Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Í túninu heima 2008, bæjarhátíð í Mosfellsbæ
31.8.2008 | 13:34
Bæjarhátíðin okkar Í túninu heima hefur tekist mjög vel að mínu mati, þrátt fyrir rigningu bæði föstudag og laugardag.
Á fimmtudeginum fórum við í leikhúsið og sáum Ásdísi Magneu leika í Ýkt kominn yfir þig sem var gaman eins og ég nefndi hér. Svo á föstudeginum fórum við tengdó í bæinn til að kaupa meira gult og skreyttum smá og fórum við á setninguna sem var færð inn í íþróttahús sökum rigningar. Þar var hún Guðný Halldórsdóttir handritshöfundur og leikstjóri útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2008 og er hún vel að því komin hún Duna. Hún var með frábæra ræðu sem var algjörlega í hennar anda, hárbeitt og langt frá því að vera væmin. Það var oft gaman á bæjarstjórnar- og umhverfisnefndarfundum með henni Dunu, en hún kom oft með frábær komment um málin og dettur mér hún alltaf í hug þegar verið er að fjalla um mink og vargfugl. Ekki var hægt að fara í brekkusönginn í Ullarnesbrekkunum og því söng Hljómurinn inni í íþróttahúsi og svo fórum við heim og héldum áfram að skreyta götuna í rigningunni.
Á laugardeginum var mikið líf og fjör um allan bæ. Að fórum við Elli ekki eins mikið um sökum hækjumála, en samt við náðum að skreppa í opið hús hjá Kjósarsýsludeild Rauða krossins og í íþróttahúsið. Þegar við komum var verið að starta Ólympíuleikum fyrirtækja í Mosfellsbæ og fékk ég þann óvænta heiður að kveikja ólympíueldinn, sem reyndar gekk ekki fyrr en í fjórðu tilraun og þá með grænum kveikjara í stað gömlu góðu eldspýtnanna. Bæjarskrifstofurnar áttu lið í ár sem bæjarstjóri fór fyrir og voru með honum þau Sigríður Dögg kynningarfulltrúi, Tómas umhverfisstjóri og Brynhildur framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs. Stóðu þau sig með ágætum en þegar ég fór var líklegast að lið Mosfellings myndi vinna. Það voru margir kynningarbásar í íþróttahúsinu og fluttu nemendur Listaskólans tónlistaratriði á sviðiðnu. Við fórum svo á tónleikana um kvöldið sem voru í blautari kantinum og fór Skvísý með okkur, en það var of mikill hávaði og því fórum við með hana heim. Það var gaman að hitta hálfan Rituhöfðann og eins fjölmarga Siglfirðinga og mætti m.a. hálfur saumaklúbburinn minn. Raggi Bjarna, Sigga Beinteins, Felix Bergsson, Buffið, hinar mosfellsku María og Hreindís sungu af list og Auddi og Simmi sáu um kynninguna... en svo varð allt vitlaust þegar lokalagið Bahama var sungið af list af þeim Ingó og Veðurguðunum. Það var svo gaman að sjá ljósasýninguna í rigningunni og flykktist fólk upp í Urðir til að sjá betur. Við fórum svo heim, alsæl eftir skemmtilegan dag í túngarðinum, en trúlega hafa einhverjir haldið áfram á Draumakaffi þar sem Hljómurinn spilaði.
Í dag skrapp ég í Álfafosskvosina á grænmetismarkað og fór svo í íþróttahúsið á kóratónleika sem enduðu með frábærum samsöng allra kóranna og áhorfenda.
Hér eru fleiri myndir.
Hér eru fleiri myndir.
Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Frábær söngleikur fyrir alla fjölskylduna sýndur í Mosfellsbæ
29.8.2008 | 12:41
Í dag verður bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima sett. Við (allur Rituhöfðinn) ætlum að fjölmenna á setninguna og þramma svo í skrúðgöngu í Unnarnesbrekkurnar og taka þátt í brekkusönginn með Hljómi, sem er algjörlega ómissandi á Mosfellsbæjarhátíðum.
Rituhöfðinn er farinn að skreyta að vanda, enda eigum við titil að verja frá síðasta ári . En við slepptum að setja upp bannerinn og fleira því spáin var ekki skreytingarvæn. En það verður örugglega klárað með stæl í dag.
Annað kvöld verða svo haldnir stórtónleikar á torginu í miðbænum. Hljómsveitin Buff mun spila, Raggi Bjarna, Sigga Beinteins og Bryndís Ásmunds með Tina Turner Show, Gunni og Felix og Simmi og Auddi ásamt Mosfellingunum Hreindísi og Þórunni. Sædís Erlan hlakkar ekkert smá til því þar verða Ingó og syngur sumarsmellinn Bahama.
En í gær frumsýndi Leikfélag Mosfellssveitar söngleikinn "Ýkt kominn yfir þig". Við fjölmenntum, enda frumburðurinn Ásdís Magnea einn af leikurum sýningarinnar. Hún var búin að halda hlutverki sínu leyndu fyrir okkur og því kom það skemmtilega á óvart að hún var með tvö frábær hlutverk og söng líka eins og engill þessi elska. Það var meiriháttar að sjá þessa krakka sem eru búin að vera í sýningum í leikhúsinu frá því að þau voru sex ára. Ég get heldur betur mælt með þessari sýningu og vona að sem flestir nýti sér tækifærið og mæti með alla fjölskylduna í bæjarleikhúsið.
Hér er video frá sýningunni fyrir ömmu og afa á Sigló og Jóa frænda í Ameríku sem ekki geta mætt, en hitt liðið ætlar allt að mæta.
Næstu sýningar eru
- laugardaginn 30. ágúst kl.16.00
- miðvikudaginn 3. september kl.20.00
- fimmtudaginn 4. september kl.20.00
Miðapantanir í síma 566 7788.... nánar á heimasíðu Leikfélags Mosfellssveitar.
Mosfellsbær | Breytt 30.8.2008 kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Rituhöfðaliðið á öllum skólastigum
27.8.2008 | 11:15
Nú er skólinn hafinn og var óvenju mikill spenningur Rituhöfðaliðinu þetta árið. Ástæðan er einföld. Ásdís var að fara í framhaldsskóla og Sturla í gaggann eða 8 bekk. Sædís Erla var svo að byrja í elsta árgangi leikskólans, elstubekkjardeildinni og var það engin smá upphefð. Sem sé þá er Elli minn með skólafólk á öllum skólastigum á framfæri. Sædís í leikskóla, Sturla í grunnskóla, Ásdís í framhaldsskóla, mamman í háskóla og meira að segja hundurinn fer á hvolpanámskeið í vetur.
Ég er búin að fresta útskrift fram í febrúar 2009, sem er nákvæmlega sú tímasetning sem ég setti á umsóknina mína. Tilviljun? Kannski og kannski ekki.
Siglufjarðarmafían á Facebook
26.8.2008 | 09:13
Ég hef haft síðu á Facebook frá því sl. vetur, en þá var búinn til hópur í bekknum mínum í umhverfis- og auðlindafræðinni í HÍ. Í sumar varð svo heldur betur sprenging í áhuga hjá Íslendingum og vex fjöldinn í vinalistanum dag frá degi. Þetta er stórsniðugt því þarna getur maður fylgst með fjölskyldumeðlimun í Ameríku og vinum sem maður hittir ekki oft og geta einstaklingar haft bein samskipti á netinu.
Í síðustu viku bjó ég svo til hóp sem ég kalla Siglufjarðarmafíuna. Hópurinn er stofnaður fyrir Siglfirðinga og aðra sem eiga ættir sínar að rekja til Siglufjarðar, hafa búið þar, eru giftir Siglfirðingum, eða eru einfaldlega vinir Siglufjarðar ...
Er tilgangurinn með hópnum að sanna það sem Gestur Fanndal sagði "Siglfirðingum er ekkert að fækka, þeir búa bara annars staðar"
Nafnið Siglufjarðarmafían kemur til vegna þess að þegar ég segist vera Siglfirðingur hef ég oft fengið að heyra "Ó já, ert þú ein af Siglufjarðarmafíunni"
Það verður gaman að sjá hvað vex í Siglufjarðarmafíunni á næstu dögum, en fyrstu dagana vorum við Linda Stefáns bara tvær, svo kom Elli minn og Kolla á Bylgjunni .... svo sá ég í morgun að fjöldi stoltra Siglfirðinga er kominn upp í 38 og óx fjöldinn um fjóra á þessum 10 mínútum sem ég var að skrifa þessar línur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Strákurinn fékk útrás í íþróttum
23.8.2008 | 09:10
Ég sá Lindu Finnboga á forsíðu 24 stunda þar sem hún var að ræða um frumburðinn sinn Björgvin Pál Gústavsson, varnarmanninn knáa. Ég var ekki búin að átta mig á því að þetta væri strákurinn þeirra Lindu og Gústa Dan, fyrr en ég las viðtalið. Mér þótti þetta hjartnæmt og yndislegt viðtal og var auðvelt að lesa gegnum línurnar afar náið samband þeirra mæðgina, enda ljóst að þau hafa gengið saman í gegnum súrt og sætt.
Þetta er gott viðtal og þyrfti að gera meira af því að segja sögur af því hvernig hægt er að vinna með kraftmikla krakka, en fyrsta sem fólki dettur í hug er að fá rítalín til að hemja þau í stað þess að leita leiða til að krafturinn fái útrás, líkt og Björgvin Páll fékk í íþróttum. Þetta var eitthvað svo myndrænt og skemmtilegt og gat ég alveg séð hann fyrir mér stóran og stæðilegan strák í dansi, fimleikum og karate. En gott að hann fann sig í handboltanum. Ég segi nú bara "lánið okkar Íslendinga".
Til hamingju með strákinn Linda mín, við söknuðum þín á Reykjaskólamótinu um daginn.
Handboltinn bjargaði honum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stærsta land í heimi á Reuters
22.8.2008 | 17:50
Ég er ekki hissa á því að norrænir netmiðlar hafi fjallað um sigurinn, þetta er meiriháttar árangur. Það snýst allt um handboltann á Íslandi og þótti mér frábært þegar Sædís Erla hljóp á móti mér þegar ég sótti hana á leikskólanum og hrópaði "mamma Ísland vann". Já mín kona.
Ég er sammála Dorrit með að Ísland er ekkert lítið land, "Ísland er stærsta land í heimi" þessi kona er yndislega eðlileg ......, en þeir á Reuters höfðu nú samt orð á því í fyrradag.
BEIJING, Aug 20 (Reuters) -
Tiny Iceland, mighty France power to semis
Iceland, the surprise package of the Olympic men's handball tournament, shot to the semi-finals after a 32-30 win against Poland on Wednesday.
Powerhouse France also advanced after beating Russia 27-24, with French centre back Daniel Narcisse doing a somersault after he scored a goal in the last minute.
Ég hlakka til að lesa fréttina um gulldrengina okkar á sunnudaginn...
Hér er smá lýsing á handboltaleiknum .... svona fyrir byrjendur ....
Two teams of seven players compete on an indoor court, using only their hands, gaining one point for each goal they score.
Sköpunarkraftur af öðrum heimi" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Myndir frá Reykjaskólamótinu
21.8.2008 | 01:04
Ég var að setja inn 268 myndir frá Reykjaskólamótinu á 123.is myndasíðuna mína. Mig að vísu vantar inn smá kafla þegar blessuð rafhlaðan gaf sig, en þarna er hægt að sjá hvað þetta var stórskemmtileg sem endaði með sveittum hamborgurum í Staðarskála og var nú ekki verra að hún Jónína Hafdís vinkona mín tók niður pöntunina.
Hvað eru klækjastjórnmál?
17.8.2008 | 14:34
Mér datt í hug þegar ég las Staksteina morgunblaðsins í gær hvort klækjastjórnmál snérust um það að stuðla að skilnaði á borði og sæng, án ráðgjafar.
Það sem af er þessu kjörtímabili hafa átta sveitarstjórnameirihlutar slitið samstarfi, ef ég man rétt. Slíkt er mjög sérstakt í íslenskri stjórnmálasögu og gæti verið áhugavert rannsóknarverkefni fyrir háskólastúdent að skoða það. Er það kannski orðið úrelt og gamaldags að vinna úr ágreiningsmálum í pólitísku samstarfi "innan veggja heimilisins", en inn að hlaupa út "í beinni"? Að skilja umsvifalaust á borði og sæng og taka upp samstarf við aðra og takast svo á um málin eftir á í fjölmiðlum og oftar en ekki með yfirlýsingum í beinni útsendingu, sem svo er fylgt er eftir með fréttatilkynningu.
Hvað varðar borgarmálin þar sem nú er búið að mynda fjórða meirihlutann á kjörtímabilinu er það mín skoðun að það hafi verið fljótfærni af Birni Inga að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma og mynda Tjarnarkvartettinn. Hvað með þetta gamla góða að leita sér "hjónabandsráðgjafar" og reyna að vinna úr málunum, í stað þess að skilja án umræðu og hlaupa beint í aðra sæng. Frá þessum tíma hefur mikið verið tekist á "í beinni" og hefur gula pressan átt verulega góða spretti í því máli. Mikil æsifréttamennska og allt of mikið af "heyrst hefur" og "óstaðfestar fregnir herma" og sitjum við áhorfendur eftir með ónot yfir því sem við urðum vitni að og hafa flestir fengið nóg af slíku fyrir löngu.
Ég er kannski bara svona gamaldags að telja að það borgi sig að vinna úr ágreiningsmálum án þess að byrja á að bera þau á torg og gildir einu hvort um er að ræða stjórnarsamstarf eða hjónaband. Samstarf er nú þannig að það geta ekki allir fengið allt sem þeir vilja og þannig verður það alltaf. Það verður því að teljast jákvætt að meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í borgarstjórn hafi tekist að vinna úr sínum málum og ætli að halda áfram að vinna að þeim málum sem voru komin á gott skrið þegar Björn Ingi fór. Þetta verður ekki auðvelt en ég hef fulla trú á oddvitum flokkanna, þeim Hönnu Birnu Kristjánsdóttur verðandi borgarstjóra og Óskari Bergssyni og óska þeim og öðrum Reykvíkingum innilega til hamingju með afmæli Reykjavíkurborgar á morgun, 18. ágúst.
18. ágúst er okkur hjónum kær því fyrir átján árum síðan giftum við okkur í Háteigskirkju og höfum við því verið gift í hvorki meira né minna en fjögur og hálft kjörtímabil.
26,2% segjast styðja nýjan meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Rokk og pönk í Rituhöfðanum
16.8.2008 | 21:18
Í gær var haldið hið árlega Rituhöfðagrill og mikið um dýrðir að vanda. Tjaldið var sett upp hjá Gilla og Ástu (ár eftir ár eftir ár....). Það má segja að allt hafi verið eins og venjulega þ.e. Gilli með kokteilinn bláa í djúsvélinni, hin árlega flottasta grillið keppni, trampólínin fjögur fyrir krakkana, góða skapið á sínum stað.
Kjörtímabil nefndarinnar, þeirra Gilla Ástu og Palla Döggu var liðið og fengu þeir og ekki síst konurnar þeirra sem gerðu boðsbæklinginn og ýmislegt annað á tímabilinu mikið klapp fyrir frábært starf. Bryngeir diskóngur Rituhöfða og Pétur á sex voru kosnir eftir harða kosningabaráttu sem var sérstaklega erfið fyrir Pétur sem var staddur í Portúgal. En hann og Sigga keyptu sér ferð til Portúgal á Rituhöfðagrilltíma í ölæði fyrir nokkru og því þurfti að hringja í hann og tilkynna sigurinn.
Þema ársins var rokk og pönk og misstum við Elli okkur aðeins í pönkinu. Ég fór í netasokkabuxur, latexstígvél og svart svart og Elli í rifnar gallabuxur. Svo var það svarti Eylinerinn og gel í hárið og þá vorum við tilbúin. Við brunuðum í grillveisluna og var ég nokkuð viss um að ég hefði náð pönklúkkinu þegar pabbarnir sögðu við unglingsdætur sínar "sjáðu svona voru stelpurnar" ... Það má segja að pönkið hafi haft vinninginn í gær og vakti Sigrún verðskuldaða athygli meðal unga fólksins, en hún var með hring í nefinu og keðju yfir í eyrað. En það mátti samt sjá netta Hollýtakta hjá sumum og voru þau Bryngeir og Helga sérstaklega flott í diskógallanum. Bryngeir var meira að segja með hárkollu til að fullkomna lúkkið.
Krakkarnir voru með hina árlegu leiksýningu og svo var haldin spurningakeppni kynjanna. Stelpurnar unnu náttúrulega með yfirburðum þrátt fyrir að bleiku spurningarnar (íþrótta) hefðu verið notaðar óspart til að hjálpa strákunum .
Við Bryngeir unnum "missa sig í þemanu" keppnina í ár og vorum útnefnd Diskókóngur og Pönk drottning Rituhöfða og erum afar stolt af því. Við að vísu klikkuðum á því að drekka verðlaunin með gestunum eins og okkur var uppálagt (a.m.k. ég , Bryngeir hefur kannski bjargað mér) en ég sofnaði með Sædísi Erlu rétt um miðnætti.... fékk mér bara "smá" kríu með lillunni og vaknaði í morgun.
Sem sagt frábært götugrill með Rituhöfðingjum eins og vanalega og munum við mæta að ári hress og kát í boði þeirra Bryngeirs og Péturs.
Hér eru nokkrar myndir frá götugrillinu.
Mosfellsbær | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Reykjaskólamótið
12.8.2008 | 23:54
Ég var svo spennt yfir Reykjaskólamótinu að ég sá í bréfi sem ég skrifaði fyrir helgina að ég hafði skrifaði Reykjaskólamóti í staðinn fyrir Rauða kross fundi .... og sú sem fékk bréfið hefur sjálfsagt ekki alveg skilið hvað ég var að blanda Reykjaskóla í málið ... mótið var mér greinilega ofarlega í huga.
Það var ekki lítið gaman að mæta á föstudagskvöldinu og hitta gömlu félagana. Ég fattaði það þegar ég var að leita að stæði að það var ekkert bílastæðavandamál í denn. Ég brunaði á Vesturvistina og hitti þá sem voru komnir, sem voru reyndar mun fleiri en ég hélt að kæmu þá. Svo fór ég upp á Efstuvistina og fann herbergið mitt...en viti menn Raggi Kalli og Eiki voru búnir að hertaka það og fékk ég 57 í staðinn sem var bara í góðu lagi. Fljótlega fórum við í íþróttahúsið og áttum góða stund þar og skoðuðum gömul myndaalbúm og skólabækur. Fljótlega fór að færast fjör í leikinn (trúlega íþróttadrykkirnir) og Raggi Kalli og Eiki spiluðu eins og í denn og tókum við létta söngæfingu. Daddý grillaði strákana í körfubolta og vorum við að velta því fyrir okkur hvort þetta væru ekki bara sömu körfuboltarnir og notaðir voru í gamla daga og eins fannst okkur salurinn hafa skroppið saman. Við vorum m.a. að spá í það hvort Utangarðsmenn myndu láta sér nægja sviðið eins og í gamla daga þegar stórhljómsveitir komu og héldu tónleika fyrir okkur krakkana í Reykjaskóla.
Ég fór og hitti Ólöfu og Bigga áður en ég fór í morgunmat. Svo fórum við út í íþróttahús þar sem Raggi Kalli formaður hátíðarnerfndar setti mótið. Ólympíuleikar JÓDÝ group voru haldnir í sól og hita sem er bara nokkuð merkilegt fyrir Hrútó (talandi um Global Warming). Ég var í marglita liðinu og ætluðum við sko að vinna, enda mikið keppnislið í hópnum . Hópurinn okkar fékk nafnið Áramót þar sem hann var samansettur úr afmælisbörnum desember og janúar. En áður en við komumst í mark hétum við "Retour í grunnu" . Ástæðan var einföld. Það voru 10 stöðvar í ratleiknum og héldum við að fyrstu vísbendinguna ættum við að fá í anddyri sundlaugar. Nú við leituðum og leituðum og svo fann Böddi snilli miða í skápnum sem á stóð "Retour í grunnu". BINGO þarna var vísbendingin komin! Við brunuðum út í sundlaug og áttuðum okkur fljótt á því að verið var að tala um inntaksrörið í grunnu lauginni. Svo fengum við sundlaugargesti til að skoða rörið fyrir okkur... stóð eitthvað á því? áttum við að skrifa litinn? var eitthvað númer á rörinu?.... Strákarnir fóru í lagnakjallarann og könnuðu í leiðinni gömlu bruggstaðina við laugina. Við ákváðum svo að bíða með þessa þraut og sjá hvort við næðum ekki að klára þetta seinna. Við hlupum á milli stöðva og reyndum að hringja í vin til að komast að því hver var kölluð Dudu. Það gekk ekki, en svo kom í ljósi þegar farið var yfir svörin að hún Gunnhildur Gests hafði verið kölluð Dudu en hún mundi það ekki einu sinni sjálf, svo það var ekki nema von að við myndum það ekki.
Eftir ratleikinn hélt fólk áfram að bætast við og var gaman að sitja úti í sólinni og spjalla við fólk. Ég er verulega ánægð með að hafa þekkt alla sem voru með mér í skóla og það með nafni. Ég fór að klára skemmtiatriðið okkar sem var videoið "Retour í grunnu" og kláraði að setja upp myndasýninguna og stilla græjunum upp í matsalnum. Ég flutti í gamla herbergið mitt á sundlaugarvistinni og kom Guðlaug Bjarna til mín og Habba og Imba fluttu inn á móti. Svo komu fleiri og var orðið verulega líflegt á Sundlaugarvistinni og mikill gestagangur.
Fleiri félagar bættust í hópinn og mættu um 80 í hátíðarkvöldverð og kvöldvöku. Ruth og Skúli Þórðar sáu um veislustjórn og tóku fjölmargir til máls og var látinna félaga minnst, þeirra Jódísar Kristinsdóttur og Björns Ragnarssonar. Það var meiriháttar að hlusta á allt grínið og mátti sjá gamla drauma rætast. En hún Guðlaug Bjarna herbergisfélagi minn var krýnd fegursta stúlka Reykjaskóla 2008 af honum Ragga Kalla, at last. En hún skrifaði það takmark í Reykjaskólabókina um árið. Maturinn var mjög góður og var mikið fjör í mannskapnum þegar haldið var út í íþróttahús þar sem kvöldvakan fór fram. Við Ómar Már félagi minn og sveitarstjóri í Súðavík tókum að okkur að stýra dagskránni úti í íþróttahúsi og verð ég að segja að ég hef oft tekið að mér léttari veislustjórn. Það voru allir svoooooo óþekkir . Nei nei það var bara svo rosalega gaman hjá öllum og klukkan lang gengin í ellefu þegar við fórum út í íþróttahús og því skiljanlegt að komið væri fjör í mannskapinn. Ratleikshóparnir voru allir með atriði, dans, spurningakeppni, limbó og söng og lauk formlegri dagskrá með óborganlegum afmælissöng Rúna og Lýðs fyrir Skjöld Sigurjóns og smá boltasprelli JÓDÝ group.
Þegar Hippabandið steig á svið og sungu þeir öll gömlu góðu lögin og trylltu lýðinn og mátti heyra kunnuglega grúppíuskræki á réttum stöðum og tók ég virkan þátt í þeim, enda gömul Hippabandsgrúppía. Nokkrir gestasöngvarar sungu með Hippabandinu. Ruth söng nokkur lög, Daddý söng Geng hér um og Rafmangspresturinn Þorgrímur söng poppaðan "gamla nóa" eins og hann hafði lofað mér. Við Bjarki og Gunna Dóra fengum náttúrulega eina tríó mynd af okkur, svona eins og í denn....sjáið bara við höfum ekkert breyst... nema við erum hætt að reykja og ég gat hamið á mér puttana núna.
Sviðið var rýmt og mætti Jónas á sviðið og héldum við að nú ætti að halda ræðu, enda vanur maður en viti menn hann kom okkur heldur betur á óvart. Hann fékk Svövu, elskuna sína til 28 ára, til að koma upp á sviðið og skellti sér á skeljarnar og bað hennar "í beinni" við mikinn fögnuð okkar hinna. Bjarki sá svo um diskótekið, eða kannski mest Jón Þór og var líka smá pönk fyrir Júlla þegar hann fékk að ráða. Það var nærri kominn morgunmatur þegar síðustu tónarnir þögnuðu. Jóga bauð svo út að borða í skottið sem fjölmargir þáðu fyrir morgunlúrinn.
Ég vaknaði eldhress og hélt að ég væri útsofin þangað til ég leit á klukkuna. Eftir morgunmat og smá spjall fórum við aðeins upp í skóla og var sama lyktin, en það var búið að taka bókasafnið og breyta frá því að við vorum þarna. Fólk var í gleðivímu yfir vel heppnaðri helgi og fórum við heim á leið með bros á vör með Reykaskólaarmböndin og staup frá Rúna og Sigrúnu til minningar um Reykjaskólamótið 2008. Það var ekki annað hægt en að koma við í Staðarskála, í síðasta sinn fyrir lokun skálans og fá sér sveittan hamborgara og franskar.
Síðan ég kom heim er ég búin að fá nokkur bréf og myndir og eru allir sammála um að þetta hafi verið fullkomin helgi. Ekkert klúður og enginn skandall (ég hef þá a.m.k. misst af honum) og er fólk þegar farið að tala um næsta mót og bíð ég mig aftur fram sem sérlegur aðstoðarmaður Aðal.
Hér eru nokkrar myndir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.8.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)