Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Jákvætt skref

Þetta er mjög jákvætt skref og mikilvægt að gera tilraunir og öðlast skilning á því hvaða áhrif sjávarhreyfing, salt og aðrir álagsþættir hafa á vetnisljósavélina.

Ég gæti ekki verið meira sammála henni Ólöfu Nordal í greininni sem hún skrifaði í moggann í dag (bls.6). Þar talar hún um að við Íslendingar ættum að einbeita okkur að heimavinnunni, rannsóknum,  í stað þess að gleyma okkur í markaðssetningu á auðlindamálum í fjarlægum löndum. 


mbl.is Vetnisljósavél tekin í notkun í Eldingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarfjörið á Laugarveginum

10-66-0097-01x_kristinsystir

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, sem hefur verið harðari en mörg undanfarin ár. En nú er vor í lofti og fuglarnir syngja. Það er merkilegt að þegar ég heyri fuglasönginn á vorin þá leitar hugurinn alltaf heim á Siglufjörð, á Laugarveginn.

Ég er fædd og uppalin á Laugarvegi 15 á Siglufirði og búa foreldar mínir enn í sama húsinu og fer ég oft heim. Þegar ég var krakki var mikið líf og fjör í Suðurbænum,enda fjöldinn allur af krökkum í hverju húsi en þó flestir á eina fjölskyldu á númer 16. Mér varð hugsað til þessa þegar ég las minningargrein um hana Lilju Jóels áðan. Ég fór við minningarathöfnina á Akranesi um daginn, enda þótti mér vænt um hana Lilju sem var magnaður persónuleiki og kraftmikil kona. Ég kannaðist alveg við sögustundirnar sem Gréta nefndi í minningargreininni. Sögustundum á tröppunum í góðu sumarveðri. Lilja á inniskóm og eldhússlopp með hóp af krökkum sem röðuðu sér í tröppurnar og hlustuðu af áhuga á lifandi sögur hennar. Hún var mjög skipulögð og vildi hafa allt í röð og reglu og vildi alls ekki hafa það að við krakkagrísirnir værum að rusla til í stofunni, en var samt svo ótrúlega umburðarlynd gagnvart okkur varðandi flest. Hún átti stórt jarðaberjabeð fyrir sunnan húsið sem freistaði margra krakka. En á uppskerutíma gaf hún okkur krökkunum jarðaber á tröppunum og var það örugglega útpælt trix hjá henni því fyrir vikið vorum við eins og lítið heimavarnalið að passa berin fyrir rányrkju villinganna á meðan berin voru að þroskast LoL.

Ég man mjög vel eftir því þegar ég fékk að vera hjá þeim um tíma. Mamma hefur trúlega verið í siglingu með pabba eða eitthvað svoleiðis, en a.m.k. var ég alsæl yfir því að fá að vera hjá Jónínu Hafdísi vinkonu minni á númer 16. Ég man svo vel eftir morgunmatnum við eldhúsborðið, haframjöli með kakói og sykri og lýsi. Lýsið tóku allir og punktur og tók það eins og allir hinir og sá lítinn tilgang með því þá, en Lilja vissi betur. Það er mér  líka mjög minnisstætt ríkisherbergið í kjallaranum, herbergið með öllum gögnum sem ekki mátti sjá. Ég hef alltaf verið áhugasöm um gamla hluti og grúsk og þótti mér þessi leynd sem hvíldi yfir herberginu í meira lagi merkileg. En trúlega hafa þetta verið ósköp ómerkileg bókhaldsgögn ríkisverksmiðjanna, en á þessum tíma var þetta leyniherbergi, enda var ég búin að lesa allar ævintýrabækurnar spjaldanna á milli.

Það var alveg yndislegt að hitta alla krakkana á 16 við minningarathöfnina um Lilju á Akranesi um daginn. Það komu líka margir af krakkastóðinu, vinum þeirra á 16 og þótti Kristínu systur hræðilegt að komast ekki til að kveðja Lilju og eins Jóhanni bróður sem býr í Ameríku og mömmu og pabba. En ég hittin nokkra góða grannar, eins og Ingu Sjöfn og Möggu og Fredda á 14 og margir fleiri og var gaman að hitta alla.

Þegar maður sest niður og fer yfir þessi ár á Laugarveginum streyma fram minningar um atburði sem svo sannarlega hafa mótað mann og gert mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Minningar um tíma þegar Gvendur í bænum gerði við hjólin okkar á vorin og Gústi guðsmaður predikaði á torginu. Tíma  og við krakkarnir lékum okkur á ónýtum síldarbryggjum, Gráa langa og átum Coco Puffs úr Versló sem við fundum á öskuhaugunum. Þá tók allt samfélagið einlægan þátt í sorg og gleði hvors annars. Þvílíkir tímar!

Hún Guðný Gull vinkona mín á Akureyri (á númer 14) kom með þá hugmynd í vetur að það væri gaman að hóa saman "krökkum" á Laugarveginum og hinu krakkastóðinu. Krökkunum sem voru eins og heimalingar hjá hvoru öðru milli þess sem við lékum okkur á stórhættulegum "leikvöllum". Mikið væri það nú gaman. Hver veit nema maður láti slag standa þegar skólinn er frá og hói saman liðinu. Það væri hægt að skella sér í "fallin spýta" eða "eina krónu" með afkomenunum og halda svo eina góða sögustund að hætti Lilju á Laugarveginum.


mbl.is Vor í lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænir fingur

Herdís með kennaranum Jóhönnu

Jæja þá get ég loksins sagt að vorið sé komið. Ég fór nefnilega á námskeið í matjurtaræktun, því mig hefur lengi langað til að læra lífræna ræktun og öll trixin við sníkudýrum og þess háttar. Ég er nefnilega með stórt beð sem ég ætla fyrir matjurtir. Þar hafa verið undanfarin ár jarðaber, graslaukur og hjálmlauk og nokkrar kartöflur, en nú verður það troðfullt af dýrindis grænmeti. Námskeiðið sem ég fór á var á Dalsá í Mosfellsdalnum, hjá henni Jóhönnu Magg.

Veðrið var yndislegt, svona fyrsti alvöru vordagurinn að mínu mati og fuglarnir voru í essinu sínu og kepptust við að syngja sem hæst og nágrannakötturinn mættur til að kanna fuglalífið. En við stelpurnar fengum fyrst stuttan fyrirlestur og svo var farið í moldina. Við prikluðum og sáðum og nutum hverrar mínútu. Ég kom heim með bakka fullan af litlum grænum plöntum sem verða stórar og umbreytast í fallegt skrautkál, kamillu og púrru svo eitthvað sé nefnt. Næsta vers er að  smíða hjálma yfir beðið stóra, tengja vatnsslöngu og gera fleiri beð í matjurtareitnum mínum. En það gerist ekki fyrr en eftir 5. maí. Þegar ég eignast líf aftur.

ÉG fékk sönnun fyrir því að vegavernd er í alvöru til, því það punkteraði hjá einni og fékk hún mann til að skipta um dekk.

Ég mátti til með að setja þessar grænu myndir inn þó ekki væri nema til að sanna það fyrir henni mömmu minni að ég hefði í alvöru farið á matjurtaræktunarnámskeið.

IMG_7030

IMG_7050

IMG_7052

punkterað

krókusar að lifna

 


Afmælisveislan breyttist í brúðkaupsveislu

Við Elli vorum boðin í fertugsafmælisveislu til Tedda félaga okkar í gær. Hann varð fertugur fyrir viku síðan og ætlaði sko heldur betur að halda upp á afmælið með stæl. Nú þegar við komum voru þau Mæja í hátíðarskapi og kom á daginn að þau höfðu líka gift sig og því var þetta í raun líka brúðkaupsveisla þeirra hjónakorna. Þau létu engan vita af þessu nema krakkana og örfáa í kring. Þau buðu stórfjölskyldunni í kvöldmat fyrir afmælisveisluna sem átti að hefjast um átta. Þegar allir voru komnir um sex mætti prestur á svæðið og söngkvartett og hjónakornin voru gefin saman, loksins sögðu margir eftir að hafa verið saman í 18 ár og eignast þrjú yndisleg börn sem spiluðu stórt hlutverk í athöfninni.

Veislan var frábær í alla staði. Fjöldinn allur af fólki, hluti af lögregluliði höfuðborgarsvæðisins sem vinnur með þeim hjónum, fjölskyldan, sjálfstæðismenn úr Mosó, rauðvínsklúbburinn hennar Maju, golfarar og aðrir vinir þeirra hjóna. Það voru haldnar skemmtilegar ræður um afmælisbarnið og þau hjóna og gítar og lögreglusöngur. Hann Teddi söng Efemíu til Maju sinnar á yndislegan hátt og spurði ég hann nú eftir það hvað væri eiginlega með Efemínu og löggur, því Hann Helgi minn söng þetta fyrir Lindu sína þegar hún varð fertug. Við sjálfstæðismenn sungum svo hraðsoðnar vísur fyrir Tedda, sem ég henti niður á blað rétt fyrir veisluna og höfðum bara gaman að því að mæra félaga okkar sem er eins og kom í ljós þegar ég gerði á honum persónuleikaprófið um árið... geirfugl! Enda margbreytilegur og skemmtilegur persónuleiki hann Teddi.


Lóan er komin

loa

Hún Sigrún María vinkona mín og skólasystir kom inn í stofuna í umhverfi og skipulagi í morgun, hress í bragði og brosandi og sagði "lóan er komin". Það hefur verið sérlega gaman að fylgjast með komu farfuglanna í gegnum hana Sigrúnu að undanförnu, einn af öðrum og svo kom lóan.

Ég er líka elsku sátt við að það er vor í lofti í Mosfellsbænum.


mbl.is Vorboðar í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mun hlusta á Al Gore á morgun

Það verður örugglega fróðlegt að hlusta á Al Gore í fyrramálið, en meira um það seinna. Mér skilst að það sé upp of ofan hvort hann leyfir fyrirspurnir eftir fyrirlesturinn, en það kemur allt í ljós.
mbl.is Al Gore á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samspil manns og náttúru

Það er óhætt að segja að viðhorf fólks til umhverfismála hafi breyst hratt um allan heim á liðnum áratugum. Fólk hefur nú bæði meiri áhuga á umhverfismálunum og lætur sig þau varða og sýnir ábyrgð. Eins hefur aðkoma almennings og frjálsra félagasamtaka að skipulagsmálum breyst með auknum lagalegum rétti til að hafa bein áhrif á framkvæmdir yfirvalda og er sú þróun afskaplega jákvæð. Það er jákvætt að fólk láti sér annt um náttúruna og krefjist þess að gengið sé um sameiginlegar auðlindir af virðingu og að fólk sýni sjálft gott fordæmi í þeim efnum. Að mínu mati er samt enn allt of mikið rætt um yfirvöld og  almenning sem andstæða póla. Yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein. Ég held líka að oft misskilji fólk samt tilganginn með athugasemdum, eða nýti sér sinn rétt meira í pólitískum tilgangi og vegna einkahagsmuna, en vegna beinnar umhyggju fyrir umhverfinu og er slíkt ekki trúverðugt. 

Viðhorf fólks til umhverfismála og náttúruverndar er og verður mismunandi. Mikilvægt er að þeir sem hafa vald til ákvarðanatöku nái að sætta sjónarmið og komast að sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta. Á Íslandi ríkja veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar og tilheyri ég þeim hópi. Þar sem velferð mannsins og hamingju er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku, en jafnframt að slæm umgengni við náttúruna, jafnvel þótt hún skaði engan mann, sé eins og hver annar slóðaskapur eða niðurrifsháttur - náttúran sé merkilegt fyrirbæri og það að skemma hana að óþörfu eða eingöngu til að svala skammtímalöngunum örfárra manna sé engan veginn réttlætanlegt.

Undarlegt er að sjá jafn misvísandi skilaboð um náttúruvernd og fram komu í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins á 95. fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar í febrúar sl. þar sem nefndin var að fjalla um tengiveginn frá Skeiðholti að Leirvogstungu.

"Ljóst er að stækkun Mosfellsbæjar kemur til með að hafa áhrif á náttúru og viðkvæm svæði í sveitarfélaginu og þess vegna ber að fara með meiri nærgætni og hafa umhverfisjónarmið að leiðarljósi fyrir allar framtíðar vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ........

......Framkvæmd þessi þrengir verulega að íþróttastarfssemi hestamanna og e.t.v stækkun á hesthúsahverfinu. Ágætis byggingarsvæði er tekið undir veg og útilokar alla framtíðar uppbyggingu á þessu svæði."

Hvað er verið að segja með þessari bókun?  Ekki má gera veg fyrir íbúa nýs hverfis í bæjarfélaginu og tengja hverfið við miðbæ Mosfellsbæjar og tengja saman skólahverfi, en það er hins vegar allt í lagi að byggja upp fleiri hesthús á nákvæmlega sama landsvæði?

Hvernig sem á þessi mál er litið að hafa verður í huga að lög og leikreglur gilda um samspil manns og náttúru. Með lögum um umhverfismat, umhverfismat áætlana, náttúruvernd og fleiri lögum er búið að setja ramma og leikreglur sem ber að fylgja. Mikilvægt er að allir haldi vöku sinni,  jafnt  stjórnmálamenn, almenningur, fræðimenn og framkvæmdaaðilar. Það er skylda okkar allra að draga úr mengun þar sem slíkt er unnt og forðast óþarfa ágang og náttúruspjöll. Við eigum að gæta þess að beitt sé mótvægisaðgerðum til að draga úr beinum áhrifum á umhverfið og lífríki þar sem framkvæmdir fara fram. Það er sameiginleg ábyrgð okkar að gengið sé vel um náttúruauðlindirnar, bæði okkar vegna og ekki síður komandi kynslóða.

Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs

Greinin birtist í 5. tbl. Mosfellings 4. apríl 2008 


Elísabet og Hreiðar á Hæðinni

fallegastarymid

Ég var svo heppin áðan að hitta Hilmar ritstjóra Mosfellings í Hlégarði á Stóru upplestrarkeppninni og fékk hjá honum nýja blaðið. Svo þegar heim var komið sá ég í Mosfellingi sjálfum, blaði allra Mosfellinga að Elísabet og Hreiðar vinir okkar á Hæðinni eru með bloggsíðu....  og við vissum það ekki Blush.

.... en það verður gaman að skreppa í heimsókn til þeirra og svo ég tali nú ekki um að fá þau aftur heim í sveitina....

elisabethreidar-haus

tu tu... gangi ykkur vel bráðum hjón..


Pabbi peran mín er ónýt, viltu skipta um batterí

Sædís Erla í keilu

Það var skondið að fylgjast með krökkunum í dag þegar þau komu heim úr skólanum og allt var rafmagnslaust í Mosfellsbænum. Allt sem stráknum datt í hug að gera krafðist rafmagns og á endanum sagði hann að þetta væri ótrúlegt það bara væri ekki hægt að gera neitt án þess að hafa rafmagn... "Hvað gerði fólk eiginlega í gamla daga þegar það var ekkert rafmagn" sagði þá vinur hans. ... Þau fóru að spila krakkarnir og svo kom litla skottið heim. Þá var rafmagnið rétt svo komið á og við vorum enn að ræða rafmagnsleysið... þá sagði hún þessi elska, eftir að ég hafði haldið sömu ræðuna og venjulega við slíkt tækifæri...... "Í gamla daga var sko ekkert sjónvarp, bara Rás eitt, engar tölvur og DVD og ......   "já en mamma var matur í gamla daga?"Crying

En best þótti mér samt þegar  hún kom lallandi með peruna úr lampanum sínum áðan og sagði að hún væri biluð og hvort pabbi gæti ekki skipt um batterí! LoL

Hún er milljón skvísan og heldur uppi stuðinu líkt og sjá má á myndinni sem tekin var um daginn þegar við fórum með afa á Rifi í keilu.


mbl.is Rafmagn komið á að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband