Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Risaánamaðkar á minni lóð

Mér þótti þetta pínulítið skondin frétt, ég verð nú bara að segja það. Sjáið ekki fyrir ykkur fyrirsögnina: Dæmdur fyrir að stela ánamöðkum Grin af hverju fékk maðurinn ekki bara leyfi til að leita að möðkunum.

Hér á minni lóð mæta mér feitir og pattaralegir ánamaðkar í öllum beðum. Ég var ekki búin að átta mig á því að maðkarnir mínir væru náttúruauðlind.

Hér er fróðleikur dagsins, beint af vísindavefnum.

Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals segir að orðið ánamaðkur/ánumaðkur sé afbökun á ámumaðkur.

Ámumaðkur er dregið af orðinu áma sem hér merkir það sama og ámusótt og á ekkert skylt með ámum sem öl er geymt í. Ámusótt er annað heiti yfir heimakomu sem er smitandi húðsjúkdómur. Ámusjúkir eru rjóðir í andliti, hafa sótthita og finna fyrir eymslum. Áður fyrr var sóttin algeng og leiddi oft til blóðeitrunar. Ámusótt er læknanleg með sýklalyfjum.

 Skýringin á því af hverju ámumaðkur dregur nafn sitt af ámusótt er sú að maðkurinn átti að lækna sóttina. Í heimild frá miðri 19. öld sem birtist í tímaritinu Blöndu árið 1918 er því lýst þegar "eg jagaði hana [þ.e. heimakomuna] úr mér með jötunuxum og ánamöðkum." Hér virðist sem ámusóttin hafi verið nudduð úr andliti hins sjúka með ánamöðkum og jötunuxum sem eru af bjölluætt.

Eftir því sem við vitum best á orðið ánamaðkur því ekkert skylt með dvergnum Ána sem nefndur er í Völuspá.

Heimildir og mynd:

  • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989.
  • Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
  • British Livebearer Association

mbl.is Ánamaðkaþjófur á ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegur afmælisdagur

Ragnheiður, Salóme og Herdís

Afmælishátíðin í gær í tilefni að 20 ára afmæli Mosfellsbæjar var einu orði sagt frábær. Það var mikil hátíðarstemming þegar fólk streymdi í bókasafnið sem komið var í hátíðarbúninginn. Ánægjulegt var að fjöldi bæjarbúa mætti til að samfagna með okkur og var einnig gaman að hitta fyrrverandi bæjarfulltrúa og embættismenn. Það var áhrifamikil stund þegar bæjarstjórn tók ákvörðun um að útnefna Salóme Þorkelsdóttur heiðursborgara Mosfellsbæjar. Þessi glæsilegu konu sem er búin að vinna af krafti fyrir okkur Mosfellinga, fyrrverandi alþingismaður og forseti alþingis. Það verður sérstök athöfn þar sem Salóme verður útnefnd þann 24. ágúst á hátíðinni " í túninu heima".

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Á hátíðarfundi bæjarstjórnar var einnig tekin ákvörðun um að gefa bæjarbúum útilistaverk í tilefni afmælisins, að stofna barna- og ungmennaráð sem mun taka þátt í öllum ákvörðunum er snúa að málefnum þeirra sjálfra í bæjarfélaginu, ég skrifa sérstaklega um það seinna en mér er þetta mál hugleikið. Svo er einnig um það að gera útivistar og ævintýragarð í Mosfellsbæ. Hér er einstaklega falleg náttúra allt um kring, fellin, árnar. Það er landsvæðið milli Varmár og Köldukvíslar sem við ætlum að reisa útivistargarðinn. Við ætlum að vera með samkeppni um hönnun og útfærslu á verkefninu. Þar hefur verið talað um að skátaheimilið muni rísa og einnig tjaldstæði og einnig verðu stór leiktæki þar sem öll fjölskyldan getur notið þess að vera saman og sprellað svolítið, hlaupið, veitt, gengið og hjólað. 

Ljósmyndasýning Mosfellings var skemmtileg og sýnir hún vel Mosfellsbæ í dag og mannlífið. Margar myndir snertu mann djúpt og hvað mig snerti þá var það klárlega myndin af okkur Ragnheiði Ríkharðs bæjarstjóra og Sigurði Helga Guðmundssyni forstjóra Eirar. Hún var tekin þegar ég tók fyrstu skóflustunguna að Eirhömrum, öryggisíbúðunum við Hlaðhamra þar sem hjúkrunarheimilið mun einnig rísa. Margar myndir voru líka bráðskemmtilegar eins og myndin sem tekin við jólakvöldverð bæjarstjórnar 2005. Við erum öll svo glaðleg og sumir skellihlæjandi. Ástæða. Jú Kalli Tomm blaðamaður og þá nýlega orðinn oddviti VG sagði áður en hann tók myndina að hann ætlaði sko að vera í þessum hópi eftir kosningar. Eðlilega stóð Karl Tómasson við sín orð og er nú forseti bæjarstjórnar. Vitanlega var líka ein mynd sem var tekin á túninu heima hjá Ragnheiði í Leirvogstungu, þegar við sjálfstæðismenn og hann mynduðum nýjan meirihluta og fór um mig ánægjuhrollur þegar ég skoðaði þá mynd. En var mikið spennufall á þessari stundu eftir mikla spennuviku. Vikuna eftir að við sjálfstæðismenn misstum meirihlutann og hinir flokkarnir höfðu verið í viðræðum dögum saman, sem ekki báru árangur.

IMG_3874 

Í lok hátíðarinnar var  verkið „...og fjöllin urðu kyr“ flutt í tali og tónum, en var það gert í tilefni afmælisins. Þar fóru glæsilegir listamenn og hreinlega gleymdi maður stund og stað sogaðist inn í verkið, sem er merki um að vel hafi tekist til og var það ánægjulegur endir á þessari hátíðarafmælisdagskrá í Mosfellsbænum.

 

 


mbl.is Salome Þorkelsdóttir heiðursborgari Mosfellsbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mosfellingum hefur fjölgað um nærri helming á 20 árum

Mosfellsbær í 20 ár

Mosfellsbær á 20 ára afmæli í dag 9. ágúst 2007. Fyrir tveimur áratugum varð Mosfellssveit að Mosfellsbæ og hefur margt breyst og sveitin sannarlega orðin að stórum bæ. Íbúum hefur fjölgað um nærri helming á þessum tíma eða úr rúmlega 3800 í tæplega 7600.

Ég fór einn afmælishring um Mosfellsbæinn í tilefni dagsins eftir að ég fór með lilluna mína í leikskólann og rifjaði upp hvernig hvernig bærinn var þegar ég fór að leggja leið mína hingað uppeftir haustið 1986. Óhætt er að segja að ýmislegt hafi breyst á þessum tíma. Búið er að byggja leikskóla og nýjan grunnskóla og á teikniborðinu eru mun fleiri. Einnig mun koma framhaldsskóli í bæinn fljótlega. Búið er að byggja öryggisíbúðir fyrir aldraða og loksins höfum við fengið vilyrði fyrir byggingu hjúkrunarheimilis innan bæjarmarkanna, sem bæjaryfirvöld hafa barist lfyrir árum saman. Risin er ný glæsileg fjölskyldusundlaug á vestursvæði við mikla ánægju bæjarbúa sem og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins sem þangað sækja.

Mikið er búið að byggja og hefur bærinn stækkað í allar áttir. Fyrrum landbúnaðarsvæði eru orðin að vinsælum íbúahverfum og túnin sem ær og kýr gengu um orðin að lóðum og leiksvæðum nýrra íbúa Mosfellsbæjar. Tvö slík stór hverfi eru í byggingu núna, Helgafellshverfið og Leirvogstunga. Ég þekki fjölmarga sem eru að byggja á þessum stöðum, allt fólk sem bjó á höfuðborgarsvæðin en valdi að flytja hingað vegna þess að það getur verið í svo nánum tengslum við ósnortna náttúru, sem við erum rík af hér í bæ. 

Í tilefni dagsins ætlar bæjarstjórnin að halda hátíðarfund. Bæjarstjórnarfundur sem verður sá 471. á 20 árum. Held að þeir hafi verið orðnir eitthvað um 250 þegar ég kom ég inn í bæjarstjórnina árið 1998. Þessi fundur verður mjög sérstakur og er efni hátíðarfundarins eftirfarandi:

1.

200708017 - Í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar er tillaga um að tilnefna heiðursborgara Mosfellsbæjar

   2.

200708013 - Í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar er tillaga um að reisa útilistaverk

   3.

200708014 - Í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar er tillaga um að stofna barna- og unglingaráð til þátttöku í framtíðarstefnumótun bæjarfélagsins

   4.

200708015 - Í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar er tillaga um að stofna ævintýra- og útivistargarð fyrir börn og ungmenni

Afmælishátíðin hefst kl. 17.00 og verður haldin í Bókasafni og í Listasal Mosfellsbæjar og verður bæjarstjórnarfundinn því haldinn þar. Fyrir bæjarstjórnarfundinn leikur Tríó Reynis Sigurðssonar leikur ljúfa tóna. Þarnæst verður bæjarstjórnarfundurinn haldinn. Í listasalnum verður opnuð ljósmyndasýning á ljósmyndum úr safni bæjarblaðsins Mosfellings sem ber nafnið Mosfellingar samtímans. Bæjarblaðið er fastur punktur í tilveru okkar Mosfellinga og verður gaman að sjá og gæti verið að ég ætti eina mynd þar. Síðan hefst spennandi dagskráriður sem ber nafnið ,, ... og fjöllin urðu kyr" sem er upplestur við undirleik ýmissa þjóðþekktra einstaklinga.

Þessi hátíðardagskrá okkar í dag er í raun upphaf bæjarhátíðarinnar Í túninu heima sem stendur til 26. ágúst.


Hver er réttur barna og unmenna

Sædís Erla

Ég hef að undanförnu verið að vafra á netinu og skoða ýmsar síður er tengjast málefnum barna og ungmenna, enda fyrrum fjölskyldunefndarkona og mikil áhugamanneskja um þessi mál. Ég rakst á þessar síður á heimasíðu umboðsmanns barna sem ég vissi ekki að væri til og er síðan stórsniðugar og stútfullar af upplýsingum um réttindi barna og ungmenna. Þarna er sérstök krakkasíða og síðan önnur fyrir unglinga þar sem hægt er að sjá upplýsingar um réttindi og ráðgjöf vegna ýmissa mála s.s. vegna fjármála, kynferðisofbeldis, eineltis, afbrota og ýmislegt fleira. 

Ég hvet ykkur til að skoða þessar síður og sýna krökkunum ykkar líka. Þessi síða er hafsjór upplýsinga sem gott er að hafa á einum stað og setja í favorites í tölvunni.


Enn skorar fíknó

Það vakti athygli mína í fréttinni í gær að þau höfðu ferðast í gegnum Bandaríkin með dópið án þess að vera stoppuð. Ég mun líklega aldrei ná því hvað parið var að hugsa og ætla í sjálfu sér ekki að reyna, en velti því nú samt fyrir mér hvaða meðferð og dóma þau hefðu fengið í öðrum löndum vegna málsins, hefðu þau náðst fyrr.

Sem unglingamamma varð maður bara dapur við að lesa að 16 ára barn hafi farið til Venesúela með kærasta sínum sem er næstum helmingi eldri en hún og að foreldrar hennar hafi vitað af ferðinni. En að sjálfsögðu þekkir maður ekki til aðstæðna, en svona áhrif hafði þessi frétt samt á mig.


mbl.is Barnaverndaryfirvöld vinna í máli 16 ára fíkniefnasmyglara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að syrgja vinnuna sína

Ég held að það sé óhætt að segja að ég sé nokkuð stapíll starfskraftur. Nú hef ég verið tæp níu ár hjá Rauða krossinum og þar áður vann ég í níu ár við fisksjúkdómarannsóknir á Keldum. 

Ástæða þess að ég skrifa þetta í dag er sú að kannski eru einhverjir sem lesa þetta og hafa ekki áttað sig á því að það er eðlilegt að syrgja vinnuna sína og ég tala nú ekki um ef fólki er sagt upp vinnunni eins og ég hef séð hjá fólki í kring um mig sem lendir í slíku. Þetta er náttúrulega einstaklingsbundið og ekkert mál fyrir suma, en fyrir mig og ýmsa aðra er þetta erfiðara. Það er ekki til nein uppskrift fyrir því hvernig fólk bregst við eða á að takast á við málið, en gott er að hafa í huga að þetta er í raun sorg og er eðlilegt.

Þegar ég hætti að vinna við lífeindafræðina, varð ég að hætta vegna ofnæmis. Ég var búin að láta mig hafa það að vera með ofnæmisflensu mánuðum saman, því mig langaði ekkert til að hætta og svo var ég búin að mennta mig í faginu og farin að huga að framhaldsnámi. Það var hins vegar óumflýjanlegt að hætta rannsóknavinnunni og það vissi ég vel. Ekki var hægt að fá alltaf hita síðdegis og krónískan hausverk svo ég lét til skara skríða og sótti um starf hjá Rauða krossinum. Það að hafa spennandi starf líkt og það sem beið mín handan við hornið gerði þetta ferli örugglega auðveldara, en ég sá samt mikið eftir skemmtilegu starfi, góðum vinum og vinnufélögum. Ég áttaði mig svo á því eftir á að þetta ár eða svo sem ég var að taka ákvörðunina um að hætta, gekk ég í gegnum ákveðið sorgarferli því mig langaði í raun ekkert að hætta.

Nú fyrir skömmu tók ég síðan ákvörðun um að hætta í núverandi starfi hjá Rauða krossinum. Ég tel mig hafa verið mjög lánsama í starfi mínu hjá Rauða krossinum. Ég hef fengist við fjölmörg spennandi verkefni í gegn um árin, bæði sem svæðisfulltrúi fyrstu árin og frá 2001 sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Ég hef lagt mig alla fram um að byggja upp neyðarvarnakerfi félagsins ásamt fjölmörgum frábærum sjálfboðaliðum og starfsfólki Rauða krossins sem og góðum samstarfsaðilum. Ég held að þegar ég lít til baka geti ég sagt að skemmtilegast hafi þó verið að vinna úti í feltinu. Það að starfa náið með góðu fólki, á námskeiðum, á stórslysaæfingum eða í raunverulegum neyðaratburðum er engu líkt. Ég á margar góðar minningar um sorg og gleði með harðduglegu fólki sem hefur verið tilbúið að gefa tíma sinn til að bæta samfélagið og bæta neyðarvarnakerfið, eins og við köllum það. En það hefur líka verið ánægjulegt að fá tækifæri til að vinna á landsskrifstofunni. Við höfum stundum sagt að það sé í grunnin voða mikið sama manngerðin sem velst til starfa þar. Það er mikið til í þessu og það skemmtilega við þetta er að þegar maður hittir kollega í útlöndum, þá er það sömu týpurnar og er ég stolt af því að tilheyra þessum góða hópi. En ég er ekki hætt afskiptum mínum af félaginu, enda of góður málstaður til að hætta því og er ég enn staðráðin í því að fara út í heim í hjálparstarf. "Já minn tími mun koma"

Það sem er frábrugðið nú eða þegar ég hætti síðast, er að nú hef ég ekki ákveðið hvað ég ætla að fara að gera. Ég þarf í sjálfu sér ekkert að flýta mér að taka þá ákvörðun, því ég jú í háskólanámi og var svo heppin að fá rannsóknarstyrk og get því alveg leyft mér að hugsa málið. En auk þess er ég í bæjarstjórn og ýmsum nefndum og gæti ég alveg hugsað mér að sinna því betur, svo ekki sé talað um fjölskyldu og vini. 

Ég er nú á hraðferð upp úr holunni sem ég datt ofan í við þetta vinnuskiptaferli mitt. Þetta gerðist hjá mér þrátt fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun alveg sjálf og að mjög vel íhuguðu máli og eins var ég meðvituð um að þetta gæti gerst. Nú er ég búin að taka allan rússíbanann. Mér þótti þetta vera óraunverulegt, varð viðkvæm og bæði sár og glöð yfir þessu þrátt fyrir að vita vel í hjarta mínu að þetta væri hárrétt ákvörðun. Ég varð ófélagslynd (sem er svona frekar ólíkt mér) og varð eins framtakslaus og mér var unnt í næstum allt sumar, svaf illa og bara leið ekki vel. En nýlega fór mér að líða betur og hef af krafti verið að undirbúa jarðveginn fyrir "arftakann" og hefur það verið gott. Það má segja að maður hafi með því séð þessi níu ár í máli og myndum í fyrirlestrum og ýmsu efni sem búið er að ganga frá. Ég fann til að mynda blaðaútklippur frá móttöku flóttamannanna frá Kosovo, en það var með fyrstu verkefnunum sem ég tókst á við sem svæðisfulltrúi og var gaman að skoða og rifja upp. Svo var það tíminn sem ég var að undirbúa fataverkefnið sem er orðið svo risa stórt í dag og hefur verið gaman að fylgjast með hvernig það stækkar. Ég fann líka ýmislegt sem við starfsmennirnir höfum sprellað saman. Ýmislegt sem innra eftirlitið hefur gert og svo naut ég þess að rifja upp það sem við Linda Ósk og Anna Bryndís höfum við tekið okkur fyrir hendur og held ég að óvissuferðin í Kjósina standi upp úr, en það var nú líka gaman hjá okkur Tetra-tröllunum.

Herdís, Linda Ósk og Anna Bryndís

Tetratröll

Nú er ég sem sé farin að sjá sólina aftur þrátt fyrir að nú sé farið að hausta. Er búin að halda nokkur matarboð og heimsóknir af því að mig langar til þess og nú er ég raunverulega farin að hlakka til að hætta að vinna og fara á fullt að vinna í meistaraverkefninu mínu. Ég er svo elsku sátt við að vera að hætta í vinnunni og er nú komin með tilhlökkunarhnút í magann yfir því að hætta í næstu viku og því sem framtíðin mun bera í skauti sér. Ég veit líka að þar sem ég er eins og ég er þá á það verkefni eftir að vera spennandi, krefjandi og fullt af óvissu og hraða.


Frí fram yfir verslunarmannahelgi

Einbirnið Sædís Erla

Ég er eitthvað andlaus þessa dagana og ætla að taka mér bloggfrí fram yfir verslunarmannahelgi og kanna hvort andinn kemur ekki yfir mig aftur. Ég ætla að vera heima, því ég er á bakvakt hjá Rauða krossinum. Þetta verður í fyrsta skipti í nokkur ár sem ég verð í bænum, en ekki á Siglufirði. Það hefði verið gaman að fara í gönguna í Héðinsfjörð um helgina, en ég fæ bara í staðinn góða útrás á hellunum sem við hjónin ætlum að leggja í planið um helgina. Það er annars svo ótrúlega rólegt hjá okkur þessa dagana. Frumburðurinn á skátamóti í Englandi, strákurinn hjá ömmu og afa á Sigló og er því bara litla grjónið hér heima og nýtur þess í botn að vera einbirni, eins og sést á myndinni.

Njótið helgarinnar elskurnar og gangið hægt um gleðinnar dyr. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband