Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Skotleyfi á stjórnmálamenn

73m

Ég fór inn á bloggsíðu um daginn þar sem umræðan snérist um mannasiði á blogginu og nikkara, eða fólk sem skrifar undir dulnefni. Einnig var talað um hvað moggabloggið hefur bætt ýmis öryggisatriði og nýverið farið að birta IP tölur á tölvum þeirra sem eru að skrá athugasemdir án þess að vera skráðir moggabloggarar, sem eru jákvæðar breytingar að mínu mati. Ég hef aldrei áttað mig á því af hverju fólk bloggar undir dulnefni og hefur maður séð ýmsar rætnar og ábyrgðarlausar færslur og athugasemdir á blogginu, sem trúlega hefðu aldrei verið látnar flakka ef fólk hefði haft manndóm í sér til að skrifa undir nafni.

Flestir sem tjáðu sig um þetta mál voru sammála um að þetta ætti ekki að líðast, en ég varð þó hugsi yfir einni athugasemdinni. Þar kom fram að það væri bara í góðu lagi að rakka pólitíkusa niður undir dulnefni, þeir væru í þannig stöðu í þjóðfélaginu að þeir yrðu að þola slíkt skítkast! Ef bloggarinn missti sig þá væri það val pólitíkusanna hvort þeir tækju mark á því sem sagt hefði verið. Með öðrum orðum skv. þessu þá hafa pólitíkusar gefið út á sig skotleyfi um leið og þeir tóku ákvörðun um að fara í pólitík. Nei fólki getur ekki verið alvara með svona skrifum.

Ég á marga góða vini og félaga sem eru á öndverðu meiði við mig í stjórnmálum, en ég virði skoðanir þeirra og sýn, enda snýst það í flestum tilfellum um mismunandi leiðir að ákveðnu takmarki við að bæta samfélagið. Fólk sem valið hefur að vinna fyrir samfélagið af heilindum eins og ég fullyrði að langflestir gera, sama hvaða flokki þeir vinna með, eru ekki skotskífur sem hægt að er að leyfa sér að skjóta á færi og allra síst undir dulnefni.

Það er hollt fyrir okkur öll sem erum að blogga og skrifa um pólitík að hugsa um þetta. Maður hefur örugglega gleymt sér sjálfur í hita leiksins varðandi einhver mál, en það hefur þá að minnsta kosti allt verið undir fullu nafni.


Hefur Samfylkingin einkarétt á afnámi launaleyndar?

jafnretti_menn

Glæsilegt hjá Háskólanum í Reykjavík að ætla að sækja um vottun jafnra launa og sýnir bara þann mikla metnað sem ríkir hjá  þessum glæsilega háskóla.

Ég sá líka að formaðurinn, hún ISG hefði verið að skrifa um stuðning HR við þær aðferðir sem lýst er í stefnuskrá Samfylkingarinnar um afnám launaleyndar. Ég hef ekki lesið þær en ég er búin að lesa ályktanir Sjálfstæðisflokksins um þessi mál þar sem talað er um að launþeginn sjálfur eigi að ráða því hvort hann segir þriðja aðila frá launum sínum, sem þýðir það að atvinnurekendur geti ekki sett á launaleynd, sem er afnám launaleyndar. Þetta er einn liður því því að afnema óútskýrðan launamun kynjanna sem er algjörlega óþolandi og ólíðandi og verður að uppræta. 

Mér þótti þessi frétt heldur grátbrosleg, heldur Samfylkingin virkilega að þessi mál sem ég Sjálfstæðiskonan hef svo oft skrifað um séu þeirra einkamál, eiga þau kannski einkaréttinn?

Yfirlýsing HR fer í heild hér á eftir:

Mishermt er í grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um kynbundinn launamun í Morgunblaðinu í gær að Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, hafi lýst yfir stuðningi við þær aðferðir sem lýst er í stefnuskrá Samfylkingarinnar um afnám launaleyndar.

Hið rétta er að Háskólinn í Reykjavík mun verða eitt af fyrstu fyrirtækjum og stofnunum landsins til að sækja um vottun jafnra launa á vegum félagsmálaráðuneytisins eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga.

Háskólinn í Reykjavík vill vera í fararbroddi í jafnréttismálum og hefur HR valið þessa leið sem heppilegasta til að tryggja jafnrétti starfsmanna sinna.


mbl.is Yfirlýsing frá Háskólanum í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúlega enn fleiri hlynntir varaliði

logreglustjarna(1)Ég er viss um að enn fleiri hefðu verið hlynntir varaliðinu, ef allir vissu hvað verið væri að meina með varaliði lögreglu. Þessu held ég fram eftir að hafa rætt þessi mál við fjölmarga undanfarið. Ég hef heyrt ýmsar útgáfur og meira að segja her eins og stjórnarandstaðan blés upp í byrjun, sem er náttúrulega fráleitt. Ég set líka stórt spurningarmerki við þá andstöðu sem birtist hjá Vinstri grænum, 57,8% á móti varaliðnu, af hverju? Er þetta ekki sami flokkurinn og vildi stofna netlöggu?

Ég skoðaði þessi varaliðsmál vel og bloggaði um málið þegar það var sem háværast, enda málaflokkurinn mér hugleikinn. Stofnun varaliðs er partur af nýjum verkefnum íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins, hér má sjá verkefnalistann og hvað hefur áunnist.

Þó ég hafi ekki séð endanlegar tillögur eða útfærslu er augljóst að verið er að efla heimavarnir sem ég tel vera af hinu góða. Lagt er til að lögreglulögum verði breytt og ríkislögreglustjóra verði heimilað, að fengnu samþykki dómsmálaráðherra, að bæta við varaliði lögreglu og almannavarna. Slík heimild var í lögreglulögum frá 1940 til 1996, þannig að í raun er ekki um nein nýmæli að ræða.

Samkvæmt frumvarpinu verður ríkislögreglustjóranum falið að halda utan um þetta varalið og búnað þess, en hvort tveggja tæki mið af varðgæslu mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefnum vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnun, almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum

Nú hvaða fólk á síðan að skipa þetta varalið lögreglu og almannavarna? Samkvæmt tillögunni yrði kallað til starfa fólk úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, sjúkraflutninga, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra.

Ég sé ekki annað en að með þessum tillögum sé verið tryggja faglegt starf á neyðartímum. Það veit hver sé sem hefur komið að stórslysaæfingum og almannavarnaaðgerðum að ekki er nægjanlegt að hver viðbragðseining geti unnið sitt starf, það er samhæfingin, samstarf og samskipti við aðrar viðbragðseiningar sem skiptir máli til að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Með góðri samhæfingu eins og reynsla er komin á með samhæfingarstöð almannavarna er hægt að tryggja góða þjónustu og aðstoð við borgarana á hættu og neyðartímum.  

Talað hefur verið um að við höfum öflugt almannavarnakerfi og að hjálparlið almannavarna (björgunarsveitir og Rauði krossinn) geti alveg verið þetta varalið. Vissulega er hjálparlið almannavarna mikilvægt á neyðartímum og er um að ræða ýmis verkefni sem sinnt er eins og leit og björgun og rekstur fjöldahjálparstöðva. En í þessari ágætu tillögu er ekki eingöngu verið að ræða um sjálfboðaliða heldur einnig aðrar mikilvægar starfsstéttir. Því sýnist mér að þarna sé einkum verið að ræða um aukna þjálfun og samhæfingu aðila, sem eins og ég sagði áður skiptir öllu máli þegar á reynir.


mbl.is Meirihluti hlynntur stofnun varaliðs lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn auka fylgi sitt í kjördæmi forsætisráðherra

Geir_H._Haarde

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi og einum kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmi suður, kjördæmi forsætisráðherrans Geirs H. Haarde, í nýrri könnun Capacent Gallup. 

Samfylkingin missir einn þingmann og Vinstri græn bæta við sig einum. Framsókn missir einn kjördæmakjörinn þingmann og er því Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fallin út samkvæmt þessari niðurstöðu.  Athygli mína vakti að Íslandshreyfingin mælist með meira fylgi en bæði Framsóknarflokkur og Frjálslyndir. 

Þeir sem eru inni skv. könnuninni eru: frá Sjálfstæðisflokki Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller og Birgir Ármannsson. Frá Samfylkingu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson. Frá Vinstri grænum þær Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir.

Sjálfstæðisflokkurinn: 42,5% (38,3%)
Samfylkingin 24,9% (33,3%)
Vinstri græn 18,8% (9,3%)
Íslandshreyfingin: 5,4%
Framsóknarflokkurinn: 4,5% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 3,9% (6,6%)
Baráttusamtökin 0%


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þingmanni í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil hamingja með Lágafellslaug

IMG_0937

Sumardagurinn fyrsti var bjartur og fagur og var gaman að gleðjast með hundruðum Mosfellinga yfir nýrri sundlaug og íþróttahúsi í Mosfellsbæ sem fékk nafnið Lágafell og Lágafellslaug. Líkt og með Varmárlaug og Íþróttamiðstöðina Varmá sem enn er aðal íþróttaaðstaðan okkar þar sem íþróttafélögin hafa aðstöðu sína. 

Þetta var ekki síður ánægjulegt því hér voru hávær mótmæli við ákvörðun okkar Sjálfstæðismenna um byggingu sundlaugar á þessum stað við Lágafellsskóla. Hér átti eingöngu að vera skólaíþróttahús en tókum við ákvörðun um að reisa líka fjölskyldusundlaug á þessum stað og fá til Nýsi til samstarfs við byggingu og rekstur. Nú er búið að vígja iþróttamiðstöðina Lágafell fjórum mánuðum fyrr en áætlað var og er ljóst að einnig verður mun meiri þjónusta en hefði orðið ef aðeins bæjarfélagið hefði staðið að byggingu, en Word Class mun verða með líkamsræktarstöð, kaffihús, nuddaðstaða og aðstaðan öll hin glæsilegasta.

Þegar við Sjálfstæðismenn komum að málinu fyrir fimm árum þá var fyrrum meirihluti búinn að taka ákvörðun um að rífa gömlu Varmárlaugina og byggja þar 25 m laug og eina litla innilaug og voru þær hugmyndir kynntar nokkrum dögum fyrir kosningar 2002. Ef það hefði gengið eftir þá hefði bærinn orðið bæjarsundlaugarlaus á framkvæmdatíma. Nú er hins vegar verið að laga gömlu laugina og verður einnig byggt við Íþróttamiðstöðina Varmá sem mun verða glæsileg þegar Afturelding mun halda upp á 100 ára afmælið sitt eftir 2 ár. 

Ég er alveg sannfærð um að þetta var rétt ákvörun og sést best á ánægju almennings með íþróttamiðstöðina og eins hefur það að hafa sundlaug á svæðinu breytt miklu fyrir skólastarf í Lágafellsskóla, þegar börnin þurfa ekki lengur að fara í Varmárlaug í sund.


mbl.is Íþróttamiðstöðin Lágafell við Lækjarhlíð í Mosfellsbæ vígð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Afturelding

Bjarki Sigurðsson hefur staðið sig vel sem þjálfari Aftureldingar og var gaman að sjá hann með strákunum sínum í gær. Það var sérstaklega gaman því hann var erlendis þegar þeim hömpuðu 1. deildar bikarnum sem þeir unnu örugglega. Það var gaman á hófi sem haldið var fyrir strákana í Harðarbóli og góð stemming í liðinu sem er skipað að megninu til ungum Mosfellingum.

Það var líka gaman að sjá að elsti strákur Bjarka er kominn í liðið og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort hann fetar í fótspor gamla á vellinum. Það verður gaman að fylgjast með liðinu í meistaradeildinni og munu Mosfellingar örugglega styðja vel við liðið sitt, sem mun halda upp á 100 ára afmælið að tveimur árum liðnum.

Áfram Afturelding !


mbl.is Bjarki og Gintaras áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálp- hvað meinar Guðni?

guðni agustsson

Hvað var Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins að meina með því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið stikkfrír í allri umræðu og að Geir hefði talað á landsfundinum eins og hann stjórnaðir landinu einn. Ég hlustaði á þetta viðtal aftur því ég hélt að ég hefði ekki tekið rétt eftir, en jú þetta sagði hann. Guðni var frekar niðurdreginn, enda staðan vægast sagt slæm í öllum könnunum hingað til og aðeins 5-7 þingmenn inni.

Guðni sagði líka að Framsókn yrði að ná 17 - 20 % fylgi til að starfa með Sjálfstæðisflokknum, en það væri hópur þeirra sem vildi ekki sama stjórnarmynstur. Ef ég man það rétt þá kom hið gagnstæða fram í einni af mörgum könnunum og þar voru það einmitt mun fleiri Framsóknarmenn en Sjálfstæðismenn sem vildu áframhaldandi samstarf flokkanna.

En Framsóknarmenn hafa sýnt það fyrr að hægt er að ná upp fylgi á síðustu metrunum, en hvort það tekst að komast upp á topp með "ekkert stopp" kemur í ljós í kosningunum þann 12. maí.


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleikur Landsbankans

35324_rita

Á mínu heimili er elsta barnið í 9. bekk og því þekkti ég lítið til Raunveruleiksins sem er fræðsluefni hjá Landsbankanum. Frétt um leikinn vakti áhuga minn og þótti mér svekkjandi að stelpur í 10 bekk gerðu minni launakröfur en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu og kom fram raunverulegur launamunur milli kynjanna 

En leikurinn er áhugaverður og er þetta gagnvirkur hermileikur á netinu, ætlaður sem samfélags- og fjármálakennsla í lífsleiknitímum 10. bekkjar. Margra ára rannsóknar-, hönnunar- og forritunarvinna liggur að baki leiknum, en hann á uppruna sinn í Excel skjali hjá Ómari Erni Magnússyni, kennara í Hagaskóla og var orðinn að frumútgáfu tölvuleiks árið 2003. Með tilstyrk Landsbankans var síðan haldið áfram með hönnunar- og forritunarvinnu og er nú hægt að spila leikinn á síðu Landsbankans, öllum notendum að kostnaðarlausu.

Í upphafi leiks byrja nemendur sem 20 ára ungmenni á leið út í lífið eftir framhaldsskóla með ákveðna byrjunarupphæð á bankareikningi, en líf þeirra er að öðru leyti óskrifað blað. Eftir að hafa mótað persónu sína, útlit, nafn og ákveðin persónueinkenni þurfa nemendur að móta aðstæður hennar, t.d. með því að ákveða hvar á landinu þeir kjósa að búa, í hvað þeir vilja eyða peningum sínum, hvað þeir borða og hvar þeir sækja um vinnu eða skrá sig í háskóla.

Leiktíminn er um 20 vikur og jafngildir ein almanakasvika um einu ári í leiknum. Í spilinu felst jafnframt samkeppni því einu sinni í mánuði hlýtur sá bekkur verðlaun sem hefur staðið sig best og fengið flest stig. Jafnframt eru veitt verðlaun þegar leiknum lýkur.

Það er til fyrirmyndar hjá Landsbankanum að bjóða upp á slíka fræðslu og eftir að hafa skoðað þetta betur sé ég ekki annað en þetta gæti verið hin besta skemmtun í leiðinni. Nú þegar hafa þúsundir ungmenna í 10. bekk víðs vegar um Ísland tekið þátt í leiknum og þar með í lífsgæðakapphlaupinu. En fannst mér líka ágætt að í Raunveruleiknum áttu að safna heilsu-, hamingju- og efnahagsstigum, sem er það sem lífið gengur út á.

Ef fólk er eitthvað hugsi yfir myndinni, þá er hún sett inn sem áminning fyrir okkur sem hér búum um að það eru ekki allir í heiminum jafn lánsamir og við. 

 

 


Gleðilegt sumar

Sól á sumardaginn fyrsta

Kæru vinir, bloggvinir og lesendur nær og fjær, gleðilegt sumar.

Þá hefur vetur konungur kvatt og hér í Mosfellsbænum er sumardagurinn fyrsti bjartur og fagur. Í dag ætlum við Mosfellingar að vígja nýja sundlaug og íþróttamiðstöð við Lágafellsskóla og verður mikið um dýrðir, enda er mikil ánægja með þessa glæsilegu fjölskyldulaug með flottu rennibrautunum.

Það má segja að utan vígslunnar verði hefðbundin hátíðarhöld. Skrúðganga frá Kjarna sem skátarnir leiða og munu þeir síðan bjóða upp á, veitingar,  leik og sprell við Lágafellsskóla og verða því skátarnir mínir tveir uppteknir og við hin njótum. Diddú mun syngja og skólahljómsveitin spila þannig að allt stefnir í fyrsta flokks skemmtun í Mosfellsbænum á sumardaginn fyrsta.

Ég hef gaman að gömlum siðum og fann þetta á netinu um sumardaginn fyrsta og ákvað að leyfa ykkur að njóta.

Sumardagurinn fyrsti:

  • er á fimmtudegi, 19.-25. apríl
  • er gamall hátíðisdagur
  • var mikill hátíðis- og veitingadagur eins og jól eða nýár
  • er einn af ellefu löggiltum fánadögum íslenska lýðveldisins

Sumargjafir eru þekktar frá 16. öld og eru miklu eldri en jólagjafir

Það er gamall siður að óska hver öðrum gleðilegs sumars

Ekki var unnið nema nauðsynjastörf og táknræn sumarstörf og fór fólk yfirleitt í spariföt

Börn notuðu daginn til að leika sér, komu mörg saman og sums staðar tóku fullorðnir þátt í leikjunum

Sumir hleyptu hrútum, kálfum og jafnvel kúm út úr húsi, ef gott var veður, til að leyfa dýrunum að heilsa sumrinu og skemmta sér við að horfa á leik þeirra

Frá árinu 1921 er sumardagurinn fyrsti gerður að barnadegi og gefið frí í skólum

þjóðtrú fylgir komu sumars:

  • það boðaði gott sumar ef sumar og  vetur „frusu saman" aðfaranótt sumardagsins fyrsta (sett var út skál með vatni undir bæjarvegg í skjóli frá morgunsól og athugað snemma morguns)
  • þegar maður sá fyrsta tungl sumars átti hann að þegja þar til einhver ávarpaði hann og var hægt að lesa véfrétt í ávarpinu, og hét þetta að láta svara sér „í sumartunglið"
  • algengt var að fólk vildi ekki láta bjóða sér góða nótt eða ráðleggja sér að fara að hátta eða hvíla sig, en það átti að boða feigð

Sumarboðar voru margvíslegir enda skipti veðrið miklu máli á vori og  sumri:

  • draumar, komutími farfugla, atferli skordýra, orma, húsdýra og gróðurs
  • spáfuglar voru (og eru) lóan og spóinn

Tvær Ragnheiðar á þing

IMG_0903

Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ opnuðu kosningaskrifstofu sína í dag og var mikill hugur í mönnum. Ekki dró úr gleðinni ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Suðvesturkjördæmi sem birt var í kvöld á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Hafnarfirði. Þar eru Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn í mikilli sókn, en Samfylking og Framsókn langt undir því sem flokkarnir mældust í síðustu kosningum og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er skv. könnunni utan þings.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fimm þingsæti og vantar ekki mikið upp á þann sjötta, en nokkuð líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi jöfnunarþingmann, sem er Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Enda stefnan sett á að ná inn á þing báðum Ragnheiðunum á listanum, eða þeim Ragnheiður Elínu og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóra okkar í Mosfellsbænum, sem eru á myndinni sem fylgir fréttinni.

Hér er góð umfjöllun hans Stebba bloggvinar míns frá Akureyri um fundinn sem haldinn var í Hafnarfirði og málin í Kraganum, þegar 24 dagar eru til kosninga.

Sjálfstæðisflokkurinn: 43% - (38,4%)
Samfylkingin: 24,5% - (32,8%)
VG: 17,4% - (6,2%)
Framsóknarflokkurinn: 5,9% - (14,9%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,6% - (6,7%)
Íslandshreyfingin: 3,3%
Baráttusamtökin: 0,3%


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband