Sjóarasaga af beinhákarli

images

 

Ég fann þessa skemmtilegu sögu í grúski mínu á Siglufirði um helgina og ákvað að leyfa ykkur að njóta.  Þessi saga er sönn og gerðist fyrir rúmum 25 árum síðan þegar pabbi minn var skipstjóri á Sigluvíkinni á Siglufirði og stóri bróðir minn Jóhann var með honum til sjós. Ég veit því miður ekki hver skrifaði hana, en upphafsstafir voru SÓR og hér kemur sagan.

Tíminn er í kringu um 1980, staðsetning Sigluvík SI 2. Skipstjóri Sigurjón Jóhannsson, fyrsti stýrimaður Helgi Jóhannsson. Skipið var statt á veiðum í Djúpinu vestur af Kögurgrunni.  Kallinn í brúnni ákveður að hífa eftir stuttan togtíma vegna þess að ljós á aflanema kviknar mjög fljótlega eftir að trollið er látið fara.

"Hífop" argar kallinn í talkerfið! Kokkurinn hrekkur við af gömlum vana "helvítis hávaði alltaf í kallinum" . Sumir hásetarnir bölva í hljóði: "hvað er kallinn að toga svona stutt, ræman (vídeóspólan) er bara hálfnuð". "Stutt togað, kallinn hlýtur að vera að fáann."

Allir fara upp að fylgjast með. "þetta er þokkalegasta hal", segir Siggi Gísla og strýkur sveittan skallann. "Hvur djöfullinn er þetta, er annar belgurinn fullur af grjóti?" gargar kallinn út um brúargluggann. Ekki reyndist það vera. Heldur þessi líka all svaðalegi beinhákarl sem fyllti út í annan belginn. Inn fer trollið og hefst nú vesenið við að ná "hákarlshelvítinu" út úr  belgnum. Helgi Jó. Er nú kominn á klossunum út á dekk, einsog vanalega ef eitthvert vesen er. "Það verður að troða stroffuandskota upp í kvikindið. Hann er hvort sem er steindauður stynur Þorri Birgis, móður eftir hlaupin með gilsana. Helgi grípur stroffuna og treður uppí kjaftinn og út um tálknin. Varla er liðið eitt andatak þegar skollarnir á kvikindinu smella saman eins og fallöxi. Það er ekki laust við að svitapollur myndaðist i klossunum hjá Helga. "Þormóður, á að drepa mann, mannandskoti? Sagðir þú ekki að helvítis skepnan væri dauð?"

Á endanum þarf að rista upp belginn til að losa um hákarlinn. "það er ekki hægt að rífa helvítið út á pokagilsinum", argar Siggi Gísla orðinn enn sveittari á skallanum. Úr verður að lásað er úr stjórnborðshleranum og hákarlinn hífður úr á togvírunum. Eftir að hákarlinn er kominn í sjóinn gerir kvikindið sér lítið fyrir og syndir í burtu. Ekki var hann dauðari enn svo. Hákarlagreyið hefur örugglega meitt sig þessi elska segir kokkurinn og fer inn til að taka til kaffi handa spenntum mannskapnum. Helvítis kvikindið hefur örugglega verið yfir 10 tonn segir kallinn í brúnni og brosir gegnum filterslausan camelreykinn. Þeir sem á vakt eru gera við belginn, lása vírnum í, koma fiskinum niður og þegar kallinn argar "laggó" er trollið látið fara. Síðan er farið inn í kaffi og túrinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda margt sem gerist til sjós.

SÓR


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

 Skemmtilegt að rekast á svona sögu.  SÓR gefi sig fram!

Vilborg Traustadóttir, 9.4.2007 kl. 22:05

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

málið er í rannsókn....dettur þér í hug einhver Siglfirðingur?

Herdís Sigurjónsdóttir, 9.4.2007 kl. 22:11

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Nei enginn.     Ekki er þatta Óli Ragnars? Bókaútgefandi m.m.? Nei varla..........

Vilborg Traustadóttir, 9.4.2007 kl. 22:20

4 Smámynd: Karl Tómasson

Já Herdís mín ég er ekkert hissa á því að konur séu skotnar í Steingrími J. Hann er bæði bráð vel greindur og skemmtilegur.

Hákarlasagan er frábær og takk fyrir hana. Svakalega hafa þessir karlar blótað mikið. Ég borða sannarlega hákarl og finst hann lostæti. Ég er líka eins og komið hefur fram hjá mér ansi hræddur um að hákarlinum finnist ég lostæti.

Kær kveðja frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 9.4.2007 kl. 22:34

5 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Þessi saga var góð eins og allt, sem kemur frá Siglufirði ! Ég, sem
forlögin ákváðu, að yrði landkrabbi, hef gaman að lesa um svaðil-farir á sjó og hlusta á sjómenn segja frá. Takk fyrir. Með góðri kveðju til Siglufjarðar, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 05:57

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

 P.S. ég er að prófa eitthvað sem heitir Opera í stað Safari og ég hefi ekki
alveg náð valdi á þessu. Bless, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 06:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband