Viðbrögð Mosfellsbæjar við breyttri stöðu í íslensku efnahagslífi
10.10.2008 | 11:47
Á bæjarráðsfundi fór bæjarstjóri yfir þá stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar og sagði m.a. frá fundi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og mögulegra áhrifa þeirrar stöðu á rekstur sveitarfélaganna. Voru málin rædd og eftirfarandi var samþykkt samhljóða og bókað.
Bæjarráð styður heilshugar þá tilkynningu sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sendi frá sér um samstöðu sveitarfélaganna á svæðinu.
Á þeim miklu umbrotatímum sem nú ríkja í þjóðfélaginu vill bæjarráð Mosfellsbæjar leggja á það áherslu að einhugur ríkir hjá bæjaryfirvöldum um að veita góða þjónustu nú sem endra nær og halda gjaldskrám óbreyttum að sinni.
Á liðnum árum hefur Mosfellsbær greitt niður skuldir og ekki þurft að taka lán. Þessi staðreynd auðveldar bæjaryfirvöldum að takast á við breytt fjármálaumhverfi í landinu. Grunnstoðir bæjarfélagsins eru því sterkar. Haldið verður áfram með þær framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins sem þegar eru hafnar, en hins vegar verður ekki ráðist í nýjar framkvæmdir fyrr en fjármögnun þeirra er tryggð.
Samþykkt:
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að mynda samstarfshóp um upplýsingagjöf og ráðgjöf til Mosfellinga, vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem skapast hafa í efnahagslífi þjóðarinnar.
Þegar hefur verið leitað eftir samstarfi við bankastofnanir, heilsugæslu, kirkju og Rauða krossinn, sem tekið hafa vel í samstarf. Einnig verður leitað samstarfs við Ráðgjafarstöð um fjármál heimilanna.
Samstarfshópnum er ætlað að mynda samráðsvettvang aðila í bæjarfélaginu, samhæfa þjónustu og miðla upplýsingum til íbúa um þá aðstoð og ráðgjöf sem þeim stendur til boða frá bæjarfélaginu og öðrum aðilum. Heimasíða bæjarfélagsins mos.is verði m.a. nýtt sem upplýsingaveita í þessum tilgangi og þjónustuver virkjað.
Það eru margir aðrir að bregðast við ástandinu og sá ég þessa ágætu ábendingu á heimasíðu Landlæknisembættisins.
Hugum að velferð barna
Íslendingar standa nú á miklum tímamótum sem hafa víðtæk áhrif á unga sem aldna. Mikilvægt er að huga sérstaklega að velferð barna og unglinga á þessum tímum.
Höfum í huga:
- Jákvæð samvera barna með fjölskyldunni skapar öryggi.
- Börnin þurfa að finna að á þau sé hlustað og að þeirra nánustu séu ekki í hættu.
- Höldum fjölskylduvenjum og festu þó að mikið gangi á í samfélaginu.
- Notum matartíma fjölskyldunnar til að sinna þörfum barnanna fyrir jákvæða athygli.
- Ræðum á yfirvegaðan hátt að fjármálakreppan er tímabundin.
- Útskýrum fyrir börnunum að framtíðin er björt þótt á móti blási í dag.
- Verum góð fyrirmynd þegar kemur að vanda og lausnum.
- Styðjum börnin til þess að takast á við mótlæti á uppbyggjandi hátt.
- Hlúum vel að þeim sem okkur þykir vænt um.
Verum þess minnug að hér er um tímabundna erfiðleika að ræða sem við Íslendingar munum vinna okkur í gegnum. Miklu máli skiptir að við tökumst á við þessa erfiðleika þannig að við byggjum á styrkleikum okkar og leggjum áherslu á baráttugleði, bjartsýni og samkennd.
Sveitarfélög leita fjármögnunarleiða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.