Skólaþing í Mosfellsbæ

p3040062

Á  fyrramálið verður haldið skólaþing í Mosfellsbæ og vona ég að þátttakan verði góð þrátt fyrir góða veðurspá. 

Skólaþingið verður haldið í Lágafellsskóla frá kl. 9-12 og er meiningin að ná fram viðhorfum sem flestra til skólamála, leik -grunn- og framhaldsskóla. Að undanförnu hefur verið í gangi vinna með yngstu Mosfellingunum 0-10 ára og hafa þau verið að gera myndir og ýmislegt annað varðandi þeirra sýn á það hvernig góður skóli á að vera. Það verkefni verður í vinnslu áfram eftir skólaþingið, en afrakstur til þessa verður sýndur á þinginu á morgun.

Þegar fræðslunefnd var að velta fyrir sér hvernig best væri að hefja endurskoðun á skólastefnunni okkar kom upp þessi hugmynd, að halda skólaþing og lofa ég skemmtilegri morgunstund þar sem áhugasamir geta látið til sín taka í vinnuhópum og haft þannig áhrif á stefnu Mosfellsbæjar í skólamálum til framtíðar. Gylfi Dalmann kom með þá hugmynd að nota "Brain Writing" aðferðina og er það sú aðferð sem notuð verður í hópastarfinu og er hann búinn að þjálfa hópstjóra og skrifara.

Það eru margir búnir að leggja mikið á sig til að þetta geti orðið að veruleika og hafa Björn Þráinn og hans fólk leitt undirbúningsvinnuna. Það er búið að leita eftir hugmyndum að "umræðuefni"  spurningum í hópana

Ég spurði Sædís Erlu mína fimm ára, sem er ein af þessum yngstu þátttakendum hvernig börnum ætti að líða í leikskólanum. Hún sagði að þau ættu að vera brosandi og glöð og líða vel í hjartanu. Svo sagði hún líka að krakkar ættu ekki að slást og meiða. Hún var algjörlega með það á hreinu að það væri skemmtilegast í tölvunni og púðunum og róla úti, en síður skemmtilegt að vera í hlutverkarými.

Þessi vinna að undanförnu hefur vakið áhuga og hafa sextíu 10-12 ára börn meldað sig til þátttöku á laugardagsmorguninn. Eldri börn taka þátt í vinnuhópum með þeim fullorðnu.

Það er nú ekki á hverju degi sem hægt er að bjóða morgunstund fyrir alla
fjölskylduna þar sem allir eru virkjaðir, en munum við öll fimm rölta saman í Lágafellskóla í fyrramálið. Bæði Ásdís Magnea og Sturla Sær eru í ungmennaráðinu og svo ætla Sædís Erla að skemmta sér með yngri krökkunum í leikrýminu, en boðið er upp á barnapössun á þinginu.

Ég vona að ég sjái sem flesta í fyrramálið. Ég hef verið að hvetja fólk í kring um mig til að mæta og verja þremur tímum á skólaþingi til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins okkar.

Dagskrá:

8:30-9:00 Morgunhressing undir fögrum tónum Skólahljómsveitarinnar okkar.

9:00 Af hverju skólaþing?
Herdís Sigurjónsdóttir, formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

9:10 Framtíðarsýn og grunnskólalög.
Svandís Ingimundardóttir, skólafulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga.

9:30 Kynning á hópastarfi - skipting í hópa -
Gylfi Dalmann, varaformaður fræðslunefndar.

9:40-11:40 Hópastarf

11:40 Barnakór Reykjakots

11:45 Hvað svo - hvað verður um niðurstöðu Skólaþings 2009 ?
Gylfi Dalmann, varaformaður fræðslunefndar.

12:00 Þinglok

Þessar myndir eru teknar á Leikskólanum Huldubergi þar sem Sædís Erla er búin að vera síðustu ár, alsæl og glöð í hjartanu eins og hún segir sjálf.

p2200004

p2250036


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband