Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hinn íslenski lögregluher

Ég fór inn á heimsíðu Björns Bjarnasonar og las ræðu sem hann flutti á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs 29. mars sl. Þarna fer Björn yfir það, lið fyrir lið, hvernig hann hefur unnið að málum í dómsmálaráðuneytinu frá því að samkomulag um framtíðarskipan landvarna Íslands á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951 var gert 26. september 2006. Ríkisstjórnin birti yfirlýsingu um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins og má sjá alla liðina hér fyrir neðan.

Það var fróðlegt að lesa þetta yfirlit yfir það sem áunnist hefur og má með sanni segja að Björn Bjarnason sé framkvæmdastjórnmálamaður. Ég hafði þó sérstakan áhuga á að kynna mér betur þriðja lið yfirlýsingarinnar sem snýr að nýskipan lögreglumála, aukinni samvinnu viðbragðsaðila og varaliði lögreglu. En varaliðið hefur verið mikið í fréttum undanfarið og fólk hefur gengið svo langt að kalla það "hinn íslenska her".

Þó ég hafi ekki séð endanlegar tillögur eða útfærslu er augljóst að verið er að efla heimavarnir sem ég tel vera af hinu góða. Lagt er til að lögreglulögum verði breytt og ríkislögreglustjóra verði heimilað, að fengnu samþykki dómsmálaráðherra, að bæta við varaliði lögreglu og almannavarna. Slík heimild var í lögreglulögum frá 1940 til 1996, þannig að í raun er ekki um nein nýmæli að ræða.

Samkvæmt frumvarpinu verður ríkislögreglustjóranum falið að halda utan um þetta varalið og búnað þess, en hvort tveggja tæki mið af varðgæslu mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefnum vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnun, almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum

Nú hvaða fólk á síðan að skipa þetta varalið lögreglu og almannavarna? Samkvæmt tillögunni yrði kallað til starfa fólk úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, sjúkraflutninga, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra.

Ég sé ekki annað en að með þessum tillögum sé verið tryggja faglegt starf á neyðartímum. Það veit hver sé sem hefur komið að stórslysaæfingum og almannavarnaaðgerðum að ekki er nægjanlegt að hver viðbragðseining geti unnið sitt starf, það er samhæfingin, samstarf og samskipti við aðrar viðbragðseiningar sem skiptir máli til að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Með góðri samhæfingu eins og reynsla er komin á með samhæfingarstöð almannavarna er hægt að tryggja góða þjónustu og aðstoð við borgarana á hættu og neyðartímum.  

Talað hefur verið um að við höfum öflugt almannavarnakerfi og að hjálparlið almannavarna (björgunarsveitir og Rauði krossinn) geti alveg verið þetta varalið. Vissulega er hjálparlið almannavarna mikilvægt á neyðartímum og er um að ræða ýmis verkefni sem sinnt er eins og leit og björgun og rekstur fjöldahjálparstöðva. En í þessari ágætu tillögu er ekki eingöngu verið að ræða um sjálfboðaliða heldur einnig aðrar mikilvægar starfsstéttir. Því sýnist mér að þarna sé verið að ræða um þjálfun og samhæfingu aðila, sem eins og ég sagði áður skiptir öllu máli þegar á reynir.

 

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006

Í fyrsta lið var lýst yfir því, að stofnað yrði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Skyldi félagið koma svæðinu og mannvirkjum á því með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not án þess að valda röskun á samfélaginu í næsta nágrenni vallarins.

Í öðrum lið lýsti ríkisstjórnin yfir því, að til að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir komið á fót miðstöð, þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar, sem koma að öryggismálum innanlands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar skyldu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar yrði á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra, en honum var falið að leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Þriðji liður segir, að samhliða því sem unnið verði að nýskipan lögreglumála, verði samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kunni að verða þörf í landinu.

Fjórði liður segir, að tryggja verði íslenskum yfirvöldum lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og. alþjóðastofnanir, þar sem skipst er á trúnaðarupplýsingum

Fimmti liður segir, að unnið verði að því að koma á öflugu öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem nái til alls landsins.

Sjötti liður skýrir frá ráðstöfunum til að efla þyrluþjónustu landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip verði keypt.

Sjöundi liður er um að komið verði á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli.

Áttundi liður snertir breytingar innan stjórnarráðsins, þegar verkefni færast frá utanríkisráðuneyti til annarra.

Níundi liður snýst um, að gerðar verði ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá Ratsjárstofnun, sem þýðingu hafa varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands

Eins og áður var sagt er hægt að lesa á heimasíðu Björns hvað hefur áunnist í þessum málum


Ísland framarlega í umhverfismálum

Þetta er rétt sem þarna kemur fram. Ísland er vissulega framarlega í loftslagsvísindum og öðrum umhverfisrannsóknum og þróun eins og t.d. með vetnisökutæki. Enda var það inntakið í bloggi mínu í gær, þar sem ég benti á að fólk gleymdi oft að líta á heildarmyndina þegar fjallað er um umhverfismál.

Ég tek undir með Birgi Þór Bragasyni með að það sem kemur fram í niðurlagi fréttarinnar, er ekki til fyrirmyndar hjá forseta vorum.

Ólafur Ragnar segist hafa prófað vetnisbíl. „Ég ætti ef til vill ekki að segja frá þessu, en ég varð sá fyrsti til að fara yfir löglegan hámarkshraða á vetnisbíl. Ég vildi kanna hvað hann gæti."


mbl.is Fjallað um Ísland í loftslagsumfjöllun Time
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bumbubolti .....fyrir börn

Ég hélt að bumbubolti væri bara fyrir miðaldra karla þangað til ég rakst á þetta á heimasíðu Ártúnsskóla.

"Bumbubolti" er ný íþrótt sem byggir á hröðum leik með boltum sem eru þaktir "frönskum rennilás" og eiga að fá festu á sérstökum vestum sem nemendur klæðast.

Ja há!... þar kom að því. Ég var svo sem alveg búin að átta mig á því fyrir löngu að þessi íþróttagrein væri INN, en þetta kom mér samt á óvart.

Hann Elli minn er meðlimur í einu ágætu félagi sem nefnist UMFUS og stendur fyrir ungmennafélag ungra stráka. Hjá þeim er haldin heimsmeistarakeppni hvern einasta laugardag. Ég fer með lilluna í íþróttaskólann, eða Sollu skólann eins og hún vill kalla á meðan pabbi ferð að keppa í bumbuboltanum, sem er kannski rangnefni þar sem strákarnir í Karlaþrekinu hjá honum Ella í Toppformi eru bara nokkuð slank og flottir. En svo koma þeir út eftir eins og hálftíma hlaup og átök.....sveittir og eldrauðir í framan, stundum haltir, en yfirleitt brosandi, því þetta er greinilega gott fyrir sálina.

UMFUS keppir líka á pollamótinu á Akureyri, við hina "ungu" strákana, sem búnir eru að æfa "til að vera með" ....right..... ég er nú fyri löngu búin að sjá að það er til þess að slá í gegn og ná sér nú í verðlaunasæti. Síðasta sumar náðu þeir ekki að komast á verðlaunapall. En þetta árið á nú að sýna tuddunum í Atlavík og öllum hinum hvernig á að spila fótbolta. Í fyrra var nokkuð um meiðsli hjá pollunum, ég held að meira en helmingur hafi slasast. 3 rifbeinsbrot (Atlavík W00t), tognanir og skaðar á hnjám og lærum...spurning hvort það hafi eitthvað með skriðþungan að gera...

Utan átakanna er svo ungmennafélagsandinn efldur og fáum við kerlingarnar líka að vera með. Árshátíð árlega, ungir (<40)  keppa við gamla og konur hvetja sína til dáða á hliðarlínunni. Dómnefnd UMFUS útnefnir, tudda ársins, efnilegasta nýliðann og svo náttúrulega íþróttamann UMFUS og man ég eftir atviki þar sem einn félaginn kom í teitið beint af slysó, á hækjum eftir heimsmeistarakeppni dagsins.   

Ég er svo sannarlega ánægð með að nú skuli vera farið að æfa grunnskólakrakka fyrir þessi átök sem bíða þeirra á fullorðinsárunum og spurning hvort ekki væri ráð að bæta við sjálfsvarnaríþrótt líka.              


Hvað þénaði Jóna á móti í fyrra?

Fjölmargir hafa skilað skattskýrslunni sinni og flestir rafrænt. Það er af sem áður var þegar mikill tími fór í það að safna saman greiðsluseðlum og nótum og reikna út vaxtagjöld og heildargreiðslur. Eins var stórmál ef gögnin fundust ekki þegar gera átti skattskýrsluna. Nú í dag er hægt að sækja rafræn yfirlit í heimabankann, eldri skattskýrslur á sínum stað á netinu. Ekki sakna ég heldur hlaupanna með skýrsluna til skattstjóra, og yfirleitt á síðasta degi. Nú er skýrslan fyllt út á netinu, bara eitt klikk og skýrslan er farin. Niðurstaðan mín er í stuttu máli sú að þetta sé algjör sæla, allt á sínum stað og ekkert vesen.

En árlega leggja líka skattstjórar álagningar- og skattskrár fram til birtingar lögum samkvæmt. Skattkóngar eru krýndir og man ég eftir því þegar ég var krakki á Siglufirði að oft var spenningur á þessum tíma, hver yrði nú hæstur í ár. Einu sinni á þessum tíma var hengd upp auglýsing um söfnun. Íbúar voru hvattir til að skjóta saman fé til styrktar ákveðnum mönnum í bænum, svona til að þeir ættu fyrir mjólk og salti í grautinn. Þetta var náttúrulega sett fram í kaldhæðni, af fólki sem fannst þessir menn vera fullneðarlega á skattskrárlistanum. Ég efast um að svona lagað gerist enn þann dag í dag. Ég held að fólk treysti því að skattayfirvöld sjái til þess að fólk telji fram, auk þess sem nú er meiri sjálfvirkni í kerfinu.

Eins og áður sagði ber skattstjórum að birta álagningar- og skattskrár. Þeim ber jafnframt að auglýsa vel hvar og hvenær skrárnar muni liggja frammi. Ég hef stundum velt því fyrir með að mæta á svæðið, bara til að sjá hvaða fólk það er sem hefur fyrir því að koma í þeim eina tilgangi að skoða hvað Jóna á móti eða Gulli rafvirki hafi þénað á síðasta ári. Alveg er mér sama hvað Jóna á móti þénar. Maður trúir því varla að fólk geri þetta, en mér skilst að raunin sé önnur.  Að mínu mati er þetta tímaskekkja og kominn tími til að afleggja eins og lagt hefur verið til af Sigurði Kára, Birgi Ármanns, Guðlaugi Þór og fleirum á alþingi. Ég spái því að þess verði ekki langt að bíða að lögum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt. Þegar það gerist þá á ég ekki eftir að sakna þess að sjá í blöðunum fréttir um skattkónga. Ekki man ég hverjir fengu þá nafnbót í fyrra.

 


Vinnurðu á Núinu - Þriðjudagur

Í einum kassanum er vinningur!

Mér datt í hug í morgun þegar ég fór inn á póstinn minn hvort maður væri ekki að viðhaldahalda spennufíkninni með því að taka þátt í Núinu alla virka daga. Svona líkt eins og hvað ætli margir skoði bloggsíðuna mína í dag?

Á heimasíðu Núsins kemur fram:

Núið er einfalt og fljótlegt: Alla virka daga færðu einn tölvupóst frá Núinu sem inniheldur fimm kassa. Í einum kassanum er glaðningur. Þú velur einn kassa og til að sjá hvort þú hafir hlotið glaðning svararðu vefauglýsingu.

Núið er skemmtilegt, það kostar ekkert og allir geta skráð sig.

Hvað mig sertir þá opna ég póstinn minn og vel mér kassa. Ég vel alltaf sama kassann, bara gamla góða íhaldssemin og svo er að svara lífsstílsspurningunni.... má bjóða þér eða hvaða land höfðar best til þín ....ég vel yfirleitt nei takk og svo ....klikk.....

Því miður, enginn glaðningur í dag. Gangi þér betur næst kom í dag..... en stundum kemur afslattamiði...út að borða á Vín og skel...brúnkumeðferð.....en aldrei kemur utanlandsferðin!

Hvað ætli verði um gögnin? Hvernig ætli prófíllinn minn sé?

Miðaldra kona, sem afþakkar allt og neitar að taka þátt í öllu ... nei bíddu við!...Barcelona er greinilega veikleiki..


Þjóðargrín í Spaugstofunni

Það hefur mikið verið fjallað um grínútgáfu Spaugstofumanna af þjóðsöngnum. Ljóst er að um lögbrot var að ræða og veltir fólk því nú fyrir sér hvert framhald málsins verði. Ætla ég ekki að leyna aðdáun minni á þeim félögum og hef verið ein af þessum 50% þjóðarinnar sem horfir á þá á laugardögum. Þeir eru búnir að vera svo lengi á skjánum að börnin mín halda meira að segja að Spaugstofan hafi bara alltaf verið til,  og líta á þá sem jafn eðlilegan dagskrárlið og fréttir og veður.

Maður hefur engst um af hlátri yfir gríni þeirra, sem oft er hárbeitt og vægðarlaust. Enginn er óhultur, en sögðust þeir samt ekki hafa fengið margar kvartanir vegna grínsins, nema þá helst þegar fólk væri ekki tekið fyrir í þáttunum. Maður nær því stundum ekki hvernig þeir fara að því að setja sig í gervi einstaklinga, sem þeir líkjast ekki neitt, en ná samt hverjum takti og tali, enda miklir leikarar þar á ferð.  Það er líka nokkuð ljóst að þeir væru ekki á skjánum árum saman, nema grínið væri í lagi.

Kærar þakkir fyrir alla 300 þættina Spaugstofumenn.

Ég stórefast þó um að þeir grínarar hafi ekki vitað að þeir væru að brjóta landslög með þessari útgáfu af þjóðsöngnum og held að kannski hafi þeir verið með þessu að spenna bogann. Það er annars merkilegt að sjá umræðuna á blogginu, þar sem hægrimenn eru taldir taka þetta lögbrot of nærri sér, þetta hafi nú bara verið smá grín.

Getur þetta verið tilfellið?

Eru hægrimenn virkilega löghlýðnari, en þeir vinsti?  

Maður spyr sig! 

 

 Í 3. grein laga frá árinu 1983 um þjóðsöng Íslendinga segir:

,,Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni. "

 


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingastraumur til Íslands

Mikið hefur verið í umræðunni hvort hleypa ætti fólki af erlendu bergi brotið inn í landið og ekki hefur síst verið rætt um viðhorf Frjálslynda flokksins á þessum málum. Mest hefur þó borið á umræðu um straum erlends vinnuafls til landsins, fólk sem kæmi eingöngu til að vinna og hefði ekki nokkurn áhuga á samfélagi okkar því að læra íslensku. En við getum ekki gleymt því í allri þessari umræðu að það er fullt af fólki kemur hingað, af því að það vill búa hér.

Mikilvægt er að við Íslendingar áttum okkur á því að við erum hluti alþjóðasamfélaginu. Okkur þykir sjálfum sjálfsagt að fara að vinna í útlöndum og flytja hvert sem okkur sýnist og höldum held ég svei mér þá að séum að gera öðrum greiða með nærveru okkar. En að hleypa útendingum inn í landið okkar til að búa, ó nei, ekki aldeilis!

Er ekki eitthvað skakkt við þessa mynd?

Að mínu mati þá borgar sig ekki að setja sig á háan hest í þessum málum og loka augunum. Við snúum ekki þróuninni við, landamæri eru ekki eins skýr og áður fyrr og aðeins tekur okkur fáeina klukkutíma að ferðast til annarra heimsálfa. Það má vel vera að ég sé ofurbjartsýn og einhverjir segðu að um sé að ræða afneitun á þau neikvæðu áhrif sem innflytjendur hafa á íslenskt samfélag.  Ég neita því og bendi á að ég sé bara mun fleiri jákvæða þætti og hvað fólk sem ákveður að flytja til Íslands getur auðgað okkar samfélag og hef ég bæði séð það og reynt.

En margt hefur samt breyst í rétta átt í viðhorfum okkar á liðnum áratugum. Fólk er hætt að gera ráð fyrir því að fólk sem hefur annan hörundslit en við Víkingarnir, tali ekki íslensku. Ég man eftir skondnu atviki sem ég varð vitni að, sem átti sér stað fyrir um það bil 20 árum síðan. En þá kom þeldökkur maður inn í sjoppu og beið eftir afgreiðslu eins og gengur og gerist. Þegar kom að manninum þá sagði afgreiðslustúlkan og brosti ..... "What can I do for you?" ...... og þá svaraði maðurinn á þessari líka fínu íslensku....... "Ég ætla að fá pylsu með öllu og kók"... Ég stór efast um að svona atvik ætti sér stað í dag.

Að mínu mati eigum við að bera virðingu fyrir fólki, sama af hvaða kynstofni og kyni það er og gæti verið gagnlegt fyrir suma að líta í spegil sálarinnar. Ég hef því miður ekki upplifað það að vera eina hvíta manneskjan á svæðinu í Afríku eða Asíu, en þeir sem það hafa reynt segja að það sé sérstök upplifun og hollt hverjum manni. Að vera allt í einu orðinn öðruvísi en allir hinir, allir glápa og vilja snerta og taka mynd.

Það er að mínu mati til fyrirmyndar hvernig mörg fyrirtæki og stofnanir hafa staðið að fræðslu fyrir sína starfsmenn í vinnutíma og var frábært á árshátíð sem ég var á hjá einu af hjúkrunarheimilum höfuðborgarsvæðisins þegar ein af þessum aðkomnu starfsmönnum söng gullfallega, á íslensku .... já það sýnir okkur að brandarinn um vistmanninn sem bað þess eins að komast aftur heim til Íslands, er að þynnast út..

Ég held einmitt að við ættum öll að taka ábyrgð og virkja þessa nýju Íslendinga til þátttöku í samfélaginu og auðvelda þeim sem hafa valið Ísland til að búa í að aðlagast. Mikilvægt er að efla stuðning í skólum enn frekar og bjóða upp á íslenskukennslu, sem er að mínu mati lykillinn að okkar samfélagi og því að vera virkur þátttakandi í íslensku samfélagi.

 


Ástu-Sólliljugata, Diljárgata, Snæfríðargata.....

Það  var gaman að lesa viðhorf bloggara til nafngiftar á götum í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ, þar sem götu verða nefndar eftir kvenpersónum úr verkum Halldórs Laxness, s.s. Ástu-Sólliljugata, Diljárgata, Snæfríðargata og Sölkugata. Þessi götunöfn eru að mínu mati mjög flott og verður Helgafellshverfið í alla staði hið glæsilegasta fullbyggt. Ástu Sólliljugata virðist standa einna helst í fólki og er fólk þá einna helst að velta fyrir sér að þetta gæti skapað vandamál ef fólk yrði nú full þvoglumælt eins og Gáfnaljós sagði í sínu bloggi ......   áðstuþóllijugötu takk....  

 

Sjálf hef ég ekki stórar áhyggjur af því og hefur maður svo sem heyrt ýmsar góðar sögur um götunöfn sem hafa kannski meira með ástand viðkomandi að gera en lengd götuheitanna. Ég man t.d. eftir sögunni um Mosfellinginn sem var á heimleið og tók leigubíl í miðborginni eftir mikla skemmtun ... “Grundartangi” var það eina sem hann sagði áður en hann sofnaði, fullur trausts til leigubílstjórans........... Nú þegar leigubílstjórinn góði hnippti svo í hann á leiðarenda og vinurinn opnaði augun til hálfs, þá fannst honum húsið eitthvað hafa breyst........... Hann setti þá upp gleraugun og galopnaði augun og þá áttaði hann sig á því að þeir voru staddir á planinu fyrir framan verksmiðjuna á Grundartanga, en ekki fyrir framan litla sæta húsið hans við Grundartanga í Mosfellsbæ Crying.

 


mbl.is Götur nefndar eftir kvenpersónum úr verkum Laxness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netlögga í bloggheimum

Fyrir viku síðan ákvað ég að stytta mér stundir í veikindaleyfi og blogga einu sinni á dag um eitthvað sem mér væri hugleikið þann daginn. Ég fór að hugsa um þennan bloggheim áðan þegar ég las bloggið hennar Önnu Kristjáns vélstýru og bloggvinkonu, sem skrifar skemmtilega pistla. Sá ég áðan að hún hafði fengið 77822 heimsóknir frá upphafi og þar af 10224 í vikunni. Ég hins vera er búin að fá 1265 í vikunni og 1940 frá upphafi á moggablogginu, en ég á líka mína föstu gesti á fjölskyldusíðunni þar sem allar myndirnar eru og ég hef haldið úti í nokkur ár.

Það er gaman að vafra um í bloggheimum og og "njósna" um fólk og veit ég ekki hvort það gerir mig að netlöggu og ef svo er þá er mér bara alveg sama. Það er líka gaman að skrifa og fá tækifæri til að deila hugrenningum sínum með fólki á blogginu og fá athugasemdir. Á þessari viku sem ég er búin að vera virkur bloggari er ég búin að skrifa um jafnréttismál,  leikskólamál í Mosfellsbæ og það að leikskólar í bænum eru opnir allan ársins hring, umhverfismál,  snjóflóð og snjóflóðavarnir sem voru mér hugleiknar eftir alla rýmingarumræðuna á Bolungarvík og síðast um ættleiðingar samkynhneigðra og fordóma. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað fólk er lítið að skammast út í skrifin hjá mér. og átti ég allt eins von á því að ættleiðingarumræðan færi fyrir brjóstið á einhverjum. En viti menn, allir sammála mér og held ég kannski að það sýni hvað við erum að þroskast eins og Raggi Thor bloggvinur minn og Siglfirðingur sagði sjálfur í sínum athugasemdum.

Já talandi um bloggvini. Ég er búin að eignast fullt af nýjum bloggvinum og ætla ég að fjalla aðeins meira um þá. Ég skoða síður bloggvina vinna daglega og þeirra afkastamestu oft á dag (þið munið að ég er í veikindaleyfi). Á mobbablogginu les maður um daglegt líf fólks og um það sem er að gerast í þjóðfélaginu og hef séð á þessari viku margar ólíkar skoðanir og dóma falla. Umhverfismálin hafa fengið sína umfjöllun á blogginu og sitt sýnist hverjum í því sambandi. Nú ég skrifaði sjálf um umhverfismál og sagði að ég ætlaði að kynna mér sáttmála Framtíðarlandsins sem ég gerði og ákvað að skrifa ekki undir, enda eins og ég skrifaði í pistli mínum þá er þessi einmála umræða farin út í tóma vitleysu, þetta snýst ekki um að vera grænn eða grár, það er allt of mikil einföldun á málinu. Ég er sjálfsagt dökkgrænni en margir þeirra sem hafa skrifað undir, en vil líta á hlutina í samhengi og hefur það ekki verið gert í þessu máli að mínu mati. Nú nýr stjórnmálaflokkur, X-Í leit dagsins ljós. Þann daginn sá maður nú mest athugasemdir um hvað væri óeðlilegt að Margrét væri ekki formaður og áhyggjur af heilsufari Ómars, en ég get í sjálfu sér ekki sagt neitt frekar um málið því þetta var allt til bráðabirgða bæði  málefni  og stjórn og ekki búið að koma saman listum um landið, en aðeins einn og hálfur mánuður til kosninga.

Ég er búin finna fullt af fólki á blogginu sem ég hef kynnst á minni svo stuttu Whistling lífsleið, eins  Ippu (Vilborg Trausta) frá Sauðanesi við Siglufjörð, vinkonu stóru systur minnar sem setur ljóð daglega inn á bloggið sitt og nýt ég þess í botn að lesa þau og skemmtilegar frásagnir hennar, fósturson hennar Emil sem ég "heimsæki" á hverjum morgni,  Jónínu Ben sem  kenndi mér í Reykjaskóla um árið og rekur nú heilsuhótel í Póllandi og kann svo sannarlega að skrifa, Ómar skólabróðir minn frá Reykjaskóla sem nú er sveitarstjóri í Súðavík, hann Björn Ingi félagi minn í stjórn Sorpu skrifar góða pistla, enda reyndur blaðamaður þar á ferð og afkastamikill og svo eru miklu miklu fleiri sem ég verð að skrifa um seinna því annars verður þetta allt of langt.

Ég hef líka eignast bloggvini sem ég ekki þekki persónulega, en skrifa fróðlega og skemmtilega pistla og athugasemdir. Þar sló pistill Sigmars Guðmundssonar fréttamanns um samsettar fjölskyldur hláturmetið þessa vikuna, þið bara verðið að lesa hann. Margir sjálfstæðir menn og konur eru þarna á blogginu. Nokkuð hefur verið fjallað um skoðanakannanir um gengi stjórnmálaflokka og hef ég séð margar yfirlýsingar um það hvernig ríkisstjórnin eigi að vera samansett eftir 12. maí. Hann Stefán Friðrik Stefánsson frá Akureyri er oft með góðar pælingar og samantektir um pólitíkina og gerði þessa eftir síðustu Gallup könnun, þar sem hann tók saman það fólk sem færi inn á þing ef þessi skoðanakönnun gengi eftir. Þinglok, Evrópumál og Baugsmál hafa líka fengið mikla umfjöllun og klámumræðan og þótti mér bara ágætt spaugið hjá honum Gumma Braga, mínum fyrsta bloggvini og félaga þegar hann talaði um dónaskapinn hjá Rækka karlinum, hinum finnska formúlusnillingi þegar hann lét mynda sig við að borða frostpinna... Gummi velti því fyrir sér hvort ekki ætti að lögleiða það að bananar yrðu borðaðir þversum. ...já það er allt í lagi að grínast líka ..... því hláturinn lengir lífið LoL.


Ættleiðingar samkynhneigðra og fordómar

Ég sá blaðaviðtöl við fólk sem ættleitt hafði litlar munaðarlausar stúlkur frá Kína. Þetta voru hugnæmar frásagnir þar sem lýst var ættleiðingarferlinu og stundinni þegar fólkið fékk börnin sín í fangið í fyrsta sinn. Það var líkt og þegar maður sjálfur fékk börnin sín í fangið í fyrsta sinn eftir 9. mánaða meðgöngu, en í þeirra tilfellum var meðgangan mun lengri. Þessi frásögn fékk mig til að hugsa um það hvað maður er í raun lánsamur, að eiga þrjú heilbrigð börn, sem er alls ekki sjálfgefið. Þessu gleymir maður stundum og því er gott að staldra við og þakka fyrir það sem maður á.

Ég heyrði líka viðtal við landlækni, þar sem hann sagði að það væri að mig minnir 15 samkynhneigð pör sem hefðu farið í tæknifrjóvgun og ættu von á börnum. Ég samgleðst þeim ynnilega og fagna líka þeim aukna rétti sem samkynhneigðir hafa hlotið á Íslandi liðnum árum.

Í þættinum "Fyrstu skrefin" á Skjá einum sá ég viðtöl við ungar giftar konur, sem eiga eina dóttur saman og áttu von á öðru barni. Þetta var frábær þáttur og var gaman að sjá hvað litla skottið hafði greinilega fyllt líf þeirra og var mikil tilhlökkun eftir nýja barninu. Já algjörlega eins og hjá okkur gagnkynhneigðu hjónunum. Í mínum huga er það sjálfsagt mál að samkynhneigðir eignist börn og ættleiði og hef ég aldrei náð því þegar fólk er að segja " Guð en hræðilegt og hvað með aumingja barnið og þá fordómana og stríðnina sem það mun mæta ".   Já, hvað með barnið? Þvílík forræðisskyggja, ég segi nú ekki meira. Í mínum huga þá skiptir mestu máli að ala önn fyrir barninu, elska það og virða og styrkja sjálfsmynd þess þannig að það verði sterkur og hamingjusamur einstaklingur. Fordómar búa með okkur sjálfum og ef við lítum á skilgreiningar orðabókar Menningarsjóðs og Íslenskrar samheitaorðabókar um orðið fordóm þá kemur eftirfarandi fram:

Fordómur merkir það sama og hleypidómur, sleggjudómur eða ógrundaður dómur. ......orðið sleggjudómur merkir órökstuddur dómur og að hleypidómalaus maður sé frjálshuga, frjálslyndur, kreddulaus og umburðarlyndur. 

Ég er líklega bara svona heppin að hafa hlotið uppeldi þar sem mér var tamið að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum annarra og þeirri staðreynd að ekkert okkar er eins og skiptir ekki máli af hvaða kyni, kynhneigð, stjórnmálaskoðun, trúarskoðun eða kynþætti við erum.

En aftur að ættleiðingunum. Já það er nefnilega þannig að þó að stjórnvöld á Íslandi hafi breytt lögum þannig að samkynhneigðir geti nú ættleitt börn, þá hefur enn ekki fundist það land sem leyfir ættleiðingar samkynhneigðra á börnum frá því landi. Það er nefnilega þannig að flest lönd hafa ekki gengið eins langt í þessum réttlætismálum og við Íslendingar. Ég er sannarlega stolt af þeim áföngum sem náðst hafa í þessum efnum, sem eru í anda þeirra markmiða sem sett voru fram í ályktun um jafnréttismál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2005.

Landsfundur 2005: Ályktun um jafnréttismál

Ábyrgð á jafnrétti borgara landsins hvíl­ir á öllum Íslendingum en þó er mikilvægt að hið opinbera sýni gott fordæmi í jafnréttismálum. Eitt mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja jöfn tækifæri og jafnan rétt borgaranna.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar allri mis­munun gagnvart einstaklingum af hvaða kyni, trú, kynhneigð eða þjóðfélagshópi sem þeir eru og leggur sig fram við að tryggja að allir hafi sömu tækifæri í þjóðfélaginu.

Það eru hagsmunir samfélagsins að einstaklingar sæti ekki mismunun á grundvelli þjóð­ernis­uppruna síns, kyns, kynhneigðar, trúarbragða eða litarháttar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um rétt samkynhneigðra og leitast við að tryggja að réttindi þeirra séu jöfn réttindum annarra.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband