Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
ÞÚ GETUR
28.10.2008 | 21:59
Þetta eru frábær fréttir og ljós í öllu krepputalinu. Ég hitti Ólaf Þór um daginn og sagði hann mér frá hugmyndinni sem hann hefur nú látið verða að veruleika. Hann er með flott fólk með sér og er ég sannfærð um að sjóðurinn ÞÚ GETUR á eftir að breyta lífi fjölmargra einstaklinga til góðs. Markmið sjóðsins eru göfugt, að styrkja einstaklinga til náms sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða, að efla nýsköpun og bætta þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna. Ekki veitir nú heldur af að stuðla að jákvæðri umræðu og aðgerðum sem draga úr fordómum í samfélaginu, sem vissulega eru töluverðir.
Þunglyndi er ótrúlega algengur sjúkdómur hér á landi sem veldur mikilli vanlíðan hjá þeim veiku með tilheyrandi álagi á aðstandendur. Stundum er um að ræða veikindi eins og fæðingarþunglyndi eða þunglyndi tengt álagi eða áfalli og getur fólk þá náð sér að fullu með meðferð eins og ef um einhvern annan sjúkdóm væri að ræða, en samt er fólk oft litið hornauga, sem er merkilegt í sjálfu sér. Þetta verður til að fólk segir ekki frá veikindum sínum því það er hrætt við stimpilinn. Að vísu sýnist mér umræðan vera að verða opnari og mögulega eru fordómarnir að minnka, en betur má ef duga skal.
Til hamingju Ólafur Þór og hjartanlega til hamingju með afmælið.
Þú getur! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2008 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bremsuleysið á enda
26.10.2008 | 15:04
Undanfarnar vikur hafa verið einkennilegar, ekki bara fyrir mig og mína heldur allan heiminn. Það er ljóst að efnahagskreppan lætur engan ósnortinn og ekki síst hér heima enda áfall sem teygir anga sína inn í hverja fjölskyldu með einum eða öðrum hætti.
Ég hef persónulega aldrei verið spurð eins oft að því eins og undanfarnar vikur hvort ég hafi ekki mátað mig inn í aðra stjórnmálaflokka, hvort ég ætti nú ekki betur heima í einhverjum þeirra vinstri flokka sem nú bjóða fram. Ég er sannfærð um að margir sjálfstæðismenn hafa verið spurðir að hinu sama. Mikið er talað um vinstri sveiflu og sveif sá andi a.m.k. yfir kvöldverði sem var haldinn eftir aðalfund í ágætu félagi sem ég er meðlimur í um síðustu helgi. En það var stórmerkileg upplifun fyrir mig persónulega þegar Nallinn eða Internationalinn gamli þjóðsöngur Sovétríkjanna varð þemasöngur kvöldsins.
Það er mikil reiði í samfélaginu, eðlilega, enda varð þetta mikið áfall fyrir alla þjóðina og ekki batnaði það þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn okkur. Hér er mikið um mótmæli og hefur það sérkennilega ástand skapast að mótmælendur hafa verið í samkeppni um mótmælendur, en það virtist a.m.k. gerast í gær þegar tveir hópar voru að mótmæla því sama, á sama stað á nánast sama tíma. Fjölmargir hópar hafa verið stofnaðir á Facebook, á móti ríkisstjórninni, seðlabankastjóra, Bretum og svona mætti lengi telja.
Þetta er ekki það versta sem íslensk þjóð hefur gengið í gegnum skrifar Davíð Þór í hugvekju sinni á baksíðu Fréttablaðsins í morgun, þar sem hann minntist gamallar frænku sinnar sem sagði honum frá frostavetrinum mikla 1918 þegar Spánska veikin gekk og hundruð landsmanna létust, frost fór niður fyrir -30°C og ís var landfastur og lokaði siglingaleiðum. Ég er honum sammála. Líkt og í kjölfar annarra áfalla tekur tíma að ná yfirsýn og skipuleggja hjálparstarfið og erum við enn í því ferli. Mikilvægt er að hefja rannsókn á málinu, til að varpa ljósi á atburðinn sjálfan og ekki síst til að nýta þessa reynslu til að læra af, bæta kerfið og fyrirbyggja að slíkt geti gerst aftur.
Næsta skref verður að styrkja íslenskt efnahagslíf aftur til framtíðar. Í dag virðist það mörgum vera fráleitt og ekki síst þeim sem eiga um sárt að binda. En það er margsannað að það að veita náunganum aðstoð og stuðning skilar mun betri árangri en svartsýni og bölmóður og gildi einu hvort um er að ræða þann sem veitir aðstoð eða þiggur.
Það er óhætt að segja að íslenskt samfélag hafi nauðhemlað. Það mátti alveg hægja á og hefði verið mun betra ef stigið hefði verið varlega á bremsuna í stað þess að klossbremsa, eins og raunin varð. Ég hef oft talað um bremsuleysi í þessu sambandi, kaupæði og sýndarveruleika alsnægta sem hefur verið alsráðandi og er ég hrædd um að fæstir geti sagt sem svo að þeir hafi ekki tekið þátt í brjálæðinu. Nú þurfum við öll, stjórnmálaflokkar, fyrirtæki og einstaklingar að standa saman, bæði hér heima og um allan heim. Við þurfum ekki á sundrung þjóðar og galdrabrennum" á Austurvelli að halda. Nú sem svo oft áður þurfum við Íslendingar að snúa bökum saman, bretta upp ermar og vinna saman. Við búum betur en mörg önnur lönd, undirstaðan er styrk. Gott menntakerfi, heilbrigðiskerfi og auðlindir sem munu hjálpa okkur í þeirri vegferð sem framundan er, við að efla íslenskt samfélag á ný.
Minnihluti styður stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frænkurnar fræknu hittust á frænkumóti í Grindavík
12.10.2008 | 20:59
Ég var að koma frá Grindavík, frá því að hitta tæplega 30 fræknar frænkur. Sumar þeirra var ég að hitta í fyrsta sinn, en það var nákvæmlega ástæða þess að við Stefanía María Pétursdóttir frænka mín sáum ástæðu til að hóa frænkunum saman, eða til að kynnast.
Við Stefanía María hittumst við athöfn í Hólavallakirkjugarði 18. júní 2005 og fórum þá fyrst að tala um frænkuboð. Þá minntust við þess frænkurnar að 90 ár voru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og var dagskrá í kirkjugarðinum til að minnast forystukvenna kvenréttindahreyfingarinnar. Þá spilaði einmitt ein frænkan, hún Hallfríður Ólafsdóttir dóttir Stefaníu Maríu glæsilega á flautu. Næst fórum við Stefanía María að ræða frænkuboðið þegar við hittumst 18. september sl. á jafnréttisþingi í Mosfellsbæ, sem haldið var til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur, en á þessu ári eru 50 ár liðin síðan Helga settist fyrst kvenna í stól oddvita í Mosfellsbæ. Þá tók ég upp dagbókina mína og ákváðum við að frænkuboðið yrði haldið 12. október 2008. Í Salthúsinu í Grindavík sem Kristín systir mín á, það væri mun skemmtilegra en að hittast á einhverju alveg "óskildu" kaffihúsi á svæðinu.
Nú ég stóð mig vel í því að ákveða daginn og allt það en frænka mín SM sá um rest. Hún útbjó þetta líka flotta bréf og sendi á frænkurnar og í gær héldum við að 14-16 myndu mæta og þótti okkur það flott start. Um daginn sagði ég bara mömmu frá því að við frænkur hefðum hist og ákveðið að hóa frænkunum saman, en gleymdi ég að segja Kristínu stóru systur minni þetta og líka Diddu frænku, en þær mættu og það er mest um vert.
Í dag fórum við mæðgur, Ásdís Magnea og Sædís Erla í Grindó, þrælspenntar yfir því að hitta allar þessar frænkur. Það rættist heldur betur úr frænkuboðinu og mættu hvorki meira né minna en 28 frænkur og einn lítill frænkusnúður sem er enn á brjósti og er alveg spurning hvort hann fái ekki bara ævileyfi til að mæta í frænkuboðin, fyrst hann mætti á stofnfundinn.
Þetta var yndislegur dagur í alla staði og þótti mér sérstaklega gaman að Hallfríður Péturs frænka mín mætti, en hún er á spítala og fékk helgarleyfi og lét þetta frænkuboð ekki fram hjá sér fara. Það var líka gaman að hitta allar hinar flottu frænkur mínar og er ég þegar búin að búa til hóp á Facebook "Frænkurnar fræknu" og ætla ég að leggja mig fram við að safna frænkum mínum.
Áður en fundi var slitið vorum við farnar að plana ættarmót í Hrísey. Hver veit nema það muni ganga eftir fyrst búið er að leggja frænkunetið. Við fengum líka heimavinnu, frá Birni Péturs frænda okkar, hann er ættfræðingurinn með stóri Æi í okkar fjölskyldu. Á næstunni munum við fara yfir ættartöluna og bæta við nýjum frænkum, frændum og uppfæra upplýsingar sem Björn hefur safnað í gegnum árin. Hver veit nema ættartalan verði einmitt gefin út í tilefni ættarmóts í Hrísey, mót afkomenda þeirra hjóna Jóns Kristins og Hallfríðar.
Hér er hægt að sjá nokkrar frænkumyndir.
Vinir og fjölskylda | Breytt 13.10.2008 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Viðbrögð Mosfellsbæjar við breyttri stöðu í íslensku efnahagslífi
10.10.2008 | 11:47
Á bæjarráðsfundi fór bæjarstjóri yfir þá stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar og sagði m.a. frá fundi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og mögulegra áhrifa þeirrar stöðu á rekstur sveitarfélaganna. Voru málin rædd og eftirfarandi var samþykkt samhljóða og bókað.
Bæjarráð styður heilshugar þá tilkynningu sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sendi frá sér um samstöðu sveitarfélaganna á svæðinu.
Á þeim miklu umbrotatímum sem nú ríkja í þjóðfélaginu vill bæjarráð Mosfellsbæjar leggja á það áherslu að einhugur ríkir hjá bæjaryfirvöldum um að veita góða þjónustu nú sem endra nær og halda gjaldskrám óbreyttum að sinni.
Á liðnum árum hefur Mosfellsbær greitt niður skuldir og ekki þurft að taka lán. Þessi staðreynd auðveldar bæjaryfirvöldum að takast á við breytt fjármálaumhverfi í landinu. Grunnstoðir bæjarfélagsins eru því sterkar. Haldið verður áfram með þær framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins sem þegar eru hafnar, en hins vegar verður ekki ráðist í nýjar framkvæmdir fyrr en fjármögnun þeirra er tryggð.
Samþykkt:
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að mynda samstarfshóp um upplýsingagjöf og ráðgjöf til Mosfellinga, vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem skapast hafa í efnahagslífi þjóðarinnar.
Þegar hefur verið leitað eftir samstarfi við bankastofnanir, heilsugæslu, kirkju og Rauða krossinn, sem tekið hafa vel í samstarf. Einnig verður leitað samstarfs við Ráðgjafarstöð um fjármál heimilanna.
Samstarfshópnum er ætlað að mynda samráðsvettvang aðila í bæjarfélaginu, samhæfa þjónustu og miðla upplýsingum til íbúa um þá aðstoð og ráðgjöf sem þeim stendur til boða frá bæjarfélaginu og öðrum aðilum. Heimasíða bæjarfélagsins mos.is verði m.a. nýtt sem upplýsingaveita í þessum tilgangi og þjónustuver virkjað.
Það eru margir aðrir að bregðast við ástandinu og sá ég þessa ágætu ábendingu á heimasíðu Landlæknisembættisins.
Hugum að velferð barna
Íslendingar standa nú á miklum tímamótum sem hafa víðtæk áhrif á unga sem aldna. Mikilvægt er að huga sérstaklega að velferð barna og unglinga á þessum tímum.
Höfum í huga:
- Jákvæð samvera barna með fjölskyldunni skapar öryggi.
- Börnin þurfa að finna að á þau sé hlustað og að þeirra nánustu séu ekki í hættu.
- Höldum fjölskylduvenjum og festu þó að mikið gangi á í samfélaginu.
- Notum matartíma fjölskyldunnar til að sinna þörfum barnanna fyrir jákvæða athygli.
- Ræðum á yfirvegaðan hátt að fjármálakreppan er tímabundin.
- Útskýrum fyrir börnunum að framtíðin er björt þótt á móti blási í dag.
- Verum góð fyrirmynd þegar kemur að vanda og lausnum.
- Styðjum börnin til þess að takast á við mótlæti á uppbyggjandi hátt.
- Hlúum vel að þeim sem okkur þykir vænt um.
Verum þess minnug að hér er um tímabundna erfiðleika að ræða sem við Íslendingar munum vinna okkur í gegnum. Miklu máli skiptir að við tökumst á við þessa erfiðleika þannig að við byggjum á styrkleikum okkar og leggjum áherslu á baráttugleði, bjartsýni og samkennd.
Sveitarfélög leita fjármögnunarleiða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hefur þú týnt barninu þínu?
3.10.2008 | 09:28
Ég var einu sinni í sundlaugargarði með krakkana á Ítalíu og leit eitt augnablik af litlunni minni á meðan ég tók mynd af strákunum í rennibraut. Á þessu augnabliki labbaði sú stutta í vaðlaug og brá mér svo mikið að ég henti frá mér myndavélinni og hljóp á eftir barninu, eðlilega. Þá nýtti einhver sér neyð okkar og stal myndavélinni með sumarleyfissögu fjölskyldunnar. En það er ekki sagan af stolnu myndavélinni sem situr eftir heldur skelfingin sem greip mig þegar sú stutta ráfaði í burtu frá mér. Mér datt mér þetta atvik í hug þegar ég las um landssöfnunina Göngum til góðs, en sameining fjölskyldna er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem Rauði krossinn vinnur að um allan heim og er það eitt elsta verkefni samtakanna.
Það slær enn Rauða kross hjartað, þrátt fyrir að ég sé hætt að vinna þar og því gat ég ekki sleppt því að taka eitt blogg um söfnunina og fékk lánaðar nokkrar setningar frá Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða krossins, sem hann skrifaði um söfnunina.
Landssöfnunin Göngum til góðs er að þessu sinni helguð leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins í Kongó. Þar geisaði borgarastyrjöld 1998-2003 og enn eru átök milli stríðandi aðila í norðurhluta landsins. Talið er að um 1,3 milljón manns sé á flótta innan eigin landamæra, og árlega berast hundruð nýrra beiðna um aðstoð við að sameina sundraðar fjölskyldur á ný.
Öll landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans ásamt Alþjóða Rauða krossinum þéttriðið net leitarþjónustu sem allir þeir sem hafa misst samband við ástvini í kjölfar átaka geta sett sig í samband við. Þannig hefur Rauði kross Íslands aðstoðað flóttafólk og hælisleitendur hér á landi við að leita ættingja sem samband hefur rofnað við, og hefur tekist að koma á samskiptum að nýju.
Fjölskyldur sem hafa tvístrast vegna átaka búa oft árum, jafnvel áratugum, saman við óttann sem fylgir óvissunni um að vita ekki um afdrif ástvina. Í þeirri ringulreið sem ríkir á vígvöllum og hamfarasvæðum verður fólk oftar en ekki viðskila við sína nánustu, og eyða jafnvel það sem eftir er ævinni við leit að þeim. Af öllum þeim þjáningum sem átök og náttúruhamfarir valda er óvissan um afdrif ættingja ef til vill með þeim verstu.
Þegar átök brjótast út brotna innviðir samfélagsins niður, símasamband og samgöngur rofna og oft eru hömlur á ferðafrelsi einstaklinga. Í þeirri ringulreið sem skapast á átakasvæðum verða börnin oft verst úti, og árlega verða tugþúsundir barna viðskila við foreldra sína við slíkar aðstæður. Mörg eru ómálga, eða svo lítil að þau geta ekki sagt frá nöfnum foreldra sinna eða hvaðan þau eru upprunninn.
Á stríðsárunum 1998-2003 skráði Rauði krossinn rúmlega 6.000 börn sem orðið höfðu viðskila við foreldra sína. Um 4.400 börn voru sameinuð fjölskyldum sínum á þessu tímabili. Í fyrra voru hátt í 500 börn sameinuð fjölskyldum sínum í Kongó en hundruð bíða enn í þeirri von að fjölskyldur þeirra finnist. Á þessu ári hefur Rauði krossinn sameinað um 200 börn og fjölskyldur þeirra í Kongó.
Við Íslendingar ættum að velta því fyrir okkur því neyðarástandi sem fylgt getur vopnuðum átökum, um sundrungu fjölskyldna. Ég ætla að taka þátt í verkefninu og öll mín fjölskylda og vona ég að sem flestir vinir og vandamenn geri slíkt hið sama. Hvað er huggulegra en að fá sér göngutúr til góðs í snjónum og koma svo inn og fá sér rjúkandi kakó og köku. Ég var að lesa að enn vantar fjölmarga sjálfboðaliða til að ganga, þetta er góð leið til að láta gott af sér leiða, hægt er að skrá sig á www.redcross.is.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)