Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Að búa til hefð
31.12.2007 | 18:48
Ekki var það nú sjósund sem Rituhöfðaliðið ætlar að stunda á gamlársdegi heldur humarsúpuboð fyrir fjölskylduna. Við þjófstörtuðum sem sé 2008, ári fjölskyldu og vina og héldum fjölskylduboð í dag, gamlársdag. Við burðum upp á humarsúpu a la Herdís og bananasíld að hætti Halldórs og Steinu. Allir gátu mætt úr Grindó nema Þórður JR sem er á fullu að elda á Sögu. Kristín systir kom og Doddi mágur með "litlu" tvíbbana Ragga og Sigga og kom Jóhanna vinkona Ragga líka með. Sigurjón, Halla og strákarnir Kristján Gabríel, Engill Þór og Þórður Davíð komu úr Vogunum. Mosóliðið kom líka, Siggi og Inga Rósa með gormana Birnu Maríu og Einar Kristján og svo kom náttúrulega Tengdó. Ekki létu útlendingarnir sig vanta og mætti Jóhann bróðir með nýju kærustuna Shirley í humarsúpuna. Pabbi og mamma ætla að mæta næst.
Doddi mágur minn var orðinn pínu órólegur upp úr 3 því hann átti eftir að versla aðeins meira af flugeldum hjá björgunarsveitinni í Vogunum.... en ef ég þekki hann rétt hefur henn örugglega náð í nokkrar nýárstertur.
Meiriháttar dagur og var ööööööörlítið skotið upp, en það er alveg fullt eftir enn
Hér eru nokkrar myndir
Annáll 2007 verður settur inn seinna í kvöld
Haldið í hefðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2008 kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Styrkjum björgunarsveitirnar
29.12.2007 | 18:06
Búið er að fara eina ferð til að kaupa flugelda af björgunarsveitinni okkar hérna í Mosfellsbænum Kyndli sem selur hér hjá okkur í vesturbænum, í Nóatúnshúsinu gamla og svo í þeirra eigin húsi uppi á melum. Úrvalið er gott eins og alltaf og verðum við örugglega komin með ágætis safn fyrir áramótin. Við kaupum alltaf af björgunarsveitunum og er það okkar styrkur til sveitanna og náttúrulega okkar ánægja í leiðinni. Það eru alltaf rifjaðar upp þrjár slysasögur um áramótin. Þegar afi sá slysið á Siglufirði og ungi maðurinn dó eftir sprengjusmíðar. Þegar jókerblysið sprakk í höndunum á mér á Sauðanesi og þegar þyrlan flæktist í hárinu á Ásdísi Magneu og við eyddum aldamótunum á slysó.
En ég hvet ykkur til að styrkja björgunarsveitirnar og kaupa af þeim flugelda ef þið ætlið að gera slíkt, líkt og við Rituhöfðaliðið gerum, enda treystum við á það að verða bjargað ef við lendum í vandræðum uppi á fjöllum eða í vondum veðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Verkfræði á jólunum
26.12.2007 | 16:03
Við mamma vorum að rannsaka geitungabú áðan... já við eigum nefnilega sameiginlegt áhugamál, sem er allt lifandi og reyndar líka dautt í þessu tilfelli.
Síðasta sumar var nefnilega mikið fjör í gróðurhúsinu hjá mömmu, en kominn var lítill pappabolti með geitungum sem brunuðu út og inn. Við vorum að fara saman í ferðalag á Strandirnar og ég hvatti mömmu til að láta þetta vera á meðan og svo myndum við skoða þetta betur saman þegar ég kæmi á Siglufjörð. Nema það að búið var látið stækka og svo gasaði hún fjölbýlið þegar hún kom heim og frysti þar sem það hefur beðið komu minnar þangað til nú. Svo notuðum við tímann áðan til að skoða þetta undur. Þvílík verkfræði sem þeir nýta sér við fjölbýlishúsið. Þetta var á mörgum hæðum og drottningin í miðjunni... og föst við pappann og sá ég að hún hafði verið dugleg að fjölga sér...litlir geitungar hreinlega út um allt bú í fallega gerðum sexhyrningum... alveg fullkomin hönnun.
Hér eru fleiri myndir af þessu undri .... en þetta er samt líklega ekki fyrir viðkvæma .
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gleðileg jól
25.12.2007 | 12:25
Gleðileg jól og takk fyrir allt gamalt og gott.
Við Rituhöfðafjölskyldan höfum það dásamlegt hjá ömmu og afa á Siglufirði. Við nutum þess að fara í kirkju í gær og koma svo heim og borða rjúpur og gæs og vera saman. Shirley nýjasti fjölskyldumeðlimurinn í Sigló Group lofar bara góðu í matarsmekk, enda ekki annað í boði í þessari villimannafjölskyldu. Hún byrjaði á að fá sér skötu á Þorláksmessu og varð hún svo sem ekkert rosalega hrifin, en létti henni samt þegar ég sagði henni að eftir þessa prófraun myndi þetta bara batna því hún hefði trúlega nú þegar borðað það sem útlendingum þætti verst. Hún borðaði svo hangikjötið með bestu lyst og líka rjúpur og gæs á aðfangadagskvöld og líkt og við hin ... Ég sá svo í morgun að þegar ég var að græja gæsatartaletturnar sem ég fékk mér í jólamorgunmat að einhverjir höfðu vaknað í nótt og fengið sér snarl.... en trúlega hefur það verið pabbi, en ekki Shirley.
Það er annars búið að vera gaman að vera með Jóhanni bróður hér á Sigló og hefði ekki verið verra að hafa Kristínu systur og Co hér, en það var nú ekki í boði þar sem þau dugnaðarforkarnir eru að fara að opna nýjan matsölustað í Grindavík Salthúsinu á morgun og eru líka með stóra fjölskyldu sem er ekki auðvelt að millifæra eins og okkur Rituhöfðaliðið. Jóhann hefur ekki verið á Íslandi yfir jól frá því að hann flutti til Bandaríkjanna 1984, en hér var samt allt eins og í gömlu daga, maturinn, ora grænu baunirnar, kók-appelsín og malt, smákökurnar hennar mömmu, eina sem hafði bæst var eitt lítið ávaxtasalat...
Hér eru nokkrar myndir frá Þorláksmessu og aðfangadegi.
Í dag ætlum við að vera aðeins lengur á náttfötunum, fá okkur svo göngutúr í kirkjugarðinn með kerti, lesa og njóta þess áfram að vera bara ...
Ég er annars enn að vinna að jólaannálnum sem verður trúlega áramótaannáll þetta árið, en ég er sannfærð um að mér verður fyrirgefið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.12.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Litla jólabarn
21.12.2007 | 18:09
Jæja jólin eru bara alveg að koma, merkilegt nokk. Allt er ljósum skreytt, jólakortin streyma inn um lúguna og inn í inn-boxið í tölvunni minni, en ég er samt ekki enn komin í þetta eiginlega jólastuð. Fólk spyr mig ... "ertu búin að öllu?".. Ég játa því og ég velti því samt alltaf fyrir mér hvað felist í þessu "öllu". En ég er a.m.k. búin að öllu sem ég ætlaði að vera búin að gera 21. desember 2007. Er búin að klára þriðju önnina í háskólanum, kaupa jólagjafir, er að skrifa á jólakortin eru alveg að fara úr húsi, en verða snubbóttari en vanalega, en ég ætla að bæta það upp með jólaannál fjölskyldunnar sem ég set inn á bloggið um jólin. Við Rituhöfðafjölskyldan fórum svo í jólatívolí í Kaupmannahöfn um síðustu helgi, alveg yndislega ferð sem mun lifa með okkur alla tíð. Elli og krakkarnir eru búin að skreyta smá og setja jólaljós á húsið (enda annars úrskúfuð úr Rituhöfðanum). Við erum að fara á Siglufjörð og getur Sædís Erla ekki beðið eftir því að komast til ömmu og afa á Sigló og er mikil tilhlökkun hjá öllum.
.... en samt, ég er eitthvað svo pollróleg yfir sjálfum jólunum .... ég átta mig samt ekki alveg á því hvort þetta er bara spennufall eftir skólastressið eða hvort ég sé í alvöru hætt að vera jólabarn ..
Ein gömul og góð jólamynd af Ásdísi Magneu þegar hún var bara átta ára með Mola í fanginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Yndislegt líf hjá Rituhöfðafjölskyldunni
16.12.2007 | 19:54
Við höfum það gott hér í kóngsins Köben. Það var bónus í gær að hitta Gumma Fylkis á vellinum, en hann var á heimleið sprækur eins og alltaf. Við erum alltaf að heyra í Sædísi Erlu og höfum það alltaf á tilfinningunni að hún sé með okkur, en við vitum að hún hefur það gott með ömmu Binnu. Síðan við komum erum við búin að njóta þess í botn að vera saman og borða, sofa, ganga, versla, borða, versla, fara í bíó og erum nú á leiðinni út að borða....
Lífið er dásamlegt!
Persónuleg ábyrgð hvers og eins
15.12.2007 | 08:36
Já það er gott að vera loksins að eignast líf og hafa aftur tækifæri til að fylgjast með málum eins og loftslagsráðstefnunni á Balí. Það er greinilegt að enn greinir menn á um áherslur og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég var annars að leita að frétt sem ég fann ekki þar sem fjallað var um byggingarframkvæmdir og losun gróðurhúsalofttegunda og Mosfellsbær sérstaklega tilgreindur í því sambandi vegna nýframkvæmda í bænum. Á hvaða leið erum við í þessum málum?
Ég fór annars sjálf í smá naflaskoðun í siðfræðiverkefni í haust og velti fyrir mér bíladellu fjölskylldunnar. Við Rituhöfðafjölskyldan tókum þátt í Vistvernd í verki fyrir mörgum árum síðan og lærðum ýmislegt nýtilegt sem við höfum lifað eftir varðandi orkunýtingu og umhverfisvernd. Þá kom þetta með ofnotkun bílsins í ljós, en höfum samt ekki unnið markvisst að því að bæta okkur fyrr en nú. Með því að keyra hægar og jafnara, leggja fyrr af stað í skólann, að nýta ferðirnar betur og ýmislegt annað og hefur tekist að draga úr notkun einkabílsins um 19% á síðustu tveimur mánuðum. Við erum ekkert hætt og hver veit nema maður fari bara að nýta almenningsvagnana eftir áramótin og ganga meira.
Að mínu mati getum við ekki sleppt því að líta okkur nær. Velta fyrir okkur hvað við getum gert hvert og eitt til að draga úr notkun náttúruauðlinda og mengun umhverfisins. Tökum ábyrgð á gjörðum okkar því staðreyndin er sú að áhrifa gæti ekki bara staðbundið í kring um okkur heldur um allan heim.
Bandaríkin skrifa undir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2007 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vistfræðipróf og svo jólafrí
13.12.2007 | 23:01
Ég mátti nú til með að setja eina skemmtilega mynd á síðuna svona til að reyna að fela bloggleysið undanfarið. En það mun nú brátt breytast því ég fer í vistfræðipróf á morgun og svo er ég komin í jólafrí í skólanum og hef nægan tíma til að blogga mér til ánægju og yndisauka. Svo af því að mér er svo mikið í mun að sanna það að ég sé ekkert stressuð fyrir jólin ætlum við hjónin að fara með unglingana til Kaupmannahafnar í Tívolí á laugardaginn og mun ég skrifa á jólakortin í vélinni. En litla jólastelpan okkar hún Sædís Erla verður hjá ömmu Binnu og bíð ég bara eftir því að hún fari að hafa áhyggjur af því að jólasveinninn komi ekki til með að fínna hana.
Samábyrgð æfð í Skógarhlíðinni
10.12.2007 | 19:15
Ég gat nú ekki annað en brosað þegar ég áttaði mig á því að dagur var að kvöldi kominn áður en ég áttaði mig á að þetta var Æfingardagurinn, dagurinn sem æfa átti viðbrögð vegna heimsfaraldurs Inflúensu. Ég sá nefnilega frétt á mbl þar sem fjallað var um æfinguna og þessa fínu mynd af Rögnvaldi, Jóni Bjartmarz og Haraldi sóttvarnalækni. Máið er að ég var nefnilega búin að vinna að áætlunargerð með félögum mínum hjá almannavarnadeildinni og fleirum mánuðum saman þegar ég vann hjá Rauða krossinum og því merkilegt að maður hafi ekki verið betur áttaður en raun bar vitni.
Það er ótrúlega raunverulegt að taka þátt í svona æfingu og ég tala nú ekki um þegar spiluðu eru fréttaskot og heimasíðu haldið úti um atburðinn sem á að vera í gangi. Þetta er mikið átaksverkefni og eru ótrúlega margir sem verða að spila saman í bakskipulaginu til að láta hlutina rúlla, svo ekki sé talað um alla viðbragðsaðilana sem eru að æfa sín verkefni og samvinnu við samstarfsaðila. Það hefur vonandi ýmislegt komið í ljós í þessari stjórnstöðvaræfingu sem hægt er að bæta úr, annars væri æfingin alveg handónýt og held ég bara að ég verði að kíkja í kaffi í Skógarhlíðina við tækifæri til að fá skýrslu.
Til hamingju með æfinguna Víðir og Co.
Vel heppnaðri æfingu lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Siðfræðiritgerð - Virkjanaframkvæmdir í sveitinni hennar ömmu, lokaorð
9.12.2007 | 17:47
Það er ekki hægt að byrja að setja inn kafla úr ritgerðinni án þess að koma með lokaorðin.
Lokaorð
Tækniþróun hefur opnað nýjar leiðir fyrir manninn að vísindalegri þekkingu. Sífellt er verið að þróa nýjar aðferðir, oftast fljótvirkari og stórtækar en þær sem fyrir voru, líkt og við þekkjum í raforkuframleiðslu á Íslandi. Fyrst var um að ræða litlar rafstöðvar sem settar voru í bæjarlækinn og rafmagn framleitt til eigin nota. Seinna komu virkjanir eins og Skeiðsfoss sem framleiða áttu rafmagn fyrir nærsamfélagið. Siðferðilegar spurningar varðandi virkjanamál vöknuðu ekki hjá fólki gagnvart náttúrunni og auðlindum og urðu hindrun fyrr en komið er val, líkt og nefnd hefur verið hjá viðmælendum sem allir nefna umræðu dagsins í dag. Á þeim tíma sem Skeiðsfossvirkjun var byggð hefur stóra spurningin í hugum fólks trúlega verið hvort það tækist virkja til að framleiða nægjanlegt rafmagn fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku. Svo sá þáttur yrði ekki hindrun fyrir því að fá að byggja verksmiðjuna í bænum sem gæfi af sér mörg störf og verðmæti til bæjarfélagsins og þjóðfélagsins alls. Ég tel frekar ólíklegt að menn hafi litið á þetta sem svo að þeir yrðu að velja um það hvort bæri að fara í þessar virkjanaframkvæmdir í Skeiðsfossi eða friða ræktuð tún og móa stað þess að sökkva þeim undir vatni. Ég er jafn sannfærð um að þeir sem fluttu af jörðinni sinni hafa samt ekki gert það tregalaust, líkt og gerist í dag þegar um uppkaup á heimilum fólks er að ræða, en ég er samt ekki viss um að það hafi verið náttúran og lífríkið, heldur vegna þess að landið hafði verið í þeirra kynslóð fram af kynslóð og því var þetta kannski meira vegna æskustöðvanna, rótanna.
Líkt og um gjörvallan Vestræn heim hafa mannhverf viðhorf verið ríkjandi í Fljótunum á þeim tíma sem Stíflan var byggð og Skeiðsfoss virkjaður. Ég hef samt staðfestingu fyrir því að til voru manneskjur á þeim tíma sem töldu náttúruna sjálfa hafa gildi. Sem höfðu veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar, líkt og Herdís amma mín sem tregaði fossinn sem hvarf. Fossinn sem hún skildi að þyrfti að víkja fyrir tækninni og þörfum mannanna, hennar sjálfrar og myndi nýtast afkomendum hennar kynslóð fram að kynslóð.
Ég var tæplega þriggja ára þegar lífsljós ömmu slokknaði á sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. nóvember 1968. Þá hafði Skeiðsfoss verið vatnslaus í meira en 23 ár. En viðhorf ömmu til náttúrunnar munu lifa kynslóð fram af kynslóð í ljóðinu hennar sem hún orti þegar búið var að virkja Skeiðsfoss og hann var orðinn vatnslaus.
Fossinn
Þitt kjörorð var frelsi með kyngi í hljóðum
kraftur og algleymi fylgdi þeim ljóðum
töfrandi litskrýddum ljósperlum stráði
á landi sem augað og sálin mín þráði.
tröllaukni foss þú varst tekin og bundinn,
taminn og vilji þinn léttvægur fundinn.
Nú hefur tæknin tekið þig höndum
tamin og reyrðan vélanna böndum
allur þinn máttur til mannanna þarfa
metinn og veginn nóg er að starfa.
Í skiptum á litskrúð og ljóðanna glaumi,
Lýðurinn fagnar nú raforkustraumi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2007 kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)