Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Umhverfisdagar (Green days) - dagskrá

Dagana 1.-3. apríl 2008 verða Umhverfisdagar í Háskóla Íslands haldnir í fyrsta skipti. Tilgangur daganna er að auka umhverfisvitund meðal stúdenta og starfsfólks skólans. Að þessu sinni verður athygli einkum beint að endurvinnslu og neyslu. Að Umhverfisdögum standa GAIA - félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við HÍ.

Dagskrá Umhverfisdaga er mjög spennandi. Nefna má opna kynningarbása á Háskólatorgi, kvikmyndasýningu, fyrirlestra, spurningakeppni (umhverfis-quiz) og lokahátíð á Grand Rokk. Dagskráin í heild sinni er aftast í þessum pósti. Nánari upplýsingar um einstaka dagskrárliði er að finna á viðburðadagatali á forsíðu http://www.hi.is/

Sérstök athygli er þó vakin á tveimur atburðum:

,,We Feed the World" - sýning á austurískri heimildamynd sem  fjallar um misjafnt aðgengi jarðarbúa að fæðu og hefur hlotið mikið lof á kvikmyndahátíðum erlendis. (96 mín - enskur texti). Að lokinni sýningu verða umræður um innihald myndarinnar. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
Staður og stund: stofa HT-105, Háskólatorgi þriðjudag 1. apríl kl 16:40


Kaupa fyrst, henda svo?
- hádegisfyrirlestrar Umhverfisdaga

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda
- Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR

Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu: Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni
- Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu

Nánar um fyrirlestrana:

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda

- Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR

Prófuð voru áhrif mismunandi verðlagningar ákveðins vörumerkis á hlutfallslega sölu (markaðshlutdeild) þess í stórmörkuðum. Notast var við breytilegt inngripssnið, sem þykir henta sérlega vel þegar útiloka þarf áhrif ytri þátta sem ógna sambandi frumbreytu og fylgibreytu. Verð á ákveðnu vörumerki í vöruflokknum hársápu var öðru hverju, samkvæmt tilraunasniði, lækkað umtalsvert. Samkvæmt lögmáli eftirspurnar skal búast við því að aðgerð sem þessi muni auka sölu vörumerkisins sem lækkaði í verði, gagnvart sínum vöruflokki. Það varð ekki raunin heldur varð hlutfallsleg sala vörumerkisins, þegar verð var lækkað annað hvort sú sama eða minni. Mögulegar ástæður þessa eru ræddar og bent á frekari rannsóknir með það að markmiði að skýra þessar óvæntu niðurstöður enn frekar.

Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu. Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni

- Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu

Fyrirlesturinn mun fjalla um SORPU og hlutverk SORPU við móttöku úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Komið verður inn á hlutverk hvers og eins í ferlinu við meðhöndlun úrgangs, þ.e. hvað ber hverju okkar að gera og af hverju. Farið verður í gegnum hverjar starfsstöðvar SORPU eru, hvaða flokkunarmöguleika fyrirtækið býður uppá og hvað verður um þann úrgang sem kemur til meðhöndlunar; í hvað er hann notaður sem hráefni? Einnig verða framtíðarhorfur úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu reifaðar, hvert við stefnum og með hvaða hætti.

Dagskrá Umhverfisdaga í Háskóla Íslands

1. apríl:

11:30
Opnir básar á Háskólatorgi - umhverfisvænar vörur og lausnir

16:40
Sýning heimildamyndarinnar „We Feed the World" (96 mín - enskur texti) og umræður í lok myndar um efni hennar.
Stofa HT-105, Háskólatorgi.

2. apríl:

12:00 - Stofa HT-104, Háskólatorgi.
Hádegisfyrirlestrar Umhverfisdaga: Kaupa fyrst, henda svo?

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda
- Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR

Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu: Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni
- Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu

20:30 - staður: Highlander, Lækjargötu 10.
Umhverfis-Quiz - Spurningameistari er Katrín Jakobsdóttir.

3. apríl:

21:00 - staður: Grand Rokk, Smiðjustíg 6.
Lokahátíð Umhverfisdaga á Grand Rokk!

English version:

In April 1st - 3rd, Green days will, for the first time, be celebrated at the Uni Iceland campus. The goal of Green days is to create awareness among students and staff. The chosen topics this time are consumption and recycling. The organizers of Green days are Gaia - Masters Students at Environment and Natural Resources, The Student Council and Institute of
Sustainable Development at the UI.

Many events are planned. They include green promotion in Háskólatorg, movie, lectures, Enviro-quiz, and a grand party at Grand Rokk!

The program goes as follows:

April 1st:

11:30 - location: Háskólatorg.
A number of Icelandic companies and agencies will promote their ecofriendly products and solutions.

16:40 - location: Room HT-105, Háskólatorg.
The Austrian documentary „We Feed the World" (96 min - English subtitles), followed by short discussion about the film's subject.

April 2nd:

12:00 - Location: Room HT-104 Háskólatorg
Lunchbreak lectures (in Icelandic): Kaupa fyrst, henda svo?(e. Buy first, then dispose?)

Tilraunir á áhrifum verðs á kauphegðun íslenskra neytenda (e. Behaviour of Icelandic Consumers).
- Valdimar Sigurðsson, lektor við viðskiptadeild HR

Úrgangsmálin á höfuðborgarsvæðinu: Hver og einn skiptir máli í góðri meðhöndlun með gott hráefni (e. Waste in the Capital Area: The Role of Individuals)
- Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri gæða- og þjónustusviðs Sorpu

20:30 - location: Highlander, Lækjargata 10.
Enviro-Quiz (in Icelandic)

April 3rd:

21:00 - location: Grand Rokk, Smiðjustígur 6.
Green days' harvest celebration!

Hefur þú grænan grun

n533586611_697288_6224

GAIA - félag nema í umhverfis og auðlindafræðum við Háskóla Íslands stendur fyrir grænum dögum í Háskólanum á næstu dögum. Þetta átak er gert til að auka vitund nemenda og starfsfólks skólans um að það sem við gerum hvert og eitt í umhverfismálum skiptir máli.

Hefur þú grænan grun?

Umhverfisvernd er bara tískuorð frá útlöndum?

Rangt. Umhverfisvernd er skylda okkar allra.

Þeir sem hugsa um umhverfið eru bara einhverjar listatýpur eða minnipokafólk.

Allir ættu að hugsa um umhverfið.

Ég get ekki staðið í því að eltast við umhverfisvænar vörur - sem eru svo kannski rándýrar.

Umhverfisvænar vörur fást í festum verslunum og kosta minna en þú heldur. Kaupum frekar vörur framleiddar á Íslandi! Eða notað!

Það er hræsni að vera umhverfisvænn að sumu leyti en ekki öðru.

Róm var ekki byggð á einum degi. Við verðum að byrja einhversstaðar.

Endurvinnsla er tómt vesen sem ég hef ekki tíma í.

Endurvinnsla tekur enga stund. Komdu þér bara upp góðu flokkunarkerfi, t.d. fyrir partíið.

Ég vil ekki líta út fyrir að velta hverri krónu.

Að pæla í neyslu er merki um ábyrgð, ekki nísku.

Ruslahaugarnir taka endalaust við.

Ruslahaugarnir eru í bakgarði þínum, ekki óbyggðum! Þeir teppa verðmætt land og geta valdið mengun.

Skiptir mín viðleitni einhverju máli ef aðrir ómaka sig ekki??  

JÁ ekki spurning!

GAIA - félag meistaranema í umhverfis og auðlindafræðum við Háskóla Íslands

Stúdentaráð HÍ -  www.student.is

Stofnun Sæmundar Fróða um sjálfbæra þróun - www.ssf.hi.is


Heimgreiðslur, samstaða um málið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Mér varð nú hugsaði til þess í morgun þegar ég las greinina hennar Guðríðar bæjarfulltrúa í Kópavogi að stundum væri fólk á móti, bara til að vera á móti. Hún segir að börn þeirra foreldra sem ekki eru á leikskóla séu ver undirbúin fyrir grunnskóla. Maður getur alveg ímyndað sér það, en ég man samt ekki eftir því að hafa séð rannsóknarniðurstöður sem staðfesta þetta, enda sjálfsagt erfitt að finna börn sem ekki hafa verið á leikskóla. Mig minnir að ég hafi séð að það væru um 95% barna á Íslandi á leikskóla í dag. Ég held ég viti bara ekki um neitt barn í kring um mig sem aldrei hefur verið á leikskóla. Í greininni er hún að gagnrýna það að Kópavogur sé að spara með því að taka upp heimgreiðslur. Er ekki bara jákvætt að draga úr útgjöldum sveitarfélagsins? Jú þeir gera það örugglega, en það eru ekki ný vísindi að leikskólaplás kosti sveitarfélög mikið. En hvernig sem á þetta mál er litið þá er leikskólaþjónustan val. Við erum ekki með leikskólaskyldu og þetta er ekki heldur lögbundið verkefni sveitarfélaga.... Leikskólastigið er vissulega skilgreint sem fyrsta skólastigið og hér er leikskólastarf metnaðarfullt og að mínu mati algjörlega á heimsmælikvarða. En samt sem áður er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig þjónustan er upp byggð og hefur mikil þróun verið í þessum málum undanfarin ár. Í Mosfellsbæ verða byggðir tveir nýjir leikskólar með deildir fyrir 1-2ja ára börn á næstu árum. Það er líka okkar val, alveg eins og heimgreiðslurnar nú.

En aftur að heimgreiðslunum.

Hér í Mosfellsbænum komu foreldrar og óskuðu eftir því að teknar yrðu upp heimgreiðslur til að þeir gætu verið lengur heima hjá ungum börnum sínum. Málið var unnið áfram og við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008 var ákveðið að taka upp heimgreiðslur á árinu til foreldra eins til tveggja ára barna. 1. apríl nk. verður byrjað að greiða mánaðalega styrki sem nema 25.000 kr á mánuði, en styrkur fyrir forgangshópa 31.800 kr.

Ég er stolt að segja frá því að í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur verið algjör samstaða um málið,  enda ekki sjálfsprottið hjá okkur, heldur kom þetta til vegna óska foreldra. Ég veit að þeir foreldrar litu m.a. til þess sem gert var í Kópavogi og er nú einnig búið að taka slíkar greiðslur upp í fleiri bæjarfélögum.  

Við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn í vikunni var bókað.

Styrkir til fjölskyldna eins árs barna fram að leikskólavist.

Afgreiðsla 873. fundar bæjarráðs, staðfest á 487. fundi bæjarstjórnar með sjö atkvæðum.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar bregst við óskum foreldra eins til tveggja ára barna um greiðslur, til að mæta kostnaði við umönnun þeirra. Samþykkt er greiðsla til allra foreldra, óháð því hvort þeir nýta sér þjónusta sveitarfélags, einkaaðila eins og dagforeldris eða annast barn sitt sjálfir. Með þessu móti njóta foreldrar barna á fyrrgreindum aldri jafnræðis og tekið er undir þau mikilvægu sjónarmið að börnin njóti lengur samvista við foreldra sína.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkir jafnframt að beina tilmælum til ríkisstjórnar Íslands um að fram fari endurskoðun á lögum um fæðingarorlof þannig að fæðingarorlofið verði lengt úr níu mánuðum í eitt ár.

Í mínu huga snýst þetta um aukið val fyrir barnafjölskyldur, nýjan valkost. Það er öllum ljóst að þetta geti haft í för með sér hættu á að konur velji að vera lengur heima með ungum börnum sínum, en ekki sjálfgefið. Ég get ekki séð að það sé neitt slæmt að verja meiri tíma heima í rólegheitum, í umsjón einhverra sem koma inn á heimilið eins og ömmu og afa eða ég tala nú ekki um foreldranna sjálfra. Hingað til hafa þessar greiðslur aðeins verið greiddar til foreldra sem hafa verið með börnin hjá dagforeldrum, en nú verður einnig hægt að fá styrk með börnum sem eru heima með "auperum" sem er að færast í vöxt með aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Hvernig getur þetta verið neikvætt. Er ekki einmitt verið að hvetja fólk til að hægja á, í samfélagi sem hefur verið á yfirsnúningi í fjölda mörg ár.

Í Mosfellsbæ verður hægt að óska eftir heimastyrk frá og með 1. apríl. Ef það verður til að foreldrar verja meiri tíma með ungum börnum sínum, sé ég ekki hvernig það getur verið slæmt fyrir börnin.


Matjurtanámskeið á Dalsá í Mosfellsdal

SHUVR0407

Jæja þá er komið vor, eða það hlýtur a.m.k. að vera fyrst ég er að fara á matjurtanámskeið, þrátt fyrir að hitastigið úti bendi nú ekki beint til þess. Ég hef ekki neinn tíma í sjálfu sér, en ákvað að splæsa á mig þessu námskeiði til að auðvelda próflestur og bæta geð Smile. Síðan er ég náttúrulega með mitt matjurtahorn í garðinum sem til stóð að nýta betur... og nú er sá tími kominn.

Skelltu þér með mér á námskeið!

 

  Matjurtanámskeið á Dalsá í Mosfellsdal

Námskeið í ræktun matjurta  í heimilisgörðum, á svölum og sólpöllum

3. og 19. apríl og 22. maí, samtals 8 klst.

Fim 3. apríl kl 19:30-22:00

Staðsetning og skipulag garðsins. Val á tegundum. Vaxtarrými. Ákjósanlegur vaxtarstaður fyrir hverja tegund.

Fræðsluerindi um tegundir og skipulag garðsins og umræður um heimilisgarðinn, stærð hans og tegundaval.

Lau  19. apríl kl 10:00-13:00

Sáning og priklun. Lærum að dreifsetja (prikla) sáðplöntum og sá.

Fræðsluerindi um sáningu og uppeldi ungplantna. Síðan sá þátttakendur og dreifsetja nokkrum tegundum til framhaldsræktunar heima hjá sér.

Fim 22. maí kl 19:30-22:00

Jarðvegurinn, safnhaugurinn, áburður, útplöntun, lífrænar varnir. Umönnun matjurtagarðsins yfir sumarið. Uppskera.

Fræðsluerindi um lífrænan áburð, lífrænar varnir o.fl varðandi umönnun matjurtagarðsins. Síðan verður farið út í garð og skeggrætt þar og gulrótum og vorlauk sáð.

 

Verð 12.000 kr . Óafturkræft staðfestingargjald 4.500 kr greiðist við skráningu og eftirstöðvar við upphaf námskeiðsins.

Upplýsingar og tilkynning þátttöku: hanna@smart.is

eða í síma 899 0378.

Leiðbeinandi Jóhanna B.Magnúsdóttir,

garðyrkjufræðingur

             

                    


100% afslöppun á Siglufirði um páskana

 

Salóme Kristín með stóru fallegu augun

Það var ljúft að vera á Siglufirði hjá mömmu og pabba um páskana. Svo ofur ljúft að ég sat bara heima og las, vann og sat og spjallaði í eldhúsinu á Laugarveginum. Eina heimsóknin sem ég fór í var til Stellu og Palla og þar sá ég hana Salóme Kristínu litlu yndislegu snúlluna þeirra Róberts og Ellu í fyrsta sinn og líka Gulla hennar Pálu. Sædís Erla var mest með hugann við Valíant prins og hélt ég að hún gengi frá kettinum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Ég held ég hafi aldrei áður komið á Siglufjörð og verið þar í meira en sólarhring og sleppt því að fara í heimsókn til Helgu Sverris vinkonu minnar, nema þegar ég gat ekki gengið. Steina og Dóri fengu ekki heldur heimsókn, ekki Baldi og Gróa og ekki heldur Jórunn og Bjössi, en við ætluðum svo sannarlega að kíkja í kaffi til þeirra og skoða nýja húsið. 

Ég hitti svo Maddý Þórðar sem var að koma í bæinn og til landsins eftir að hafa farið að sjá litlu ömmusnúllu No. 2 og knúsað No.1 og alla sína í úttlandinu. Hún hafði lent í bílveltu og útafakstri á leiðinni Suður um daginn, en áfram hélt hún. Enda kommon, þetta er Maddý LoL. Við ákváðum að hún myndi safnaði rauðvíni þangað til ég yrði búin í skólanum og svo kæmi ég á Sigló og hjálpaði henni með það þegar ég færi að skrifa ritgerðina í sumar.

Það má líklega segja að ég hafi náð 100% afslöppun í páskafríinu og sé tilbúin í lokaatið í skólanum.... nokkrar ritgerðir og próf og 5.maí verður síðasta prófið búið.

Ella og Salóme Kristín

Sædís Erla  og Valíant

Róbert og Salóme litla

 


Ritgerð um Helgafellsveg í Mosfellsbæ

Í gær á leiðinni heim náði ég að vinna í ritgerð alla leiðina, þökk sé inverternum hans Gumma. Ég er að skoða Helgafellsmálið ásamt Sigrúnu Maríu skólasystur minni sem jafnframt er blaðamaður. Við erum að skoða feril málsins og læt ég henni blaðamanninum eftir rannsókn á öllu sem huglægt. Ég er að skoða lagarammann, feril máls, auglýsingarnar, athugasemdirnar og svörin og hvernig framkvæmdin hefur breyst á skipulagstímanum. 

Það er annars merkilegt að eitt deiliskipulag hafi verið auglýst þrisvar sinnum og þess hafi verið krafist að gerð yrði breyting á aðalskipulagi líka. Það virðist í fljótu bragði vera fjölmargar ástæður fyrir þessu og verður gaman að vinna úr gögnunum og kryfja málið á annan hátt en gert hefur verið áður. Ég á hreint ekkert erfitt með að standa fyrir utan bæjarfulltrúann við þetta verkefni og horfa á hlutina með augum vísindamannsins. Trúlega hefur vinna mín við stjórnsýsluna og meistaraverkefnið sem gengur út á greiningarvinnu sitt að segja í því efni. En ef ég hefði haft áhyggjur af þessu í byrjun hefði ég farið í eitthvað annað nám en umhverfis og auðlindafræði þar sem ég þarf að vera hlutlaus.

En við erum langt komnar og mun ég svo sannarlega segja frá niðurstöðum okkar hér á blogginu þegar þær liggja fyrir. Kennarinn sá drögin okkar og nálgunina sagði að við ættum a.m.k. að kynna þetta fyrir Skipulagsstofnun og Mosfellsbæ og hver veit nema við gerum það í vor.

 


Stuðningur við barnafjölskyldur í Mosfellsbæ

Ég var að velta því fyrir mér hvað marg jákvætt er að gerast um þessar mundir í Mosfellsbæ og hvað það eru mikil forréttindi fyrir mig sem bæjarfulltrúa og formann fræðslunefndar að fá að taka þátt í þessari vegferð og hafa áhrif á þróun mála. Hér eru nokkur mál sem mér eru ofarlega í huga í dag og varða yngstu Mosfellingana og fjölskyldur þeirra.

Uppbygging nýrra leik- og grunnskóla

Mosfellsbær er á miklu vaxtarskeið og er því verið að vinna að uppbyggingu þriggja nýrra grunnskóla í bæjarfélaginu. Í Krikahverfi og Leirvogstungu verða byggðir sambyggðir leik- og grunnskólar, sem er nýjung hér á landi og vakið hefur mikla athygli og er ég sannfærð um að búið er að leggja vörðu í skólasögu Íslands. Skólarnir verða fyrir börn frá 1. árs aldri og upp í 4. bekk grunnskóla.  Mikil áhersla er  lögð á hreyfingu og útivist því verða þetta skólar þar sem pollagallinn verður með í skólatöskunni alla daga og mikil útikennsla mun eiga sér stað. Einstaklingsmiðað nám verður haft að leiðarljósi og heilsdagsskóli verður að veruleika.  Það hefur verið sérstaklega gaman að vinna að þessu verkefni og má sjá meira um skólann á nýrri heimasíðu Krikaskóla. Búið er að auglýsa eftir skólastjóra Krikaskóla og er gert ráð fyrir að skólinn muni taka til starfa í Krikahverfi haustið 2009, en í vor mun starfsemi Krikaskóla samt hefjast í bráðabirgðahúsnæði á lóð Helgafellsskóla.

Styrkgreiðslur hefjast allra ungbarnafjölskyldna sem það kjósa

Fyrsta apríl næstkomandi mun Mosfellsbæ hefja styrkgreiðslur til fjölskyldna 1-2ja ára barna. Er verið að stíga enn eitt skrefið í stuðningi við ungbarnafjölskyldur í bæjarfélaginu. En það er eftir sem áður mín skoðun að mikilvægt sé að ríkisstjórnin lengi fæðingarorlofið líkt og stjórnarsáttmáli Sjálfstæðismanna og Samfylkingar kveður á um og vona ég að því verði breytt sem fyrst. Upphæðin er kr. 25.000, almennt gjald og kr. 31.800, forgangsgjald og mun nema því sama og þeir foreldrar fá sem nýta sér þjónustu dagforeldra. 

Samvinna við sjálfstætt starfandi dagforeldar

Á síðasta kjörtímabili hófu Sjálfstæðismenn að niðurgreiða dagforeldravist til hjóna og sambúðarfólks, en fyrir það hafði eingöngu verið greiddur styrkur til forgangshópa.  Það er mikilvægt að daggæsla í heimahúsum sé eftirsóknarverður kostur fyrir yngstu börnin og að foreldrar geti gengið að öruggri daggæslu í bæjarfélaginu eftir að fæðingarorlofi lýkur. Það er þó nokkuð ljóst að nokkur breyting á eftir að verða á daggæslu barna á næstu árum og áratugum. Í Krikaskóla verður til að mynda deild fyrir börn frá 1-2ja ára og er einnig gert ráð fyrir slíkri deild við Leirvogstunguskóla. Ekki er ljóst hvort þróun í daggæslumálum verði í þá veru að sveitarfélög veiti almennt þjónustu frá því að fæðingarorlofi lýkur, en í mínum huga verður slíkt ekki mögulegt nema með góðri samvinnu við sjálfstætt starfandi dagforeldra.

Ýmsar nýjar leiðir hafa verið farnar í samvinnu bæjaryfirvalda og dagforeldra í Mosfellsbæ. Unnin hafa verið þróunarverkefni sem miða að því að auðvelda vinnuaðstæður og vinna gegn félagslegri einangrun dagforeldra. Dæmi um slíkt verkefni er "Lestin" Þar sem metið var hvort það að hafa 5 barna kerru  hefði áhrif á starfið. Það sýndi sig að kerran auðveldaði til muna að fara með litlu krílin út og hreyfa sig úr stað.  Annað verkefni er samvinna við Kjósarsýsludeild Rauða krossins, þar sem dagforeldrar geta hist í húsnæði deildarinnar með börnin "sín" og notið samvista og hefur verið mikil ánægja hjá þeim sem hafa tekið þátt. Framundan eru fleiri spennandi verkefni og verður áfram unnið að því að fjölga dagforeldrum í bæjarfélaginu og auka stuðning og samvinnu við þá á komandi árum.

 

Það verður seint vinsælt í draga saman í rekstri líkt og við Sjálfstæðismenn gerðum þegar við komust til valda í bæjarstjórn árið 2002. En svo höfum við haldið áfram að halda fast um budduna, svo fast að mörgum hefur þótt nóg um. En við sáum fram á að ef vel yrði staðið að málum myndum við uppskera að lokum. Þegar maður lítur til þess sem unnið hefur verið að í Mosfellsbæ frá 2002 og í samstarfi við Vinstri gæn undanfarin tvö ár megi segja að kominn sé uppskerutími.

 


Hundalíf á Siglufirði

Lucy okkar, alltaf jafn falleg

Ég mátti til með að setja inn fleiri hundamyndir fyrir Stóru systur mína í Grindó Smile.

Lady á stökkinu

Sædís Erla með Sædísi í bandi

Niður Vennastíginn á maganum

Við Sædís Erla fórum í göngutúr með hundana eða það má segja að Lady hafi dregið Sædísi .. fyrst þaut hún fram og til baka með hana eftir Laugarveginum, en síðan dró hún Sædísi líka niður Vennastíginn og mamman passaði sig á því að taka fyrst myndir og hjálpa svo. Við fórum svo heim og kíktum á páskaeggið og fórum svo á fjörðinn með afa.

Pabbi á firðinum

Hér er hægt að sjá fleiri myndir af göngutúrunum á myndasíðunni minni.


Páskaeggjaleit á Sigló

Gleðiðlega páska.

Sædís Erla sagði í gær að hún ætlaði sko snemma í háttinn því hún ætlaði sko að vakna snemma til að leita að páskaeggjunum... hún stóð við annað... þ.e. að vakna snemma því upp úr sjö var kominn dagur!

Stóru krakkarnir drusluðust upp á eftir litla skottinu sem þaut upp og svo hófst leitin. Mér tókst sérstaklega vel upp í ár W00t, enda amma og afi búin að snúa stofunni við og því var mikið um nýja felustaði.

DSC06421

Sædís Erla fór beint á gamla staðinn undir skrifborðinu.... og sagði að eggið hefði verið þarna í gær (hún meinti fyrra), en mamma klikkaði nú ekki á'ðí ó nei... núna var það nýr staður, enda mín komin einu ári ofar í páskaeggjaleitarþroska. Hún fann á endanum eggið sitt fyrir aftan græjurnar og varð heldur sæl.

Ásdís fann sitt fljótlega ofan í kistli á ganginum en Sturla var að verða brjálaður því hann fann ekki sitt. Á endanum urðum við að fara í heitur og kaldur og kom þetta þá hjá karlinum, en einn brillíant staður hjá mömmu he he, fyrir aftan bækur á skrifborðinu. Elli átti í pínu vandræðum með sitt, en við höfðum falið það í þvottapokakörfu á baðinu. Hann tók nefnilega þvottapoka úr körfunni seint í gær og hélt sig því vita nokk að eggið væri ekki þar. En hann fékk sem sé páskaegg karlinn þrátt fyrir sykursýkina, húrra fyrir Freyju.

Allir fengu sinn málshátt og voru þeir misjafnir eins og alltaf og þótti mér Ella málsháttur frekar sérstakur. " Allt sem þú þarf í lífinu er þekkingarskortur og sjálfstraust". Það er sjálfsagt það að ef maður er ekki forvitinn og þyrstir í þekkingu vantar allt drive í lífið,,, eða?

Afi fékk; "Góður orðstír kemur smám saman, en illur er auðfenginn"

Amma fékk; "Enginn lifir svo lengi að hann eigi ekki einhverju ólokið"

Ásdís Magnea fékk; "Þolinmæði þrautir vinnur allar"

Sædís Erla fékk; Ráð skal fá hjá reyndum vin"

Ég sjálf fékk; Góðverk liggja í þagnargildi, illverk æða um allar götur"

Sturla fékk; "Engin æska er án breka"

Hér eru nokkrar páskaeggjamyndir

Sturla að missa sig í eggjaleitinni

IMG_6964

c_users_herdis_pictures_2008_paskar_siglo_2008_paskadagur_dsc06418.jpg

DSCF0688

Sædís Erla með páskaeggjahatt

 

 

 

 


mbl.is „Upprisan tákn gleði og vonar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er yndislegt veður á Siglufirði og skíðasvæðið opið

Skíðasvæðið í skarðinu

Við pabbi og Sædís Erla fórum með hundana á fjörðinn áðan í yndislegu veðri. Elli og stóru krakkarnir fóru á skíði og Sædís Erla fór líka nokkrar bunur í morgun. Mér varð nú hugsað til Siggu og Péturs þegar ég sá að allt var lokað í Bláfjöllum...... þeim hefði nú verið nær að koma á Sigló ;). Hér eru nokkrar stökkmyndir af Lady úr göngutúrnum. Það má líka sjá svartan reyk á sumun myndunum, en það kveiknaði í gámi á meðan við voru á firðinum, en slökkviðið hafði slökkt eldinn þegar við voru komin í bæinn aftur.

Hundagöngutúr í góða veðrinu

x_DSC06243

Sædís Erla á bruninu

Lady á stökkinu

c_users_herdis_pictures_2008_paskar_siglo_2008_laugardagur_dsc06259.jpg

c_users_herdis_pictures_2008_paskar_siglo_2008_laugardagur_dsc06330.jpg

 

 


mbl.is Lokað í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband