Fiskvinnsla og fjör í sumarvinnu á Sigló

Frystihús

Já það er gott að ekki er erfitt fyrir ungmenni að fá sumarvinnu. Þetta er samt töluvert ólíkt því sem var á Siglufirði þegar ég var barn, unglingur og ungmenni. Ég fór að passa þegar ég var 10 ára og gellaði eitthvað líka, fór í unglingavinnuna ellefu ára og síðan lá leiðin í fiskinn. Ég vann við að leggja síld í dósir í Sigló síld með tilheyrandi skurðum á puttum. Svo fór ég að vinna í gamla Þormóðs Ramma frystihúsinu og seinna í því nýja við allt er tengist fiski. Við vorum svo litlar þegar við byrjðum að stóðum á fiskikössum við að pakka og hreinsa fisk og á ég einmitt eina mynd af Siggu Gunnars við slíkar aðstæður. Ég held að ég hafi samt aldrei verið jafn glöð og þegar ég fékk undanþágu frá 16 ára bónusreglunni. En ég er fædd í desember og mátti ekki vinna í bónuskerfinu, en fékk undanþágu og græddi á tá og fingri. Síðan áttum við Helga vinkona eftir að taka margar bónusrispurnar saman á sumrin.

Eitt sumar vann ég í skreið og þegar við vorum að pakka var eins gott að vera með hettuna því annars fór maðkurinn niður á bak þegar hann datt af loftinu þar sem verið var að þurrka fiskinn. Annað sumar var ég í saltfiski og man ég að okkur þótti okkur heldur súrt þegar við vorum búin að pakka allt sumarið fyrir Grikklandsmarkað og fréttum við að farmurinn hefði sokkið á leiðinni út Crying.

Það var mikill fótboltaáhugi á Sigló og studdum Siglfirðingar KS af kappi. Ég man að þegar það var leikur á laugardögum kl. 4 þá byrjuðu allir í frystihúsinu að vinna um fjögur um nóttina til að hægt væri að kára fyrir leik svo við gætum hvatt okkar menn og misstum nú ekki af því ef Gulli Sínu áhorfandi No.1 fengi nú aftur gula spjaldið ...áfram KS!

Sumarvinnutíminn var frábær og voru allir að vinna í fiski og myndaðist skemmtilegur mórall og á ég marga góða vini sem ég eignaðist á þessum árum. Þrátt fyrir mikla vinnu þá var alltaf gaman saman og tókst okkur alltaf að hafa tíma til að djamma líka og rúntuðum við í sætaferðum upp á Ketilás, Höfðaborg á Hofsósi, Miðgarð eða Tjarnaborg á Ólafsfirði.

Þegar ég las þessa frétt þá datt ég aftur um nokkra áratugi (gamla lífsreynda konan). Krakkar eru vissulega að vinna við annað á sumrin en mín kynslóð gerði, en þau skemmta sér örugglega jafn vel við að afla tekna fyrir leigu, vasapeningum eða skólagjöldum næsta vetur.


mbl.is Auðvelt fyrir ungt fólk að fá sumarvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband