Sjóræningjanám á Akureyri
2.2.2008 | 12:59
Það verður ekki af henni Þorgerði Katrínu skafið að hún er frábær stjórnmálamaður. Hún fór vel yfir málefni liðinna daga og vikna og var fundurinn í Valhöll góður að mínu mati.
Þegar hún hafði rætt ríkisstjórnarsamstarf, borgina og húsafriðunarmál kom hún að menntamálunum. Hún fór vel yfir þær breytingar sem ný frumvörp sem eru til umfjöllunar nú fela í sér. Ég er persónulega ánægð með að hafa fengið tækifæri til að líta yfir þessi mál heildstætt sem þessi endurskoðun gefur möguleika á. Að gera leikskólastiginu jafnhátt undir höfði og hin stigin, en eins og Þorgerður fór yfir þá líta önnur lönd til okkar í þeim málum. Við vorum við fyrst til að gera leikskólastigið að fyrsta skólastiginu og erum við með frábæra leikskóla á Íslandi og hefur mikil þróun átt sér stað frá því að Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra tók þetta skref.
Ég er líka ánægð með að nýju lögin sem ég hef kynnt mér vel gera kennurum tækifæri til að flæða milli skólastiga. Það skiptir okkur Mosfellinga töluverðu máli þar sem við ætlum erum að byggja Krikaskóla, skóla sem verður fyrir börn frá 1 árs til 9 ára og mun þessi breyting því auðvelda stjórnendum að reka slíkan skóla. Það skiptir líka máli og búið er að opna fyrir það að leikskólakennarar geti rekið skóla eins og Krikaskólann okkar, þ.e. að stjórnandinn þurfi ekki endilega að vera bæði með leikskóla og grunnskólamenntun. Í nýju lögunum er líka búið að opna fyrir það að aðstoðarskólastjórinn þurfi ekki að vera kennaramenntaður og gefur það m.a. tækifæri til að ráða inn sérfræðinga á sviði mannauðsstjórnunar eða rekstrarmála, enda felst í lögunum verulega aukið sjálfstæði skóla frá því sem er í dag og því mikilvægara en fyrr að hafa innanbúðar víðtækan bakgrunn þeirra sem koma að skólastarfinu. Þetta gefur einnig möguleika á aukinni sérhæfingu skólanna og eigum við örugglega eftir að sjá breytingar í áherslum með auknu sjálfstæði til þróunar skólastarfs.
Á fundinum áðan var ágætis umræða um iðnmenntun. Þorgerður fór yfir það að í dag væru um 90 námsbrautir. Hún sagði jafnframt að það væri verið að undirbúa það að hægt væri að skipta náminu í styttri námsbrautir. Að gefa krökkum tækifæri á því að taka námið í stigum, sem gerir námið þá ekki eins óyfirstíganlegt og geti þeir sem kjósa þá tekið allt í einu og lokið meistaranámi, en aðrir tekið þetta í áföngum og unnið milli námslota. Þetta tel ég að verði til batnaðar og verði til þess að fleiri ljúki námi en fyrr og haldið okkur áfram í fremstu röð hvað iðnmenntun varðar.
Kristileg gildi voru rædd og fór Þorgerður vel yfir það að ekki væri verið að slaka á, en við gætum einfaldlega ekki haft þetta lengur svona í lögum, það væri ekki hægt að hafa slíkt ákvæði inni sem hygli einum trúarbrögðum umfram önnur. Þessu hefði líka verið breytt í lögum í Noregi, því að mati mannréttindadómstólsins mætti þetta ekki. En við Íslendingar yrðum kristin sem fyrr. Í skólum væri verið að kenna trúarbragðafræði, en ekki stunda trúboð.
Ég er algjörlega sammála Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra og varaformanni Sjálfsæðisflokksins að það eru mikil tækifæri fólgin í aukinni menntun og að við Íslendingar eigum að vera stolt af því að vera í fremstu röð þekkingarsamfélaga í heiminum.
Börnin okkar er framtíðin og var dásamleg sagan sem Þorgerður af litla Akureyringnum sem var spurður að því hvað leikskólakennarar ættu að gera. "Nú þeir eiga að syngja". Síðan var hann spurður að því hvað hann ætlaði að vera þegar hann yrði stór og hann svaraði um hæl... "Sjóræningi". Svo var hann spurður að því hvort hann vildi frekar var barn eða fullorðinn og þá sagði sá stutti.. "nú fullorðinn" og af hverju, var hann spurður..... "nú sjóræningjar eru fullorðnir". Svo er bara að vita hvort draumurinn verði að veruleika og boðið verði upp á sjóræningjabraut við Verkmenntaskólann á Akureyri í framtíðinni.
Fundað í Valhöll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill mín kæra og gaman að heyra frá þér. Mér finnst alltaf gaman að hlusta á Þorgerði Katrínu, hún er svoddan hörku kelling og allt svo drífandi í kringum hana. Hafðu það gott mín kærar og gangi þér vel í náminu.
Ásdís Sigurðardóttir, 2.2.2008 kl. 23:45
Það er spurning hvort kvótakerfið er ekki nútíma sjóræningi? Sumir halda því nú fram.
Sammála þér um Þorgerði Katrínu....svo á hún líka svo fljallmyndarlegan mann....hef löngum verið "skotin í" Kristjáni Arasyni og man hvað það var gaman að horfa á hann spila með landsliðinu í handboltanum....;-)
Vilborg Traustadóttir, 3.2.2008 kl. 01:21
Sælar stelpur já hún Þorgerður Katrín er frábær.
Já spurning hvort þetta með sjóræningjabrautina krefst ekki nánari rannsóknar því trúlega er ég þá nú þegar á þeirri braut.... auðlindafræði. Er einmitt í áfanga núna sem heitir stjórnun náttúruauðlinda .
Herdís Sigurjónsdóttir, 3.2.2008 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.