Föstudagur á landsfundi Evrópumál og endurreisn
28.3.2009 | 09:07
Ég mætti á landsfund strax eftir stjórnarfund og fulltrúaráðsfund hjá Eir. Þá voru í gangi umræður um Evrópumál og þá tillögu sem lá fyrir fundinum eftir störf Evrópunefndar á fimmtudagskvöldinu. Fram fór ágæt umræða um tillöguna og var hiti í einstaka mönnum, en flestir á því að best væri fyrir Íslands að halda sig utan Evrópusambandsins, en einnig kom fram tillaga um að sækja um aðild, sem var felld. Þeir sem mig þekkja vita að ég hef ekki enn séð ljósið í Evrópumálunum og því var ég ánægð með niðurstöðuna.
Í ályktuninni um Evrópumálin sem var samþykkt segir:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.
Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.
Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.
Sátt náðist meðal landsfundarulltrúa um tillöguna, en þar er m.a. ákvæði um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef tekin yrði ákvörðun á alþingi um að sækja um aðild. Í ályktuninni segir:
Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.
Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.
Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.
Því miður missti ég af umræðum um tillögu Endurreisnarnefndar flokksins, sem starfað hefur að undanförnu. En ég náði þó aðeins að taka þátt í því starfi í aðdraganda landsfundar, með hópnum sem var í uppgjörinu - Sjálfstæðisflokkurinn axlar ábyrgð.
Tillagan samþykkt samhljóða og er hún hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.