Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Kvöldverður Landssambands sjálfstæðiskvenna
17.11.2011 | 15:07
Kvöldverður Landssambands sjálfstæðiskvenna
Verður haldinn venju samkvæmt á fimmtudagskvöld eftir setningu landsfundar, 17. nóvember kl. 19:00. Á boðstólnum verður glæsilegt kvöldverðarhlaðborð en húsið opnar kl. 19:00 með fordrykk.
Hvar og hvenær
Turninum Kópavogi, 20. hæð. Smáratorgi 3, Kópavogi.
Fimmtudaginn 17. nóvember kl. 19:00
Skráning
Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið drifah@xd.is
Sjálfsbjargarskjóða
Falleg gjöf býður þeirra sem mæta í fordrykkinn en hún mun nýtast konum vel á landsfundinum.
Happdrætti
Veglegir vinningar í boði!
Dagskrá
- Fordrykkur kl. 19:00
- Borðhald hefst rétt fyrir kl. 20:00
- Ávarp formanns Landssambands sjálfstæðiskvenna: Jarþrúður Ásmundsdóttir
- Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í Reykjavík flytja stutt ávörp.
- Kvenframbjóðendur til miðstjórnar kynna sig
- Veislustjóri er Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Heimdallar
Verð og matseðill
Fjölbragða forréttaveisla á hverju borði
Blóðbergsgrafinn lambavöðvi með sætri valhnetudressingu
Skelfiskterrine með sinnepskremi
Birkireykt bleikja með piparrótarkremi
Hreindýraterrina með blönduðum berjum og pekanhnetum
Aðalréttir á hlaðborði
Smjörsteikt kalkúnabringa með brasseruðum sætum kartöflum, kalkúnafyllingu og kastaníuhnetum
Léttreyktur grísalæri á beini með sætum sinnepsgljáa og rauðrófusalati með pekanhnetum og fetaosti
Blandað ferskt salat með kjúkling, grænmeti og fetaosti
Eftirréttir á hlaðborði
Volg amerísk súkkulaðikaka með þeyttum rjóma og gljáðum berjum
Karmellu eplakaka með tonkabaunum og kanil
Mandarínu- og appelsínufrauð með hnetubakstri
Með kærri kveðju frá Landssambandi sjálfstæðiskvenna
Hin mosfellska Gildra
5.11.2011 | 11:11
Þegar ég flutti í Mosfellsbæ vissi ég af hljómsveitinni Gildrunni sem Mosfellingar voru eðli málsins samkvæmt stoltir af, enda mosfellsk og ein helsta rokkhljómsveit landsins. Elli hafði eitthvað verið að plokka bassa með hluta þeirra um árið og því hafði hann sérstakar taugar til grúppunnar.
Hljómsveitina Gildruna skipa þeir Birgir Haraldsson söngvari, Þórhallur Árnason bassaleikari, Karl Tómasson vinur minn trommari og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari. Einnig spilar Vignir Þór Stefánsson með þeim á hljómborð.
Mér hefur alltaf fundist þeir frábærir, með sinn skemmtilega tón og Biggi náttúrulega með sína ótrúlegu rödd og kraft og er Vorkvöld í Reykjavík eitt af mínum uppáhalds. Gildru-Mess tímabilið var líka skemmtilegt með öllum Creedence Clarwater Revial lögunum.
Ég fór á afar eftirminnilega tónleika með þeim í Hlégarði í maí í fyrra, sem þeir héldu til að fagna 30 ára samstarfi. Þvílíka stuðið og enduðu margir uppi á borði að dansa og þar á meðal ég. Þetta myndband var tekið upp á tónleikum og langar mig til að leyfa ykkur sem ekki voruð á staðnum að njóta þess. http://youtu.be/OKfSxYuMS8Q
Það er óhætt að fagna því að þeir séu farnir að spila aftur og hver veit... ég sá ég að þeir verða á SPOT í Kópavogi í kvöld.
Myndin hér að ofan var tekin þegar þeir fögnuðu 10 ára starfsafmæli og fékk ég hana lánaða hjá Kalla Tomm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýsköpunarverðlaun á sviði almannavarna og öryggismála
3.11.2011 | 18:42
Nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri voru í fyrsta skipti veitt í dag. Að verðlaununum stóðu fjármálaráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það gladdi mig mjög að sjá að bæði Almannavarnanefnd Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengu nýsköpunarverðlaun, að öðrum vinningshöfum ólöstuðum. Það veit á gott
Nýsköpunarverðlaunin 2011 hlaut lögreglustjórinn á Hvolsvelli og almannavarnanefndin fyrir verkefnið Skipulag rýminga vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli. Alls bárust 40 tilnefningar til verðlauna og voru 18 verkefni valin í úrslit og voru þrjú verkefni frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu; Breytt skipulag löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, Virkir brotamenn - eftirlit með síbrotamönnum og aðgerðir til að draga úr hegningarlagabrotum og Notkun samfélagsmiðla (Facebook og Twitter) á sviði löggæslu.
Verðlaunin vegna Kötluáætlunarinnar eru verðskulduð að mínu mati. Ég gleymi því örugglega aldrei þegar ég var stödd á blaðamannafundi eftir að eldgosið hófst á Fimmvörðuhálsi, vansvefta eftir næturvinnu með Rauða krossinum. Rýming næturinnar gekk vel og sat Kjartan lögreglustjóri fyrir miðju, pollrólegur og sagði... "Í síðustu viku héldum við íbúafund og fórum yfir rýmingaráætlunina". Ég man vel að þá hugsaði ég. Ætli þetta hefði gengið jafn vel í nótt ef ekki hefði verið búið að vinna þessa vinnu.
Í desember árið 2002 óskaði almannavarnanefndin með Kjartan Þorkelssoní fararbroddi, eftir því við Almannavarnir ríkisins (nú almannavarnadeild ríkislögreglustjóra) að unnið yrði hættumat og áhættugreining gerð á svæðinu. Ríkisstjórnin veitti aukafjárveitingu til verksins. Á grundvelli hættumatsins sem gefið var út á miðju ári 2005 var viðbragðsáætlun unnin og hún æfð stórri vettvangsæfingu sem kölluð var Bergrisinn 2006. Ég tók þátt í þessari æfingu bæði sem fulltrúi í Samhæfingarstöð almannavarna og einnig bakskipulagi sem stýrði æfingunni. Viðbragðsáætlunin hefur markvisst verið kynnt íbúum, sem margir hverjir hafa hlutverk í rýmingaráætluninni.
Forsvarsmenn almannavarna um allt land ættu að taka sér þessa vinnu kollega sinna sér til fyrirmyndar. Það er mikilvægt að hafa klára áætlun um hver gerir hvað á neyðartímum og hefur Kötluáætlunin þegar sýnt að hún virkaði þegar á reyndi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk verðlaun fyrir verkefni sitt Notkun samfélagsmiðla (Facebook og Twitter) á sviði löggæslu. Frábært verkefni og góð leið til að koma skilaboðum á framfæri með skjótum hætti og jafnframt til unga fólksins sem að öllu jöfnu er lítið að glugga í blöð eða hlusta á fréttir. Tenglar á lögregluna á samfélagsmiðlunum eru www.facebook.com/logreglan og www.twitter.com/logreglan.
Að mínu mati hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með störfum Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra frá því að hann hóf störf. Hann hefur verið óhræddur við að fara nýjar leiðir og er búinn að endurskipuleggja embættið með það að markmiði að skila betri árangri í löggæslu og jafnframt auka sýnileika, þrátt fyrir minn rekstrarframlag til embættisins. Ég tel það hafa tekist og bíð spennt eftir nýrri lögreglustöð í Mosfellsbæ sem á að rísa við Skarhólabrautina.
Upplýsingagjöf til íbúa skiptir miklu máli og hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tekist vel upp í þeim efnum, bæði hvað varðar samvinnu við íbúa og gagnvirka upplýsingagjöf við borgarana.
Húrra fyrir ykkur öllum og hjartanlega til hamingju með verðlaunin.
Rýmingaráætlun fékk nýsköpunarverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)