Ég árið 2050 - ellilífeyrir

old lady

Ég sá viðtal í gær þar sem rætt var um skýrslu Samtaka atvinnulífsins Ísland 2050: Eldri þjóð - ný viðfangsefni,  Þetta vakti áhuga minn því við höfum nú öll séð mannfjöldaspár og virðist þetta vera svo óralangt í burtu, en samt svo stutt. Samkvæmt nýrri mannfjöldaspá SA er gert ráð fyrir því að árið 2050 verði aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar mjög frábrugðin því sem nú er. Einstaklingar á eftirlaunaaldri, 65 ára og eldri, verða 27% íbúanna í stað 12% nú og munu telja 109 þúsund manns. Fjöldi Íslendinga 80 ára og eldri mun fimmfaldast fram til 2050, úr 9 þúsund í 45 þúsund. Gert er ráð fyrir því að árið 2050 verði ævilíkur karla við fæðingu 86,5 ár og kvenna tæp 90 ár og lenging meðalævi frá því sem nú er verði þannig 7,5 ár hjá körlum og 7 ár hjá konum.

Þar kom fram í þessari rannsókn að í dag eru fimm einstaklingar á vinnualdri móti einum einstaklingi á ellilífeyrirsaldri, en árið 2050 verður hlutfallið tveir á vinnualdri á móti einum ellilífeyrisþega. Það kom líka vel fram í viðtalinu að íslenskt samfélag er vel í stakk búið til að takast á við þessar breytingar, vegna þess að við erum með afar öflugt og sjálfbært lífeyrissjóðakerfi og ef þessi jákvæða þróun mun halda áfram munu þeir sem fara á ellilífeyri árið 2050 hafa greitt alla sína starfsævi í lífeyrissjóð og þannig byggt upp umtalsverð réttindi til lífeyrisgreiðslna.

Það er til marks um styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins að samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema samkvæmt síðustu tölum meira en 130% af landsframleiðslu, sem er meira en Olíusjóðurinn, varasjóður Norðmanna sem þeir hafa byggt upp með tekjum af olíuvinnslu sinni til að mæta auknum útgjöldum vegna fjölgunar ellilífeyrisþega á næstu áratugum. Einnig má nefna frjálsa lífeyrissparnaðinn og meiri sparnað í samfélaginu sem alltaf er að aukast og byggst hefur upp samfara aukinni velmegun, sem einnig leiðir til þess að samfélagið verður betur í stakk búið fyrir framtíðina.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var ályktað um lífeyrismál eldri borgar, en þrátt fyrir að framtíðin sé björt fyrir okkur sem erum á vinnumarkaði nú, þá er staðreyndin sú að ekki er svo um alla sem eru á ellilífeyrisaldri í dag. Í setningarræðu Geirs H. Haarde þá fjallaði hann um þá vinnu sem farið hefur fram um þessi mál í samvinnu við félag eldri Sjálfstæðismanna. Þar eru boðaðar ýmsar breytingar í þessum málum. Að þeim sem ekki hafa átt þess kost að afla sér lífeyrisréttinda verði greiddur lágmarkslífeyrir auk þess sem fólk fær greitt frá almannatryggingakerfinu. Eins að minnka sem fyrst hinar almennu skerðingar í almannatryggingakerfinu úr um 40% í 35% og að gefa þeim sem geta og vilja vinna eftir sjötugt möguleika á því að vinna launaða vinnu, án skerðinga lífeyris.

Já það eru víst bara nokkrir áratugir þangað til maður sjálfur fer á ellilífeyri og árið 2050 verð ég (ef Guð lofar) eldhress 85 ára ellilífeyrisþegi og fulltrúi í stjórn félags eldri Sjálfstæðismanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ég verð áttræður og löngu hættur að hugsa um pólitík

Ágúst Dalkvist, 18.4.2007 kl. 22:45

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég verð 94 og örugglega sí tautandi, já ég man þá tíð, já þá var tíðin önnur, hundleiðinlegt gamalmenni, held ég leggi það ekki á börnin

Ásdís Sigurðardóttir, 18.4.2007 kl. 23:02

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já og þá getum við sagt liðinu frá því þegar við kynntumst á blogginu

Herdís Sigurjónsdóttir, 18.4.2007 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband