Úrskriftarferð elstu barna leikskólans Huldubergs í Mosfellsbæ

DSC02394

Fröken Sædís Erla bauð mömmu sinni með í útskriftarferð með leikskólanum Huldubergi í vikunni. Það var stolt mamma sem fór með yngsta gormnum, sem brátt útskrifast úr leikskóla og þá er Rituhöfða-fjölskyldan ekki lengur í námi í leikskóla, grunnskóla, framhaldskóla og háskóla eins og þetta skólaárið.

Þegar ég kom inn var það fyrsta sem Sædís Erla sagði, mamma komstu með nestið? og auðvitað klikkaði ég ekki á því.

Við fórum frá Huldubergi í rútu í yndislegu veðri, sól og hita. Með var útskriftarárgangnum fóru, mömmur, systkini, pabbar, ein amma og starfsfólk, eða fóstrurnar eins og Sædís Erla segir alltaf og er slétt saman um allt leikskólakennaratal mömmunnar. Í rútunni voru sungin falleg lög eins og maístjarnan sem var sungin í tilefni maímánaðar. Krakkarnir sungu nokkur lög sem Helgi hafði kennt þeim í vetur, en hann kemur með gítar og syngur með þeim í leikskólanum, alveg eins og í grunnskólunum. þeim til mikillar ánægju.

     DSC02444   

Brátt vorum við komin á safnasvæðið á Akranesi. Persónulega hafði ég aldrei komið þangað og verð ég að segja að það kom mér mjög á óvart. Þarna eru ótrúlegustu hlutir á safni og þótti mér og öðrum mikið koma til íþróttasafnsins og ekki síst ólympíustökksins Vilhjálms Einarssonar. Hann fékk silfurverðlaun fyrir þrístökk í Melbourne í Ástralíu og voru fótsporin merkt á gólfið og þegar maður sér lengdina milli fótspora virðist slíkt stökk vera yfirnáttúrulegt. Einnig vakti beyglað reiðhjól mikla hrifningu. Það var hjól sem Jón Páll heitinn pakkaði saman og var það "ekkert mál fyrir Jón Pál" eins og svo margt annað. Stórkostlegir íþróttamenn þar á ferð.

DSC02437 

Það var margt annað áhugavert á safninu og fengi þau að hlusta á vínilplötu á upptrekktum grammófóni og dillaði Sædís Erla sér við fallega tóna með bros á vör. Eins þótti krökkunum skemmtilegt að leika sér í bátunum úti og príla upp á dekk góða veðrinu. Það er alveg óhætt að mæla með ferð á safnið fyrir þá sem ekki hafa komið þangað.

DSC02427  DSC02419

Næst var ferðinni heitið í skógræktina á Akranesi þar sem ætlunin var að borða. Við gengum frá rútunni og var mikið líf í garðinum, börn að leik með skólunum og hafði einn hópurinn slegið upp tjöldum og skemmti sér hið besta. Við gengum í gegn um fallegt gróið skógræktarsvæði og brátt fundum við fallegt svæði með glæsilegu útigrilli. Krakkarni þustu úr í buskann fóru að róla, renna og gormast úti í náttúrunni. Fótboltinn hafði verið tekinn með og sýndu ungu mennirnir þvílíka takta, fórnuðu sér, tókust á við íþróttameiðsl og görguðu á dómarann, þetta var sko alvöru kappleikur.

DSC02504  DSC02475

Við borðuðum pylsur að íslenskum sið og nutum lífsins og þá var komið að síðasta áningarstaðnum, ströndinni, eða Langasandi. Krakkarnir rifu sig úr fötunum og þustu út á sandinn með fötur, skóflur og góða skapið. Sædís Erla og vinkonur hennar týndu skeljar og einhver fann krossfisk sem var stúderaður í bak og fyrir áður en hann fékk flugferð úr í sjó. Krakkarnir busluðu og var eins gott að ég tók aukaföt með, svona með nestinu. Þau hlupu út í sjó, busluðu við sturtuna og svo endaði ferðin með því að þau fóru öll í útisturtu, sem var mikið sport.

DSC02580  DSC02651

Við héldum heim á leið alsæl og þótti okkur Kollu Reinholds, mömmu Benktu Kristínar merkilegt hvað við vorum alveg búnar á því, eftir að vera úti og gera ekki neitt.  Svo tók ég þær Benktu og Natalíu með mér heim og þær vinkonurnar héldu áfram að leika sér saman fram að kvöldmat.

Svona ferðir gleymast aldrei, en tók ég nokkrar myndir til að hjálpa okkur að muna og eins fyrir þá sem misstu af ferðinni. Ég setti örfáar þeirra inn í albúm sem þið getið fengið að sjá hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband