Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

10 hollráð til kvenna sem hyggja á þátttöku í stjórnmálum

Hér eru listuð upp 10 hollráð til kvenna sem hyggjast taka þátt í stjórnmálum, sem konur úr öllum stjórnmálaflokkum sendu frá sér í fréttatilkynningu fyrr í mánuðinum.

10 hollráð fyrir þig sem hyggur á þátttöku í stjórnmálum

Það er á ábyrgð okkar allra að kjörnir fulltrúar endurspegli þjóðina og fjölbreytileika hennar. Í marga áratugi hefur verið háð barátta fyrir jöfnum kynjahlutföllum í stjórnmálum sem annars staðar og hefur takmarkinu ekki enn verið náð þrátt fyrir að flestir séu sammála um mikilvægi þess. Okkur greinir á um leiðir og hvar ábyrgðin liggur. Stjórnmálaflokkarnir hafa allir gert eitthvað til að leiðrétta kynjamisréttið þó þeir hafi valið mismunandi aðferðir. Öll getum við þó verið sammála um að við viljum jafnrétti, að við verðum að hvetja til þess að það náist og leggja okkar af mörkum. Ein leið er til dæmis að hvetja konur til að taka þátt í stjórnmálum og komandi sveitastjórnarkosningum. Frændur okkar Danir fóru í átak á þessu ári til að hvetja konur til þátttöku og gáfu út handbók með góðum ráðum til handa konum sem hyggja á þátttöku í sveitastjórnum. Okkur þykir full ástæða til að miðla þessum góðu ráðum áfram til íslenskra kvenna og hvetja þær um leið til að hafa áhrif á umhverfi sitt með þátttöku í komandi kosningum.

  1. Láttu vaða - ekki draga úr kjarkinum með afsökunum eins og reynsluleysi eða þekkingarskort. Reynslan og þekkingin kemur með tímanum.
  2. Skráðu þig í stjórnmálaflokk - taktu þátt í grasrótarstarfinu í flokkunum, þar er tækifærið til að  hafa áhrif á stefnuna og koma áhuga sínum á framfæri.
  3. Láttu í þér heyra - æfðu þig í því að taka til máls, skrifaðu greinar og taktu þátt í fundum.
  4. Lærðu af reynslu annarra - taktu eftir því hverjir hafa áhrif og hvernig.
  5. Vertu raunsæ - skoðaðu hvernig má samþætta vinnu, fjölskyldulíf og pólitíkina. Ekki ætla þér að vera fullkomin á öllum sviðum heldur gerðu þitt besta.
  6. Tryggðu þér stuðning fjölskyldunnar - þátttaka í stjórnmálum krefst tíma og þá er mikilvægt að hafa traust bakland og að skyldum heimilisins sé jafnt skipt.
  7. Styrktu tengslanetið - vertu dugleg að sækja fundi og taka þátt í félagsstarfi hjá hinum ýmsu þrýstihópum, það veitir reynslu og styrkir tengsl.
  8. Forgangsraðaðu - nýttu kraftana þar sem áhugasvið þitt liggur og reynsla þín nýtist best. Það gerir vinnuna skemmtilegri og árangursríkari.
  9. Vertu þú sjálf- stattu við sannfæringu þína og hafðu umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra.
  10. Mundu að staðan veitir tækifæri - með þátttöku í sveitastjórnarmálum getur þú haft áhrif á nærumhverfið og færð rödd til að láta í þér heyra í stjórnmálum og fjölmiðlum. Nýttu fagþekkinguna innan kerfisins.

Að auki má bæta því við að konur innan stjórnmála eru flestar meðvitaðar um mikilvægi þess að styðja og styrkja hver aðra á þeim vettvangi sem karlar hafa verið ráðandi. Nýttu þér reynslu annarra kvenna hvar í flokki sem þær standa og leitaðu ráða.

Sjáumst í baráttunni!

Drífa Hjartardóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna

Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs

Kolbrún Stefánsdóttir, varaformaður Frjálslynda flokksins

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar

Þórey A. Matthíasdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna


Fundur bæjarstjórnar Mosfellsbæjar með þingmönnum kjördæmisins

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar fór á sinn árlega fund við þingmenn kjördæmisins í dag og þar á meðal fyrrverandi bæjarstjórann okkar hana Ragnheiði Ríkharðs. Að þessu sinni fórum við og hittum þau í Alþingishúsinu, en frá því að ég byrjaði í bæjarstjórninni höfum við hitt þau í Hlégarði, sem hefur náttúrulega verið mun huggulegra, en þau óskuðu eftir því að við fulltrúar sveitarfélaganna funduðum í Alþingishúsinu að þessu sinni. Nokkrir nefndu að þeir söknuðu þess að vera ekki í Hlégarði og lofaði ég því að þau fengju tækifæri til að koma og hitta okkur, t.d. þegar búið yrði að ganga frá tvöföldun Vesturlandsvegarins, en þá yrði nú heldur betur tilefni til að halda vegahátíð í Mosfellsbænum.

Við fórum yfir stöðu mála hvað varðar fjármál bæjarfélagsins og það sem verið er að ræða um varðandi skólamál og annað sem ríkið er að skoða til að auðvelda sveitarfélögum róðurinn. Því næsta fórum við yfir gömlu kunningjana, Vesturlandsveginn, hjúkrunarheimilið og framhaldsskólann. Ég ræddi okkar sýn á öldrunarmálin og það að Mosfellsbær hefur verið að ganga lengra en okkur bæri lagalega séð í þjónustu við aldraða Mosfellinga. Það var ánægjulegt að þingmenn voru vel áttaðir á því hvernig hér væri staðið að málum og þörfinni sem hér er um byggingu hjúkrunarheimilið til að ná þeirri heildstæðu þjónustu sem við viljum hafa í bænum. Því vona ég að það sem búið er að lofa okkur gangi eftir og hjúkrunarheimilið rísi innan bæjarmarkanna á næstu árum.

Nokkur áhugi var á PrimaCare verkefninu og fór bæjarstjóri vel yfir það mál. Auk þess var m.a. spurt um atvinnuleysistölur, þjónustuaukningu sveitarfélagsins eftir efnahagshrunið. Siv spurði okkur hvernig okkur tækist að vera með svo vel rekna skóla og jafnframt gott skólastarf og er alltaf gaman að fá svo jákvæðar spurningar og er ég ekki í nokkrum vafa að í Mosfellsbæ er fyrsta flokks skólastarf. Alþingismenn voru einnig að velta fyrir sér lóðamálum, húsaleigubótum og félagsþjónustu. Nokkur umræða var um Vesturlandsveginn og Sundabrautina og þörf fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar. En við upplýstum að um hann færu 16 þúsund bílar á dag á meðan 1200 - 1500 bílar færu um Vaðlaheiðina.

Það verður fróðlegt að vita hvort bæjaryfirvöld geta tekið með sér sama málapakka að ári. Ég vona í það minnsta að þá verði framkvæmdir hafnar við byggingu hjúkrunarheimilis og að búið verði að halda vegahátíðina miklu í Hlégarði.


Bæjarráð leitar til íbúa Mosfellsbæjar um hjálp við fjárhagsáætlunargerð

Mynd_0131636

Að mínu mati er mjög mikilvægt að leita til íbúa Mosfellsbæjar í leit að hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins. 

Þessa dagana stendur yfir vinna við fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og er hverjum steini er velt við í leit að lækkun rekstrarkostnaðar því ekki viljum við þurfa að draga úr þjónustu frá því sem nú er. Staðreyndin er sú að tekjur Mosfellsbæjar hafa dregist saman líkt og annarra bæjarfélaga á landinu og því ljóst að rekstur verður erfiður á næstu árum. Árið í ár var okkur erfitt, en einsýnt er að næsta ár verður erfiðara.

Það er mín von að íbúar geti komið með eitthvað sem okkur hefur ekki dottið í hug sem gæti leitt gæti til lækkunar rekstrarkostnaðar til skemmri eða lengri tíma.

Ef fólk hefur slíkar hugmyndir eða tillögur er hægt að skrá þær hér og senda bæjaryfirvöldum. 

Bæjarráð mun fara yfir allar hugmyndir sem berast.


Prófkjör Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fer fram 6. febrúar 2010

Jæja þá er komin dagsetning á prófkjör okkar Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ vegna sveitarstjórnar-kosninganna 2010.  Í gær auglýsti Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ er búið að auglýsa eftir framboðum til prófkjörs sem fram fer 6. febrúar 2010.

í tilkynningu frá Magnúsi Sigsteinssyni formanni kjörnefndar kemur fram að framboð skal vera bundið við flokksbundinn einstakling. Frambjóðenda ber honum að skila inn skriflegu samþykki um að hann gefi kost á sér til prófkjörs. Með framboði skal skila mynd af frambjóðanda á tölvutæku formi og stuttu æviágripi.

Frambjóðendur eiga að vera búsettir í Mosfellsbæ og vera kjörgengir í næstkomandi bæjarstjórnarkosningum. Hverjum frambjóðanda ber að skila inn lista með nafni 20 flokksbundinna sjálfstæðismanna sem búsettir eru í Mosfellsbæ. Enginn flokksmaður getur skrifað sem meðmælandi hjá fleiri en 7 frambjóðendum á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast hjá Sjálfstæðisfélaginu.  

Um framkvæmd prófkjörsins vísast til prófkjörsreglna Sjálfstæðisflokksins. 

Frambjóðendum ber að skila framboðum sínum til kjörnefndar í félagsheimili Sjálfstæðisflokksins að Háholti 23, milli klukkan 11.00 og 12.00 á gamlársdag, 31. desember.

Kjörnefnd er heimilt að tilnefna prófkjörsframbjóðendur til viðbótar öðrum frambjóðendum eftir að framboðsfresti lýkur.

Að lokum leggur kjörnefnd ríka áherslu á að væntanlegir frambjóðendur gæti hófs í kostnaði við prófkjörið. 


Með blóðbragð í munninum eftir prófkjör

crop_260x

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi fékk afgerandi kosningu í fyrsta sæti i prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fór í gær. Hún hlaut 707 atkvæði í fyrsta sætið og sá sem lenti í öðru sæti fékk 330 atkvæði í fyrsta og annað sæti.

Hjartanlega til hamingju með sigurinn frú bæjarstjóri.

Frábær þátttaka var í prófkjörinu. 72,5% þeirra 1500 sem voru á kjörskrá tóku þátt og vona ég að svo verði einnig í Mosfellsbænum í prófkjörinu okkar sem fram fer í lok janúar eða byrjun febrúar. Hægt er að segja að listi Seltirninga sé nokkuð náttúrulegur fléttulisti á ferð, eða þrjár konur og fjórir karlar í sjö efstu sætunum.

Maður varð aðeins var við leiðindi út í Ásgerði í fjölmiðlum að undanförnu, en sem betur fer sér fólk í gegnum slíkt, enda er hún búin að vera virk í íþróttamálunum, hefur lengi unnið af krafti að bæjarmálunum á Nesinu og mikill reynslubolti. Vonandi fór prófkjörsbaráttan í heildina vel fram milli frambjóðenda, enda oft frekar kappsamir stuðningsmenn í spuna og niðurrifi en frambjóðendur sjálfir. Ég vona að þessum frambærilega hópi á Seltjarnarnesi beri gæfu til að ganga sem einn maður til kosningabaráttunnar vegna sveitarstjórnarkosninganna í maí. 

Niðurrifsstarfsemi og skítkast út í mótframbjóðendur virðist því miður vera fylgifiskur prófkjara. Slíkt veldur sárindum eftir prófkjörin og kemur það þá eðlilega líka niður á starfinu eftir kosningar. Í mínum huga verður að hugsa þetta alla leið, enda flestir að gefa kost á sér af heilindum til að vinna að málefnum samfélagsins. Ég mun í það minnsta halda mínu striki og held í mitt lífsmottó sem er að segja ekki neitt um neinn, sem ég ekki get sagt beint við viðkomandi. Einhverjir segja eflaust að það sé nú frekar barnalegt, dæmigerð kona, að halda að hægt sé að ná árangri án þess að sýna hörku og rífa hina niður. Ég er löngu búin að gera þetta upp við mig. Ef það verður til þess að ég næ ekki þeim árangri í prófkjörum sem ég stefni að, þá verður bara að hafa það. En ég mun í það minnsta eiga auðvelt með að horfa framan í mótframbjóðendur mína, með góðri samvisku, án blóðbragðs í munninum.

Fimmtán frambjóðendur gáfu kost á sér í prófkjörinu á Seltjarnarnesi í gær og fóru atkvæði þannig hjá sjö efstu:

1. Ásgerður Halldórsdóttir 707 atkvæði í 1. sæti

2. Guðmundur Magnússon 330 atkvæði í 1-2.sæti

3. Sigrún Edda Jónsdóttir 450 atkvæði í 1-3. sæti

4. Lárus B. Lárusson 552 atkvæði í 1-4.sæti

5. Bjarni Torfi Álfþórsson 599 atkvæði í 1-5. sæti

6. Þór Sigurgeirsson 636 atkvæði í 1.-6.sæti

7. Björg Fenger 521 atkvæði í 1-7. sæti


mbl.is Ásgerður sigraði á Nesinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband