Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Leirubakki við Heklurætur

Sturla, Sædís og Ásdís

Við fjölskyldan vorum að koma úr fyrstu útilegu ársins. Leirubakki við Heklurætur var staðurinn og sjálfstæðismenn úr Mosfellsbæ voru ferðafélagarnir. Elli sló tvær flugur í einu og fór líka með Kiwanisklúbbnum sínum Mosfelli... við settum fellihýsið á milli hópanna Smile. Veðrið var frekar köflótt, vindur, kuldi, sól og hiti, rigning og haglél... en við búum nú á Íslandi og við létum veðrið ekki á okkur fá.

Hilmar og Kata að jeppast

Á leið í Landmannalaugar

Sædís og mamma

Við skelltum okkur í Landmannalaugar á laugardeginum og komumst að því að það er ekki hægt að treysta á GPS. Það gefur nefnilega líka upp gönguleiðir sem vegi, en þetta reddaðist þegar við tókum upp gamla góða vegakortið LoL... en þetta var bara gaman. Annars vorum við mest að slappa af og njóta þess að vera með góðum vinum, borða góðan mat og skemmta okkur en Öddi sem kom með gítarinn og sungum við m.a. "við Heklurætur" og fleiri góða sumarsmelli, nema hvað!  

Sturla hanging around

Sturla fór að vísu í full mikið stuð í dag að mínu mati. Hann var í golfi og sló kúluna inn á tún og ætlaði að teygja sig yfir girðinguna til að sækja kúluna... en viti menn. Það var rafmagn á girðingunni og vinurinn sæli var kominn aðeins of langt í "teygja sig yfir" og uppskar pena röð af litlum brunablöðrum á magann, en hann lifir!

Hér eru fleiri útilegumyndir / Kristinmore photos from our camping trip. 


Flókaskór, sherry, vindill og ellóskiptiprógramm

Við Ása vinkona mín höfum oft grínast með það að þegar við förum saman á elló ætlum við að ganga um í flókaskóm, drekka sherry og byrja að reykja dömuvindla. Ekki veit ég hvort þetta rætist, en það verður klárlega gaman hjá okkur hvernig sem þetta verður.

Ég tel þó nokkuð ljóst að ekki verður sama stemming á öldrunarheimilum og þar sem ég vann einu sinni. Þar var til að mynda hræringur í matinn oft í viku, sem ungdómurinn veit ekki einu sinni hvað er og þar var súrt slátur ekki bara borðað á þorranum. En þar smakkaði ég fyrst sherry. 

Kannski verður komið ellóskiptiprógramm. Þá gæti maður skipt við einhvern ellismell í öðru landi og leyft honum að vera á elló-Mos og sjálfur skellt sér til Spánar eða Ástralíu og notið lífsins í nokkrar vikur líkt og þekkist í dag með húsaskipti. Ég mun sko klárlega borða sushi og líka mikið af grænmeti og dansa salsa og  varðandi vaxið þá treysti ég því að vísindamenn verði komnir með lausnina að háreyðingu og þá meina ég varanlegri háreyðingu.

 


mbl.is Húðflúr, sushi og bikinivax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný lög um almannavarnir hafa tekið gildi

Í gær 20 júní tóku gildi ný lög um almannavarnir sem samþykkt voru á síðasta starfsdegi Alþingis í vor. Það var mikill léttir að sjá að lögin væru í höfn því meistararitgerðin mín "verkaskipting ríkis og sveitarfélaga í almannavörnum". er byggð á lögunum. Ef lögin hefðu ekki verið samþykkt núna hefði ég þurft að fresta útskrift eða byggja á þeim gömlu, sem hefði verið hálf fúlt. Ég er á fullu þessa dagana að endurskrifa m.t.t. nýju laganna og vonandi tekst mér að ljúka við skrifin í sumar svo ég geti útskrifast sem meistari í umhverfis og auðlindafræðum frá verkfræðideild HÍ í október. 

En það er ýmislegt nýtt í þessum lögum. Búið er að leggja niður almannavarnaráð, en þess í stað verður sett á fót almannavarna- og öryggismálaráð undir formennsku forsætisráðherra. Þetta er mjög stórt ráð, hálfgert ráðstefnuráð, en auk forsætisráðherra eiga sæti, dómsmálaráðherra, samgönguráðherra, umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra og heimild til að kanna inn aðra ráðherra vegna sérstakra mála. Auk ráðherranna eru ráðuneytisstjórar þeirra og forsvarsmenn þeirra undirstofnana sem að málunum koma. Síðan eiga líka sæti í ráðinu fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands, samræmdrar neyðarsímsvörunar og tveir fulltrúar skipaðir skv. tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ráðið hefur það hlutverk að marka stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum og er það unnið undir stjórn forsætisráðherra, ráðherrans sem hefur heildarsýnina. Ég er mjög ánægð með forvarnaþáttinn nýju lögunum, það er mun skýrari ábyrgð ráðuneytanna sjálfra sem ég taldi skorta verulega á í gömlu lögunum. Nú verða ráðuneyti sjálf ábyrg fyrir áætlanagerð fyrir sig og undirstofnanir sínar, sem verður vonandi til tryggja góðar samræmdar áætlanir um undirbúning og viðbrögð hvers og eins á hættustundu. Almannavarnanefnd undir stjórn sveitarfélaganna er einnig skylt að gera viðbragðsáætlun líkt og var í gömlu lögunum og í samræmi við hættumat sem þau verða að vinna heima í héraði.

Ríkislögreglustjóri undir stjórn dómsmálaráðherra hefur enn stóru hlutverki að gegna í almannavörnum. Embættið hefur eftirlit með almannavörnum á landinu öllu og umsjón með því að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Eitt er samt enn óljóst í mínum ferkantaða ferlahuga, en það er staðsetning samhæfingar og stjórnstöðvar í kerfinu. Í lögunum kemur fram að stjórnstöðin sé undir sérstakri stjórn sem skipuð er af dómsmálaráðherra og því velti ég því fyrir mér hvort hún falli beint undir ráðherra, en ekki almannavarnadeildina, en það kemur allt betur í ljós. Þarna fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af viðbragðsáætlun og almannavarnastigi. Almannavarnastigið er loksins búið að skrifa inn í lögin, en á eftir að setja frekari reglur um hvernig framkvæmdin verður á því.

Í nýju lögunum er ríkislögreglustjóra heimilt að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands og var það gert í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi 29. maí sl. og var Ólafur Örn Haraldsson ráðinn verkefnisstjóri þeirrar þjónustumiðsvöðvar. En í nýju lögunum er ekki litið til fullrar endurreisnar samfélagsins og félagslegrar uppbygginga eins og við höfum verið að vinna að í LVN rannsóknarhópnum, undir stjórn Guðrúnar Pétursdóttur sem ég hef unnið með í rúm tvö ár. En þegar jarðskjálftinn reið yfir á Suðurlandi í maí sl. fóru drög að áætlun fyrir sveitarfélög um endurreisnarstarf í kjölfar náttúruhamfara strax í notkun og er Hveragerðisbær búinn að samþykkja formlega að gera slíka áætlun og er hafin vinna við aðlögun að þeirra kerfi.

Í nýju almannavarnalögunum er búið að setja inn aðgerðastjórn í héraði, sem hefur verið partur af almannavarnakerfinu í nokkurn tíma. Hún er viðbragðsstjórn undir stjórn lögreglustjóra sem vinnur þegar hættu ber að garði, en jafnframt er áfram starfandi almannavarnanefnd sem vinnur að forvörnum og neyðaráætlanagerð. Þarna er búið að eyða einum af óvissuþáttum gömlu laganna, eða hver stýrir þættinum. Nú er það aðgerðastjórn á hættu og neyðartímum undir stjórn ríkisins í samvinnu við samhæfingarstöð, en utan þess er það almannavarnanefndin undir stjórn sveitarfélaganna.

Það er margt gott í þessum nýju lögum og gaman að sökkva sér svona ofan í Kerfið, enda hefur þetta kerfi verið mér bæði áhugamál og vinna í nærri áratug og því bónus að hafa tækifæri til að nýta sér það í náminu.

Til hamingju með nýju almannavarnalögin Björn Bjarnason.


Voru þetta nokkuð íshestar?

Ég hafði það upp úr öllum þessum vangaveltum og leit að nú veit ég að það er ekkert óalgengt að ísbirnir fari inn til landsins. En ætli þetta hafi nokkuð verið ís-hestar LoL.


mbl.is Kom ísbjörn upp um hestana?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég var eina konan í bæjarráði Mosfellsbæjar í morgun

Flott hugmynd hjá þeim í Vestmannaeyjum og skemmtileg. En í morgun var ég eina konan sem sat 886. fund bæjarráðs Mosfellsbæjar, en á bæjarstjórnarfundi í gær var ég aftur kjörin formaður bæjarráðs. Við vorum samt tvær konurnar á fundinum, en við hlið mér sat samt hún Brynhildur, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs.

Nú erum við konur í miklum minnihluta í bæjarstjórn eftir að Ragnheiður Ríkharðsdóttir vinkona mín fór á þing, en við erum aðeins tvær af sjö. Fyrsta kjörtímabilið mitt vorum við konur fjórar af sjö bæjarfulltrúum. Annað kjörtímabilið vorum við þrjár og kvenbæjarstjóri, en í dag erum við tvær. En við síðustu kosningar voru hlutföll kvenna og karla samt 50/50 í nefndum og ráðum bæjarins.

Það er rétt að taka stöðuna þann 19. júní ár hvert. Nú er karlmaður forseti bæjarstjórnar, kona formaður bæjarráðs og  karlmaður bæjarstjóri. Af fastanefndum okkar eru konur formenn fræðslunefndar, fjölskyldunefndar, menningarmálanefndar og umhverfisnefndar. Karlmenn eru formenn skipulags og byggingarnefndar, íþrótta og tómstundanefndar og atvinnu- og ferðamálanefndar.

 sigling xd konur


mbl.is Bæjarstjórnarfundur á kvennadaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

51 dagur í Reykjaskólahitting 1980-1982

Ég er búin að vera nokkuð upptekin af því undanfarið að leita uppi gamlar myndir, minningarbrot og googla afrek gamalla skólafélaga úr Reykjaskóla. Ástæðan er einföld, ég fékk beiðni um að gerast sérlegur heimasíðuumsjónarmaður Reykjaskólamótsins sem haldið verður í byrjun ágúst. Þetta er búið að vera mikið fjör og hef ég náð sambandi við marga og er bara rétt að hitna. Ég er t.d. að fá Reykjaskólagullið hennar Höbbu sem nú býr í Stykkishólmi sent í dag, í lögreglufylgd meira að segja. Það verður ekkert smá gaman að fletta í gegnum myndirnar og vona ég að ég nái að hitta Höbbu sjálfa á sunnudaginn.

Það eru 51 dagur í fjörið og hlakka ég ekkert lítið til að hitta gömlu félagana. Margir eru kennarar, sem kom mér pínulítið á óvart... en þetta er jú fjölmenn stétt og allt í góðu með það. Framkvæmdastjórar, ferlafræðingar, mannfræðingar, sagnfræðingar, bókarar, skrifstofurstjórar, sveitarstjórar, verkfræðingar, smiðir, atvinnurekendur, listamenn, ég hef fundið einn lækni, einn þekktan íþróttaálf sem rekur stórt útrásarfyrirtæki, einn prest og fullt af pólitíkusum W00t.... mér til mikillar ánægju og sé ég fram á að hægt verði að fara að halda sérstaka Reykjaskólafundi á landsfundum Sjálfstæðisflokksins hér eftir.

En sjáið bara hvað ég hef lítið breyst á þeim 27 árum sem liðin eru frá því að þessi mynd var tekin  Wink..... aftasta röð lengst til hægri. Við Lóló bekkjarsystir mín gátum aldrei verið alvarlegar og getum ekki enn og verður gaman að hitta hana í sumar... en hún býr í Noregi en ætlar að koma heim og hitta okkur í Reykjaskóla.

1_B_81-82

Efsta röð: Kata, Helga, Lilja, Anna, Lóló, Herdís.
Miðröð: Þorgrímur, Jói Arnars, Ingi, Bjarki
Neðsta röð: Sigga Snæ, Daddý Leifs, Guðlaug Bjarna, Gunnhildur, Ruth


Ætli ísbjörninn lendi í dýragarði?

isbjorn_470311

Þetta er mjög sérstakt mál. Danskur sérfræðingur úr dýragarði í Kaupmannahöfn á leið til landsins til að svæfa bangsa til að hægt sé að fanga hann og flytja heim, hvar sem það nú er. Mikið hefur verið rætt um af hverju ekki áætlun vegna svona mála. Áætlunin hefur verið frá því að ég man eftir mér á þá leið að ef ísbjörn hefur farið á land þá er hann drepinn. Hvernig eru áætlanir annarra landa? Eru þær fólgnar í björgunaraðgerðum?

Ef ég man rétt þá var maður drepinn af ísbirni á Svalbarða á síðasta ári og ekki í fyrsta sinn, en þar fara þeir með byssur um allt ef fólk ætlar að ganga um svæðið og eru það ekki deyfibyssur. Fólki stafar nefnilega raunveruleg hætta af dýrunum, þrátt fyrir að þeir líti voða sakleysislega út í sjónvarpi og á mynd vappandi um í varpinu.

En Operation ísbjörn er víst í  boði Björgólfsfeðga og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta fer. Það skyldi þó aldrei fara svo að hann lendi í dýragarði í Kaupmannahöfn á sjálfan þjóðhátíðardaginn. En það kemur í ljós, ég vona bara að enginn slasist við atlöguna að ísbirninum, eitt er víst að þeir sem ekki virða flugbannið eru ekki að hjálpa til.


mbl.is Flugbann ekki virt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega þjóðhátíð

Herdís og Ragnheiður á 17. júní

Í dag eru 64 ár liðin frá stofnun lýðveldisins Íslands. Þetta er dagurinn sem við minnumst þess að ný stjórnarskrá tók gildi og staðfest var að Ísland væri lýðveldi með þingbundinni stjórn og að hér yrði þjóðkjörinn forseti.

Ég fyllist alltaf stolti yfir sjálfstæðisbaráttu forfeðra minna, yfir baráttu fólks sem átti sér þann draum heitastan að losna undan stjórn Dana, verða sjálfstæð þjóð og náði að láta þann draum rætast. Lýðveldið Ísland er ekki gamalt og má segja að þrátt fyrir að það sé ekki komið á eftirlaunaaldur hafi það þroskast ofurhratt og hefur trúlega verið sett hagfræðilegt heimsmet í úr moldarkofa í fyrsta flokks, með öllu sem þarf.

Í dag ætlum við Mosfellingar að njóta dagsins. Byrja hátíðarhöldin með hátíðarmessu í Lágafellskirkju fyrir hádegi og ætlum við tengdó að mæta með Sædísi Erlu því Elli og Ásdís verða að setja upp leiktæki og bása með skátunum fram að hádegi og á ég ekki von á að Sturla vilji koma með.

Veðurguðirnir eru í hátíðarskapi í Mosfellsbæ líkt og ég og verður verður gaman að taka þátt í fyrstu 17. júní hátíðarstundinni á nýja miðbæjartorginu okkar við Kjarna í rjómablíðu. Þaðan fer svo skrúðganga að Hlégarði þar sem fram fara hefðbundin hátíðarhöld sem enda með tónleikum fyrir unga fólkið í kvöld.

Ég óska ykkur gleðilegrar þjóðhátíðar og vona svo sannarlega að þið njótið dagsins.


Hann Ólafur Örn er verkefnisstjóri almannavarna

Ég sá að hann Ólafur Örn Haraldsson var titlaður verkefnisstjóri Rauða krossins í fréttinni, en ekki sem tímabundinn ríkisstarfsmaður sem hann er. Ekki það að eitthvað sé að því að vera verkefnisstjóri Rauða krossins, ég var sjálf það sjálf árum saman, en rétt skal vera rétt.

Ólafur Örn Haraldsson var ráðinn til tímabundinna verkefna hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann sér um rekstur þjónustumiðstöðvanna á jarðskjálftasvæðunum. En í 14. grein laga um almannavarnir er gert ráð fyrir tímabundinni stofnun og rekstri þjónustumiðstöðvar samhliða rekstri samhæfingar og stjórnstöðvar ríkislögreglustjóra. Verkefni stöðvarinnar skulu m.a. felast í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá sem hafa orðið fyrir tjóni og náttúruhamfarirnar hafa haft önnur bein áhrif á.


mbl.is Kippirnir hafa enn áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinabæjamót í Mosfellsbænum

Vinabæjamót

Á miðvikudagskvöldinu fórum við fjölskyldan upp í Kjarna til að taka á móti gestunum okkar, þeim Kjerlaugu Rasmussen og Henny Hedelund frá Thisted, sem er vinabær okkar í Danmörku.

Vinabæjamótið var svo sett formlega á fimmtudagsmorguninn og ætlaði ég að vera með í lýðheilsuhópnum, en sökum óvæntra verkefna sem tengjast meistaraverkefni mínu var ég heima að vinna, en mætti af og til í hádegisverðina, hátíðarkvöldverðinn í Hlégarði og svo náttúrulega slúttið í gær. Nú eru þær stöllur í skoðunarferð í Borgarfirði og fara svo heim í bítið á morgun.

Sædís Erla á heita torginu við Kjarna

Eftir að búið var að slíta mótinu í gær í yndislegu veðri á nýja torginu okkar fórum við með þær Kjerlaugu og Henny til Grindavíkur en við áttum pantað borð á Salthúsinu. Við skoðuðum myndir af saltfiskverkun og sjómennsku og hittum Kristínu systur, Dodda, Ragga, Rögnu og Co og súperkokkinn Þórð.

Salthusid

Við fengum okkur fisk og krakkarnir hamborgara. Við stelpurnar vorum allar sammála um að þetta væri sá allra besti steinbítur sem við hefðum fengið um ævina og var Elli meira en sáttur við humarinn. Hann Þórður er fábær kokkur og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni þessari elsku. 

Sjóarinn síkáti fyrir utan Salthúsið í Grindavík

Eftir að við stelpurnar höfðum fengið okkur kaffi og koníak fórum við út og hittum Sjóarann síkáta fyrir utan Salthúsið. Við reyndum að vekja henn, en hann lét okkur sko ekki trufla sig svo við tókum bara mynd af Henny með honum og létum hann vera.

Henny og sjóarinn síkáti við Salthúsið

Við keyrðum heim í miðnætursól og yndislegu veðri, alsæl og ánægð með vel heppnað kvöld í Grindavík.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband