Ánægð með að vera Íslendingur

Ég ætlaði að setjast niður og fara að skrifa ritgerð í siðfræði, en var svo stútfull af skólamálum eftir frábært skólaþing hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að ég bara varð að byrja á að skrifa það frá mér.

Mikið erum við annars heppin að vera Íslendingar. Sameinuðu þjóðirnar birtu lífskjaralista sinn á fimmtudaginn... Ísland númer eitt og höfum við reyndar verið í 5 efstu sætunum frá því að farið var að taka þetta saman. En það var ekki lífskjaralistinn sem ég ætlaði að skrifa um, heldur skólaþróun.

Ég var á skólaþingi í dag eins og áður sagði og var farið vel yfir nýju grunn og leikskólafrumvörpin og leist mér val á það sem ég las. Ég tel að með þeim sé verið að auka frelsi skólastjóra enn frekar og þá faglegu, sem er jákvætt að mínu mati. Mér leist líka vel á skólaráðin við skólana, ráðgefandi ráð sem skólastjórinn stýrir með foreldrum, kennurum, öðrum starfsmönnum og aðila úr nærsamfélaginu. Ég held að með því fáist aukin samvinna og hafa einhverjir skólar þegar tekið þetta upp með góðum árangri. Skólanefndir fá breytt hlutverk og er ég að skoða hverju þarf að breyta í samþykktum sveitarfélaganna ef frumvarpið verður að lögum. Það er líka talað um að hægt sé að vera með fleiri en einn skólastjóra eins og við gerum í báðum grunnskólunum í Mosfellsbæ og eins að hægt sé að vera með einn stjórnanda yfir bæði leik- og grunnskóla.

Við Björn Þráinn forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs kynntum nýja "barnið" okkar hér í Mosfellsbænum, Krikaskólann skóla fyrir börn frá eins árs til níu ára. Það var mikill áhugi á verkefninu og þekktu eins margir til þess sem segir mér það að hann hefur verið í skólaumræðunni.  Það var heldur ekki slakt þegar Þorgerður Katrín menntamálaráðherra nefndi skólann í máli sínu þegar hún var að tala um jákvæða skólaþróun í landinu.

Dómnefnd mun ljúka störfum í næstu viku og kemur þá í ljóst hvaða hópur verður fyrir valinu af þeim fjórum sem héldu áfram með okkur í samningskaupaferlinu í sumar. En í raun gætu allar tillögurnar fjórar sómt sér vel sem skóli í Mosfellsbæ, svo vandaðar og flottar voru þær, en ein mun verða fyrir valinu á mánudaginn.

Svo þegar ég hef fengið senda mynd ætla ég að skrifa um Sorpu og borðann sem ég og hinir stjórn Sorpu vorum að klippa á í Framtíðinni, nýja endurvinnsluendanum áðan.

Jæja þá get ég snúið mér að siðfræðiritgerðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Akkúrat í kvöld vildi ég vera í þínum sporum, ekki mínum, en  svona er lífið. Fíkillinn minn fer allavegana í meðferð á þriðjudaginn og ef hann endist má hann vera í 3.mán hjá Götusmiðjunni, ég get ekkert gert nema beðið og vonað.  Takk fyrir góðar kveðjur vina mín.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.11.2007 kl. 22:23

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Æi, knús til þín elskan. kvöldbænin mín verður aðeins lengri í kvöld.

Herdís Sigurjónsdóttir, 1.12.2007 kl. 00:44

3 Smámynd: Jón Svavarsson

Hamingju óskir herdís mín, með framfarir og bjartsýni að leiðarljósi, þannig eiga sveitarstjórnarmenn að vera, en ekki með niður rif og bagslagang.

Kær kveðja úr Kópavoginum, 

Jón Svavarsson, 5.12.2007 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband