Stöndum sama á erfiðum tímum

Það eru vissulega sögulegir tímar sem við Íslendingar erum að upplifa í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum. Ljóst er að ástandið í þjóðfélaginu hefur víðtæk áhrif á unga sem aldna, enda aðstæður sem margir hafa aldrei upplifað fyrr. Þeir, sem meiri lífsreynslu hafa, stappa stáli í landann og minna á að um tímabundna erfiðleika sé að ræða sem Íslendingum takist að vinna sig út úr, það sanni sagan.

Í þessari grein ætla ég ekki að fjalla um ástæður kreppunnar, heldur viðbrögð og viðbúnað Mosfellsbæjar vegna breyttrar stöðu í samfélaginu. Undir eins og ljóst var í hvað stefndi fór Mosfellsbær af stað með vinnu við að greina ástandið, stöðu Mosfellsbæjar í breyttu efnahagsumhverfi og hugsanleg verkefni.

Þetta er ekki ólíkt því skipulagi sem  unnið er eftir í kjölfar náttúruhamfara, enda vissulega um samfélagslegt áfall að ræða. Bæjarráð samþykkti að stofna samstarfshóp og kalla til þá aðila sem starfa að velferðarmálum og stuðningi við íbúa í Mosfellsbæ. Þetta eru, auk Mosfellsbæjar og stofnana, heilsugæslan, kirkjan og Rauði krossinn, en vissulega verða fleiri öflugir aðilar virkjaðir s.s. félagasamtök og íþróttafélög. Einnig er samráð við Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna og Vinnumálastofnun, sem og upplýsingaveitu félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem sett var á fót vegna ástandsins.

Samstarfshópurinn fór strax í það að skipuleggja starfið framundan, hvernig hægt yrði að mæta aukinni þjónustuþörf og styðja einstaklinga í því að takast á við tímabundna erfiðleika. Samhæfing aðstoðar og upplýsingagjöf er stór liður í hjálparstarfi og fórum við strax í það að afla upplýsinga sem okkur þótti líklegt að nýst gætu við þessar aðstæður. Það kom okkur mest á óvart hvað mikið var til af alls kyns upplýsingum um aðstoð og sjálfshjálp hjá hinum ýmsu þjónustustofnunum. Það sem vantaði var að safna þeim saman á einn stað og úr varð Ráðgjafartorg Mosfellsbæjar, sem vistað er undir slóðinni www.mos.is/radgjafartorg 

Það er mikilvægt að taka strax mark á þeim viðvörunarljósum sem kvikna og því hvet ég Mosfellinga til að kynna sér þá ráðgjöf og aðra þjónustu sem er í boði á vegum bæjarfélagsins og annarra og leita eftir aðstoð ef þeir þurfa.

Í menningarbænum Mosfellsbæ er ýmislegt skemmtilegt í boði á næstunni sem vert er að kynna sér. Skátafélagið Mosverjar stendur fyrir fjölskyldugöngu á Mosfell laugardaginn 15. nóvember og sama dag verður félagsstarf eldri borgara með basar í bókasafninu. Kirkjan verður með kvöldkirkju á fimmtudagskvöldum í nóvember og desember í Lágafellskirkju. Kvennakórinn Heklurnar í Mosfellsbæ halda tónleika í Mosfellskirkju 16. nóv. og er þema tónleikanna textar eftir Halldór Laxness við lög eftir ýmsa höfunda. Bókasafnið verður með bókmenntakvöld þann 19. nóvember og Rauði krossinn verður með sparifatasöfnun þann 22. nóvember en þá er upplagt að taka til í skápnum og gefa spariföt sem geta nýst öðrum. Þann 26. nóvember verður opið foreldrahús í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem rætt verður um strauma og stefnur í uppeldisaðferðum. Allir þessir viðburðir eru skráðir inni á heimasíðu Mosfellsbæjar.  og í viðburðadagatal Ráðgjafartorgs sem vistað er undir flipanum "opin hús" á mos.is/radgjafartorg

Margir eru að takast á við breyttar aðstæður í sínu lífi og vil ég  minna á hve mikilvægt það er að huga að náunganum og styðja vel við bakið á þeim sem gæti þurft á uppörvun að halda. Við erum öll á sama báti og þurfum að sigla saman í gegn um hið mikla öldurót sem framundan er. Stöndum saman.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður bæjarráðs

 

Grein birtist í Mosfellingi, fréttablaði Mosfellinga 14. nóvember 2008


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Alltaf sami kraftur kæra hálfnafna. Ég er enn að safna fyrir Hjálpræðisherinn og fer vikuleg í bæinn með föt ofl.  Kær kveðja og gangi ykkur vel.

Ásdís Sigurðardóttir, 15.11.2008 kl. 16:35

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Kveðja að norðan. "Systurnar"!!!

Vilborg Traustadóttir, 15.11.2008 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband