Dagur Listaskólans í Mosfellsbæ haldinn 1. mars
29.2.2008 | 15:56
Á morgun laugardaginn 1. mars verður dagur Listaskólans haldinn í Mosfellsbænum. Í bæjarleikhúsinu verður ævintýri H.C. Andersen, "Nýju fötin keisarans" flutt af Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, Tónlistardeildinni og Leikfélagi Mosfellssveitar. Nemendur úr Myndlistarskóla Mosfellsbæjar sjá um leikmyndina. Leikstjórinn er Birgir Sigurðsson.
Listaskóli Mosfellsbæjar var stofnaður 1. febrúar 2006 og er hann rekinn og styrktur af sveitarfélaginu og fer fræðslunefnd með málefni hans í umboði bæjarstjórnar. Listaskólinn er merkileg stofnun sem samanstendur af: Tónlistardeild, skólahljómsveit, Myndlistarskóla Mosfellsbæjar og Leikfélagi Mosfellssveitar. Allar undirstofnanir Listaskólans nema tónlistardeildin eru reknar sem sjálfstæðar einingar og gerðir hafa verið samstarfssamningar á milli Listaskólans og þeirra.
Starfsemi Listaskólans hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og má segja að vel hafi gengið að vinna að markmiðum með stofnun hans sem voru að samþætta starfsemi þessara stofnana í bæjarfélaginu og að tryggja tengsl milli þeirra. Mikil áhersla er lögð á að fléttuð saman starfsemi Listaskólans við grunn- og leikskóla og er mikil starfsemi úti í skólunum. Það er gaman að heyra sögur af tónlistartímum í skólunum og er mikil ánægja með þessa viðbót við skólastarfið.
Það verður gaman að mæta á sýninguna á morgun. Alls verða þrjár sýningar í Bæjarleikhúsinu kl. 14.00, 15.30 og 17.00 og eru allir velkomnir í Mosfellsbæinn. Aðgangur er ókeypis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.