Landsfundur Sjálfstæðisflokksins og fjölskyldumál

IMG_0839

 

 

 

 

 

 

Þetta eru búnir að vera góðir og árangursríkir dagar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er þegar búið að samþykkja nokkrar landsfundarályktanir og enn fleiri verða afgreiddar á morgun. Ég hefði svo sannarlega viljað taka þátt störfum margra nefnda, en ég valdi að taka þátt í umhverfis- og auðlindanýtingarhópnum. Það hafa mjög margir tekið þátt í starfi nefndarinnar, en störfuðum við frá fjögur til átta í gær og svo frá hálf tíu til tvö í dag, samræmingarnefnd hefur síðan verið að störfum og verður haldinn aukafundur í nefndinni í fyrramálið. Ég var að reyna að telja fundarmenn í morgun og taldi um 100 manns, sem er gott því 16 nefndir eru að störfum. Það voru fjölmargar breytingartillögur bornar fram við allar greinar og sumar samþykktar en aðrar felldar og geta flutningsmenn þá borið þær fram aftur á stóra fundunum. 

Í þeim ályktunum sem voru samþykktar í dag voru fjölmörg mál sem ég er ánægð með eins og t.d. í fjölskyldumálunum sem við afgreiddum nú rétt fyrir kvöldmat. En ég náði aðeins að skreppa í þá nefnd líka, enda fyrrverandi formaður fjölskyldunefndar og málin mér hugleikin. Þar var m.a. talað um að endurskoða vaxtabætur til að þær komi þeim til góða sem minnstar tekjur hafa og fella niður stimpilgjöld sem kominn er tími á. Samþykkt var að forstöðumönnum trúfélaga verði gert heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. Að afnema launaleyndina, þ.e. að launþeginn geti sjálfur tekið ákvörðun um það hvort hann vilji tjá þriðja aðila upplýsingar um laun sín, sem er hef áður lýst yfir á þessari síðu að ég vilji sjá. Að gert yrði stórátak í því að jafna óútskýrðan launamun karla og kvenna. Að lengja fæðingarorlofið og annað sem ekki skiptir minna máli eða það að foreldri sem hefur full forræði yfir barni sínu geti tekið fullt fæðingarorlof, sem er réttlætismál fyrir barnið. Samþykkt var líka að endurskoða hjúskaparlögin með það að markmiði að jafna lífeyrisréttindi hjóna við skilnað, en voru helstu rökin fyrir breytingu sú að í dag er það þannig að ef annað hjóna hefur lítið eða ekkert verið á atvinnumarkaði og ekki náð að safna lífeyrisréttindum, er það alfarið á hendi hins að samþykkja hvort viðkomandi fær eitthvað greitt.

Við ályktuðum líka um þá staðreynd að innflytjendur hefðu auðgað íslenskt menningar og atvinnulíf að við viljum efla íslenskukennslu enn frekar og gefa fólki tækifæri á að taka próf á öðrum tungumálum ef fullnægjandi íslenskukunnátta er ekki fyrir hendi. Einnig að skýra yrði reglur og viðmið þegar mat fer fram á menntun og námi sem innflytjendur hafa aflað sér í menntastofnunum erlendis, að bæta beri upplýsingaflæði um réttindi og eins að vernda samningsbundinn rétt erlends starfsfólks þannig að þeir njóti sömu kjara og aðrir launþegar í landinu.

Ýmislegt var líka um forvarnir, barnavernd og áhersla lögð á stuðning og stoðþjónustu við fjölskyldur fatlaðra og eflingu íþrótta og æskulýðsmála.

Ég er búin að hitta marga félaga undanfarna daga og kynnast nýjum og verður gaman á morgun að kjósa til miðstjórnar, en við kjósum 11 fulltrúa og eru 25 í kjöri ef ég man rétt og af þeir eru margir sem ég þekki. Síðan fer fram kosning formanns og varaformanns og á enginn von á öðru en að þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verði kosin aftur.

Jæja ætli sé ekki eins gott fyrir mig að hætta núna og fara að hvíla mig fyrir lokasprettinn á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Mér líst vel á þetta.  Innflytjrndamálin og það að efla íslenskukennslu er í takt við tímann eins og svo margt annað sem ég sé að afgreitt er á Landsfundinum.

Vilborg Traustadóttir, 14.4.2007 kl. 23:06

2 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Gaman að lesa þessa frásögn af landsfundinum og fá svolítið öðruvísi innsýn í starfið heldur en fjölmiðlar veita.

Björg K. Sigurðardóttir, 14.4.2007 kl. 23:29

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Gleður mig

Ég ætla að fara yfir málaflokkana og það sem mér þótti markverðast á fundinum á næstunni. Málið er að oftast er tekið fyrir í fjölmiðlum það sem ekki ríkir full samstaða um og að mínu mati eru það ekki alltaf stóru málin. Jæja ætli sé ekki best að fara að skella sér á fundinn, aukafundur í umhverfisnefnd og ég ætla ekki heldur að missa af málefnum eldri borgara.

Herdís Sigurjónsdóttir, 15.4.2007 kl. 08:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband