eins hafa margir þurft að flytja búferlum, yfirgefa jörðina sína og horfa svo á landið hverfa undir lónið. Lón sem er fallegt vatn sem ég hef alltaf þekkt sem Stífluvatn og í mínum huga hafði bara verið þarna alltaf.
Ég mun ljúka við þessa tilteknu ritgerð í byrjun desember, en þá mun ég halda áfram að skoða málið og demba mér í heimildaleit og hef ég þegar fengið margar góðar ábendingar frá héraðsskjalasafninu á Króknum og líka frá pabba og Örlygi Kristfinns. Ég held að það gæti verið gaman að skrifa svona alvöru sögu og flétta líf ömmu inn í hana, en ég hef verið að fylla inn í lífspúsl hennar á liðnum árum.
Hér er hluti af ritgerðinni sem nefnist Fossinn og ég held að endi meira sem smásaga.
Eigum við ekki bara að hætta að tína í dag, erum við ekki fyrir löngu komnar með nóg af berjum í jólasultuna? Svakalega er ég annars mýbitin. Mamma manstu þegar við fórum í berjamó og ég sprengdi mýfluguna í eyranu á mér og ég hélt væri að deyja af því að það blæddi svo mikið úr eyranu?
Mikið er þetta nú annars fallegt vatn og ótrúlegt að það hafi verið búið til þegar Skeiðfossvirkjun var gerð. Mér finnst eins og það hafi bara alltaf verið hérna. Ég man þegar pabbi sagði mér sögurnar af því þegar hann var að vinna við að byggja virkjunina, við frekar frumstæðar vinnuaðferðir, miðað við hvernig hlutirnir eru unnir í dag. Allt handmokað, mölin, sandurinn og sementið og höfðu þá aldrei sést svona stórir vörubílar í sveitinni. Mörg handtökin þar við að koma efninu fyrst á og svo af pöllunum. Pabbi mundi líka svo vel eftir stóra norska sementsskipinu Ringen sem lá inni á legunni í Haganesvíkinni. Trillunni sem var fengin frá Siglufirði og hafði það hlutverk að draga uppskipunarbátana milli Ringen og bryggjunnar, alveg eins og gömlu nótarbátarnir sem notaðir voru á síldinni um árið. Ég er viss um að ömmu Herdísi hefur brugðið við að líta út um gluggann í Vík og þetta stóra skipið sem var svo miklu stærra en Súðin sem kom alltaf við í Haganesvíkinni í áætlunarsiglingum sínum kringum landið. Hún hefur kannski orðið jafn undrandi og ég þegar ég sá Norrænu í fyrsta skipti við bryggju í Seyðisfjarðarhöfn, stærðin bara passaði eitthvað svo illa inn í umhverfið. Á þessum tíma sem sementsskipið kom var seinni heimstyrjöldin byrjuð og hélt pabbi að sementsskipið hefði verið skotið niður á leiðinni til baka, ég ætti nú kannski að skoða hvor það er tilfellið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2007 kl. 15:54 | Facebook
Athugasemdir
Þú verður nú bara að halda áfram með þessa sögu. Ryfjar upp fyrir mér mjög margt sem pabbi minn hefur sagt mér frá þegar hann var að vinna við að byggja Laxárvirkjun, ótal margt sem maður veit sem hvergi hefur verið skrifað um, kannski við séum akkurat kynslóðin sem á að koma sögum foreldra okkar á blað, sögunum sem ekki hafa verið skrifaðar. Gangi þér vel kæra vina.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.11.2007 kl. 12:48
Kæri geðblendill Herdís. Sagan er falleg eins og þú, veit samt ekki með virkjunina, ég hef ekki séð hana. Geta þær verið fallegar?
Eru ekki allir við hesta heilsu hjá þér mín kæra?
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Kvosinni.
Karl Tómasson, 22.11.2007 kl. 20:26
Já hálfnafna okkur ber að skrásetja og upplýsa komandi kynslóðir.
Kæri geðblendill... virkjunin sjálf er kannski ekki falleg, en vatnið er guðdómlegt, þetta er nú gamla sveitin mín .
Já takk Kalli minn, hér á bæ eru allir að verða hressir.
Herdís Sigurjónsdóttir, 24.11.2007 kl. 15:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.