Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Fiskvinnsla og fjör í sumarvinnu á Sigló

Frystihús

Já það er gott að ekki er erfitt fyrir ungmenni að fá sumarvinnu. Þetta er samt töluvert ólíkt því sem var á Siglufirði þegar ég var barn, unglingur og ungmenni. Ég fór að passa þegar ég var 10 ára og gellaði eitthvað líka, fór í unglingavinnuna ellefu ára og síðan lá leiðin í fiskinn. Ég vann við að leggja síld í dósir í Sigló síld með tilheyrandi skurðum á puttum. Svo fór ég að vinna í gamla Þormóðs Ramma frystihúsinu og seinna í því nýja við allt er tengist fiski. Við vorum svo litlar þegar við byrjðum að stóðum á fiskikössum við að pakka og hreinsa fisk og á ég einmitt eina mynd af Siggu Gunnars við slíkar aðstæður. Ég held að ég hafi samt aldrei verið jafn glöð og þegar ég fékk undanþágu frá 16 ára bónusreglunni. En ég er fædd í desember og mátti ekki vinna í bónuskerfinu, en fékk undanþágu og græddi á tá og fingri. Síðan áttum við Helga vinkona eftir að taka margar bónusrispurnar saman á sumrin.

Eitt sumar vann ég í skreið og þegar við vorum að pakka var eins gott að vera með hettuna því annars fór maðkurinn niður á bak þegar hann datt af loftinu þar sem verið var að þurrka fiskinn. Annað sumar var ég í saltfiski og man ég að okkur þótti okkur heldur súrt þegar við vorum búin að pakka allt sumarið fyrir Grikklandsmarkað og fréttum við að farmurinn hefði sokkið á leiðinni út Crying.

Það var mikill fótboltaáhugi á Sigló og studdum Siglfirðingar KS af kappi. Ég man að þegar það var leikur á laugardögum kl. 4 þá byrjuðu allir í frystihúsinu að vinna um fjögur um nóttina til að hægt væri að kára fyrir leik svo við gætum hvatt okkar menn og misstum nú ekki af því ef Gulli Sínu áhorfandi No.1 fengi nú aftur gula spjaldið ...áfram KS!

Sumarvinnutíminn var frábær og voru allir að vinna í fiski og myndaðist skemmtilegur mórall og á ég marga góða vini sem ég eignaðist á þessum árum. Þrátt fyrir mikla vinnu þá var alltaf gaman saman og tókst okkur alltaf að hafa tíma til að djamma líka og rúntuðum við í sætaferðum upp á Ketilás, Höfðaborg á Hofsósi, Miðgarð eða Tjarnaborg á Ólafsfirði.

Þegar ég las þessa frétt þá datt ég aftur um nokkra áratugi (gamla lífsreynda konan). Krakkar eru vissulega að vinna við annað á sumrin en mín kynslóð gerði, en þau skemmta sér örugglega jafn vel við að afla tekna fyrir leigu, vasapeningum eða skólagjöldum næsta vetur.


mbl.is Auðvelt fyrir ungt fólk að fá sumarvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið sem við unnum kappróðurinn

7bb2811499eeb133720ef98258df758a

Á Siglufirði hefur alltaf verið mikið fjör á sjómannadaginn. Mikið var um netabætingar, kappróður og koddaslag og svo náttúrulega sipp og hoj um kvöldið. Allir tóku þátt, ekki bara sjómenn og voru þá líka lið frá hinum og þessum fyrirtækjum í keppnunum. Ég tók eitt sinn þátt í kappróðri með liði frá sjúkrahúsinu og grilluðum við stelpurnar róðurinn ásamt Andrési yfirlækni sem hélt okkur við efnið og hvatti óspart. Þetta var árið 1986 ef ég man rétt og síðan eru liðin mörg ár.


mbl.is Pólskur sigur í koddaslag á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott án fíknar

1584408_p5300148

Það var ekki slakt að fá hringingu frá frumburðinum henni Ásdísi Magneu þegar hún sagði að þær Dagbjört og Helga hefðu unnið auglýsingasamkeppni UMFÍ, þar sem þemað var "flott án fíknar".

Ásdís tók stuttmyndagerð sem valfag í 9. bekk í Lágafellskóla í vetur. Þeim stelpunum var sagt frá þessari keppni og skelltu þær sér í að búa til auglýsingu. Þær voru fljótar að ákveða hvernig þær ætluðu að hafa auglýsinguna og svo skelltu þær sér í málið. Þær völdu að sýna heilsusamlegan lífstíl í auglýsingunni og andstæðuna við að vera í fíkniefnum. Ásdís er mikil tölvukerling eins og mamma og naut sín í botn við að klippa myndirnar og setja inn lagið og svo var bara að bíða.

Þær fengu svo símtal þar sem þeim var sagt að þær væru komnar í úrslit og urðu þær heldur glaðar. Svo kom stóra hringingin, af fjölmörgum keppentum urðu þær í fyrsta sæti sem er enginn smá heiður fyrir skvísurnar úr Mosó. Þær fóru í sjónvarpsviðtal á Stöð 2 og fengu þar afhent verðlaunin sem voru Canon IXUS myndavél sem gefin var af Nýherja. Ásdís keypti hinar út og ætlar að taka myndavélina með sér til Finnlands á morgun, en er hún að fara í ungmennaskipti og þar fer hún m.a. á ljósmyndanámskeið og því mun myndavélin koma sér vel.

Auglýsingin þeirra verður svo sýnd á Stöð-2, Sýn og Sirkus og verður gaman að sjá hana. Hún er nú komin í lokavinnslu hjá fyrirtækinu Filmus sem gefur vinnu sína sem og tónlistarmaðurinn Árni Rúnar Hlöðversson sem samdi lag við auglýsinguna.

 


8. desember

Herdís og Trude

Ég var að ljúka vinnufundi með norrænum Rauða kross samstarfsfélögum í skyndihjálp og neyðarvörnum. Þetta var árangursríkur fundur og mun vinnan örugglega skila sér inn í starfið. Það er líka alltaf sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur sem erum einyrkjar að fá tækifæru til að ræða við aðra um það sem vel gengur og annað sem má bæta, enda svo sem í grunninn sömu verkefni sem verið er að vinna í hverju landir fyrir sig.

Þetta er þriðji svona fundurinn sem ég sit og er maður farinn að kynnast einstaklingunum ágætlega enda bara svona 12 manns. Nú Herdís hin norska heitir Trude og er fyrrverandi hermaður og mikil kjarnorkukona. Við Trude vorum að spjalla saman í gær og komumst þá að því að við eigum sama afmælisdag, þann 8. desember og eru fimm ár á milli okkar. Þetta þótti okkur ótrúlegt og var einnig merkilega stór hluti hópsins fæddur í desember. Við vorum að grínast með þetta við morgunverðarboðið og aftur barst þetta í tal þegar við byrjuðum fundinn í morgun. En þá sagði Jane hin danska, ...já ég á líka afmæli þann 8. desember. Við héldum að þetta væri bara danskt "spögelse" eins og sagði í auglýsingunni en viti menn hún sannaði það fyrir okkur með nafnskírteini að þetta væri satt. Sem sé í þessum litla 12 manna hópi átti fjórðungur fundarmanna sama afmælisdaginn, sem verður nú að teljast alveg ótrúlegt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband