Gleðilegt ár - áramótaannáll 2007
1.1.2008 | 15:38
Gleðilegt ár kæru vinir og fjölskylda og aðrir sem lesa þetta blogg.
Áramótin voru róleg og yndisleg og fórum við Rituhöfðafjölskyldan bara fyrr að sofa en oft áður. Amma Binna kom og borðaði kalkún hjá okkur og var mikið skotið upp í Rituhöfðanum eins og vanalega og er ég ekki frá því að við gætum bara farið að auglýsa hér flugeldasýningu í götunni um miðnætti.
Við lentum í smávægilegum vandræðum, eitt blys sprakk án þess að fara upp og Hallgerður mín langbrók sprakk í síðustu skotunum og náði að valda hellum hjá fjölskyldumeðlimum í smá tíma... Sem sagt, mikilvægt er að fara að öllu með gát og vera með hlífðargleraugu. Sturla var óður og Ásdís Magnea var greinilega að hitna og skaut upp sem aldrei fyrr. Sædís Erla svaf og hefur hana örugglega dreymt flugelda því hún verður trúlega sú al skotvilltasta í fjölskyldunni. Það fyrsta sem hún spurði svo þegar hún opnaði augun hvort við ættum ekki að skjóta upp flugeldum og því eins gott að við eigum enn nokkur góð blys fyrir hana.Áramótaannállinn varð örlítið lengri en til stóð, enda árið 2007 nokkuð viðburðaríkt hjá fjölskyldunni.
Árið 2007- áramótaannáll Rituhöfðafjölskyldunnar
Árið 2007 fór vel af stað hjá Rituhöfðaliðinu allir frískir og glaðir að vanda og varð árið bara ágætt með smá skurðum, insúlínsprautum og nokkrum spítalaferðum, sem er svo sem ekki alvarlegt í okkar fjölskyldu, ef maður bara man eftir því að brosa.
Neyðarvarnafulltrúi Rauða krossins á flugslysaæfingu
Rituhöfðamamman hélt áfram í meistaranáminu í HÍ, í umhverfis- og auðlindafræðum og heldur sig enn við upphaflegt plan og útskrift í upphafi ársins 2009. Vorönnin var tekin létt, bara eitt fag með tveggja mánaða veikindaleyfi, sem varð til þess að mamman hóf að blogga á moggablogginu og hefur eignast fullt af góðum bloggvinum á árinu eins og Ásdísi hálfnöfnu á Selfossi, Gumma Fylkis í Bosníu og fleiri góða og er stefnt að bloggvinamóti á Dalvík á Fiskideginum mikla 2008. Síðasta sumar tók frúin svo ákvörðun um að hætta störfum hjá Rauða krossinum og rann síðasti vinnudagurinnupp í lok ágúst, bjartur og fagur. Skrítið var þó að hætta afskiptum af Rauða krossinum eftir níu ára sambúð" og ekki að sleppa við almannavarnabakvaktirnar, sem allir fjölskyldumeðlimir voru þó meira en sáttir við að slökkva á. Mamman fékk svo nemasjóðsstyrk frá Rannís á miðju ári og ákvað að bæta frekar við námskeiðum í HÍ og nokkrum stjórnum og nefndum, en að leita að nýrri vinnu enn um sinn. Það reyndist farsæl ákvörðun því við bættist formennska í bæjarráði í september, viðbót við rannsóknarverkefni, dómnefndarstörf og því þurfti mamman að vera bæði A og B týpa, sem reyndist ekkert sérlega auðvelt fyrir kvöldsvæfu A týpuna Herdísi :O, en þetta tókst nú allt saman og ekki síst með góðum styrk frá fjölskyldu, Siglufjarðarsaumó og Siggu vinkonu.
Elli skipti um starf á miðju ári. Hann hætti hjá Línuhönnun og fór að vinna hjá Nýsi og er alsæll þar í þróunardeildinni. Hann og vinnur við að sjá um uppbyggingu ýmissa stórra nýrra bygginga og þróun nýrra verkefni hér heima og erlendis og þótti honum m.a. alveg ööööömurleg fyrsta vinnuferðin þegar hann var neyddur til að fljúga milli landa til að skoða golfvelli... ræfils karlinn. En líkt og fyrri ár getur Elli minn ekki setið auðum höndum og var það bílaplanið sem hann fékk útrás á þetta sumarið, háu hælunum mínum og nágrönnum okkar í Rituhöfðanum til mikillar ánægju. Hann hélt líka áfram að æfa með UMFUS og keppa á Akureyri eins og kemur fram í kaflanum um Sturlu hér fyrir neðan. Hann skátast enn mikið með Mosverjum og er nú gjaldkeri í Kiwanisklúbbnum Mosfelli.
Sturla Sær er orðinn tólf ára (sorry næstum þrettán) og því er gelgjan farin að segja til sín, en hann er samt alltaf jafn ljúfur. Hann náði því takmarki að verða stærri en mamman sem er alltaf viss áfangi í lífi barnanna og sýnist mér á Sædísi Erlu að mamman verði innan fárra ára orðin minnst í fjölskyldunni. Sturla er mikill keppnismaður og hélt hann áfram að æfa bæði handbolta og fótbolta með Aftureldingu. Þeir tóku þátt í fjölmörgum mótum í fótboltanum í sumar og fóru m.a. á Akureyri og Selfoss. Líkt og í fyrra fékk pabbi gamli meira að segja taka líka þátt á pollamótinu á Akureyriog urðu Elli og UMFUS í fimmta sæti og brotnaði bara enginn þetta árið, en Raggi granni of fleiri voru ekki búinn að ná sér frá því á síðasta ári og gátu því ekki verið með,,, en þeir stóðu sig því mun betur í hvatningunum á hliðarlínunni. Sturla valdi svo handboltann í vetur og spilar nú af kappi með Aftureldingu í 5 flokki. Sturla lærði á gítar í fyrra og hefur gaman að því að glamra á kassagítarinn hans pabba og plokka rafmagnsgítarinn og hver veit nema hann komist í Rituhöfðabandið fljótlega. Hann stendur sig vel í skólanum og skortir ekki félaga og hefur eignast nýtt áhugamál sem er félagsheimilið Bólið sem sótt er af krafti, enda kominn unglingur í minn eins og áður hefur komið fram.
Marteinn skógarmús og Kristín frænka
Ásdís Magnea er orðin fimmtán ára og komin í síðasta bekk grunnskólans og farin að plana hvernig bíl hún ætli að eignast. Hún er nú formaður nemendafélagsins í Lágafellsskóla og var árið 2007 farsælt og fjörugt hjá henni. Hún hélt áfram að skátast á árinu og fóru Mosverjar á alheimsmót skáta á Englandi sem haldið var í júní. Það lenti hún í ýmsum ævintýrum og hitti meira að segja prinsinn og gaf honum íslenskan skátaklút. Hún fór líka til Finnlands í skiptiverkefni á vegum vinabæjarsamstarfsins og skemmtu þær Eyrún skátavinkona hennar sér vel og fóru á ljósmyndanámskeið með krökkum frá öllum vinabæjunum og er hún enn í góðu netsambandi við marga þeirra.Listsköpun átti hug hennar allan á árinu 2007. Hún vann auglýsingakeppni Flott án fíknar"ásamt tveimur vinkonum sínum og hefur sú auglýsing verið í sýningu í sjónvarpinu af og til í allan vetur. Ásdís er nú farin að taka þátt í leiklistarlífinu hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Auk smáuppákoma fékk hún hlutverk í þremur uppfærslum á árinu, sem ...hún lék Tinkuló í Óviðrinu" eftir Shakespeare, Martein skógarmús og ljónið í Allt í plati" og bæjarstjórann í Þegar trölli stal jólunum". Myndlistin fékk sinn skerf og tók hún þátt í skemmtilegu grafíkverkefni í upphafi skólaársins með Örnu Birgis og danskri listakonu sem var gestakennari í Lágafellsskóla, sem endaði með myndlistarsýningunni Trílógíu í Listasal Mosfellsbæjar. Ásdís tók þátt í annarri samsýningu stuttu seinna, þar sem grunnskólakrakkar sýndu sjálfsmyndir sem þau máluðu eftir frægum myndum. Ásdís fór líka að spila á saxófón hjá Listaskóla Mosfellsbæjar, en fann sig ekki í því og ætlar að láta sönginn duga. Ásdís stendur sig líka vel í skólanum og hlakkar til að fara í framhaldsskóla á næsta ári og er farin að skoða félagslífið í framhaldsskólunum, en er ekki alveg búin að ákveða hvað hún ætlar að læra.
Sædís Erla með Bóthildi litlu hennar Ásdísar hálfnöfnu á Selfossi
Fröken Sædís Erla varð fjögurra ára í október og er hún alltaf söm við sig og er þar ung kona með sterkan vilja. Hún er enn á leikskólanum Huldubergi og deildinni Silfurbergi og hélt hún uppi stuði þar alla daga, en er hætt að enda á bekknum eins og í fyrra. Hún byrjaði í Solluskólanum í haust eða íþróttaskóla Aftureldingar, en hætti fljótlega því hún bara nennti ekki út á laugardagsmorgnum. Vilti frekar bara dúllast á náttfötunum heima og því fórum við frekar í hjóla og göngutúra og lékum okkur á nærliggjandi leikvöllum og ekki var verra þegar Anna Sigga vinkona mín" kom til að leika. Það hefur heyrst að hún verði örugglega stjórnmálamaður því hún nær að tala og tala og oft um ekki neitt og svo kann hún líka að þagga niður í nærstöddum ef hún þarf" orðið.
Lady og Lucy móðursystir í körfunni á Sigló
Lucy litla okkar unir sér áfram vel hjá ömmu og afa á Siglufirði og enn er hún með fæðuofnæmi elsku kerlingin. Hún fékk félagsskap í lok árs þegar Lady litla systurdóttir hennar bættist í hópinn...en stundum er einum of mikið för á bænum fyrir hennar smekk... en hún er samt alsæl með að vera komin með lögheimili á Laugarvegi 15 og nýtur rúntanna á fjörðinn með afa á Sigló í botn.
Siggi og Raggi fyrir mörgum árum síðan
Ýmislegt markvert gerðist einnig hjá stórfjölskyldunni á árinu. Siggi og Raggi fengu bílpróf í apríl og Lilja okkar á Sveðjó varð sjötug þann sama mánuð. Amma Binna varð sextug 2. júlí og vorum við hjá henni í Borgarfirðinum og er það líklega lengsta afmælisveisla sem við höfum farið í. Svo hélt hún upp á afmælið með pompi og prakt í október þar sem saman voru komnir á annað hundrað vinir og fjölskylda að samfagna með henni. Sama dag og haldið var upp á afmælið varð Sigga frænka í Noregi fimmtug og sungum við Mosó/Hafnarfjarðarliðið fyrir hana afmælissönginn í gegn um síma í afmælinu. Sirrý okkar varð tvítug í október og kom hún og við héldum henni litla Rituhöfðafjölskylduveislu og er alltaf jafn yndislegt þegar hún kemur til okkar, enda algjörlega ein af fjölskyldunni.
Doddi mágur og afastrákurinn Þórður Davíð á gamlársdag
Hluti af strákunum Kristínar og Dodda
Þann 30. apríl fæddist þeim Sigurjóni Veigari og Höllu lítill sponni, sem fékk fallega nafnið Þórður Davíð í höfuðið á Þórðunum þremur, Afa Dodda, afa Togga, Þórði frænda og Davíðsnafnið frá Reyni Davíð heitnum. Alveg yndislegur gaur og eru bræður hans þeir Kristján Gabríel og Engill Þór stoltir af litla bróa. 5 desember eignuðust Ólöf og Biggi litla prinsessu og heimsóttum við þau og Arnóri Smára á leiðinni heim frá Siglufirði um jólin.
Herdís og Björk við opnun Rúbín
Rúnar og Björk opnuðu nýjan skemmtistað í Öskjuhliðinni, Rúbín og mættum við Elli í opnunarpartý þar sem við Björk slógum í gegn sem bakraddasöngkonur hjá Ragga Bjarna, strákunum til mikillar skemmtunar.
Kristín og Doddi athafnafólkið í fjölskyldunni keyptu sér nýtt fyrirtæki í lok árs. Salthúsið í Grindavík og ætla þau sér stóra hluti með það fyrirtæki og efumst við ekki eina sekúndu um að þeim tekst það allt saman og meira til. Þau fengu líka verðlaun frá Grindavík fyrir fallegan garð, enda komin með græna fingur,eða sægræna í Dodda tilfelli. Jóhann og Co í Seattle hafa það alltaf jafn gott og blómstra allri í skólanum og tómstundum og er alltaf jafn gaman þegar hann lætur sjá sig á klakanum kalda, sem gerist okkur öllum til ánægju og yndisauka nokkrum sinnum á ári.
Amma og afi á Sigló fyrir hálfri öld síðan
Hluti af Siglo Group í Kjörvogsfjörunni hans langafa
Líkt og fyrri ár fórum við á Siglufjörð um páskana og nutum þess að vera með ömmu og afa og fara á skíði. Nokkur ferðalög voru farin í sumar, en að þessu sinni mest innanlands, því fjölskyldan eignaðist óvænt fellihýsi eitt fallegt vorkvöld þegar pabbinn fór í göngutúr og keypti fellihýsi af einum Rituhöfðanágrannanum. Þetta gaf okkur tækifæri til að fara í útilegur með góðum félögum og var vígsluútilegan tekin með sjálfstæðismönnum í Skorradalnum. Farin var ein frábær Rituhöfðaútilega á Suðurlandið og verða þær klárlega fleiri á komandi árum. Við tókum fellihýsið líka með á Strandirnar í ógleymanlegri Strandaferð þar sem við héldum upp á gullbrúðkaupsafmæli mömmu og pabba í Djúpuvík hjá Vilborgu og Geir ásamt Kristínu systur og Dodda. Elli og Sturla fóru líka á pollamótið á Akureyri og mætti mamman svo seinna og studdi strákana sína. Kaupmannahöfn var borg ársins 2007 en tvær skemmtiferðir voru farnar þangað á árinu. Þá fyrri fóru hjónakornin í maí en sú seinni var farin í desember með unglingunum til að sjá jólatívolíi, alveg yndislegt ferð og fékk Sædís Erla að vera alein hjá ömmu Binnu á meðan sem var ekkert smá sport og var hún ánægðust með að jólasveinninn fann hana líka hjá ömmu Binnu. Við fórum svo á Siglufjörð ásamt Jóhanni bróður og Shirley kærustunni hans um jólin.
Ekki er hægt að sleppa pólitíkinni og allra síst á alþingiskosningaári og hófst kosningabaráttan með landsfundi. Mosfellingar eignuðust svo nýjan þingmann, Ragnheiði Ríkharðsdóttur stórvinkonu okkar Ella og fengu margir vinir og fjölskylda hringingu frá hjónunum í Rituhöfðanum, en úthringingartíminn var nýttur til að heyra í fólki um allt land, sem var sérstaklega ánægjulegt. Kosninganóttin var spennandi og mikið spennufall þegar takmarkið náðist eða að ná RR þingmanni Mosfellinga inn, en hún komst inn á síðustu tölunum er því nýjasti alþingismaðurinn á þingi. Við Sjálfstæðismenn í SV kjördæmi stolt af því að hafa náð sex þingmönnum inn á þing, takk fyrir stuðninginn þið sem kusuð rétt (he he).
Eftirtektarvert þótti eftir kosningar að á Alþingi eru fjölmargir Siglfirðingar og lagði ég m.a. til í einu blogginu mínu að ég yrði ráðin framkvæmdastjóri þingflokks Siglfirðinga...enda 100% Siglfirðingur. Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var svo mynduð og er ég enn að venjast nýja ríkisstjórnarmynstrinu. En eftir því sem Völva Vikunnar segir verða enn frekari breytingar á árinu, en ég held samt að eina sem rætist er að ManUn vinni á árinu og hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu með vinstri stjórnina, enda sýnist mér ríkisstjórnarsamstarfið ganga vel. ... en hvað veit maður eftir allt ruglið í borginni.
Á vettvangi bæjarmálanna í Mosfellsbæ gerðist einnig ýmislegt og gengur samstarf við Vinstri græn vel. Mosfellsbær fagnaði 20 ára afmæli sínu og var haldinn hátíðarfundur á bókasafninu að viðstöddu fjölmenni. Í Mosfellsbæ var tekin var í notkun ný íþróttamiðstöð á vestursvæði, glæsileg sundlaug og hefur World Class nú opnað líkamsræktarstöð í sama húsnæði okkur Mosfellingum til mikillar ánægju. Einnig bættist við nýr gervigrasvöllur við Varmá, valinn var nýr skóli Krikahverfi með nýstárlegri samningskaupaaðferð og var valinn sem verður fyrir börn frá 1 árs til 9 ára og margt fleira var unnið í þágu Mosfellinga, enda mun bæjarbúum fjölga um þúsund á ári á næstu árum og því að mörgu að huga. Þó verð ég að segja að sennilega er það vilyrði fyrir hjúkrunarheimili og framhaldsskóla í bænum stendur upp úr á árinu og verður þegar hafist handa við uppbyggingu á næsta ári.
Ragnheiður hætti sem bæjarstjóri í byrjun september og nýr bæjarstjóri Haraldur Sverrisson tók við. Ragnheiður tók svo ákvörðun um að hætta einnig sem bæjarfulltrúi kom Hafsteinn Pálsson kominn inn í hennar stað. Það er skrítið að eftir öll þessi ár að hafa Ragnheiði ekki lengur í starfinu, en það er líka gott að hafa hana á þingi með alla sína reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum og á hún örugglega eftir að gera góða hluti þar sem annars staðar.
Rituhöfðinn rokkaði sem aldrei fyrr á árinu 2007 og byrjaði árið með því að stofnað var bílskúrsband, sem að vísu hefur ekki komið saman allt árið, en það verður gert some day. Farin var Rituhöfðaútilega, sumargrill haldið í tjaldinu hjá Gilla og Ástu og hátíðin Í túninu heima" tekin með stæl. Við skreyttum götuna GULA og stuðluðum að gulum sigri í Mosfellsbæ þetta fyrsta ár sem litakeppnin var haldin, sem NB mamman lagði til að væri gert og lukkaðist frábærlega. Búið er að safna gulu dóti allt árið, enda til mikils að Vinna. Haldinn var skreytidagur í upphafi aðventunnar í Rituhöfðanum og 2007 skotið upp með stæl. Fullt af skemmtilegum uppákomum með góðum nágrönnum.
Árið 2007 átti eftir að verða ár ættfræðinnar hjá Rituhöfðamömmunni. Mikið skemmtilegt var að grúska með Halla Gísla frænda mínum og áttum við saman yndislega samverustund heima í Rituhöfðanum og stefnum við ótrauð að því að fara saman á Strandirnar næsta sumar. Ég fékk líka símtal frá góðri bloggvinkonu, henni Önnu Kristjáns sem sagði að hún hefði fundið mig í ættartölu kanadískra Vesturfara sem staddir voru á landinu. Þetta varð til þess að komið er á samband við stóran hóp ættmenna í Kanada, en langafi minn átti 5 systkini sem öll fluttu Vestur um haf, en hann varð einn eftir heima í Fljótunum. Við höfum oft talað um að gaman væri að hafa upp á ættingjunum en ekkert gert í málinu fyrr en Anna hringdi. Þrjú þeirra voru á landinu ásamt mökum og áttum við frábæra fjölskyldustund í Grindavík, sem er bara upphafið af einhverju miklu miklu meira og erum við farin að ræða ferð til Kanada næsta sumar og var gaman að fá jólakveðjurnar frá ættingjum í Kanada þetta árið. Einnig héldu áfram rannsóknir á ævi Herdísar ömmu og afa Jóhanns sem hófust fyrir nokkrum árum síðan. Svo kom texti um þau afa og ömmu frá Adda á Sauðárkróki með ljóði ömmu um Skeiðsfoss þegar hann var orðinn vatnslaus og varð það kveikjan að skrifum mínum um Skeiðsfossvirkjun í siðfræði náttúrunnar, sem mun sjálfsagt halda áfram að þroskast og hver veit nema það endi með sögu.
Við þökkum ykkur kæru vinir og fjölskylda fyrir frábærar samverustundir á árinu sem er að líða og vonandi náum við að hitta ykkur sem flest eldspræk á komandi ári
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Facebook
Athugasemdir
Flottur annáll hjá þér skvísa. Mig vantaði aðeins framan á kynni okkar. :):) Hafið það sem allra, allra best á nýju ári. Kær kveðja.
Ásdís Sigurðardóttir, 1.1.2008 kl. 15:48
Flottar myndir
Ásdís Sigurðardóttir, 1.1.2008 kl. 16:40
Takk vinkona og bestu kveðjur til ykkar allra á Selfossi.
Herdís Sigurjónsdóttir, 1.1.2008 kl. 17:29
Gleðilegt nýtt ár, gaman að lesa fréttir af þér og fjölskyldunni, stefnum að því að hittast áður en langt um líður.... :)
Jónína Hafdís Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.