Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Skólamál á landsfundi og í Mosfellsbæ

Þetta er verulega ruglingsleg frétt. Málið kemur inn undir leikskólakaflann og sögðu fyrirliggjandi drög að fé fylgdi barni og ekki skipti málin hvort um að leikskólinn væri rekinn af sveitarfélögum eða einkaaðilum, en í dag eru mismunandi reglur hjá sveitarfélögum varðandi þetta mál. Á fundinum kom síðan inn tillaga um að bæta heimilum við sem var samþykkt.

Varðandi fyrsta skólastigið þá er það þannig að skilgreint er í lögum er að leikskólinn sé fyrsta skólastigið, þrátt fyrir að það sé ekki skólaskylda, enda var það fellt í atkvæðagreiðslunni enda er það álit flestra að heldur beri að efla leikskólann sem fyrsta skólasigið.

Annars voru umræður mjög jákvæðar enda menntakerfið á Islandi með því besta sem gerist í heiminu og verið er að milda fræði milli skólastiga. Bæði hafa fjölmargir grunnskólakrakkar verið að taka áfanga í framhaldsskólum og bilið brúað  milli leik og grunnskóla eins og hjá okkur í Mosfellsbænum. Hjá okkur eru starfandi 5 ára deildir við báða grunnskólana. Við erum síðan að stíga enn eitt skref í skólaþróun í landinu með nýjum skóla í Krikahverfi. Við höfum auglýst eftir fagfólki til að móta hugmyndafræði skólastarfsins og hanna skólahúsnæði sem hýsir nýjan skóla sem ætlaður er fyrir börn frá eins til 9 ára. Þetta er nýmæli í landinu og viljum við bjóða upp á meiri fjölbreytni í skólastarfi og auka þjónustu við foreldra. Í forsögninni er gert ráð fyrir því að ná fram samfellu í skóladegi barnanna og flétta saman leik, kennslu, listnám, frístundastarf og heilsueflingu. Með þessu er hægt að hafa betra flæði milli skólastiganna, þ.e. leiksóla og fyrsta stigs grunnskóla. Síðan fara börnin aðra skóla á miðstigi. 

Leikskóladeildirnar hafa gengið vel, en eru við með þessu að ganga skrefi lengra og er ég viss um að við fáum marga áhugasama sérfræðinga í þessum málum og spennandi hugmyndir vegna Krikaskólans. 


mbl.is Miklar umræður um skólamál á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins og fjölskyldumál

IMG_0839

 

 

 

 

 

 

Þetta eru búnir að vera góðir og árangursríkir dagar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er þegar búið að samþykkja nokkrar landsfundarályktanir og enn fleiri verða afgreiddar á morgun. Ég hefði svo sannarlega viljað taka þátt störfum margra nefnda, en ég valdi að taka þátt í umhverfis- og auðlindanýtingarhópnum. Það hafa mjög margir tekið þátt í starfi nefndarinnar, en störfuðum við frá fjögur til átta í gær og svo frá hálf tíu til tvö í dag, samræmingarnefnd hefur síðan verið að störfum og verður haldinn aukafundur í nefndinni í fyrramálið. Ég var að reyna að telja fundarmenn í morgun og taldi um 100 manns, sem er gott því 16 nefndir eru að störfum. Það voru fjölmargar breytingartillögur bornar fram við allar greinar og sumar samþykktar en aðrar felldar og geta flutningsmenn þá borið þær fram aftur á stóra fundunum. 

Í þeim ályktunum sem voru samþykktar í dag voru fjölmörg mál sem ég er ánægð með eins og t.d. í fjölskyldumálunum sem við afgreiddum nú rétt fyrir kvöldmat. En ég náði aðeins að skreppa í þá nefnd líka, enda fyrrverandi formaður fjölskyldunefndar og málin mér hugleikin. Þar var m.a. talað um að endurskoða vaxtabætur til að þær komi þeim til góða sem minnstar tekjur hafa og fella niður stimpilgjöld sem kominn er tími á. Samþykkt var að forstöðumönnum trúfélaga verði gert heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. Að afnema launaleyndina, þ.e. að launþeginn geti sjálfur tekið ákvörðun um það hvort hann vilji tjá þriðja aðila upplýsingar um laun sín, sem er hef áður lýst yfir á þessari síðu að ég vilji sjá. Að gert yrði stórátak í því að jafna óútskýrðan launamun karla og kvenna. Að lengja fæðingarorlofið og annað sem ekki skiptir minna máli eða það að foreldri sem hefur full forræði yfir barni sínu geti tekið fullt fæðingarorlof, sem er réttlætismál fyrir barnið. Samþykkt var líka að endurskoða hjúskaparlögin með það að markmiði að jafna lífeyrisréttindi hjóna við skilnað, en voru helstu rökin fyrir breytingu sú að í dag er það þannig að ef annað hjóna hefur lítið eða ekkert verið á atvinnumarkaði og ekki náð að safna lífeyrisréttindum, er það alfarið á hendi hins að samþykkja hvort viðkomandi fær eitthvað greitt.

Við ályktuðum líka um þá staðreynd að innflytjendur hefðu auðgað íslenskt menningar og atvinnulíf að við viljum efla íslenskukennslu enn frekar og gefa fólki tækifæri á að taka próf á öðrum tungumálum ef fullnægjandi íslenskukunnátta er ekki fyrir hendi. Einnig að skýra yrði reglur og viðmið þegar mat fer fram á menntun og námi sem innflytjendur hafa aflað sér í menntastofnunum erlendis, að bæta beri upplýsingaflæði um réttindi og eins að vernda samningsbundinn rétt erlends starfsfólks þannig að þeir njóti sömu kjara og aðrir launþegar í landinu.

Ýmislegt var líka um forvarnir, barnavernd og áhersla lögð á stuðning og stoðþjónustu við fjölskyldur fatlaðra og eflingu íþrótta og æskulýðsmála.

Ég er búin að hitta marga félaga undanfarna daga og kynnast nýjum og verður gaman á morgun að kjósa til miðstjórnar, en við kjósum 11 fulltrúa og eru 25 í kjöri ef ég man rétt og af þeir eru margir sem ég þekki. Síðan fer fram kosning formanns og varaformanns og á enginn von á öðru en að þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verði kosin aftur.

Jæja ætli sé ekki eins gott fyrir mig að hætta núna og fara að hvíla mig fyrir lokasprettinn á morgun.


Landsfundur settur

c_documents_and_settings_notandi_my_documents_my_pictures_falkiÞá hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins verið settur. Þetta er öflug samkoma og einstaklega gaman að hitta marga félaga og vini frá öllum landshornum. Á landsfundinum er stefnan mótuð og núna er nákvæmlega mánuður í kosningar og því ljóst að kosningabaráttan sem hefst að fundi loknum verður stutt og snörp.

Setningarathöfnin var flott. Diddú okkar sem er engri lík og Jóhann Friðgeirsson sungu ásamt Léttsveit Reykjavíkur og var það vel gert, en flottast fannst mér samt þegar fram stigu þeir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sem sitja í efstu sætum framboðslistanna. Þetta er fólkið sem stendur í eldlínunni og er mikilvægt fyrir okkur hin að styðja vel við bakið á þeim. 

Alltaf er mikil eftirvænting eftir ræðu formanns í upphafi fundar. Geir hélt sína fyrstu formannsræðu og var ræðan mjög málefnaleg og góð. Hann fór yfir þá uppbyggingu og framfarir sem orðið hafa í íslensku þjóðfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og þann grunn sem hægt er að byggja á til framtíðar. Hann fór líka sérstaklega yfir mál aldraðra og boðaði breytingar í þeim málum til að bæta kjör eldra fólks, sem unnið hefur verið að í samvinnu við samtök eldri sjálfstæðismanna. Að tryggja þeim sem ekki hafa átt kost á að afla sér lífeyrisréttinda lágmarkslífeyri upp á 25. þúsund auk þess sem fólk fær frá almannatryggingakerfinu og að gefa eldra fólk kost á að vinna án þess að það skerði tryggingalífeyri. Að minnka sem fyrst hinar almennu skerðingar í almannatryggingakerfinu úr um 40% í 35% og að þeir sem orðnir eru sjötugir geti unnið launaða vinnu, ef þeir vilja, án skerðinga lífeyris.

Á næstu dögum verður stefnan mótuð og boða þau drög sem nú liggja fyrir ýmsar breytingar. Það er mikilvægt að ná góðri sátt um stefnuna, en flokkurinn er fjölmennur og ólík sjónarmið og veit ég að sem fyrr verða heitar umræður um skattamálin, utanríkismálin, umhverfis- og auðlindamálin og sjávarútvegsmálin. Ég hef tekið þátt í mörgum málefnanefndum á liðnum fundum og hefur verið gaman að sjá málefni sem rædd voru og samþykkt ná fram að ganga, eins og með fæðingarorlofslögin, Vatnajökulsþjóðgarðinn og margt margt fleira. En eitt er víst að næsta sunnudag lýkur landsfundinum og verða þá landsfundarfulltrúar búnir að samþykkja stefnu Sjálfstæðisflokksins á lýðræðislegan hátt og hefst þá kosningabaráttan.

 

 


Hvað ætlar þú að verða, þegar þú verður stór?

IMG_0889

Þetta hefur verið heilmikið í umræðunni og kom í ljós í könnun gerð var meðal 15 ára unglinga að flestir ætluðu sér að verða læknar og arkitektar. Ég átti mér svo sannarlega drauma um hin ýmsu framtíðarstörf á mínum yngri árum og dreymdi um að verða rithöfundur eða fara í hjálparstarf og bjarga heiminum.

Ég ætlaði lengi vel að verða dýralæknir, enda mikil dýrakerling og eignaðist flest dýr sem hægt var að komast yfir. Við áttum Trýnu, skoskíslenska hundinn okkar sem ég ólst upp með og fór svo í fóstur í Vík til Steindórs. Þar átti ég líka Stjörnu, kindina mína og tók ég bílpróf fyrir lambapeninginn minn. Ég átti líka hest, skjaldbökur, mús, dúfu frá Gústa Guðsmanni, sem fór líka í Vík og var með hænunum. Hún hélt á endanum að hún væri hæna og tók að verpa og fundust stundum dauðar hænur í bakkanum fyrir neðan Vík og var talið að hænurnar hafi jafnvel haldið að þær gætu flogið eins og dúfan góða. Nú ég átti líka fiska, alls konar forláta skrautfiska og gúbbí. En þeir gáfu nú upp öndina þegar eldri systkini mín héldu partý heima og hélt einn gestanna að kominn væri tími til að "hella upp á" fiskana og drapst allt nema blessaðir gúbbífiskarnir, sem þola allt.

Næst ætlaði ég að verða ljósmóðir og hugsa ég stundum ennþá til þess hvað það hefði nú verið gefandi starf. Þessi draumur lifði alveg fram yfir stúdentspróf, en þá fór ég til Ameríku og vann á togara einn vetur. Í Ameríku frétti ég að það vantaði svo óskaplega meinatækna á Íslandi og sótti ég um í Tækniskólanum, án þess að velta því meira fyrir mér. Ég fór í Tækniskólann og kláraði námið, en ætlaði mér aldrei að vinna á sjúkrahúsi. Ég fór sem fyrr í fiskana og vann á Keldum við fisksjúkdómarannsóknir í 10 ár en fékk þá formalínofnæmi og í kjölfarið ofnæmi fyrir næstum öllu og var ég óskaplega fegin að hafa ekki orðið dýralæknir þar sem ég fékk ofnæmi fyrir dýrahárum.

Fljótlega kom í ljós pólitískur áhugi og fór ég samt ekki á fullt í starfið fyrr en ég flutti í Mosfellsbæinn og hef ég nú setið í bæjarstjórn í 9 á. Ég hef mikinn áhuga á öllu er tengist sveitarstjórnarmálunum s.s. umhverfismálum, skipulagsmálum, ferðamálum, forvarnamálum, fjölskyldumálum, fræðslumálum, öldrunarmálum og öllu hinu og er þetta allt jafn skemmtilegt og ég er rétt að hitna.

Hvað um það ég fór að vinna hjá Rauða krossinum eftir að ég varð að hætta í rannsóknunum og má því segja að það hafi verið fyrsta skrefið inn í hjálparstarfsdrauminn og hef ég verið að vinna við ýmis verkefni og undanfarin ár að uppbyggingu neyðarvarna og neyðaraðstoðar hér innanlands. Ég segi það líka að við Elli minn eigum eftir að fara saman í hjálparstarf til Afríku, hann í tæknifræðinni og ég í einhverju öðru hjáparstarfi, hvað sem verður efst á baugi þegar þar að kemur. Nú er ég líka byrjuð í meistaranámi í Háskólanum í umhverfis- og auðlindafræðum, sem vissulega er framtíðin og hver veit nema ég eigi einmitt eftir að leggja hönd á plóginn við það að bjarga heiminum.

Það er gaman að ræða þessi mál við krakkana sína og hafa draumarnir verið margir og breyst í tímanna rás en ég er sannfærð um að þessi litla 3ja ára, sem er algjörlega bremsulaus og hefur svo sannarlega hefur erft bíladelluna frá mömmu sinni verður ökumaður í Formúlu 1, þá verður það sko mamma sem verður í liðinu. Rúmast það annars ekki innan hjálparstarfs ? Grin


Kynferðislegt ofbeldi á börnum - sýnum ábyrgð

imgPubl62.1

Áðan heyrði ég viðtal við fulltrúa Blátt Áfram sem eru sjálfstæð félagasamtök sem helguð eru forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi. Verið var að ræða auglýsingaherferð, sem er að hefjast og er ætlað að benda á þá staðreynd að flestir sem beita börn kynferðislegu ofbeldi eru einhverjir nánir, sem börnin treysta vel í nærumhverfi þeirra.

Þegar ég var í fjölskyldunefnd þá man ég að sendar voru bækur "Ég er húsið mitt" sem var ætluð fyrir krakka og var hvatning til foreldra og forráðamanna um að ræða þessi mál opinskátt við börnin sín og það að börnin ráða yfir sínum eigin líkama og að enginn hafi heimild til að snerta þau kynferðislega. Þetta er ein leið til að tala við börnin og fræða þau um málið og sem er mikilvægt. En eins verða allir að taka höndum saman og taka ábyrgð ef eins og ég skrifaði um í bloggi um daginn um barnaverndarmál. Við verðum að taka ábyrgð og passa börnin okkar og láta barnaverndaryfirvöld vita ef við verðum vitni að eða grunar að um misnotkun sé að ræða.

1 af hverjum 5 stelpum og 1 af hverjum 10 strákum eru misnotuð kynferðislega fyrir 18 ára aldur!  Sem þýðir að ein af vinkonum dóttur þinnar og einn af vinum sonar þíns er verið að misnota kynferðislega. Þetta eru sláandi tölur og því fagna ég þessari auglýsingaherferð því það verður að opna umræðuna og vekja fólk til umhugsunar um málið. Hægt er að hringja í 112 og fá samband við barnaverndaryfirvöld á hverjum stað.

Ég tók þetta af heimasíðu Blátt áfram og ákvað að láta það fylgja með

Hvernig eflum við forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum?
Við teljum að með því að setja ábyrgðina á þessu viðkvæma máli í hendur fullorðina þ.e.  þeim sem umgangast börn, mömmur, pabbar, afar, ömmur, frændur, frænkur, bræður, systur..sem sagt við öll, getum við verndað þau sem minna mega sín og boðið þeim upp á bjartari framtíð!

Við þurfum jú að halda áfram að fræða börnin eins okkur hefur verið kennt, en það þarf að gera meira.  Veist þú hver merkin eru?  Hefur þú hugsað um hvað þú gerir ef þig grunar að verið sé að brjóta á barni?  Hvert þú átt að leita?

1 af hverjum 5 stelpum og 1 af hverjum 10 strákum eru misnotuð kynferðislega fyrir 18 ára aldur!  Sem þýðir að ein af vinkonum dóttur þinnar og einn af vinum sonar þíns er verið að misnota kynferðislega.  Veist þú hver það er??

Tökum á þessu máli með því að fræðast um staðreyndirnar.  Lærum hvernig við getum talað um þetta við börnin okkar til að fyrirbyggja að þetta gerist.  Fræðumst um hvernig á að bregðast við og hvert á að leita hjálpar.  Þín þekking á málinu getur hjálpað barni að leita sér hjálpar og það skiptir miklu að vita hvert á að leita. 

Með jákvæðu viðhorfi og jákvæðari umræðu um þetta mál gerum við þolendum kynferðislegs ofbeldis auðveldara að leita sér hjálpar.  Ef þú hefur lent í kynferðislegu  ofbeldi, rjúfðu þögnina!  Það er erfitt, en samt betra en að eyða lífinu með skömminni sem situr eftir og nagar þig að innan.  Ekki bara þín vegna heldur líka vegna allra hinna sem munu njóta góðs af því.  Þeirra sem ekki gátu staðið upp og mótmælt þessu ofbeldi ein, en með því að sjá alla hina sem eru að leita sér hjálpar, geta þau ákveðið að taka þetta stóra skref til bjartari framtíðar!!    

Þessi heimasíða er tileinkuð þeim sem hafa lent í kynferðislegri misnotkun en hafa ekki sagt frá því.  Haltu áfram að leita að einhverjum sem þú getur treyst til að segja frá....ÞÚ ert þess virði!

Þessi síða inniheldur fræðslu og upplýsingar sem varðar þetta mál. Við bætum við efni reglulega og  ef þú vilt vera á e-póst og fá sent nýtt efni þá skráir þú þig ... Ef þú vilt láta okkur vita af efni sem hefur reynst þér\öðrum vel sendu á okkur línu.  Við munum hafa samband fljótlega.  Netfangið okkar er: blattafram@blattafram.is 
 



Mogginn verður að klósettpappír

nws00121

Flokkun og endurvinnsla heimilissorps hefur verið að aukast á síðustu árum sem og er vitund almennings fyrir umhverfi sínu. Ekki er langt síðan opnir öskuhaugar voru um allt land og ekkert tiltökumál að hafa þá inni í bæjarfélögum, eins og var á Siglufirði þar sem við krakkarnir lékum okkur mikið á haugunum.

Auknar kröfur frá ESB um að dregið verði úr urðun lífræns úrgangs frá fyrirtækjum og heimilum munu leiða til breytinga á sorphirðu og meðhöndlun sorps á Íslandi á komandi árum. Í gangi er vinna við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar 43 sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs á suðvesturhorninu. Ljóst er að auka þarf endurvinnslu og draga úr urðun á lífrænum úrgangi, s.s. matarleifum, pappír, pappa, húsdýraskít, garðaúrgangi, timbri, slátur- og fiskúrgangs.

Mikil fræðsla hefur farið fram hjá SORPU sem er í eigu sveitarfélaganna, um verkefni félagsins og gildi umhverfissjónarmiða við meðhöndlun sorps. Eins hafa sveitarfélög hvert og eitt hvatt og frætt íbúa sína sérstaklega til að flokka, endurvinna heimilisúrgang og nýta grenndargámana betur. Íbúar hafa verið hvattir til vistvænni lífstíls og hefur mikil fræðsla farið fram í skólum og leikskólum landsins. Margir skólar eru nú þegar á grænni grein eins og það er kallað og hafa þeir skólar unnið að því að fá Grænfánann sem er alþjóðlegt verkefni á vegum Landverndar sem miðar að því að auka umhverfismennt í skólum og styrkja umhverfisstefnu þeirra.

Þrátt fyrir að við flokkum ekki mikið í samanburði við það sem fólk þekkir frá nágrannalöndum er magnið samt töluvert. Á sl. ári skiluðu landsmenn t.d. um 8.400 tonnum af dagblaða-, tímarita- og auglýsingapappír í grenndargáma en sá pappír var sendur til Svíþjóðar í endurvinnslu. Samkvæmt upplýsingum frá SCA duga 8.400 tonn af pappír til þess að framleiða um 36 milljónir af klósettrúllum og eru Íslendingar því sennilega sjálfbærir um klósettpappír.

Erum við Íslendingar líka mikil pizzu þjóð og falla til um 4 milljónir af pizzukössum árlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu má gera ráð fyrir að á ársgrundvelli falli til hátt í 20.000 tonn af bylgjupappaumbúðum. Með því að flokka þessar umbúðir frá öðrum úrgangi er hægt að draga verulega úr því magni úrgangs sem fer til urðunar og jafnframt nýta fyrirtaks hráefni til endurvinnslu. Bylgjupappa er hægt að endurvinna aftur og aftur og hann getur átt allt að sjö líf, eins og segir á heimasíðu Sorpu. 

Ísland í dag er þannig að við íbúar fáum óumbeðin "frí"blöð um lúguna á hverjum morgni og getur hver sem er í sjálfu sér farið út í dagblaðaútgáfu án þess að þurfa að taka þátt í urðun sem er umhugsunarefni og þurfa sveitarfélögin að standa undir urðunarkostnaði, en ekki þeir sem til kostnaðarins stofna. Dagblöðin eru nú talin vera um 27% af heimilissorpinu og hefur það magn aukist verulega á liðnum árum.

Flest sveitarfélög hafa komið fyrir svokölluðum grenndargámum, bláum fyrir pappír og grænum fyrir fernur og umbúðir. Ávinningur íbúa er margvíslegur, m.a. ódýrara en urðun, betri nýting á hráefni sem annars færi til spillis, betri nýting á landssvæði urðunarstaðar og minni koltvíoxíðútblástur.

Í Mosfellsbæ eru grenndargámar á eftirtöldu stöðum:

  • á Nóatúnsplaninu, Þverholti
  • hjá Olís, Langatanga
  • á gatnamótum Reykjavegar og Dælustöðvarvegar
  • í Sorpu endurvinnslustöð ofan við hesthúsahverfi

Fyrir stuttu síðan sá ég umfjöllum um forystumenn stjórnmálaflokkanna þar sem var kannað var hvort þeir sýndu vistvernd í verki, sem allir höfðu gert en þó misjafnlega mikið. Ég vil meina að við verðum að byrja á okkur sjálfum og byrji heima. Það er því mikilvægt að við foreldrar og forráðamenn sýnum gott fordæmi. Við hjónin fórum á námskeið hjá Landvernd 2001 ef ég man rétt og lærðum mikið og fengum líka staðfestingu á því sem við höfðum verið að gera vel. Þetta var mjög gagnlegt fyrir okkur og ætti hver einasta fjölskylda að fara á slíkt námskeið. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Ég sá á heimasíðu Landverndar að um 700 heimili hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu á Íslandi og hefur Mosfellsbær gert samning við Landvernd vegna þessa. Verkefnið hefur gengið vel bæði hér heima og erlendis og veit ég að það hefur skilað miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfisvitund og hegðun allrar fjölskyldunnar í Rituhöfðanum.


mbl.is Kröfur um minni urðun munu umbylta sorphirðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upphaf kosningabaráttunnar

IMG_3282

 

 

 

 

 

Ég hlakka mikið til landsfundarins sem hefst á morgun, 37. landsfundur Sjálfstæðisflokksins og ber hann yfirskriftina   Nýjir tímar - á traustum grunni. Þetta eru skemmtilegar samkomur og hittir maður góða félaga og vini frá öllum landshornum. Ég var búin að taka að mér formennsku í einum starfshópnum, en hætti svo við þegar ég fann að ég var ekki búin að ná mér nægjanlega vel. En vonandi tekst mér nú samt að taka þátt í vinnunni, því á landsfundinum er tækifærið til að koma sínum skoðunum á framfæri og móta stefnu flokksins.

Það er ljóst að landsfundardrög Sjálfstæðisflokksins hafa litað frétta- og bloggheima frá því þau litu dagsins ljós. Það var virkilega áhugvert að sjá fundinn með forystumönnum flokkanna í Kastljósi í vikunni, en þar voru foringjarnir spurðir út í stefnu sinna flokka út frá landsdrögunum Sjálfstæðisflokksins. Það vita samt allir sem setið hafa landsfundina að drögin taka oft töluverðum breytingum á fundinum sjálfum. Það verður svo sannarlega gaman að takast á um málin, enda oft eru skiptar skoðanir og annað óeðlilegt í þessum fjölmenna flokki. En að lokum munum við samþykkja stefnuna og þá hefst kosningabaráttan fyrir alvöru.


Kosningaskjálfti upp á 4 á Richter

425598AÉg hef heyrt á erlendum vinum mínum að við Íslendingar séum afskaplega upptekin af veðrinu og veðurfréttum. En í okkar hugum skiptir miklu að vita hvernig veðrið er í dag og útlit næstu daga, en ætla ég ekki að fara út í það nánar hvort veðurspár ganga eftir. Sjómenn eru líka miklir veðurfræðingar, enda lífsafkoman undir því komin, hvort hægt er að fara á sjó.

 

Við kippum okkur samt ekki mikið upp við fréttir sem þessa, um öfluga jarðsskjálftahrinu sem hófst í gær 35 km úti fyrir ströndum Reykjaneshryggs og stendur enn yfir. Jú skjálftarnir hafa mælst allt að 4 stigum á Richter, en að sögn Matthew James Roberts, eftirlitsmanns á Veðurstofunni er ástandið þó ekki komið á það stig að sjófarendur á svæðinu séu varaðir við. Ef af eldgosi verður, er ekki talið að hætta skapist enda yrði um neðansjávareldgos að ræða.

Við lítum á þetta sem eðlilegt á eyju elds og ísa og tökum því sem að höndum ber og bregðumst við ef með þarf. Ég man enn eftir undrunarsvipnum á meðlimum evrópsks stýrihóps sem ég sat í varðandi almannavarnir, þegar ég fór yfir þá allt það sem við þurfum að vera búin undir hér á landi þegar kemur til náttúruhamfara. Já einfaldlega allt og ég tók eitt dæmi í mínum fyrirlesti, um frekar rólega viku í upphafi árs og sýndi mynd, en fannst þeim skjálftarnir vera ótrúlega margir og náðu því ekki hvernig þetta við gætum lifað hér við þessar erfiðu aðstæður. En við gerum það m.a. einmitt með því að fylgjast með veðrinu og jarðskjálftafréttum, enda eru hér sett heimsmet í veðurfarsbreytingum á hverjum degi og jú síðan eigum við líka heimsins bestu vísindamenn sem alltaf eru á vaktinni.

En það skyldi þó aldrei vera að ástæða þessa skjálftahrinu væri almennur kosningaskjálfti í Suðurkjördæminu?


Heimilisofbeldi - Karlar til ábyrgðar

vandiÉg sá í Mogganum í morgun viðtal við sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andrés Ragnarsson sem annast meðferð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum. Ég hef lengi fylgst með þessu verkefni sem kallast Karlar til ábyrgðar og er ánægjulegt að það gengur vel eftir að það var endurvakið í fyrra. Verkefnið var fyrst í gangi sem tilraun frá 1998 til 2001 og gaf góða raun og sóttu þá um 80 karlar meðferð á tímabilinu, en nú er verkefnið komið á fjárlög.

Einar og Andrés segja í viðtalinu verkefnið vera hvatningu til þeirra sem þurfa að læra nýjar samskiptaaðferðir og aukna sjálfsstjórn. Um er að ræða eina sérhæfða meðferðartilboðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi og vilja leita sér aðstoðar og hefur slík meðferð gefist mjög vel bæði hérlendis og erlendis.

Í viðtalinu segja þeir frá því að mikilvægt sé fyrir fólk að átta sig á því að heimilisofbeldi sé ekki stétttengt og þegar karl beiti konu sína ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt eða kynferðislegt, sé ekki um hjónavanda að ræða heldur einstaklingsvanda eingöngu. Ofbeldið snúist um kunnáttuleysi ofbeldismanna til að bregðast við ákveðnum aðstæðum og samskiptum á annann hátt en með ofbeldi.

Í meðferðinni er lögð áhersla á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu og sé fyrsta skrefið að gera ofbelið sýnilegt. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára.

Hver eru merkin?

  • Er ég farin að lifa í ótta?
  • Er ég farin að óttast vissar kringumstæður?
  • Þarf ég að umgangast hann með sérstökum hætti svo ekki sjóði upp úr?
  • Er hann sjúklega afbrýðisamur og ásakar mig stöðugt um framhjáhald, þó enginn fótur sé fyrir því?
  • Er hann farinn að beina þeim skilaboðum til mín að hann hafi síðasta orðið um mitt líf?

Ekki er hægt að fjalla um þetta efni á moggablogginu án þess að nefna hvert fólk getur leitað. Ef lesendur þekkja einhvern sem beitt hefur eða hefur verið beittur ofbeldi á heimili, væri hægt að gera viðkomandi greiða með því að benda á þessa aðstoð sem stendur til boða.

Hægt er að hringja í Hjálparsíma 1717 sem veitir upplýsingar um viðtöl og meðferð, en einnig er hægt að hafa beint samband við sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andrés Ragnarsson og panta tíma.

 


Sjóarasaga af beinhákarli

images

 

Ég fann þessa skemmtilegu sögu í grúski mínu á Siglufirði um helgina og ákvað að leyfa ykkur að njóta.  Þessi saga er sönn og gerðist fyrir rúmum 25 árum síðan þegar pabbi minn var skipstjóri á Sigluvíkinni á Siglufirði og stóri bróðir minn Jóhann var með honum til sjós. Ég veit því miður ekki hver skrifaði hana, en upphafsstafir voru SÓR og hér kemur sagan.

Tíminn er í kringu um 1980, staðsetning Sigluvík SI 2. Skipstjóri Sigurjón Jóhannsson, fyrsti stýrimaður Helgi Jóhannsson. Skipið var statt á veiðum í Djúpinu vestur af Kögurgrunni.  Kallinn í brúnni ákveður að hífa eftir stuttan togtíma vegna þess að ljós á aflanema kviknar mjög fljótlega eftir að trollið er látið fara.

"Hífop" argar kallinn í talkerfið! Kokkurinn hrekkur við af gömlum vana "helvítis hávaði alltaf í kallinum" . Sumir hásetarnir bölva í hljóði: "hvað er kallinn að toga svona stutt, ræman (vídeóspólan) er bara hálfnuð". "Stutt togað, kallinn hlýtur að vera að fáann."

Allir fara upp að fylgjast með. "þetta er þokkalegasta hal", segir Siggi Gísla og strýkur sveittan skallann. "Hvur djöfullinn er þetta, er annar belgurinn fullur af grjóti?" gargar kallinn út um brúargluggann. Ekki reyndist það vera. Heldur þessi líka all svaðalegi beinhákarl sem fyllti út í annan belginn. Inn fer trollið og hefst nú vesenið við að ná "hákarlshelvítinu" út úr  belgnum. Helgi Jó. Er nú kominn á klossunum út á dekk, einsog vanalega ef eitthvert vesen er. "Það verður að troða stroffuandskota upp í kvikindið. Hann er hvort sem er steindauður stynur Þorri Birgis, móður eftir hlaupin með gilsana. Helgi grípur stroffuna og treður uppí kjaftinn og út um tálknin. Varla er liðið eitt andatak þegar skollarnir á kvikindinu smella saman eins og fallöxi. Það er ekki laust við að svitapollur myndaðist i klossunum hjá Helga. "Þormóður, á að drepa mann, mannandskoti? Sagðir þú ekki að helvítis skepnan væri dauð?"

Á endanum þarf að rista upp belginn til að losa um hákarlinn. "það er ekki hægt að rífa helvítið út á pokagilsinum", argar Siggi Gísla orðinn enn sveittari á skallanum. Úr verður að lásað er úr stjórnborðshleranum og hákarlinn hífður úr á togvírunum. Eftir að hákarlinn er kominn í sjóinn gerir kvikindið sér lítið fyrir og syndir í burtu. Ekki var hann dauðari enn svo. Hákarlagreyið hefur örugglega meitt sig þessi elska segir kokkurinn og fer inn til að taka til kaffi handa spenntum mannskapnum. Helvítis kvikindið hefur örugglega verið yfir 10 tonn segir kallinn í brúnni og brosir gegnum filterslausan camelreykinn. Þeir sem á vakt eru gera við belginn, lása vírnum í, koma fiskinum niður og þegar kallinn argar "laggó" er trollið látið fara. Síðan er farið inn í kaffi og túrinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist, enda margt sem gerist til sjós.

SÓR


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband