Samspil manns og náttúru
4.4.2008 | 08:46
Það er óhætt að segja að viðhorf fólks til umhverfismála hafi breyst hratt um allan heim á liðnum áratugum. Fólk hefur nú bæði meiri áhuga á umhverfismálunum og lætur sig þau varða og sýnir ábyrgð. Eins hefur aðkoma almennings og frjálsra félagasamtaka að skipulagsmálum breyst með auknum lagalegum rétti til að hafa bein áhrif á framkvæmdir yfirvalda og er sú þróun afskaplega jákvæð. Það er jákvætt að fólk láti sér annt um náttúruna og krefjist þess að gengið sé um sameiginlegar auðlindir af virðingu og að fólk sýni sjálft gott fordæmi í þeim efnum. Að mínu mati er samt enn allt of mikið rætt um yfirvöld og almenning sem andstæða póla. Yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein. Ég held líka að oft misskilji fólk samt tilganginn með athugasemdum, eða nýti sér sinn rétt meira í pólitískum tilgangi og vegna einkahagsmuna, en vegna beinnar umhyggju fyrir umhverfinu og er slíkt ekki trúverðugt.
Viðhorf fólks til umhverfismála og náttúruverndar er og verður mismunandi. Mikilvægt er að þeir sem hafa vald til ákvarðanatöku nái að sætta sjónarmið og komast að sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta. Á Íslandi ríkja veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar og tilheyri ég þeim hópi. Þar sem velferð mannsins og hamingju er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku, en jafnframt að slæm umgengni við náttúruna, jafnvel þótt hún skaði engan mann, sé eins og hver annar slóðaskapur eða niðurrifsháttur - náttúran sé merkilegt fyrirbæri og það að skemma hana að óþörfu eða eingöngu til að svala skammtímalöngunum örfárra manna sé engan veginn réttlætanlegt.
Undarlegt er að sjá jafn misvísandi skilaboð um náttúruvernd og fram komu í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins á 95. fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar í febrúar sl. þar sem nefndin var að fjalla um tengiveginn frá Skeiðholti að Leirvogstungu.
"Ljóst er að stækkun Mosfellsbæjar kemur til með að hafa áhrif á náttúru og viðkvæm svæði í sveitarfélaginu og þess vegna ber að fara með meiri nærgætni og hafa umhverfisjónarmið að leiðarljósi fyrir allar framtíðar vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ........
......Framkvæmd þessi þrengir verulega að íþróttastarfssemi hestamanna og e.t.v stækkun á hesthúsahverfinu. Ágætis byggingarsvæði er tekið undir veg og útilokar alla framtíðar uppbyggingu á þessu svæði."
Hvað er verið að segja með þessari bókun? Ekki má gera veg fyrir íbúa nýs hverfis í bæjarfélaginu og tengja hverfið við miðbæ Mosfellsbæjar og tengja saman skólahverfi, en það er hins vegar allt í lagi að byggja upp fleiri hesthús á nákvæmlega sama landsvæði?
Hvernig sem á þessi mál er litið að hafa verður í huga að lög og leikreglur gilda um samspil manns og náttúru. Með lögum um umhverfismat, umhverfismat áætlana, náttúruvernd og fleiri lögum er búið að setja ramma og leikreglur sem ber að fylgja. Mikilvægt er að allir haldi vöku sinni, jafnt stjórnmálamenn, almenningur, fræðimenn og framkvæmdaaðilar. Það er skylda okkar allra að draga úr mengun þar sem slíkt er unnt og forðast óþarfa ágang og náttúruspjöll. Við eigum að gæta þess að beitt sé mótvægisaðgerðum til að draga úr beinum áhrifum á umhverfið og lífríki þar sem framkvæmdir fara fram. Það er sameiginleg ábyrgð okkar að gengið sé vel um náttúruauðlindirnar, bæði okkar vegna og ekki síður komandi kynslóða.
Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
Greinin birtist í 5. tbl. Mosfellings 4. apríl 2008
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hörkugrein hjá þér stelpa. Maður skilur ekki alltaf hvað menn eru að fara í náttúruverndarmálum, sumt er svo algjörlega út úr korti og vanhugsað. Hafðu það gott um helgina með fjölskyldunni elskuleg. Kær kveðja þín hálfnafna Dís
Ásdís Sigurðardóttir, 4.4.2008 kl. 15:53
Vissulega þarf að fara varlega við allar framkvæmdir. Það er hins vegar ógerningur að stækka bæjarfélag án þess að einhverjir finni að hinum og þessum framkvæmdum. Tenging nýja hverfisins í Leirvogstungu við meginkjarna Mosfellsbæjar er að sjálfsögðu bráðnauðsynleg og það helst sem fyrst. Með réttu hefði sú framkvæmd átt að vera ein sú fyrsta á svæðinu. Sem stendur eru samgöngur við þetta nýja hverfi nánast lífshættulegar og því ekki eftir neinu að bíða að ráða þar bót á. Hvort hesthúsahverfi eigi að vera inni í miðjum bæjarfélögum má síðan deila endalaust um. Persónulega finnst mér svo ekki eiga að vera, en einhversstaðar verður að finna hinn gullna meðalveg.
Halldór Egill Guðnason, 4.4.2008 kl. 16:15
Takk skvís ... þú ert nú líka búin að standa þig vel í skrifunum undanfarið ljúfust.
Ég er hjartanlega sammála þér Halldór ný hverfi verða að fá eðlilega tengingu við bæjarkjarnann.
Herdís Sigurjónsdóttir, 4.4.2008 kl. 17:11
Þú ert hörkuskvísa. Flytja bara í Kópavoginn og rífa þetta upp hér. Ansi harðsoðnir þessir samflokksmenn þínir hér í Kopavogscity. Enn bólar ekkert á svari frá þeim til stráksins út af brettabrautinni.
Marinó Már Marinósson, 6.4.2008 kl. 21:10
Það hefur ekki verið launungarmál að ég er ekki sáttur við stefnu og útfærslur bæjarfélagsins í umhverfismálum. Hitti á merkan og vel þekktan Íslending sem sagði við mig "það sjá allir að það er búið að rústa Álafosskvosinni". Það er staðreynd í öllum aðalatriðum, þó moldarhaugarnir eigi eftir að breytast í malbik.
Með lagningu Tunguvegar er naglinn rekinn í þá þróun að hesthúsahverfið þurfi að víkja líkt og í Kópavogi. Held að það séu enn ein mistökin að gerast með fyrirhugað æfingasvæði á Tungumelum. Fór á hestum upp í Laxnes í gær og þá voru tvö hjól þar. Það kom frá þeim mikill hávaði og ég held að þetta eigi ekki samleið skammt frá einum fjölfarnasta reiðstígnum úr hverfinu. Hjólamennirnir þurfa hvort eð er að setja hjólin upp á kerru og munar ekkert um að keyra eitthvað aðeins lengra í burtu að æfa sig.
Finnst alltof algengt að því sé haldið fram að "fólk sé að misskilja" eitthvað eða að það gangi fram af flokkspólitískum hvötum. Umgengst mikið af Sjálfstæðismönnum sem hafa sömu áhyggjur af þessari þróun og ég. Mbk.
Gunnlaugur B Ólafsson, 6.4.2008 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.