Að syrgja vinnuna sína

Ég held að það sé óhætt að segja að ég sé nokkuð stapíll starfskraftur. Nú hef ég verið tæp níu ár hjá Rauða krossinum og þar áður vann ég í níu ár við fisksjúkdómarannsóknir á Keldum. 

Ástæða þess að ég skrifa þetta í dag er sú að kannski eru einhverjir sem lesa þetta og hafa ekki áttað sig á því að það er eðlilegt að syrgja vinnuna sína og ég tala nú ekki um ef fólki er sagt upp vinnunni eins og ég hef séð hjá fólki í kring um mig sem lendir í slíku. Þetta er náttúrulega einstaklingsbundið og ekkert mál fyrir suma, en fyrir mig og ýmsa aðra er þetta erfiðara. Það er ekki til nein uppskrift fyrir því hvernig fólk bregst við eða á að takast á við málið, en gott er að hafa í huga að þetta er í raun sorg og er eðlilegt.

Þegar ég hætti að vinna við lífeindafræðina, varð ég að hætta vegna ofnæmis. Ég var búin að láta mig hafa það að vera með ofnæmisflensu mánuðum saman, því mig langaði ekkert til að hætta og svo var ég búin að mennta mig í faginu og farin að huga að framhaldsnámi. Það var hins vegar óumflýjanlegt að hætta rannsóknavinnunni og það vissi ég vel. Ekki var hægt að fá alltaf hita síðdegis og krónískan hausverk svo ég lét til skara skríða og sótti um starf hjá Rauða krossinum. Það að hafa spennandi starf líkt og það sem beið mín handan við hornið gerði þetta ferli örugglega auðveldara, en ég sá samt mikið eftir skemmtilegu starfi, góðum vinum og vinnufélögum. Ég áttaði mig svo á því eftir á að þetta ár eða svo sem ég var að taka ákvörðunina um að hætta, gekk ég í gegnum ákveðið sorgarferli því mig langaði í raun ekkert að hætta.

Nú fyrir skömmu tók ég síðan ákvörðun um að hætta í núverandi starfi hjá Rauða krossinum. Ég tel mig hafa verið mjög lánsama í starfi mínu hjá Rauða krossinum. Ég hef fengist við fjölmörg spennandi verkefni í gegn um árin, bæði sem svæðisfulltrúi fyrstu árin og frá 2001 sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðaraðstoð. Ég hef lagt mig alla fram um að byggja upp neyðarvarnakerfi félagsins ásamt fjölmörgum frábærum sjálfboðaliðum og starfsfólki Rauða krossins sem og góðum samstarfsaðilum. Ég held að þegar ég lít til baka geti ég sagt að skemmtilegast hafi þó verið að vinna úti í feltinu. Það að starfa náið með góðu fólki, á námskeiðum, á stórslysaæfingum eða í raunverulegum neyðaratburðum er engu líkt. Ég á margar góðar minningar um sorg og gleði með harðduglegu fólki sem hefur verið tilbúið að gefa tíma sinn til að bæta samfélagið og bæta neyðarvarnakerfið, eins og við köllum það. En það hefur líka verið ánægjulegt að fá tækifæri til að vinna á landsskrifstofunni. Við höfum stundum sagt að það sé í grunnin voða mikið sama manngerðin sem velst til starfa þar. Það er mikið til í þessu og það skemmtilega við þetta er að þegar maður hittir kollega í útlöndum, þá er það sömu týpurnar og er ég stolt af því að tilheyra þessum góða hópi. En ég er ekki hætt afskiptum mínum af félaginu, enda of góður málstaður til að hætta því og er ég enn staðráðin í því að fara út í heim í hjálparstarf. "Já minn tími mun koma"

Það sem er frábrugðið nú eða þegar ég hætti síðast, er að nú hef ég ekki ákveðið hvað ég ætla að fara að gera. Ég þarf í sjálfu sér ekkert að flýta mér að taka þá ákvörðun, því ég jú í háskólanámi og var svo heppin að fá rannsóknarstyrk og get því alveg leyft mér að hugsa málið. En auk þess er ég í bæjarstjórn og ýmsum nefndum og gæti ég alveg hugsað mér að sinna því betur, svo ekki sé talað um fjölskyldu og vini. 

Ég er nú á hraðferð upp úr holunni sem ég datt ofan í við þetta vinnuskiptaferli mitt. Þetta gerðist hjá mér þrátt fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun alveg sjálf og að mjög vel íhuguðu máli og eins var ég meðvituð um að þetta gæti gerst. Nú er ég búin að taka allan rússíbanann. Mér þótti þetta vera óraunverulegt, varð viðkvæm og bæði sár og glöð yfir þessu þrátt fyrir að vita vel í hjarta mínu að þetta væri hárrétt ákvörðun. Ég varð ófélagslynd (sem er svona frekar ólíkt mér) og varð eins framtakslaus og mér var unnt í næstum allt sumar, svaf illa og bara leið ekki vel. En nýlega fór mér að líða betur og hef af krafti verið að undirbúa jarðveginn fyrir "arftakann" og hefur það verið gott. Það má segja að maður hafi með því séð þessi níu ár í máli og myndum í fyrirlestrum og ýmsu efni sem búið er að ganga frá. Ég fann til að mynda blaðaútklippur frá móttöku flóttamannanna frá Kosovo, en það var með fyrstu verkefnunum sem ég tókst á við sem svæðisfulltrúi og var gaman að skoða og rifja upp. Svo var það tíminn sem ég var að undirbúa fataverkefnið sem er orðið svo risa stórt í dag og hefur verið gaman að fylgjast með hvernig það stækkar. Ég fann líka ýmislegt sem við starfsmennirnir höfum sprellað saman. Ýmislegt sem innra eftirlitið hefur gert og svo naut ég þess að rifja upp það sem við Linda Ósk og Anna Bryndís höfum við tekið okkur fyrir hendur og held ég að óvissuferðin í Kjósina standi upp úr, en það var nú líka gaman hjá okkur Tetra-tröllunum.

Herdís, Linda Ósk og Anna Bryndís

Tetratröll

Nú er ég sem sé farin að sjá sólina aftur þrátt fyrir að nú sé farið að hausta. Er búin að halda nokkur matarboð og heimsóknir af því að mig langar til þess og nú er ég raunverulega farin að hlakka til að hætta að vinna og fara á fullt að vinna í meistaraverkefninu mínu. Ég er svo elsku sátt við að vera að hætta í vinnunni og er nú komin með tilhlökkunarhnút í magann yfir því að hætta í næstu viku og því sem framtíðin mun bera í skauti sér. Ég veit líka að þar sem ég er eins og ég er þá á það verkefni eftir að vera spennandi, krefjandi og fullt af óvissu og hraða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Ég er bara alls ekki sátt við það að þú sért að fara - og líka Linda Ósk........ Svona eruð þið þá - skiljið mig bara eftir aleina!

En svo er það hitt - þið eruð ennþá þarna einhversstaðar, bara ekki hjá mér á hverjum degi. Og það er alltaf hægt að hittast - ekki satt?

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 7.8.2007 kl. 19:11

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þú ert Yndi

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 19:24

3 identicon

Já ég get tekið heilshugar undir með þér að það er ákveðin sorg að hætta í vinnu - ekkert síður þegar maður ákveður það sjálfur. Ég tók ákvörðun um að hætta fyrir þrem árum í vinnu sem ég hafði verið í í 14 ár og var einmitt lengi að undirbúa mig andlega.

Það er líklega með okkur sem þurfum að hafa "svolítið" mikið að gera að við finnum okkur alltaf eitthvað til "dundurs" sem einhvernveginn verður svo tímafrekt á endanum að við skiljum það ekki.  En eins og ein góð vinkona mín sagði þá á misjöfnu þrífast "börnin" best og við viljum alltaf hafa nógar áskornir.

Gangi þér vel með meistaraverkefnið og njóttu fjölskyldunnar og matarboðanna í botn.

Kveðja úr Ólafsfirði, Fjallabyggð

Bjarkey

Bjarkey (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 20:19

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku stelpan mín. Það hefði nú ekki hvarflað að mér að þú værir í einhverri krísu, alltaf svo hress og yndisleg. Það er alltaf gott að skipta um, ef maður vill og ég veit að þér á eftir að ganga rosa vel, berð það með þér á netinu. Frábært að þú fáir styrk til að vinna í verkefninu. Gangi þér vel dúllan mín og þú verður nú dugleg að blogga.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2007 kl. 20:50

5 identicon

Elsku dísin mín........ég fæ nú bara smá kökk við að lesa þetta.

Við sem byrjuðum að vinna saman svo til sama daginn, hættum líka að vinna saman svo til sama daginn....skrýtin tilfinning svo ekki sé meira sagt.

Við erum búnar að upplifa svo margt saman, deilt saman gleði og sorg  og já við erum flottastar þegar við tökum okkur saman, ég, þú og Anna Bryndís ....ekki spurnig og eins og ég hef áður sagt við þig þá slitnar stengurinn okkar ekki þótt við verðum ekki saman dags daglega í vinnu. Við vitum betur

Ingibjörg mín, þú losnar ekkert við okkur.........við erum til í hitting hvernær sem er

knús, knús

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 21:05

6 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég á góða að, bæði hér á blogginu og alls staðar annars staðar  og það er líka alltaf plús að gera sér grein fyrir því sjálfur og viðurkenna að það er allt í lagi að vera mannlegur.

Já Bjarkey mín, eins og ég sagði á síðunni hjá þér þá veit ég ekki hvar okkur var kennt í denn að hafa alltaf eitthvað að dunda við. Kannski bara í lífsleikni þess tíma, frystihúsinu .

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 21:26

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gleymdu að segja þér að ég verð heima um helgina s: 8658698

Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2007 kl. 21:31

8 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég kem, verð á fótboltamóti á Selfossi um helgina og gæti bara ekki hugsað mér að missa af þessu tækifæri að hitta þig loksins hálfnafna , svona fyrst við náðum ekki að hittast í kosningastússinu. Búin að setja númerið í símann.

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband