Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Samspil manns og náttúru

Að undanförnu hef ég verið að stúdera frjáls félagasamtök er starfa að umhverfismálum og náttúruvernd hér heima og erlendis. Ég er skrifa ritgerð um Climate Action Network(CAN), sem eru regnhlífarsamtök er starfa um alla heim og vinna ötullega að loftslagsmálum. Það eru 365 samtök starfandi undir CAN og eru Náttúruverndarsamtök Íslands (NÍ) einu íslensku samtökin sem starfa með þeim. Ég vann einmitt verkefni um Náttúruverndarsamtökin og þótti mér stórmerkilegt að skoða sögu samtakanna. Sagan þeirra hófst allt líkt og með fjölmörg önnur slík samtök á hugsjónum manna og auglýsingu í blaði. Árið 1997 voru samtökin stofnuð og í dag rúmum áratug síðar eru 1300 félagar í samtökunum. Þau hafa sýnt yfirvöldum aðhald frá upphafi líkt og þau einsettu sér að gera og eins hafa þau unnið markviss að því að upplýsa almenning um ýmis mál líkt og Kárahnjúka.

Það hefur verið gaman að skoða þessi mál og eru samtökin mis kröftug og með mjög mismunandi uppbyggingu, stefnu og baráttuaðferðir. Landvernd var lengi vel frekar hlutlaus og halda margir jafnvel að Landsvernd sé ríkisstofnun. En það hefur breyst að undanförnu og er bein ádeila á ríkisvaldið orðin meira áberandi og eru þau á margan hátt farin að líkjast Náttúruverndarsamtökunum Íslands. En NÍ hafa frá upphafi verið fljót að bregðast við því sem yfirvöld hafa verið að gera í umhverfismálum. Framtíðarlandið fékk mikinn byr undir báða vængi, en svo virðist sem þeir hafi tapað trúverðugleika með því að tengja sig beint við Íslandshreyfinguna.

Að mínu mati hafa öll þessi samtök unnið gott starf og líkt og með flest þá eru viðhorf fólks til umhverfismála og náttúruverndar breytileg. Mikilvægt er að þeir sem hafa vald til ákvarðatöku nái að sætta sjónarmið og komast að sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta. Hér á landi eru greinilega ríkjandi veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar. En stundum sér maður samt afar misvísandi skilaboð í því sem sagt er og skrifað. Hér er skólabókardæmi um slík er kemur fram í bókun á 95. fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

"Ljóst er að stækkun Mosfellsbæjar kemur til með að hafa áhrif á náttúru og viðkvæm svæði í sveitarfélaginu og þess vegna ber að fara með meiri nærgætni og hafa umhverfisjónarmið að leiðarljósi fyrir allar framtíðar vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ........ ......Framkvæmd þessi þrengir verulega að íþróttastarfssemi hestamanna og e.t.v stækkun á hesthúsahverfinu. Ágætis byggingarsvæði er tekið undir veg og útilokar alla framtíðar uppbyggingu á þessu svæði.

Hvað er verið að segja í þessari bókun?  Ekki má gera veg fyrir íbúa nýs hverfis í bæjarfélaginu og tengja hverfið við miðbæ Mosfellsbæjar og tengja saman skólahverfi, en það er hins vegar allt í lagi að byggja upp fleiri hesthús á nákvæmlega sama landsvæði?

Það er óhætt að segja að síðasta áratuginn hafi viðhorf til umhverfismála breyst mikið um allan heim. Það má segja að almenningur hafi í dag bæði meiri áhuga á umhverfismálunum og láti sig þau varða og eins hefur aðkoma almennings að skipulagsmálum breyst með auknum rétti til að hafa bein áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir og skipulagsáætlanir yfirvalda. 

Að mínu mati hefur sú þróun sem átt hefur sér stað á liðnum áratug eða svo verið jákvæð.

  • Það er jákvætt að fólk láti sér annt um náttúruna og krefjist þess að gengið sé um sameiginlegar auðlindir af virðingu og að fólk sýni sjálft gott fordæmi í þeim efnum. 
  • Það er líka mikilvægt að beita mótvægisaðgerðum til að draga úr beinum áhrifum á umhverfið og lífríki þar sem framkvæmdir fara fram. 
  • Það er líka nauðsynlegt að einstaklingar og félagasamtök sýni yfirvöldum aðhald og vinni með þeim að því ná sem bestri niðurstöðu í þágu náttúrunnar.

Að mínu mati er samt enn allt of mikið rætt um yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein. Ég held líka að oft misskilji fólk samt tilganginn með athugasemdum, eða nýti sér sinn rétt meira í pólitískum tilgangi og vegna einkahagsmuna, en vegna beinnar umhyggju fyrir umhverfinu og er slíkt ekki trúverðugt. En með lögum um umhverfismat og umhverfismat áætlana og lögum um náttúruvernd og fleiri lögum er samt búið að setja ramma og leikreglur sem öllum ber að fara eftir. Það er því niðurstaða mín að hvernig sem á þetta mál er litið verði fólk að hafa í huga að lögin og leikreglurnar eru að fjalla um samspil manns og náttúru. Hvernig ber að draga úr mengun, forðast óþarfa ágang og náttúruspjöll og að nútímamaðurinn taki ekki eigin hagsmuni umfram hagsmuni komandi kynslóða varðandi nýtingu náttúruauðlinda til lífsafkomu sinnar.

 


Föstudagurinn langi

Ég var að velta fyrir mér áðan hvað föstudagurinn langi hefur breyst frá því að ég var krakki. Þá voru Passíusálmarnir lesnir í útvarpinu og kristilegar myndir af píslargöngu Jesú og krossfestingum á Golgata sýndar í sjónvarpinu og hafði mamma alltaf fiskur á boðstólnum. Í dag er föstudagurinn langi að kveldi kominn og heyrði ég Megas lesa passíusálmana í útvarpinu, en fyrir þá sem ekki vildu hlusta á það var hægt að velja úr ótal útvarpsrásum með öðru efni. Ég sá líka krossfestingar, en að þessu sinni voru þær ekki leiknar heldur frétt um fisksalann sem var að láta krossfesta sig í að mig minnir 15 sinn, en líkt og áður var hægt að skipta um rás ef þjáningarnar hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. En þar sem ég er stödd hjá mömmu og pabba fékk ég líkt og í denn góða gratíneraða fiskinn í kvöldmatinn.

Föstudagurinn langi er dagur sem ég nota til að íhuga og slaka á og fara yfir það hvaða hlutir það eru sem skipta mig raunverulega máli. Ég fer alltaf í kirkju á föstudeginum langa á Siglufirði, en ekki til að hlusta á passíusálmana lesna upp heldur til að fara á fund með honum Ella mínum og hitta góða félaga og kom Sturla með okkur í dag. 

Ég komst að því í dag í mínum einkapælingum að nú er kominn er tími til að slaka sér enn frekar á. Um áramótin ákvað ég að árið 2008 yrði ár vina og fjölskyldu. Ég er markviss búin að heimsækja vini og félaga og verja meiri tíma með fjölskyldunni, sem ég hef ekki gert of mikið af á liðnum árum sökum vinnu... en HALLÓ!  Mitt mottó í lífinu hefur verið "að lifa lífinu lifandi". En ég hef stöðugt þurft að minna mig á það að LIFA er fyrir það fyrsta alls ekki sjálfgefið og svo hitt að það er ekki heldur að kafkeyra sig í vinnu og vanrækja vini og fjölskyldu.

Fyrir nákvæmlega ári síðan tók ég ákvörðun um að trúlega væri kominn tími til að hætta hjá Rauða krossinum, sem hafði á vissan hátt verið mér lífið. Ég hætti þar síðasta haust og einhenti mér í háskólanámið og bíður mín útskrift í haust. Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega, en í dag líður mér betur en mér hefur liðið árum saman, svo eitthvað er ég að gera rétt.


Er lífs en ekki liðin og stödd á Siglufirði

Ég hef verið í skólafríi á blogginu, en það eru aðeins um 6 vikur eftir af þessum hluta skólagöngu minnar og eins gott að halda vel á spöðunum til að allt gangi upp. En það er nú samt allt í lagi að blogga smá í páskafríinu á Siglufirði.

Sædís Erla fór á skíði í fyrsta skipti í dag og stóð sig vel að sögn Ella, ég tók nokkrar myndir og set inn fyrir Kristínu stórfrænku. Við Ásdís Magnea erum að læra, en hún er að fara í samræmd próf og ætlar að nýta tímann vel í páskafríinu. Jæja best að fara að ná í Ella og Sturlu, en þeir eru enn í fjallinu.

Ásdís og Sturla

Sædís Erla á skíðum

Elli og Sædís Erla í brekkunni


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband