Heimilisofbeldi - Karlar til ábyrgðar

vandiÉg sá í Mogganum í morgun viðtal við sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andrés Ragnarsson sem annast meðferð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum. Ég hef lengi fylgst með þessu verkefni sem kallast Karlar til ábyrgðar og er ánægjulegt að það gengur vel eftir að það var endurvakið í fyrra. Verkefnið var fyrst í gangi sem tilraun frá 1998 til 2001 og gaf góða raun og sóttu þá um 80 karlar meðferð á tímabilinu, en nú er verkefnið komið á fjárlög.

Einar og Andrés segja í viðtalinu verkefnið vera hvatningu til þeirra sem þurfa að læra nýjar samskiptaaðferðir og aukna sjálfsstjórn. Um er að ræða eina sérhæfða meðferðartilboðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi og vilja leita sér aðstoðar og hefur slík meðferð gefist mjög vel bæði hérlendis og erlendis.

Í viðtalinu segja þeir frá því að mikilvægt sé fyrir fólk að átta sig á því að heimilisofbeldi sé ekki stétttengt og þegar karl beiti konu sína ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt eða kynferðislegt, sé ekki um hjónavanda að ræða heldur einstaklingsvanda eingöngu. Ofbeldið snúist um kunnáttuleysi ofbeldismanna til að bregðast við ákveðnum aðstæðum og samskiptum á annann hátt en með ofbeldi.

Í meðferðinni er lögð áhersla á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu og sé fyrsta skrefið að gera ofbelið sýnilegt. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára.

Hver eru merkin?

  • Er ég farin að lifa í ótta?
  • Er ég farin að óttast vissar kringumstæður?
  • Þarf ég að umgangast hann með sérstökum hætti svo ekki sjóði upp úr?
  • Er hann sjúklega afbrýðisamur og ásakar mig stöðugt um framhjáhald, þó enginn fótur sé fyrir því?
  • Er hann farinn að beina þeim skilaboðum til mín að hann hafi síðasta orðið um mitt líf?

Ekki er hægt að fjalla um þetta efni á moggablogginu án þess að nefna hvert fólk getur leitað. Ef lesendur þekkja einhvern sem beitt hefur eða hefur verið beittur ofbeldi á heimili, væri hægt að gera viðkomandi greiða með því að benda á þessa aðstoð sem stendur til boða.

Hægt er að hringja í Hjálparsíma 1717 sem veitir upplýsingar um viðtöl og meðferð, en einnig er hægt að hafa beint samband við sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andrés Ragnarsson og panta tíma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Fínn pistill, gott að vekja athygli á þessu. Langar að bæta því við að konur sem hafa verið beittar ofbeldi í parsamböndum og vilja skoða afleiðingar þess og vinna sig út úr þeim geta farið í einstaklingsviðtöl inní Kvennaathvarfi. Þar starfa flottar konur sem hafa reynslu og/eða þekkingu á ofbeldi innan veggja heimilanna.

Thelma Ásdísardóttir, 10.4.2007 kl. 13:28

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Takk fyrir það Thelma, mér eru fjölskyldumálin hugleikin. Kærar þakkir fyrir upplýsingarnar um þjónustu Kvennaathvarfsins í þessu sambandi. Það var ekki síst fyrir hvatningu þess og Stígamóta sem verkefnið var endurvakið. 

Við í Mosó eru einmitt með opið málþing um afleiðingar ofbeldis, næsta fimmtudag. Eins og þú veist kvenna best þá er mikilvægt að ræða opinskátt um þessi mál og hafa úrræði fyrir þá sem fyrir því verða og valda.

Afleiðingar ofbeldis 

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stendur fyrir opnu málþingi um ofbeldi og afleiðingar þess, fimmtudaginn 12. apríl kl. 17–19 í Listasal, Þverholti 2. Dagskrá:

17:00 - 17:10 Setning Jóhanna B. Magnúsdóttir formaður fjölskyldunefndar.  

17:10 - 17:30 Kynbundið ofbeldi sem hluti af ójafnrétti kynjannaKristín Ástgeirsdóttir forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK). 17:30- 17:50 Birtingarmyndir kynbundins ofbeldisSigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. 17:50-18:10 „Gætu 379 börn í Mosfellsbæ hafa verið beitt kynferðisofbeldi?“ Um umfang, afleiðingar og viðbúnað vegna kynferðisofbeldis á börnum.

Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta.

18:10-18:30 Karlar til ábyrgðar

Ingólfur V. Gíslason Jafnréttisstofu, verkefnisstjóri „Karlar til ábyrgðar“.

18:30-19:00 Umræður Fundarstjóri: Þorbjörg I. Jónsdóttir varaformaður fjölskyldunefndarAðgangur ókeypis og allir velkomnirVinsamlegast tilkynnið þátttöku til Þjónustuvers Mosfellsbæjar í síma 525 6700 eða á netfangið mos@mos.is 

 

Herdís Sigurjónsdóttir, 10.4.2007 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband