Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Fyrsti vetrardagur

mealImage

íslensk kjötsúpa í kvöldmatinn, í tilefni dagsins. 

Það var svona hálf sjokkerandi að fara út í morgun og sjá Úlfarsfellið grátt, en svo fattaði ég að það er víst kominn vetur. Ég vona í það minnsta að þessari rigningu fari að linna.

Síðasta vika var frekar pökkuð og mikið um hlaup milli staða.

þingmenn og bæjarfulltrúar

Við fengum þingmenn kjördæmisins í heimsókn í Mosfellsbæinn á mánudaginn og var það fínn fundur. Það var ljúft að þurfa ekki að ítreka eitt árið enn að Mosfellsbær sé ört stækkandi bæjarfélag sem þarf bæði hjúkrunarheimili og framhaldsskóla. Ástæðan einföld. Framhaldsskóli og hjúkrunarheimili komin á fjárlög og verða innan fárra ára komin í gagnið í Mosfellsbæ.

Dómnefnd Krikaskóla fékk hópana á seinni fundinn í vikunni. Skiladagur tillagna er 8. nóvember og mun dómnefnd þá bretta upp ermar og velja þá tillögu sem við teljum besta fyrir Mosfellsbæ.

Verkefnastjórn LNV (langtímaviðbrögð við náttúruhamförum)á fundaði með sveitarstjórnarmönnum í vikunni og var til umfjöllunar afrakstur verkefnavinnunnar. Ég kynnti greiningarvinnuna mína og Sólveig og Ásthildur það sem unnið hefur verið úr fundum og viðtölum með hinum ýmsu aðilum. Þetta var góður fundur sem sýndi að vinnan er á hárréttri leið og eru forréttindi að fá að vinna að þessu verkefni og ekki síst vegna þess að þessi vinna var ástæða þess að ég fór að huga að meistaranáminu, sem ég er nú hálfnuð í.  Sú greiningarvinna sem ég vann fyrir LNV á löngu og sjóðum er lúta að uppbyggingu og endurreisn samfélag er fyrri hluti meistaraverkefnisins, en nú er ég að vinna að seinni hlutanum sem fjallar eingöngu um viðbúnað sveitarfélaga í almannavörnum.

Í gær var aðalfundur SSH eða Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu haldinn í Kjósinni. Ekki var mikill tími til umræðu því á þeim hálfa degi sem fundurinn tók voru haldnir ársfundir, Sorpu, Slökkviliðsins og Strætó, en það er alltaf gagnlegt að hitta aðra sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu.

Nú ætla ég að fara að pakka niður. Er að fara í vinnuferð til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Það er svo þétt dagskrá að ég á ekki von á að hafa tækifæri til að læra mikið, sem er visst áhyggjuefni og klárlega verður eeeeekkert verslað í þessari ferð.


Náttúruunnandinn hún amma mín Herdís

Ég hef gaman að ættfræði og hef verið að leita að upplýsingum um ömmu mína Herdísi og afa Jóhann. Hún amma mín Herdís fæddist í Vík Haganesvík 30. ágúst 1893. Hún hefur verið ótrúleg kona, fór í skóla, var hagyrðingur, saumaði, málaði, var sýsluskrifari og skaut sel sem var ekki algengt í þá daga. Hún lést stuttu eftir að ég fæddist og þekkti ég hana því ekki í eiginlegri merkingu, en tel mig samt þekkja hana og ekki síður eftir að hafa verið í þessum rannsóknum. 

Mig  og langar mig til að birta hér ljóð eftir hana sem hún orti þegar Skeiðsfossvirkjun var byggð og fossinn var orðinn vatnslaus.  Það kemur vel fram í ljóðinu hvað hún var mikill náttúruunnandi, en hún var jafnframt meðvituð um mikilvægi rafmagnsins. Ég vildi óska þess að ég gæti sest niður með henni ömmu minni spurt hana nánar út í þetta ljóð og svo margt sem ég hef velt fyrir mér varðandi viðhorf hennar til samspils manns og náttúru. En eftir að hafa kynnt mér ævi ömmu minnar tel ég mig sjá að hún hafi haft skynjað umhverfið sterkt og hafi framar öllu þráð jafnvægi, með fullri virðingu fyrir bæði manni og náttúru.            

Fossinn

Þitt kjörorð var frelsi með kingi í hljóðum

kraftur og algleymi fylgdi þeim ljóðum

töfrandi litskrýddum ljósperlum stráði

á  landi sem augað og sálin mín þráði.

tröllaukni foss þú varst tekin og bundinn,

taminn og vilji þinn léttvægur fundinn.

 

Nú hefur tæknin tekið þig höndum

tamin  og reyrðan vélanna böndum

allur þinn máttur til mannanna þarfa

metinn og vegin nó er að starfa.

Í skiftum á litskrúð og ljóðanna glaumi,

Lýðurinn fagnar nú raforkustraumi.

 


Gummi Fylkis friðardúfa

Gummi að taka fuglaprófið á Seyðisfirði

Ég fór inn á síðuna hjá Gumma félaga mínum Fylkis áðan og las síðustu viku. Hann starfar við friðargæslu í Bosníu og fer ég vanalega inn á síðuna hans daglega og kvitta (annars er maður tekinn í bakaríið) og les um það sem á daga hans hefur drifið. Hann tekur líka svo skemmtilegar myndir sem gaman er að skoða.

Í síðustu viku (áður en ég fékk Reykjavíkurlistamartröðina) þá spurði ég hann að því hvaða fugl hann hefði verið greindur í flugslysaæfingahópnum, en höfum við bæði starfað í honum. Þetta fuglapróf er svona karaktergreining og er fólk greint sem fálki, dúfa, páfugl og ugla. Ég er páfugla-fálki, Bára fálki, Jói Thor páfugl, Guðbjörg páfugl og Margrét Blöndal líka, Kristján Torfa ugla, Víðir var Geirfugl, Rögnvaldur dúfa og flestir slökkvararnir ef ég man rétt, en Árni Birgis frændi minn páfugl páfugl páfugl. Gummi tjáði mér að hann væri dúfa og væri meira að segja með tattóveraða dúfu á handlegginn. En fyrst hann vinnur við friðargæslu, er hann þá ekki friðardúfa?


Vöknuð af martröðinni

Jæja þvílík sjálfsstjórn og agi, ég hef ekki skrifað eina einustu færslu hér á moggabloggið frá 11. október. Meginástæðan er próflestur, vettvangsferð og svo andstæðan við verkefnaskort.

Nú er ég sprenglærð í siðfræði náttúrunnar og á örugglega eftir að skrifa ýmislegt um strauma og stefnur í þeim fræðum. Ég var á áhugaverðum fyrirlestri áðan um sjónmengun orkumannvirkja. Það er eitthvað sem maður er ekki mikið að velta fyrir sér svona dags daglega, en þegar búið er að benda á það á þetta örugglega eftir að öskra á mig. Hvít hús og gráir staurar og byggingar á yfirborði jarðar sem væri hægt að setja niður í jörðina. Ef fólk hugsaði út í þetta er ég viss um að þetta væri ekki svona og hef ég fulla trú á því að þetta eigi eftir að breytast. Ég spurði hvort þetta væri sér íslenskt, en sagði fyrirlesarinn að svo væri ekki, það væri einfaldlega ekki lögð mikil áhersla á að gera sjónræna mengun sem minnsta, ennþá.

 


Martröð

Ég verð að viðurkenna að eina orðið sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um atburði dagsins í borgarmálunum er martröð.
mbl.is Dapurlegt að endurreistur R-listi sé kominn til valda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lucy mín er orðin móðursystir

Elli og hvolparnir    Hvolpakúr

Ég mátti til með að grobba mig af nýjustu fjölskyldumeðlinunum. En hún Lucy okkar er orðin móðursystir og gaut Buffy systir hennar fjórum hvolpum og er hún nú í gotfríi hjá ömmu og afa á Sigló, Lucy systur hennar til mikillar ánægju. En fyrir þá sem ekki þekkja til þá varð Lucy að flytja frá okkur Rituhöfðafjölskyldunni vegna ofnæmis, NB hennar sjálfrar.

Það komu fjórir þessir líka flottu hvolpar.... 100% Poodle og svartur hundur og svört tík og svo hvítur hundur og hvít tík. Lucy horfir á þá en sýnir enga mömmutilburði, en átti ég allt eins von á að það myndi gerast. En hún á eftir að ganga litlu hvítu píslinni í móðurstað og er dásamlegt til þess að hugsa að einn hvolpurinn verði eftir hjá henni á Siglufirði Þegar Buffy fer með hina hvolpana heim til Grindavíkur. Frábært að þá verður aftur komin lítil hvít Lady á Laugarveg 15.


Fjórða barnið okkar tvítugt í dag, til hamingju með daginn elsku Sirrý

Sirrý lítil    Sirrý tvítug

Ég var alltaf staðráðin í því að eignast fjögur börn. Ég ætlaði að eignast dóttur sem ég ætlaði að skíra Ásdísi Magneu, pabbanum og hinum börnunum hafði ég ekki velt eins mikið fyrir mér, en þetta tvennt var ráðið. Það var svo sem ekki miklir möguleikar á að þetta með nafnið gengi eftir þar sem ég er yngst þriggja systkina. En þannig fór samt að stóra Kristín systir mín eignaðist fjóra glæsilega stráka, Þórð Matthías, Sigurjón Veigar og svo tvíburana Sigga og Ragga. Hún fékk líka fjögur bónusbörn með Dodda sínum, þau Reyni Davíð sem nú er látinn, Val, Evu og Róbert. Jóhann stóri bróðir minn flutti til Ameríku og giftist Theresu og eignuðust þau tvær dætur Söru og Kristínu sem fæddist á þrítugsafmælisdegi Kristínar systur og svo eignuðust þau Jóhann Pétur. Eftir að þau luku barneignum eignuðumst við Elli frumborðunn 31. október 1992, dóttur sem hlaut nafnið Ásdís Magnea. Sem sé örlögin gerðu það að verkum að ég fékk nafnið.

Sirrý og Ásdís Magnea

En þá að fjölda barna. Við áttum Ásdísi Magneu eins og ég sagði og svo kom Sturla Sær 1995 og svo Sædís Erla árið 2003. En stuttu eftir að Sædís Erla fæddist fengum við bónusdóttur hana Sirrý okkar sem allir eru löngu farnir að líta á sem eina af fjölskyldunni. Hún kom fyrst mikið í heimsókn um helgar, en hún var í skóla á Akranesi, en svo kom hún og bjó hjá okkur og fór í Borgarholtsskólann og er hún eins og stóra dóttir okkar og stóra systir krakkanna. Nú er hún að læra og vinnur á hárgreiðslustofu og í banka og kemur mat til okkar þegar hún kemst vegna vinnu og er það yndislegt.

Ég hef þekkt Sirrý frá því að hún fæddist því hún er dóttir bestu vinkonu minnar á Siglufirði, hennar Helgu Sverris. Ég hef fylgst með henni og séð hana vaxa og dafna og breytast úr yndislegri lítilli dúllu með ljóst hörund og falleg stór augu í gullfallega unga konu. Svo vel gerð að utan sem innan og erum við lánsöm að "eiga" hana, en við grínumst oft með það að hún sé dóttir okkar. Tengdó var spurð að því í 60 afmælinu hennar un daginn, hver þessi unga stúlka væri. Hún var fljót að svar því til að hún Sirrý væri eiginlega fósturdóttir okkar Ella, dóttir bestu vinkonu minnar á Siglufirð, enda allir fyrir löngu farnir að líta á Sirrý okkar sem fjórða barnið.

Ég verð að láta það fylgja með hér að ég á dásamlega minningu frá einni heimsókn til Helgu vinkonu. Þá var ég í skóla fyrir sunnan og hafði ekki hitt Sirrý um tíma. Við Helga sátum saman frammi í stofu ásamt nokkrum öðrum og Sirrý var sofnuð, en vaknaði upp. Í svefnrofanum gekk hún fram og hélt að ég væri mamma hennar og er mér minnisstætt hvað hún stökk á mig og hélt dauðahaldi um hálsinn á mér og kreisti. Þetta hef ég svo oft upplifað eftir að ég eignaðist sjálf börn, en þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði þetta, enda hélt hún að ég væri Helga. Við Helga náðum að skipta um faðm án þess að hún tæki eftir, en er þetta greipt í huga mér enda var þetta sterk upplifun fyrir mig.

Elsku Sirrý okkar, hjartanlega til hamingju með afmælisdaginn. Við hlökkum til að hitta þig og gefa þér afmælisgjöfina Wink.


Á eftir gæsaskytteríi kemur plokkerí

Elli stórskytta        Jóhann gæsaskytta

Ég átti allaf eftir að setja inn gæsamyndir af þeim Ella og Jóhanni bróður, en þeir komu ekkert smá hróðugir heim úr veiðiferðinni. Alveg dauðþreyttir, en alsælir. Elli var ekki viss um að hann gæti skotið vegna slitnu sinarinnar í upphandleggnum, en svo fann bara ekkert fyrir þessu rambómorguninn mikla. En ég held nú samt að það verði betra að láta laga þetta með aðgerð, en byrja alla daga með skotveiðum LoL. Mér sjálfri þótti verst að missa af gæsaveislunni heima á Sigló, en mætti hópur góðra gesta eins og fyrri ár. Ég ætla ég að setja inn myndir frá veislunni og eins fleiri gæsaveiðimyndir fljótlega.

Jóhann og Sædís Erla

Jóhann fer til Noregs á morgun á fund og þaðan heim og verður þá búinn að vera í burtu í um 3 vikur. Við ætlum að skella einu læri í ofninn á morgun, taka eina ekta sunnudagssteik áður en hann fer af landi brott. Hann á nú eftir að koma aftur til landsins fyrir jól og þá getum við systkinin hist öll, en Stóra er núna í Póllandi og því er hittingur ekki í boði.

IMG_5555

Elli er búinn að vera að selja Kiwanislykilinn í allan dag og tók Sturla Sær rispu með honum og stóð sig bara vel í sölumennskunni, en svo fór hann á kvennafar. Ásdís Magnea er í Borgarleikhúsinu í látbragðsleik með Leikfélagi Mosfellssveitar og fór hún um allt betlandi og fékk nammi, appelsín og ýmislegt annað frá leikhúsgestum og skemmti sér konunglega við leikinn. 

Við Sædís Erla eru búnar að lesa nokkrar bækur, "OJ bara varstu að freta Fróði" og miklu fleiri og horfa á nokkrar myndir af Fríðu og Dýrinu og nú er hún í leikfimi hjá mér í rúminu. Ég er nú ekki búin að gera mikið, því ég fékk svona líka rosalega í bakið í gær og gat mig ekki hreyft. En er aðeins betri í dag og verð ég því klárlega komin í skólann á mánudaginn. Ég hélt að vísu að ég færi alveg með mig áðan því ég hló svo mikið þegar ég las alveg óborganlega sögu af Birgi litla, syni Árna Birgis frænda míns sem var að reyna að átta sig á muninum á strákum og stelpum.

Tolli og Þengill

Við fengum góða gesti í dag þegar Elli kom heim úr Kiwanislykla sölunni, en það voru þeir feðgar Tolli og Þengill og var gaman að sjá þá og hefur sá stutti heldur betur stækkað og farinn að spjalla og tryllti um allt. Eftir að þeir fóru skellti hann Elli minn sér út að plokka gæsir núna... já, það er nefnilega þessi óumflýjanlegi hluti skotveiðanna, það er nefnilega ekki í boði að sleppa, líkt og gert er í stórum stíl í laxveiðinni. Enda fengi ég þá ekki gæs til að elda á áramótunum.

Elli að plokka

 

 


Heimspekilegt álitaefni, köttur í kvöldmatinn

Ég hélt að þessi frétt væri um bloggið sem ég fór inn á um daginn hjá honum Jóhanni Björnssyni heimspekingi og kennara og bar bloggið yfirskriftina "Að borða kött". Ég vona að hann fyrirgefi mér það að benda á bloggið hans og fá þetta að láni., en mér þótti þetta bara svo viðeigandi vegna fréttarinnar í dag.

Þetta skrifaði Jóhann á bloggið sitt 29. september sl.

Hér kemur smá heimspeki til þess að takast á við um helgina. Nemendur mínir veltu eftirfarandi sögu fyrir sér í gær í umfjöllun okkar um rétt og rangt:

Lítill krúttlegur heimilisköttur varð svo ólánsamur að verða fyrir bíl og deyja. Eigendur kattarins tóku þetta að sjálfsögðu nærri sér en fengu af einhverjum ástæðum þá hugmynd hvort ekki væri í lagi fyrst svona fór fyrir kisa að hafa hann í kvöldmat. Vitandi þess að kisi væri þegar dáinn og enginn yrði fyrir skaða töldu fjölskyldumeðlimir þetta í lagi. Þeir elduðu því kisa og borðuðu.

Og nú felst helgarheimspekin í því að svara eftirfarandi spurningum:

1) Hvort er það rétt eða rangt að borða köttinn? Og hversvegna?

2) Ef þér yrði boðið í kvöldmat til fjölskyldu sem væri að elda umræddan kisa hvernig myndir þú bregðast við?

Það komu mjög sterk viðbrögð og héldu sumir eflaust að hann væri að meina þetta, en hann sem heimspekingur var eðlilega að fá fólk til að hugsa og kanna eigin viðhorf.

Svo skrifaði hann til útskýringar

 

Hafið ekki áhyggjur viðbrögð ykkar eru mjög eðlileg. Dæmið um köttinn er ekki eitthvað sem ég bjó til sjálfur það er fengið úr bók sem heitir "Do you think what you think you think" og er ætlað að sýna fólki sem er að pæla í siðfræði að ekki er alltaf hægt að færa rök fyrir siðferðilegum álitamálum með klassískum siðfræðikenningum sem nota mjög oft eftirfarandi mælikvarða:

Ekki skal gera það sem skaðar mann sjálfan eða aðra.

Ekki skal gera það sem stuðlar að óhamingju eða vanlíðan.

Nú er dæmið um köttinn dæmi sem hvorki veldur skaða né endilega óhamingju. Verkefnið í þessu ógeðfellda dæmi eins og sumir kalla það felst í því að finna þau rök sem nota má til að hafna átinu eða réttlæta það eftir atvikum. Í bókinni kallast kaflinn sem þetta dæmi er í "Testing your taboos". Við höfum fullt af svokölluðum tabúum í samfélaginu sbr át á köttum en höfum við hugrekki til þess að ræða tabúin og takast á við þau á yfirvegaðan hátt? Í því felst einmitt heimspekin.

Dæmið hér á undan um heimalninginn er mjög gott. Heimalningurinn var borðaður en það tíðkast ekki að ræða um heimalninginn sem litla sæta lambið sem var vinur barnanna. En hversvegna ekki að spá í svona hluti? Með heimspekilegri ástundun erum við að reyna að skilja okkur sjálf viðbrögð okkar og hegðun. Það er nú heila málið.

Mín fyrstu viðbrögð voru á þennan veg:

 

Virkilega skemmtileg pæling.

Já þetta er svona rétt eins og að velta því fyrir sér hvort maður ætti að nota gamla veika konu í tilraunaskyni í þágu vísindanna og mannsins eða ungan frískan apa.

En það er eins og með fyrra dæmið þá snýst þetta um viðhorf okkar til hlutanna.

En varðandi köttinn þá er ljóst að ég myndi ekki borða hann á Íslandi og myndi trúlega kæra þetta atvik ef ég yrði uppvísa af svona kattaráti. En ef ég væri í landi þar sem kettir væru étnir og ég væri gestkomandi á heimili þar sem kötturinn hefði verið þess lands heimalningur, gæti viðhorf mitt til þess að éta "heimalninginn" hugsanlega orðið annað.

Svo seinna um daginn skrifaði ég þetta, því einhver kommentaði á fyrra komment um að það að éta kött væri ekki lögbrot.

Mér varð oft hugsað til þessa máls í dag, það hrærði upp í sellunum og mundi svo ekki á hvaða síðu þetta var, en fann aftur þökk sé goggle. Ég var nú búin að gleyma því að ég hefði talað um lögbrot í þessu sambandi og er sannfærð um að það stendur hvergi í lögum að ekki megi leggja sér kattarkjöt til munns, en kettir eru friðaðir og svo eru  örugglega líka heilbrigðisreglugerðir og  sem mætti leita uppi...og svo er heimaslátrun ólögleg...en NB kötturinn var þegar dauður.  En þar sem ég var búin að bjóða mér í mat til þeirra þá mætti segja að siðferðilegu álitaefni eigi vel við...þ.e. að segja  að ekki eigi að gera það sem skaðar mann sjálfan eða aðra..og .ekki skal gera það sem stuðlar að óhamingju eða vanlíðan.... 

En aftur takk fyrir skemmtilegt blogg.

Mér fannst þetta alveg frábær pæling hjá honum Jóhanni, en er þetta með uppskriftina í blaðinu, ekki bara eitthvert grín?


mbl.is Hvernig matreiðir þú kött?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háðungaverðlaun Nóbels

Ég var nú ekki alveg að ná þessari frétt um samkynhneigð óvinahermanna. Er verið að meina að þegar hermaður X hittir hermann Y úr hinu liðinu þá skjóta þeir ekki hvorn annan, heldur fyllast óviðráðanlegri kynlöngun til hvors annars? Er það ekki bara fínt? En kannski vandamál í sjálfu sér ef aðeins annar hermaðurinn verður fyrir samkynhneigðarsprengjunni, því þá er eins víst að hinn myndi skjóta. En spurning hvaða aðferð vísindamennirnir hafa beitt við þessa rannsókn?

En ég næ því alveg að verðlaun hafi fengist fyrir þetta með kúadelluvanilluna og stinningarlyfið og hamstrana,  ekkert smá afrek að láta sér yfir höfuð detta það í hug LoL.


mbl.is „Samkynhneigðarsprengja" hlýtur Ig Nóbelsverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband