Samstaða ríkir í Mosfellsbæ
30.12.2009 | 11:46
Frá efnahagshruninu á síðasta ári hafa sveitarfélög í landinu staðið frammi fyrir krefjandi verkefnum sökum breytinga í ytra umhverfi og verri fjárhagslegrar afkomu. Mosfellsbær er engin undantekning í því sambandi. Þó hefur ábyrg fjármálastjórn og innleiðing breyttra vinnubragða við fjárhagsáætlunargerð á undanförnum árum skilað þeim árangri að fjárhagsleg staða Mosfellsbæjar er betri en flestra sveitarfélaga í landinu.
Grunnþjónustan sett í forgang
Sveitarfélögin stóðu skyndilega frammi fyrir breyttu ástandi og þurfti því að meta þjónustu út frá nýjum forsendum og aðlaga allan rekstur að þessum nýja veruleika. Sveitarfélög voru hvött til að forgangsraða verkefnum og leggja áherslu á grunnþjónustuna. Samband íslenskra sveitarfélaga skilgreindi hugtakið grunnþjónustu að beiðni sveitarfélaganna og til að auðvelda sveitarstjórnum að forgangsraða útgjöldum innan málaflokkanna voru mótaðar leiðbeiningar til sveitarfélaga um skilgreiningu grunnþjónustu á sviði fræðslumála og félagsþjónustu. Þar var horft til allra verkefna sem sveitarfélög eru að sinna í dag og skilgreint hvort um væri að ræða lögbundið eða valkvætt verkefni. Dæmi um slík valkvæð verkefni er leikskólaþjónusta og almenningssamgöngur. Eins var þar fjallað um að hvaða svigrúm sveitarstjórnir hafa eftir staðbundnum aðstæðum og þörfum.
Samstaða um leiðir til hagræðingar
Góð samstaða hefur ríkt um flestar ákvarðanir sem teknar hafa verið um hagræðingar á liðnu ári þar sem áhersla er lögð á að standa vörð um grunn- og velferðarþjónustuna. Strax var farið í mikla vinnu í öllum stofnunum við endurskoðun rekstrarþátta, þar sem öllum steinum var velt við í leit að hagræðingarleiðum. Sveitarfélög hafa farið svipaðar leiðir í hagræðingu og m.a. samræmdu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sig varðandi ýmsa þætti, s.s. að taka af eina kennslustund fyrir 1-4 bekk, sem ekki var lögbundin. Sjálfstæði stofnana í Mosfellsbæ er mikið og hafa þær sjálfar því eðlilega farið í ýmsar aðgerðir. Dæmi um slíkt er að draga úr framlögum til skólaferðalaga sem leitt hefur til þess að krakkarnir hafa lagt á ráðin og m.a. farið í ýmsar fjáraflanir,sem er ekki alslæmt að mínu mati.
Sértækar aðgerðir vegna efnahagshruns
Í október 2008 var stofnaður samráðshópur undir stjórn formanns bæjarráðs vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem sköpuðust í þjóðfélaginu. Markmiðið með hópnum var að samræma þjónustu og auðvelda aðgang Mosfellinga að þjónustu og ráðgjöf á vegum aðila í Mosfellsbæ. Sett var á stofn Ráðgjafartorg sem er starfrækt í samvinnu við Rauða krossinn, kirkjuna og heilsugæslustöðina. Strax var farið í aðgerðir til að tryggja að skólinn væri griðastaður barnanna, þar sem þau gætu unnt sér vel við leik og nám og notið án þess að þurfa að hlusta á umræður um ástandið í þjóðfélaginu. Starfsmenn skóla og þjálfarar í íþróttum fóru á sérstakt námskeið í sálrænum stuðningi og til að þau væru enn betur í stakk búin til að styðja börnin. Auk hinnar almennu félagsþjónustu sveitarfélagsins er nú aukin vöktun innan Mosfellsbæjar á ýmsum þáttum er lúta að velferð barna. Jafnframt eru starfsmenn hvattir til að vera á varðbergi og grípa inn í ef grunur er um að foreldrar neyðist til að segja upp þjónustu sökum fjárskorts.
Allir á sama báti
Mikill skilningur ríkir í samfélaginu gagnvart hagræðingu og forgangsröðun á þjónustu, enda öll heimili í landinu að glíma við slíkt sama. Nú er hafin fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og eru því miður lítil teikn á lofti um að ástandið í samfélaginu breytist til batnaðar á næstu árum og því verður að gera áætlanir með það í huga. Á liðnu ári hefur vissulega mikið mætt á öllum sem koma að rekstri sveitarfélagsins.
Það jákvæða er að einhugur hefur ríkt og ljóst að fólk lætur ástandið í þjóðfélaginu ekki draga úr sér. Vissulega hefur þurft að beita meiri útsjónasemi en þekktist í góðærinu og má segja að það jákvæða við þessa kreppu sé að hún hefur fengið fólk til að staldra við og endurskoða leiðir og áherslur í þjónustu sveitarfélagsins, líkt og gert hefur verið á hverju heimili og fyrirtæki í landinu.
Þetta eru vissulega sérstakir tímar sem við lifum og þurfum við að horfa jákvæð til framtíðar og muna að öll él birtir upp um síðir.
Herdís Sigurjónsdóttir, formaður bæjarráðs
Grein sem birtist í Varmá, blaði Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í nóvember 2009.
Flokkur: Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.