Ný lög um almannavarnir hafa tekið gildi

Í gær 20 júní tóku gildi ný lög um almannavarnir sem samþykkt voru á síðasta starfsdegi Alþingis í vor. Það var mikill léttir að sjá að lögin væru í höfn því meistararitgerðin mín "verkaskipting ríkis og sveitarfélaga í almannavörnum". er byggð á lögunum. Ef lögin hefðu ekki verið samþykkt núna hefði ég þurft að fresta útskrift eða byggja á þeim gömlu, sem hefði verið hálf fúlt. Ég er á fullu þessa dagana að endurskrifa m.t.t. nýju laganna og vonandi tekst mér að ljúka við skrifin í sumar svo ég geti útskrifast sem meistari í umhverfis og auðlindafræðum frá verkfræðideild HÍ í október. 

En það er ýmislegt nýtt í þessum lögum. Búið er að leggja niður almannavarnaráð, en þess í stað verður sett á fót almannavarna- og öryggismálaráð undir formennsku forsætisráðherra. Þetta er mjög stórt ráð, hálfgert ráðstefnuráð, en auk forsætisráðherra eiga sæti, dómsmálaráðherra, samgönguráðherra, umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra og heimild til að kanna inn aðra ráðherra vegna sérstakra mála. Auk ráðherranna eru ráðuneytisstjórar þeirra og forsvarsmenn þeirra undirstofnana sem að málunum koma. Síðan eiga líka sæti í ráðinu fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands, samræmdrar neyðarsímsvörunar og tveir fulltrúar skipaðir skv. tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ráðið hefur það hlutverk að marka stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum og er það unnið undir stjórn forsætisráðherra, ráðherrans sem hefur heildarsýnina. Ég er mjög ánægð með forvarnaþáttinn nýju lögunum, það er mun skýrari ábyrgð ráðuneytanna sjálfra sem ég taldi skorta verulega á í gömlu lögunum. Nú verða ráðuneyti sjálf ábyrg fyrir áætlanagerð fyrir sig og undirstofnanir sínar, sem verður vonandi til tryggja góðar samræmdar áætlanir um undirbúning og viðbrögð hvers og eins á hættustundu. Almannavarnanefnd undir stjórn sveitarfélaganna er einnig skylt að gera viðbragðsáætlun líkt og var í gömlu lögunum og í samræmi við hættumat sem þau verða að vinna heima í héraði.

Ríkislögreglustjóri undir stjórn dómsmálaráðherra hefur enn stóru hlutverki að gegna í almannavörnum. Embættið hefur eftirlit með almannavörnum á landinu öllu og umsjón með því að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Eitt er samt enn óljóst í mínum ferkantaða ferlahuga, en það er staðsetning samhæfingar og stjórnstöðvar í kerfinu. Í lögunum kemur fram að stjórnstöðin sé undir sérstakri stjórn sem skipuð er af dómsmálaráðherra og því velti ég því fyrir mér hvort hún falli beint undir ráðherra, en ekki almannavarnadeildina, en það kemur allt betur í ljós. Þarna fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af viðbragðsáætlun og almannavarnastigi. Almannavarnastigið er loksins búið að skrifa inn í lögin, en á eftir að setja frekari reglur um hvernig framkvæmdin verður á því.

Í nýju lögunum er ríkislögreglustjóra heimilt að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands og var það gert í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi 29. maí sl. og var Ólafur Örn Haraldsson ráðinn verkefnisstjóri þeirrar þjónustumiðsvöðvar. En í nýju lögunum er ekki litið til fullrar endurreisnar samfélagsins og félagslegrar uppbygginga eins og við höfum verið að vinna að í LVN rannsóknarhópnum, undir stjórn Guðrúnar Pétursdóttur sem ég hef unnið með í rúm tvö ár. En þegar jarðskjálftinn reið yfir á Suðurlandi í maí sl. fóru drög að áætlun fyrir sveitarfélög um endurreisnarstarf í kjölfar náttúruhamfara strax í notkun og er Hveragerðisbær búinn að samþykkja formlega að gera slíka áætlun og er hafin vinna við aðlögun að þeirra kerfi.

Í nýju almannavarnalögunum er búið að setja inn aðgerðastjórn í héraði, sem hefur verið partur af almannavarnakerfinu í nokkurn tíma. Hún er viðbragðsstjórn undir stjórn lögreglustjóra sem vinnur þegar hættu ber að garði, en jafnframt er áfram starfandi almannavarnanefnd sem vinnur að forvörnum og neyðaráætlanagerð. Þarna er búið að eyða einum af óvissuþáttum gömlu laganna, eða hver stýrir þættinum. Nú er það aðgerðastjórn á hættu og neyðartímum undir stjórn ríkisins í samvinnu við samhæfingarstöð, en utan þess er það almannavarnanefndin undir stjórn sveitarfélaganna.

Það er margt gott í þessum nýju lögum og gaman að sökkva sér svona ofan í Kerfið, enda hefur þetta kerfi verið mér bæði áhugamál og vinna í nærri áratug og því bónus að hafa tækifæri til að nýta sér það í náminu.

Til hamingju með nýju almannavarnalögin Björn Bjarnason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband