Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Áhyggjulaust ævikvöld í Mosfellsbæ

Ný kynslóð aldraðra hefur sagt ellikellingu stríð á hendur og ætlar að njóta ævikvöldsins. Það er hlutverk samfélagins að koma í veg fyrir félagslega einangrun aldraðra og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á þeirra eigin forsendum. Þannig má koma í veg fyrir mörg sársaukafull og kostnaðarsöm vandamál.  Heilbrigði er dýrmætasta eign hvers einstaklings og um leið ein verðmætasta auðlind hverrar þjóðar.

Lýðheilsa eldri borgara

Hér á landi hefur ekki mikið verið fjallað um lýðheilsu aldraðra en mikilvægt er að hlúð sé að þeirra þörfum. Óþægilegir fylgikvillar ellinnar eru kvíði, þunglyndi og félagsleg einangrun. Mikilvægi hreyfingar og félagslegrar virkni er stór þáttur í því að halda heilsu og því ánægjulegt að fylgjast með öflugu- íþrótta og félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ.

Bætt félagsaðstaða

Sjálfstæðismenn  í Mosfellsbæ fagna öflugu starfi FaMos, Félagi aldraðra í Mosfellsbæ. Við ætlum að bæta aðstöðu aldraðra með nýrri félagsmiðstöð sem Mosfellsbær byggir samhliða hjúkrunarheimili, sem brátt rís við Langatanga. Jafnframt bjóðum við FaMos, aðstöðu í Brúarlandi þegar Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ flyst yfir í nýtt húsnæði og fela þeim aukin verkefni. 

Öldrunarsetur

Með byggingu hjúkrunarheimilis við öryggisíbúðir verður markmið okkar um öldrunarsetur sem hófst árið 2003 náð. Fagnaðarefni er að fljótlega verður hægt að veita heildstæða þjónustu við aldraða í Mosfellsbæ. Það er ekki síður mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem velja að dvelja sem lengst heima s.s. með samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar aðstoðar.

Systurnar heilbrigði og gleði ná yfirleitt miklum árangri saman. Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og  það ekki fyrr en hún brestur að fólk áttar sig á hve miklu máli hún skiptir.  Við sjálfstæðismenn viljum öflugt samstarf við FaMos og stuðla að því aldraðir í Mosfellsbæ fái notið aukinna lífsgæða og virkrar þátttöku í samfélaginu.

Grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2010

Höfundar eru Herdís Sigurjónsdóttir og Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ


Stefnuskrá sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ 2010 - 2014

Hér er að finna stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ vegna sveitarstjórnarkosninganna 2010.

stefnuskra


Íþrótta- og útivistarbærinn Mosfellsbær

 

Ávarp flutt á kvöldvöku Aftureldingar sem haldin var 5. maí 2010 í Listasalnum í Kjarna þar sem stjórnmálaflokkar í Mosfellsbæ fengu tækifæri til að kynna stefnuskrá sína í íþrótta- og tómstundamálum

IMG_3483

Fundarstjóri kæru fundarmenn

Mosfellsbær er mikill íþrótta- og útivistarbær. Það eru ekki orðin tóm og ætla ég í þessari ræðu að rökstyðja það og kynna jafnframt stefnuskrá sjálfstæðismanna í íþrótta- og tómstundamálum. 

Mosfellsbær hefur fyrst bæjarfélaga mótað lýðheilsustefnu og eru aðstæður Mosfellinga einstakar. Má nefna hina ósnortnu náttúru, stígakerfið og fjölbreytta aðstöðu til iðkunar íþrótta og tómstunda. Slík aðstaða væri til einskis ef engir væru íbúarnir, enda er það ekki raunin í Mosfellsbæ þar sem hér búa um 8600 manns og er hlutfall barnafjölskyldna hátt. Síðast og trúlega mikilvægast í þessari upptalningu, er að hér starfa öflug íþrótta- og tómstundafélög sem skipta miklu máli fyrir samfélagið okkar. Þúsundir sjálfboðaliða hafa í gegnum árin lagt metnað sinn í að sinna þörfum samfélagsins, í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld.  Íbúum til heilla.

Má þar fyrst nefna  hið aldargamla en síunga Ungmennafélag Aftureldingu. Einnig má nefna Golf-klúbbana Kjöl og Bakkakot, Hestamannafélagið Hörð, Mótomos, Gáski, björgunarsveitina Kyndil og skátafélagið Mosverja. Í öllum þessum félögum og fleiri til er unnið óeigingjarnt starf. Sem ber að þakka.

Um leið og við horfum til framtíðar, er vert að skoða hluta af því sem gert hefur verið á liðnum árum. Verkefni sveitarfélagsins hafa falist í uppbyggingu aðstöðu s.s. nýju íþróttamiðstöðinni Lágafelli, þar sem rekin er ein vinsælasta almenningssundlaug landsins. Nýr gervigrasvöllur við Varmá, áfram-haldandi uppbygging golfvallar í samstarf við Kjöl og bygging reiðhallar í samvinnu við Hörð. Einnig hefur Mótomos byggt upp langþráða aðstöðu með aðstoð bæjarins.

Beinn stuðningur við tómstundafélögin hefur einnig aukist. Framlög bæjarins til málaflokksins hafa rúmlega tvöfaldast á síðustu fjórum árum og farið út 218 mkr. árið 2006 í 545 mkr. árið 2009. Sem hlutfall af skatttekjum hafa framlög til íþrótta- og tómstundamála, sífellt verið að aukast og er nú svo komið að Mosfellsbær er í fararbroddi sveitarfélaga um framlög til íþrótta- og tómstundamála. 16% af skatttekjum bæjarins fara í þennan málaflokk á meðan meðaltalið fyrir höfuðborgarsvæðið og landið allt er um 12%. 

Á kjörtímabilinu voru gerðir árangurstengdir samningar um meistaraflokka Aftureldingar í handknattleik og knattspyrnu, og nýtur félagið góðs af því þegar vel gengur eins og nú. Eins var endurnýjaður samningur um barna- og unglingastarf þar sem styrkir voru auknir verulega. Framundan er endurnýjun samninga.

Nýtt skref var stigið síðastliðið haust með tilkomu íþróttafjörs fyrir yngstu Mosfellingana, það er mikilvægt verkefni í þá veru að gera íþróttaiðkun og tómstundastarf að lífsstíl sem hefur mikið forvarnagildi. Ekki er einvörðungu horft til þess að ala upp afreksfólk heldur er lögð áhersla á þátttöku allra og ekki síst þeirra sem ekki fá hvatningu til iðkunar að heiman.

Mosfellsbær leggur áherslu á lýðheilsu og forvarnir í sinni víðustu mynd, fyrir unga sem aldna og fögnum við hugmyndum Aftureldingar varðandi hreyfingu þeirra sem eldri eru.

Áfram skal haldið

Það er mikilvægt að staðinn verði vörður um þessa mikilvægu starfsemi hér í okkar góða bæjarfélagi og ekki síst á þeim tímum sem við lifum í dag.

Í stefnuskrá okkar fyrir kosningar 2010 kemur einnig fram:  

Við sjálfstæðismenn viljum að samstarf bæjarins við íþróttafélögin taki mið af uppeldis- forvarnar og félagslegum gildum.  Slíkt samræmis þeirri stefnu sem Jón kynnti áðan. Það er göfugt markmið að setja sér stefnu um að 80% barna að 12 ára aldri verði virk í Aftureldingu.

Við ætlum í áframhaldandi uppbyggingu að Varmá og m.a. tryggja með því viðunandi félagsaðstöðu.  Munum við vinna með Aftureldingu að aðstöðumálum og færa þeim ríkari ábyrgð á skipulagi og nýtingu sameinginlegra íþróttamannvirkja. 

Sú vinna hófst að frumkvæði Aftureldingar. Markmiðið með því er að auka og bæta nýtingu fjármuna, bæta eftirlit með nýtingu og opnar það einnig möguleika á að Afturelding geti með því móti skapað tekjur innan venjubundins opnunartíma.

Við ætlum að halda íþróttaþing með félögum bæjarins til að auka samvinnu og samstarf við þau. Slíkt er nýung í sögunni. Á það að vera faglegur vettvangur innan sveitarfélagsins, þar sem hagsmunaaðilar mætast, skiptast á skoðunum og fá raunverulegt umboð til athafna. Leiðarljósið verða þessir punktar:

  • auka á formlega samvinnu og samstarf bæjarins við íþrótta- og tómstundafélög í bænum
  • auka á gagnkvæman skilning hagsmunaaðila á þörfum og væntingum hvorra annarra
  • auka skilvirkni og bæta nýtingu mannvirkja og fjármuna með aukinni samvinnu
  • fylgja eftir og marka áfram stefnu Mosfellsbæjar í íþrótta- og tómstundamálum
  • meta þörf á uppbyggingu og viðhaldi íþróttamannvirkja til lengir tíma og meta forgangsröð

Við teljum mikilvægt að leita leiða til að halda þátttökugjöldum barna og unglinga hófstilltum,  í góðu samstarfi við félögin.

Við ætlum áfram að tryggja að íþróttamiðstöðin að Lágafelli þjónusti íbúa bæjarins og gesti með fyrsta flokks aðstöðu.

Við viljum stuðla að uppbyggingu á framtíðaraðstöðu fyrir skátastarf og framboði á fjölbreyttri útivistaraðstöðu í Ævintýragarðinum og er samstarf við Skátana  mikilvægt í þeirri uppbyggingu.

Okkar framtíðarsýn er að fjöldi íbúa og ferðamanna heimsæki Ævintýragarðinn.

Við ætlum einnig að fjölga stikuðum gönguleiðum og bæta útivistaraðstöðu við Hafravatn.

Við viljum halda áfram uppbyggingu á brettasvæði við Völuteig og koma upp sparkvelli við Varmárskóla.

Við viljum stuðla að því að snjóframleiðsla verði hafin á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins.

Eins og þið heyrið þá hefur sjálfstæðisflokkurinn hug á að efla íþrótta og tómstundastarf í bænum og auka samstarf við okkar öflugu félög við framkvæmdina. Við viljum gæta jafnræðis þar sem mikill fjöldi íþrótta- og tómstundafélaga eru starfandi hér í bæ og er það lýsandi fyrir þann kraft sem í bæjarfélaginu býr.

Það er mikilvægt á tímum sem þessum að við hugsum inná við og styðjum við það góða starf sem unnið er hjá íþrótta- og tómstundafélögum í Mosfellsbæ. Við viljum halda áfram að byggja upp góða aðstöðu og eru mörg verkefni óleyst.

Við sjálfstæðismenn munum áfram leggja okkur fram um að Mosfellingar og aðrir geti eflt líkama og sál í íþrótta og útivistarbænum Mosfellsbæ,  í dag og til langrar framtíðar.

 

 


D-listamenn á göngu um Mosfellsbæ

Í gær gekk ég mína fyrstu kosningagöngu í þessari kosningabaráttu. Við ætlum okkur að ganga í hvert hús í bænum og efast ég ekki um að það takmark náist. Að mínu mati er þetta einn skemmtilegasti hluti baráttunnar og nýt ég þess að hitta fólk og ræða bæjarmálin. 

Fyrst fór ég með Halla tíunda í Arnartangann og afhentum við stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna og ræddum við fólk. Flestir voru jákvæðir og ánægðir með að við værum að ganga í hús. Ég ætla ekki að vera svo barnaleg að halda að allir þeir þessi jákvæðu ætli sér að kjósa okkur sjálfstæðismenn, en vissulega sögðust margir ætla að gera það, sem er ánægjulegt. Einn ágætur viðmælandi spurði mig hvort við ætluðum nú að reyna að moka yfir fortíðina. Ég sagði að það væri engin þörf fyrir slíkan mokstur hér í Mosfellsbænum, við værum við stolt af fortíðinni og ætluðum að standa okkur vel áfram. Þá fór hann að tala um að hann svæfi bara hérna, væri ekki alveg inni í málunum. Hann varð bara nokkuð sáttur þegar ég sagði honum að hann gæti sofið rólegur því hann byggi í mjög vel reknu sveitarfélagi.

IMG_3349 IMG_3348

Við tókum okkur matarhlé og fengum þessa líka djúsi lúðu úr Fiskbúðinni Mos sem Snorri Gissurar grillaði ofan í okkur göngugarpana. Eftir matinn hlupum við Bryndís, Hafsteinn og Kolla Skeljatangann og tók ég svo Rituhöfðann á leiðinni heim og hitti marga góða granna.

Ég hlakka til að halda áfram að dreifa og ræða við Mosfellinga og kynna þeim stefnu okkar sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.

Í Mosfellsbæ er framtíðin björt, fjárhagurinn traustur, umhverfið fagurt og mannlífið blómlegt. Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að hér geti íbúar á öllum aldri búið við bestu aðstæður og fái notið góðrar þjónustu. Sjálfstæðismenn vilja fylgja gildum Mosfellsbæjar virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband