Raunveruleikur Landsbankans

35324_rita

Á mínu heimili er elsta barnið í 9. bekk og því þekkti ég lítið til Raunveruleiksins sem er fræðsluefni hjá Landsbankanum. Frétt um leikinn vakti áhuga minn og þótti mér svekkjandi að stelpur í 10 bekk gerðu minni launakröfur en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu og kom fram raunverulegur launamunur milli kynjanna 

En leikurinn er áhugaverður og er þetta gagnvirkur hermileikur á netinu, ætlaður sem samfélags- og fjármálakennsla í lífsleiknitímum 10. bekkjar. Margra ára rannsóknar-, hönnunar- og forritunarvinna liggur að baki leiknum, en hann á uppruna sinn í Excel skjali hjá Ómari Erni Magnússyni, kennara í Hagaskóla og var orðinn að frumútgáfu tölvuleiks árið 2003. Með tilstyrk Landsbankans var síðan haldið áfram með hönnunar- og forritunarvinnu og er nú hægt að spila leikinn á síðu Landsbankans, öllum notendum að kostnaðarlausu.

Í upphafi leiks byrja nemendur sem 20 ára ungmenni á leið út í lífið eftir framhaldsskóla með ákveðna byrjunarupphæð á bankareikningi, en líf þeirra er að öðru leyti óskrifað blað. Eftir að hafa mótað persónu sína, útlit, nafn og ákveðin persónueinkenni þurfa nemendur að móta aðstæður hennar, t.d. með því að ákveða hvar á landinu þeir kjósa að búa, í hvað þeir vilja eyða peningum sínum, hvað þeir borða og hvar þeir sækja um vinnu eða skrá sig í háskóla.

Leiktíminn er um 20 vikur og jafngildir ein almanakasvika um einu ári í leiknum. Í spilinu felst jafnframt samkeppni því einu sinni í mánuði hlýtur sá bekkur verðlaun sem hefur staðið sig best og fengið flest stig. Jafnframt eru veitt verðlaun þegar leiknum lýkur.

Það er til fyrirmyndar hjá Landsbankanum að bjóða upp á slíka fræðslu og eftir að hafa skoðað þetta betur sé ég ekki annað en þetta gæti verið hin besta skemmtun í leiðinni. Nú þegar hafa þúsundir ungmenna í 10. bekk víðs vegar um Ísland tekið þátt í leiknum og þar með í lífsgæðakapphlaupinu. En fannst mér líka ágætt að í Raunveruleiknum áttu að safna heilsu-, hamingju- og efnahagsstigum, sem er það sem lífið gengur út á.

Ef fólk er eitthvað hugsi yfir myndinni, þá er hún sett inn sem áminning fyrir okkur sem hér búum um að það eru ekki allir í heiminum jafn lánsamir og við. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband