Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Skólarnir okkar

DSC05423

Það er stór stund þegar börn byrja í grunnskóla og var mikill spenningur á mínu heimili þegar yngsta dóttir mín hóf grunnskólagöngu sína síðasta haust. Undirbúningur fyrir skólagönguna byrjaði markvisst í leikskólanum m.a. með verkefninu „Brúum bilið" og höfðum við rætt skólabyrjunina heima, en engu að síður var sú stutta samt búin að ímynda sér þetta eitthvað öðruvísi því eftir fyrsta skóladaginn sagði hún með undrunarsvip,  „mamma þetta var bara alveg eins og í leikskólanum". Þegar við fórum að ræða málin þá kom í ljós að hún hélt að strax fyrsta daginn myndi rigna bókstöfum og tölustöfum. Leikur myndi heyra sögunni til og þau fengju vart að anda. Því var þungu fargi af henni létt og bætti hún því við að kennarinn væri líka skemmtilegur.

Skólar barnanna okkar skipta mjög miklu máli og velja margir sér búsetu eftir því hvernig þeim líst á skólamálin. Sem foreldri þriggja barna sem hafa verið og eru í leik- og grunnskólum bæjarins er ég sannfærð um að hér í Mosfellsbæ er rekið metnaðarfullt skólastarf. Í skólunum starfa samstilltir hópar fólks sem leggja mikið upp úr því að það nám sem fram fer taki mið af þroska og þörfum hvers barns þar og skólinn hefur lagt uppeldisstefnu, sem hefur eflt krakkanna til ábyrgðar á eigin verkum. Skólafólkið er líka hugmyndaríkt og þróunarverkefnin bæði fjölbreytt og spennandi. Má nefna 5. ára deildir við grunnskólana, tónlistarnám í grunnskóla og Skólahljómsveit og einstakan Listaskóla. Hér er útikennsla, spennandi raungreinakennsla og tungumálanám. Líkamsrækt fyrir unglinga sem ekki njóta sín í almennri íþróttakennslu. Krikaskóli nýjasti skóli Mosfellsbæjar hefur þegar komist á spjöld skólasögu Íslands. Pollagallaskólinn, sem er samþættur leik- og grunnskóli fyrir börn frá 1- 9 ára, þar sem mikil áhersla er lögð á tengingu skólans við nærsamfélagið. Þá má ekki gleyma hve vel hefur tekist til með þróun félagsmiðstöðvarinnar við Lágafellsskóla með þeirri breytingu sem varð á starfi og starfsaðstöðu þar.

Í Mosfellsbæ er áhersla lögð á að þjónusta við foreldra vegna yngstu barnanna, enda slíkt nauðsynlegt í nútímasamfélagi. Frístundasel grunnskólanna mynda heildstæða umgjörð um skóladag barnanna og er litla dóttir mín ánægð með starfið. Hún stundar m.a. Kirkjukrakka og ýmislegt val og er alsæl með íþróttafjör Aftureldingar sem hún fer í tvisvar í viku. Þar kynnast börnin hinum ýmsu íþróttagreinum s.s. Taekwondo, handbolta, fótbolta, blak og fimleika og sér maður hvernig hugmyndir hennar um íþróttagreinarnar breytast við að prófa. Það er til fyrirmyndar hvað vel hefur tekist til með samþættingu starfsins milli skóla og Aftureldingar.

Þegar á heildina er litið eru foreldrar og sveitarfélagið örugglega að ala upp börn sem eru ánægð með skólana sína, skólastarfið og eru ábyrg og virk í námi sínu og lífi.

Nýlega lukum við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 þar sem áhersla er lögð á að verja grunn- og velferðarþjónustu sveitarfélagsins. Við óhjákvæmilega hagræðingu er forgangsraðað í þágu barna og velferðar og ekki er gert ráð fyrir hækkunum á þjónustugreiðslum barnafjölskyldna í leik- og grunnskólum. Bæjarstjórn stóð sem einn maður að áætluninni og er það von mín að áfram takist okkur að ná samstöðu um skólastarfið og velferð barnanna okkar.

Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins.

Herdís gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 6. febrúar nk. Meira um Herdísi á www.herdis.blog.is

Styttri útgáfa af greininni birtist í Mosfellingi 15. janúar 2010


Jarðskjálftinn stóri á Haítí 12. janúar 2010

Þegar náttúruhamfarir ríða yfir, líkt og stóri jarðskjálftinn á Haítí fer mikið viðbragð af stað um allan heim. Alþjóðlegar björgunarsveitir og ráðgjafateymi bjóða fram aðstoð sína sem heimamenn meta og þiggja eftir föngum. Í þessu tilfelli á Haiti er þörf á mikilli aðstoð. Þetta er fátækt ríki og innviðir samfélagsins veikir og því augljóst að hamfarir líkt og jarðskjálfti upp á rúmlega 7 á Richter, bætir enn ofan á hörmungarnar. Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum, og allt að 3 milljónir manna þurfi á tafarlausri neyðarhjálp að halda.

Viðbragð íslensku alþjóðlegu rústabjörgunarsveitarinnar var frábært, sem skiptir miklu máli þegar teymi eru að koma að.  Skjót viðbrögð eru ekki síst mikilvæg við þær aðstæður sem eru á Haiti, mikið af rústum og skipta því fyrstu dagar í rústabjörgun miklu máli. Stjórnendur sveitarinnar munu svo hitta fulltrúa Sameinuðu þjóðanna á svæðinu og mun sveitin vinna í samstarfi við þá.

Þau hjálparlið sem mæta fyrst á vettvang koma oft að skipulagningu hjálparstarfsins. Ekki er ólíklegt að íslenska sveitin, eða þeir stjórnendur sem með sveitinni starfa  komi að slíkri skipulagningu þar sem sveitin var með þeim fyrstu, ef ekki sú fyrsta. Það þarf að koma upp fjarskiptum og samhæfingu aðgerða, en yfirsýn er mikilvæg í svo víðtæku hjálparstarfi. Það þarf líka að huga að því að fá rétta mannskapinn og búnað á staðinn og því er að mörgu að hyggja.

Sérstök samhæfingarteymi koma í fyrsta viðbragði og hefur Alþjóðlegi Rauði krossinn þegar sent átta manna matsteymi á staðinn. Rauði krossinn hefur einnig sent níu önnur neyðarteymi frá Evrópu og Norður-Ameríku sem skipuð eru heilbrigðisstarfsfólki og sérfræðingum til að mynda í hreinsun vatns, byggingu neyðarskýla, birgðaflutningum og fjarskiptum.

Þær myndir sem sést hafa sýna mikla eyðileggingu og blöstu rústir og hópar fólks sem safnast höfðu saman á opnum svæðum við íslendingunum við komu til Haítí. Þeirra bíða erfið verkefni framundan. Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí vinna nú í kapp við tímann við björgun og aðhlynningu slasaðra. Rauða kross félög á svæðinu hafa einnig sent sjálfboðaliða og hjálpargögn áleiðis til Haítí. Erfiðlega reynist að fá upplýsingar af hamfarasvæðunum þar sem símalínur eru slitnar í sundur og rafmagnslaust er að mestu.

Rauði krossinn er byrjaður að dreifa hjálpargögnum í höfuðborginni Port-au-Prince, en neyðarbirgðir Rauða krossins í landinu duga til að veita um 13.000 fjölskyldum aðstoð fyrstu dagana. Verið er að leita leiða við að senda meiri hjálpargögn frá birgðastöðvum Alþjóða Rauða krossins í Panama.

 

Hægt er að styrkja hjálparstarfið á Haítí með því að hringja í síma 904 1500, bætast þá 1500 krónur við næsta símreikning. Símtalið kostar 79 kr. Fólk getur líka styrkt beint með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.


Herdís í 2. sæti í Mosfellsbæ

Ágæti Mosfellingur 

Ég býð mig fram í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ sem fram fer 6. febrúar næstkomandi. Ég hef verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ frá árinu 1998 og  er formaður bæjarráðs í dag og sit m.a. í umhverfisnefnd.

Af hverju býð ég mig fram aftur?

Brennandi áhugi á málefnum samfélagsins, vilji til að hafa áhrif og þrá til að koma málum í framkvæmd varð kveikjan að því að ég ákvað að taka þátt í sveitarstjórnarmálum í upphafi. Sá logi logar enn glatt og því ákvað ég að bjóða mig fram til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Jafnframt er það von mín að sú reynsla og þekking sem ég hef geti nýtist vel og ekki síst á þeim tímum sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum núna. 

Ég legg áherslu á góðan rekstur, skilvirka stjórnsýslu og uppbyggingu samfélagsins, í góðri sátt við íbúa og umhverfi.

Ég hvet Mosfellinga til að taka þátt og velja framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara í maí. Ég heiti því að vinna áfram af krafti og heilindum fyrir bæjarfélagið og óska eftir stuðningi þínum í annað sæti.

Hver er Herdís Sigurjónsdóttir

Stutta útgáfan

Stutta útgáfan er sú að ég er Íslendingur, Mosfellingur, Siglfirðingur og eldhugi. Stoltust er ég af því að vera mamma, eiginkona, dóttir systir, vinkona. Áhugamálin snúast um samfélagið í nærmynd, en er líka áhugaljósmyndari, sjálfboðaliði, vafrari og skúffurithöfundur. Er sjálfstæðiskona, bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og sit í ýmsum nefndum og stjórnum og er m.a. stjórnarformaður Sorpu bs.. Er umhverfis- og auðlindafræðingur, lífeindafræðingur, doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu við HÍ og starfsmaður hjá VSÓ Ráðgjöf. En nánari upplýsingar um flesta liði koma hér á eftir.

Lengri útgáfan

Ég er fædd 8. desember 1965 á Siglufirði þar sem ég bjó þar til ég fór í framhaldsskóla. Foreldrar mínir eru Sigurjón Jóhannsson og Ásdís Gunnlaugsdóttir og búa þau á Siglufirði. Systkini mín eru Kristín sem býr í Grindavík og Jóhann sem búsettur í Seattle í Bandaríkjunum.

Ég er gift Erlendi Erni Fjeldsted byggingartæknifræðingi sem starfar hjá Eflu og eigum við þrjú börn, Ásdísi Magneu 17 ára, Sturlu Sæ, 14 ára og Sædísi Erlu 6 ára. Við hjónin fluttum í Mosfellsbæ 1990 og búum í Rituhöfða ásamt börnum okkar og hundinum Skvísí.

Bæjarfulltrúinn

Ég hef setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þrjú kjörtímabil, eða frá 1998 og á þeim tíma hefur stöðugt bæst í reynslubankann.

Í dag er ég formaður bæjarráðs, en hef einnig verið forseti bæjarstjórnar og gegnt formennsku í fræðslunefnd (2006-2009), fjölskyldunefnd (2002-2006) og dómnefnd Krikaskóla. Árið 2008 var skipaður samstarfshópur í Mosfellsbæ vegna efnahagsástandsins í samfélaginu sem ég veiti formennsku. Hef ég einnig setið í umhverfisnefnd (1998-2002), báðum stýrihópum Staðardagskrár 21. sem starfað hafa í Mosfellsbæ. Ég hef setið í almannavarnanefnd frá 2005 og áhættu-greiningarnefnd á vegum nefndarinnar. Öldrunarmál eru mér hugleikin og hef ég setið í stjórn og fulltrúaráði hjúkrunarheimilis Eirar frá árinu 2004.

Mosfellsbæ er aðili að þremur byggðasamlögum Sorpu, Slökkviliðinu og Strætó, og hef ég verið aðal- og varafulltrúi í þeim öllum og hef því góða þekkingu á hlutverki þeirra og rekstri. Ég hef setið í stjórn Sorpu bs. frá 2004 og er nú stjórnarformaður. Í dag er ég jafnframt varamaður bæjarstjóra í stjórn slökkviliðsins og samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).

Ég hef setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum utan stjórnsýslu Mosfellsbæjar. Nýlega var ég skipuð bæði Brunamálaráð og skólanefnd Brunamálaskólans og sit þar sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Frá 2007 hef ég setið í stýrihópi staðardagskrár 21 á landsvísu, fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Árið var 2004 hef ég verið varamaður í stjórn Fjölsmiðjunnar, fyrir hönd sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ég var skipuð í starfshóp á vegum félagsmálaráðuneytisins sem mótaði reglur um þjónustu við 16 - 20 ára fötluð ungmenni að loknum skóladegi í framhaldsskóla. Starfshópurinn starfaði árin 2007- 2008.

Alla tíð hef ég verið virk í félagsstörfum. Á árum áður sat ég í nemendaráðum í Reykjaskóla í Hrútafirði 1981-1983 og  Tækniskóla Íslands 1986-1988, auk þess  að sitja í ýmsum foreldra-félögum og starfsmannafélögum. Ég tók þátt í starfi Endurreisnarnefndar Sjálfstæðis-flokksins og á síðasta var ég kosin í varastjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Menntun og starfsreynsla

Menntun mín og starfsreynsla er nokkuð fjölbreytt og nýtist vel í starfi sveitarstjórnarmanns. Á árum áður starfaði ég m.a. við fiskvinnslu, umönnun á sjúkrahúsi og öldrunadeild, þrif, sjómennsku og rannsóknastörf.

Ég lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1985 og lífeindafræðiprófi frá Tækniskóla Íslands árið 1989 og fór þá að vinna við fisksjúkdómarannsóknir á Keldum. Þar vann ég við fisksjúkdómarannsóknir og tók þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum hér heima og erlendis. 

Á Íslandi er starf sveitarstjórnarmanns að öllu jöfnu ekki aðalstarf og því hef ég sinnt öðrum störfum samhliða. Ég vann á Keldum eins og áður sagði þegar ég byrjaði í bæjarstjórn, en haustið 1998 hóf ég störf hjá Rauða krossi Íslands þar sem ég starfaði í 9 ár.

Hjá Rauða krossinum vann ég fyrst sem svæðisfulltrúi á höfuðborgarsvæði, en frá 2001 sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðaraðstoð og sá m.a. um fræðslu, æfingarmál og ráðgjöf félagsins á því sviði. Var varamaður framkvæmdastjóra í almannavarnaráði 2005-2007. Ég var fulltrúi Rauða krossins í samræmingarnefnd vegna hjálparliðs almannavarna 2003-2007 og sat í samráðsnefnd vegna samhæfingarstöðvar almannavarna, 2006-2007. Ég var fulltrúi í Ráðgjafahópi Flugstoða ohf. og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna hópslysaæfinga. Frá 2001 til 2007 var ég í áhöfn Rauða krossins í Samhæfingarstöð almannavarna og hafði umsjón með starfi Rauða krossins í stöðinni sem og landsskrifstofu og samræmingu á viðbrögð félagsins á neyðartímum.  Sem verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum. Þar vann ég m.a. að því að efla neyðarvarnakerfi félagsins um allt land og vann náið með almannavörnum og öðrum viðbragðsaðilum og þekki því skipulag almannavarna vel.

Í dag er ég sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og sit m.a. í rekstrarstjórn Fatasöfnunar.

Árið 2006 hóf ég meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands og lauk prófi í febrúar 2009. Fjallaði meistaraverkefni mitt um hlutverk sveitarstjórna á neyðartímum og við endurreisn eftir náttúruhamfarir og önnur samfélagsleg áföll. Samhliða tók ég þátt í þriggja ára rannsóknarverkefni Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum sem lauk haustið 2008.

Meistaraverkefnið skildi eftir óvissu um ýmislegt er tengist stjórnsýslu og samskiptum ríkis og sveitarfélaga á neyðartímum og ekki síst hvað varðar kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Því lá beint við að halda áfram með rannsóknina og hóf ég því doktorsnám í opinberri stjórnsýslu og áfallastjórnun við stjórnmálafræðideild HÍ árið 2009.

Ég hóf störf hjá VSÓ Ráðgjöf í apríl 2009. Þar starfa ég við ráðgjöf við sveitarfélög og fyrirtæki í neyðarstjórnun og ýmis verkefni tengd stjórnsýslu, umhverfis- og skipulagsmálum, auk þess að sinna doktorsrannsókn samhliða.  

Ritstörf

Ég gaf úr bók árið 2008, Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum, ásamt samnefndum rannsóknarhópi. Sat í ritstjórn Varmár, sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ og setti upp netsíðu félagsins. Gaf út fréttablað svæðisskrifstofu RKÍ á höfuðborgarsvæði og skrifaði fréttir og upplýsingaefni tengt starfinu á netsíðu Rauða kross Íslands.  Hefur skrifað vísindagreinar er tengjast fisksjúkdómum og viðbrögðum sveitarstjórna eftir náttúruhamfarir. Ég hef einnig skrifað fjölda greina um sveitarstjórnarmál í dagblöð og bæjarblöð og hefur haldið úti eigin heimasíðum frá 2000.    

Herdís Sigurjónsdóttir

Prófkjör sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fer fram 6. febrúar næstkomandi og óskar Herdís eftir stuðningi í 2. sætið. 

Stuðningsmannasíða Herdísar á Facebook - Herdís Sigurjónsdóttir í 2. sæti

Hægt er að hafa samband við mig á herdis@mos.is

 

 

 

                                                                                                


Sagan af Kálfagerðisbræðrum

Í dag kvaddi ég Harald Árnason, eða Halla Árna eins og hann var alltaf kallaður.

Halli hefur alla tíð verði hluti af mínu lífi og sé ég hann fyrir mér brosandi með sitt einstakt blik í augunum og sjarma. Alltaf jafn glæsilegur og mun ég sakna hans. Enginn Halli á F 33 á götum bæjarins lengur. 

Hann Halli var mikið heima þegar ég var krakki. Hann og pabbi spiluðu saman, veiddu saman, gerðu heimsins bestu hákarlastöppu saman. Ég fór margar ferðirnar í olíubílum með þeim pabba og Halla og fékk meira að segja að fara í Portið, en hafði þó ekki aldur til að "ganga til altaris". Hann Halli spilaði oft við mig þegar ég var yngri og á ég eina yndislega mynd, sem ég held mikið upp á af okkur Halla spilandi á spil inni í stofu. Halli var þó ekki mikið á Laugarvegi 15 síðustu árin, en var alltaf jafn gaman að hitta hann og á ég margar góðar minningar um yndislegan mann. 

Barnabörnin tóku virkan þátt í athöfninni í dag, Árni Þór söng fallega og Selma dóttir Árna spilaði yndislega á flautu. Margt var við jarðaförina sem var í anda Halla, falleg og sögur sagðar af honum sem fengu fólk til að hægja, sem er nú ekki algengt við jarðafarir.

Ein sagan var af skotfimi Halla. Hann var sagður hafa skotið að tveimur mönnum, sem voru á rjúpnaskytteríi í Hraunalandi, þar sem Halli skaut gegn því að sjá um æðavarpið fyrir Pétur. Nú Hallli var kallaður fyrir sýslumann, en brást hann hinn vesti við og lét sýslumann vita að skotmaðurinn hafi sko ekki verið hann, því hann hefði klárlega hitt þá.

Ég hef heyrt margar sögur af þeim Halla og pabba og rifjuðum við eina þeirra upp í dag þegar við komum heim.

Þeir vinir, pabbi og Halli Árna höfðu gaman að því að fá sér í glas saman. Þeir sátu einu sinni sem oftar niðri á hótel Höfn hjá Palla vini sínum hótelstjóra og var mikið fjör hjá þeim félögum. Þeir urðu svangir eins og gengur og gaf Palli þeim að borða þessa líka dýrindis steik. Þeir vildu þá fá að vita hvaða kjöt þetta væri. „Kálfakjöt" sagði Palli og spannst mikil umræða um þvílíkt lostæti þetta væri og þá sagi Palli „ Af hverju kaupið þið ekki bara kálf á fæti?" Þeir pabbi og Halli urðu strax nokkuð spenntir fyrir hugmyndinni og veltu fyrir sér hvar væri hægt að ná sér í kálf. Þá sagði Palli þeim að hægt væri að fá nýborna kálfa á Hóli.

Þeir félagar settust yfir viðskiptaáætlunina (sjálfsagt gerð á servíettu frá Hótel Höfn) og reiknuðu út væntanlegan gróða af kálfaútgerðinni. Hvort sem það stafaði af eldvatninu sem í æðum þeirra rann, eða einhverju öðru þá var samdóma álit þeirra og allra viðstaddra að kálfarækt væri nú lítið mál og þeir myndu stórgræða á fyrirtækinu. Þeir gætu gefið kálfunum matarafganga frá heimilunum á Laugarvegi 15 og 33 og svo gætu þeir keypt ódýra undanrennu til að gefa þeim. Svo væri líka upplagt að láta þá bíta grasið á ballanum, sem myndi meira að segja spara slátt. Sem sé, kálfarækt var málið. Eins og með flest sem þeim datt í hug þá voru þeir ekkert að dvelja við hugsunina lengur og hringdu að Hóli og viti menn! Þar voru einmitt tveir nýbornir kálfar.

Fjörið hélt áfram fram eftir nóttu og gleymdu þeir fljótt kálfaútgerðinni. En á fögrum vordegi var bankað á dyrnar á Laugarvegi 15. Mamma fór til dyra og stóð þar maður sem sagðist vera kominn með sendingu til Budda skipstjóra. Pabbi var vakinn upp með hraði. Þegar hann kom til dyra og leit út, rifjuðust hratt upp atburðir næturinnar. Fyrir utan húsið var bíll með kerru. Á kerrunni stóðu tveir nýbornir kálfar, sem horfðu stóreygir beint í augun á sínum nýja húsbónda.

Pabbi hrökk við og glaðvaknaði. Hann sagði með hraði að afhending ætti að fara fram hjá Halla Árna og fóru þeir þangað með kálfana sem voru settir á ballann fyrir neðan húsið. Sjálfsagt hafa þeir félagar verið búnir að henda viðskiptaplaninu, því kálfarnir voru aldir á dýrindis nýmjólk sem þeir fengu beint úr 10 lítra beljum. En pabbi slapp vel því hann fór á sjóinn og lenti kálfauppeldið því allt á Halla. Kálfarnir höfðu mikla matarást á húsbónda sínum, Haraldi Árnasyni og komu þeir hlaupandi baulandi á móti honum í hvert sinn sem hann kom heim í mat eða svo mikið sem keyrði eftir Laugarveginum.

Kálfaútgerðin stóð í eitt sumar. Kálfarnir voru elskaðir og dáðir af krökkunum í hverfinu, enda gæfir sem heimalningar. Eitthvað voru þeir þó að sleppa út úr girðingunni. Eitt sinn gerðu þeir sig heimakomna við hurðina hjá Hönnu Stellu og Kidda G á móti. Segir sagan að þau hafi þurft að moka sig út úr húsinu og Halli hafi sést á fjórum fótum að þrífa upp skítinn eftir blessaða kálfana.

Um haustið var komið að slátrun og fóru útgerðarmennirnir því að velta fyrir sér endalokunum. Þeir sömdu við Venna sláturhússtjóra um eina flösku á kálf og keyrðu þá svo „upp í sveit". En þeir pössuðu sig þó á því að segja krökkunum ekki, að um væri að ræða himnasveitina, en ekki þessa eiginlegu með græna grasinu.

Kálfagerðisbræður, eins og Venni slátrari kallaði þá fóru þó ekki út í frekari útgerð. Enda hefur eiginlegur hagnaður sjálfsagt ekki verið mikill af fyrirtækinu. Nutu þeir félagar þó hvers munnbita, enda kálfarnir afar vel aldir á túninu við Laugarveg 33 og við hin getum hlegið að uppátækinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband