Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Almannavarnir svo sannarlega ekki að ástæðulausu

Hér á landi elds og ísa er mikilvægt að hafa gott almannavarnakerfi sem bregst hratt og fumlaust líkt og mér hefur sýnst hafa verið í dag. Kerfi sem samanstendur að vel þjálfuðu fólki sem getur aðstoðað þolendur líkt og í dag. Ég viðurkenni alveg að ég átti pínulítið bágt milli kl. 4 og 6, en ég hef náttúrulega verið á vaktinni í nærri áratug svo það er ekki nema von að almannavarnahjartað hafi slegið örar of löngun til að aðstoða verið sterk.  En svo rann æðið af mér og ég fór bara salla róleg á grænmetisnámskeiði mitt, alveg slök og hlakka til að fara með skólafélögunum í fyrramálið í þjóðgarðanámskeiðið og vera yfir helgina á Höfn.

Það hefur verið góð tilfinning að fylgjast með utan frá í dag eftir að hafa verið í miðri hringiðunni árum saman. Það er ljúft að sjá að neyðarvarnakerfið virkar og eru nú tugir ef ekki hundruðir starfsmanna og sjálfboðaliða að störfum við að aðstoða þolendur á Suðurlandi.

Ég gat nú samt ekki annað en hlegið þegar ég var stödd í miðju moldarbeðinu í Mosfellsdalnum að gróðursetja grænmeti þegar ég fékk sms ið úr E-9 "ég er hér hvar ert þú?" LoL.....

hstalstod

Gangi ykkur vel í hjálparstarfinu kæru félagar.


mbl.is Tjöld við grunnskóla á skjálftasvæðunum í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almannavarnahjartað slær enn

jardskjalfti_29_mai_2008

Ég var á fyrirlestri í Öskju í HÍ um stjórn friðlýstra svæða þegar stóri jarðskjálftinn reið yfir. Einhverjir hlupu út og varð órótt en ég fékk adrenalínrush og sendi sms um að ég væri í fríi og gæti aðstoðað mína gömlu samstarfsmenn ef á þyrfti á halda. Það kom mér frekar mikið á óvart hvað var grunnt á vinnusemina hjá mér og ég sem hélt að ég væri hætt hætt hætt.

Svo þegar ég kom út þá kveikti ég á útvarpinu og heyrði í Víði félaga mínum hjá almannavörnum, sem lýsti yfir hæsta viðbúnaðarstigi á Suðurlandi og að fólk ætti að halda sig utan dyra því von væri á öðrum jarðskjálfta. 

Ég fór inn á hamfarasíðuna til að skoða og sá skjálfta upp á 6,1 yfir Íslandi.

moggamynd_sudurlandsskjalfti


mbl.is Hæsta viðbúnaðarstig á Suðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk fær nýtt tækifæri í lífinu

Það er ljóst að með þessari góðu fundarsókn eru Skagamenn að sýna í verki sinn hug til móttöku flóttamannanna. Guðrúnar Ögmunds formanns flóttamannanefndar sagði að fundurinn hefði verið góður og vegna þess sem á undan er gengið væru Skagamenn trúlega sterkari og er ég sannfærð um að það er rétt. 

Það skiptir máli að samfélagið sé þátttakandi í móttöku flóttamanna og því var ég ánægð þegar ég sá að fjöldi manns hefði þegar óskað eftir því að gerast stuðningsfjölskyldur. Þær skipta sköpum þegar aðstoða á flóttamennina við að samlagast samfélaginu í sínum heimabæ. Ég hef tekið þátt í móttöku flóttamanna. Sumir fóru heim aftur þegar ástandið batnaði þar en aðrir eru góðir og gegnir borgarar og nýlega hitti ég eina fjölskylduna sem blómstrar. 

Við megum ekki gleyma því að um er að ræða fólk, fólk sem verið er að aðstoða og gefa nýtt tækifæri í lífinu.


mbl.is Góður andi á upplýsingafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegur dagur með börnunum

Ég er meira en sátt við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka upp dag barnsins. Samvera og aftur samvera með foreldrum er besta forvörnin. Það kom m.a. fram í niðurstöðu vegna könnunar sem gerð var á forvarnadeginum í fyrra, að börnin eru ekki að biðja skemmtun, heldur fjölskyldusamveru líkt og að borða kvöldmat saman. En svo er það spurning hvað unglingarnir endast með gamla settinu. En er á meðan er.

Við vörðum degi barnsins með krökkunum og vorum við svo upptekin af því að gera ekki neitt að ég gleymdi ég meira að segja að mæta í Siglufjarðarmessuna í Grafarvogskirkju. En við förum bara næst.

Mér fannst flott VR myndin þar sem barnið er með kröfuspjald og vill meiri tíma fyrir sig.

1mai_auglysing 


mbl.is Merki og hljómur dags barnsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskrift á UZboja

Kristín systir, Litla og Vilborg

Jæja þá eru vikurnar tvær að baki í yndislegu veðri og frábærum félagsskap á heilsuhóteli í Póllandi. Ég fór með "stóru systrum" mínum þeim sálarsystrum Kristínu systur og Vilborgu bestu vinkonu hennar, sem buðu mér korter í brottför að koma með. Þær höfðu komið hingað tvisvar áður, en vissi ég ekki beint út í hvað ég var að fara. Mér leist ekkert sérstaklega vel á fæðið svona fyrstu dagana, grænmetisréttir í öllum útgáfum, en fljótlega breyttist það og hef ég notið hverrar mínútu á þessum fallega rólega stað. Höfum við gengið mikið um nágrennið og notið náttúrunnar og kynnst fjölmörgum öðrum gestum á hótelinu sem er alltaf bónus.

En í kvöld útskrifuðumst við stelpurnar þrjár, úthvíldar, eldsprækar og ekki verra að á tímabilinu fuku samanlagt 21 kíló af okkur systrum. Erum við að pakka og komum beint í Eurovision fjörið heima á Íslandi.

Hér eru fleiri myndir frá ferðinni.


Ómissandi veikin

Ég held ég hafi í alvöru trúað því að ég væri ómissandi og var örugglega nokkuð langt leidd af ómissandi veikinni þegar ég vann hjá Rauða krossinum. Hluti af því var eflaust vegna þess að ég var lengi á vinna sem verkefnisstjóri neyðarvarna og neyðaraðstoðar áður en formlegar bakvaktir voru settar á og því var ég á vakt 24/7/365. Það voru ekki ófá skiptin sem ég var í fríi úti á landi eða í útlöndum þar sem ég var að aðstoða Rauða kross deildir og starfsmenn í sólbaði eða hálf sofandi og þótti mér þetta ekkert stórmál. En svo komum við upp bakvöktum með fleiri aðilum, en neyðaraðstoðin var samt alltaf í bakhöfðinu á mér. Ég áttaði mig alls ekki á þessu fyrr en ég hætti hjá Rauða krossinum, en þá fann ég hvað það var mikill léttir. 

En aftur að ómissandi veikinni. Ég er líka mamma og eiginkona og húsmóðir og dóttir og vinkona og systir og bæjarfulltrúi og stjórnarmaður og ..... ég var búin að segja oft við hann Ella minn að lífið yrði yndislegt þegar ég kláraði skólann í vor, því þá "hefði ég allan tímann í veröldinni"  . Þá ætlaði ég að njóta þess að fara í ræktina, mála húsið, taka til í bílskúrnum, fara í garðinn og og og ...  Svo kom ég að því að ég kláraði prófin og síðustu ritgerðina og hvað gerðist! Ég svaf út í eitt og svaf meira að segja yfir mig og mætti ekki í veisluna hjá Elísabetu og Hreiðari á Hæðinni, sem var kl.20.00... en Elísabet fyrirgaf mér skrópið.  Stóru systur minni ofbauð þetta og bauð mér með sér og bestu vinkonu sinni (hinni stóru systur minni) í dekurferð til útlanda í hálfan mánuð, sem ég gerði og pantaði mér far og fer út þremur dögum seinna.

Með móral yfir því að yfirgefa skútuna og stökkva frá öllum skuldbindingum hóf ég að skoða dagskrá næstu tveggja vikna. Ég fékk nett sjokk þegar ég sá dagbókina mína og dagskrá næstu tveggja vikna. Hún var mjög þétt og er ég enn að vinna í því að afboða mig og afsaka að ég komist ekki hingað og þangað. Sem sé "allur tíminn í veröldinni" var fullbókaður Woundering. Sem segir sitt. Ég er ákveðin í því að nota tímann í dekrinu næstu tvær vikur til að skerpa aðeins á forgangsröðun minni í lífinu. Ég held að það geti kannski verið að ég hafi tekið lífsmottó mitt "að lifa lífinu lifandi" aðeins og bókstaflega. Fyrsta skrefið verður að "fara með" sjálfa sig í frí og njóta þess að ... vera bara.  

Hafið það gott elskurnar, ég er farin í frí í tvær vikur Cool


Súperkokkurinn minn hann Þórður að útskrifast

Súperkokkarnir Alfreð og Þórður

Ég fékk þessar flottu myndir af honum Þórði mínum frá Stóru systur minni sem mætti á sýninguna hjá frumbruðinum sínum í gær. Hann er að útskrifast þessi elska úr kokkaskólanum og er ég að springa úr stolti yfir velgengni hans. Hann er búinn að vera að læra á Sögu og hefur staðið sig vel. Á námstímanum er hann svo líka búinn að fara til Frakklands að vinna og á hóteli fyrir Austan, til útlanda að keppa með kokkalandsliðinu og súperveislur út um allt. Hann er náttúrutalent hann Þórður og lítur hann á kokkamennskuna sem meira en bara vinnu, þetta er list í hans augum. Ég man líka þegar hinir kokkarnir í fjölskyldunni Siggi og Inga Rósa og Þórður voru að græja matinn í 80 ára afmælið okkar Ella. Þau sögðu hann Þórð algjöran klísturheila, allt sem þau sögðu honum til stimplaðist inn í fyrsta, sem segir nú sitt um áhugann.

En nú er að koma að útskrift hjá stráknum og veit ég að hann á eftir að gera stóra hluti í framtíðinni  hann Þórður. Það var frábært að fá myndina af þeim Þórði Jr og Alfreð Jr, en Alfreð átti stóran þátt í því að aðstoða Þórð þegar hann var að byrja. Ótrúlegt eins og ég er enn ung og spræk að ég hafi passað báða þessa rígfullorðnu glæstu súperkokka Whistling.

En hér eru fleiri myndir frá sýningunni.

DSC02663

DSC02659

 

DSC02666

DSC02671

DSC02660

 


Komin að landi

Jæja þá er umhverfis og auðlindamaraþonsundinu að verða lokið og ég er að komast að landi. Ég ætla ekki að segja að ég sé ekki móð og með sára vöðva, en adrenalínkikkið þegar ég labbaði út úr prófinu í dag var alvöru. Það var ekki verra að fyrsta manneskjan sem ég hitti þegar ég kom út var Hólmfríður Gísla fyrrverandi samstarfskona mín hjá Rauða krossinum, en hún var sérleg yfirsetukona í HÍ. Hún var hress eins og fyrri daginn, allaf yndislegt að hitta Hólmfríði.

Nú á ég aðeins eftir eina litla ritgerð eftir í Seminar II hjá Binnu, en ég ætla að klára hana fyrir miðvikudaginn 7. maí. En þá ætlum við bekkurinn minn að halda smá "komin að landi" partý og njóta þess að vera til. Á fimmtudagskvöldið förum við svo í kosningapartý hjá Elísabetu og Hreiðari á Hæðinni.....  sem verður haldið á hæðinni í sveitinni og vona ég svo sannarlega að þau vinni keppnina.

En nú ætla ég að klára að undirbúa mig fyrir 200. fund fræðslunefndar sem haldinn verður á morgun.

 


Eyrnatappaskrifstofan í Rituhöfðanum

Er komin á "skrifstofuna" mína. Hún er í miðjum almenningnum heima hjá mér, við stofuborðið og þar læri ég öllum stundum þessa dagana. Það sem gerir mér þetta mögulegt þegar allir eru heima eru þessir líka frábæru eyrnatappar. Ég set tappana í eyrun og á andartaki er ég ein í heiminum. Krakkarnir eru búin að læra að þegar mamma er á "skrifstofunni" borgar sig að koma og pikka í hana, því annars er ekki víst að hún heyri. En ég er með aðstöðu vestur í háskóla, en af því að Ásdís er í samræmdu og ég líka í prófum þá er betra að vera heima. 

En brátt get ég sagt upp þessu skrifstofuhúsnæði því á mánudaginn klára ég síðasta prófið og þá ætlar mamman taka tappana úr eyrunum og njóta þess að eiga yndislegt sumar með fjölskyldunni og heimsækja vini sem ég hef vanrækt á síðustu tveimur árum.

Ég er búin að ákveða það að skrifa meistararitgerðina á rigningardögum... ef það verður sól í allt sumar verð ég kannski eitthvað að endurskoða það, en við búum nú á Íslandi og því er ég bara svona temmilega bjartsýn á að planið komi til með að þurfa endurskoðunar við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband